Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Ungt fólk í öruggu vinnuumhverfi

16. maí 2022

Sumarið er fram undan og mörg ungmenni að hefja sumarvinnu. Mikilvægt er að þau upplifi jákvætt og öruggt vinnuumhverfi þegar þau stíga sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn og fái góða leiðsögn.

Vinnueftirlitið - ungt fólk í öruggu vinnuumhverfi

Aukin áhersla á félagslegt vinnuumhverfi

Lengi vel beindist vinnuverndarstarf mest megnis að því að koma í veg fyrir slys og líkamlegt heilsutjón en undanfarið hefur félagslegt vinnuumhverfi fengið aukna og verðskuldaða athygli. Þegar talað er um félagslegt vinnuumhverfi er verið að vísa í þá samskiptalegu og skipulagslegu þætti í vinnuumhverfinu sem hægt er að hafa áhrif á og styðja við góða vinnustaðamenningu.

Gott félagslegt vinnuumhverfi þarf að vera hluti af því vinnuverndarstarfi sem ungt fólk lærir að þekkja þegar það tekur sín fyrstu skref á vinnumarkaði, enda er framtíð vinnuverndar í þeirra höndum.

Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel er undirstaða góðra verka. Því  hvetur Vinnueftirlitið vinnustaði til að taka vel á móti ungu starfsfólki og stuðla að góðum samskiptum á milli allra sem þar starfa. Eins að fara vel yfir öryggismálin og aðra þætti sem hafa áhrif í vinnuumhverfinu þannig að nýtt starfsfólk upplifi sig öruggt á sem flestum sviðum strax frá upphafi.

Góð verkstjórn

Stjórnendur, svo sem flokkstjórar í vinnuskólum sveitarfélaganna, gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að fræðslu og leiðsögn ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Mikilvægt er að sýna ungmennum gagnkvæma virðingu og vera hvetjandi fyrirmynd, sem stuðlar að skemmtilegu en jafnframt öruggu vinnuumhverfi. Með því að meta færni starfsfólks, tryggja örugg og rétt vinnubrögð og temja sér jákvæð og uppbyggileg samskipti eykur stjórnandi líkur á að ungmennum líði vel í vinnunni. Gott er að staldra við áður en vinnudagur hefst og spyrja sjálfan sig; hvernig fyrirmynd vil ég vera?

Ungmennum hættara við slysum

Ungmenni á Íslandi hafa í gegnum tíðina byrjað snemma að vinna og taka að sér ýmis konar störf. Má þar nefna í matvöruverslunum, á veitingastöðum og við garðyrkju. Rannsóknir sýna að ungu fólki er hættara en eldra við að lenda í vinnuslysum og óhöppum. Það má meðal annars rekja til skorts á þjálfun og starfsreynslu auk þess sem ungmenni hafa eðlilega minni þekkingu á þáttum er varða öryggi og heilbrigði við vinnu.

Undanfarin ár hafa um það bil 50 -60 vinnuslys verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins á ári í aldurshópnum 18 ára og yngri. Þessu viljum við breyta og skiptir máli að atvinnurekendur og þeir sem reyndari eru á vinnustöðum gæti ávallt að öryggi og góðum aðbúnaði og temji sér að vera góðar fyrirmyndir. Þar geta flokksstjórar, svo dæmi séu nefnd, verið í lykilhlutverki.

Metum hættuna til að koma í veg fyrir slys

Við þurfum að gera betur til að koma í veg fyrir slys. Atvinnurekendur verða að meta þá áhættuþætti sem eru á vinnustaðnum með tilliti til aldurs og þroska ungmenna. Áhættumatið þarf að ná til véla og tækja, umhverfisþátta, efna og efnavöru, álagsþátta sem hafa áhrif á hreyfi- og stoðkerfið og félagslega vinnuumhverfisins. Í kjölfarið þarf að  grípa til viðeigandi ráðstafana sem byggja á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta verður að gera áður en ungmennin hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum eða verkefnum þeirra.Atvinnurekandi ber ábyrgð á að vinnuskilyrði ungmenna séu örugg og að þau fái viðeigandi persónuhlífar, fræðslu og þjálfun. Þannig má forðast slys og tryggja að allir komi heilir heim. Með því að leggja góðan grunn aukast líkurnar á að þannig verði það starfsævina á enda.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439