Málstofa um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð
14. febrúar 2022
Vinnueftirlitið heldur málstofu um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð í beinu streymi fimmtudaginn 24. febrúar frá klukkan 9 – 10. Málstofan er haldin í framhaldi af 40 ára afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram 19. nóvember síðastliðinn.
Tveir sérfræðingar flytja erindi á málstofunni; Anna Kristín Hjartardóttir frá EFLU verkfræðistofu og Leó Sigurðsson frá ÖRUGG – verkfræðistofu. Auk þess munu J. Snæfríður Einarsdóttir, sérfræðingur frá HSE Consulting, Elías Bjarnason, verkefnastjóri hjá frumathugunum mannvirkja á skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar, Friðrik Á. Ólafsson, frá mannvirkjasviði SI og Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, taka þátt í pallborðsumræðum eftir erindin.
Fundarstjóri verður Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Á málstofunni verður sjónum beint að öryggi og vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð. Fjallað verður um hvaða kröfur eru gerðar til verkkaupa og hönnuða vegna öryggis- og vinnuverndarmála á hönnunarstigi mannvirkja og hvernig þeim er framfylgt.
Þá verður fjallað um hvaða áhættuþætti ætti að skoða við hönnun til að koma í veg fyrir að mistök verði gerð á hönnunarstigi. Sömuleiðis um ávinninginn af því að hafa vinnuverndarsjónarmið í huga við hönnun og kostnaðinn við að lagfæra og endurhanna mannvirki sem komin eru í notkun.
Hægt verður að fylgjast með í beinu streymi með því að ýta á hnappinn hér að neðan.