Rafrænar umsóknir um verkleg próf
24. maí 2022
Vinnueftirlitið stafvæðir þjónustu sína enn frekar og býður nú upp á einfalda og fljótlega leið til þess að óska eftir verklegu prófi á vinnuvélar hér á vefnum, ásamt því að ganga frá greiðslu.
Allir sem sækjast eftir vinnuvélaréttindum á Íslandi þurfa að þreyta verkleg próf á vinnuvélar og er þessi viðbót því mikilvægur áfangi í að bæta þjónustu stofnunarinnar. Enn fremur nýta prófdómarar sér smáforrit í spjaldtölvu eða síma þegar þeir ganga frá prófgögnum að prófi loknu svo unnt sé að gefa út vinnuvélaskírteini.
Með því að rafvæða umsóknarferlið er horfið frá notkun þriggja eyðublaða á pappírsformi og því um að ræða afar jákvætt framfaraskref í átt að umhverfisvænni framtíð Vinnueftirlitsins þar sem þjónustan verður pappírslaus með öllu.
Leiðbeiningar
Til þess að skrá nýjan aðila í verklegt vinnuvélapróf er mikilvægt að hafa í huga hvort öll tilheyrandi gögn séu til reiðu og að búið sé að ákveða eftirfarandi þætti við framkvæmd prófsins.
Einstaklingsskráning er valin ef einstaklingur óskar eftir verklegu prófi sem hann sjálfur ætlar að standa straum af kostnaði við. Því ferli lýkur með að einstaklingi er vísað inn á greiðslusíðu þar sem hægt er að greiða með debet- eða kreditkorti.
Fyrirtækisskráning er valin ef ákveðið hefur verið að fyrirtæki standi straum af kostnaði við verklegt próf og útgáfu skírteinis.
Staðsetning prófs. Hvort sem um einstakling eða fyrirtæki er að ræða þarf að tilgreina hvar verklega prófið á að fara fram. Mikilvægt er að fram komi eins nákvæmar upplýsingar og hægt er.
Upplýsingar um próftaka eru settar inn og bætt við eins mörgum og þörf krefur. Í þeim tilvikum þar sem óskað er eftir verklegum prófum fyrir hóp starfsfólks er best að setja inn eina skráningu fyrir þann hóp sem á að taka prófið í sömu heimsókn prófdómara. Tilgreindir eru þeir réttindaflokkar sem sóst er eftir að fá útgefin vinnuvélaréttindi fyrir.
Læknisvottorð. Ef óskað er eftir verklegu prófi í réttindaflokkum á krana (A, B, C, D eða P) þarf að liggja fyrir læknisvottorð sem staðfestir sjón, heyrn og líkamlegt hreysti próftakans. Læknisvottorð er skilyrði þess að verklegt próf geti farið fram.
Leiðbeinendur með kennsluréttindi. Í skráningarferlinu er gefinn upp sá einstaklingur sem hefur viðurkennd kennsluréttindi hjá Vinnueftirlitinu í þeim réttindaflokki sem próftaki hyggst fá útgefin í skírteini sínu. Leiðbeinandi getur staðfest rafrænt í gegnum Mínar síður Vinnueftirlitsins að verkleg þjálfun hafi farið fram.
Þegar skráningarform með beiðni um verklegt próf hefur verið fyllt út er það sent rafrænt til Vinnueftirlitsins sem yfirfer gögnin og sér um að úthluta prófdómara. Prófdómari hefur svo samband eftir 1-2 daga til að ákveða tímasetningu prófsins.
Við framkvæmd verklega prófsins er þess gætt að próftaki standist kröfur um verklega færni.
Hér má finna nánari upplýsingar um vinnuvélaréttindi og svör við algengum spurningum.