Stafræn frumnámskeið
27. júní 2023
Vinnueftirlitið býður nú upp á stafræn frumnámskeið fyrir þá sem hyggjast stjórna minni vinnuvélum.
Stofnunin hefur síðustu misseri unnið að því að færa námskeið sem hafa verið haldin í fjarfundi á Teams eða í staðkennslu yfir í nýtt netnám.
Markmiðið er að gera námsefnið aðgengilegra fyrir nemendur sem geta tileinkað sér það án tillits til staðsetningar á þeim hraða sem hverjum og einum hentar.
Námið er gagnvirkt og skiptist í fjóra hluta; vinnuvernd, eðlisfræði, vélfræði véla og vinnuvélar og notkun þeirra. Í náminu er notast við stutt myndbönd, skýringarmyndir, flettispjöld, spurningar og stutt verkefni þar sem nemendur þurfa að klára einn kafla áður en þeir byrja á þeim næsta. Nemendur hafa 30 daga til að klára námið.
Með þessum hætti vonast Vinnueftirlitið til þess að koma til móts við nemendur sem kjósa að sinna náminu óháð staðsetningu á þeim hraða sem hverjum og einum hentar. Lokapróf verða haldin hjá Vinnueftirlitinu á völdum prófsstöðum víðs vegar um landið. Þau fara fram á fimmtudögum klukkan 13, meðal annars í samvinnu við fræðslumiðstöðvar.
Vakin er athygli á því að frumnámskeið á öðrum tungumálum en íslensku verða áfram kennd í gegnum Teams að sinni en stefnt er að því að þau verði komin á stafrænt form á næstu mánuðum.