Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Óskað eftir umsóknum um styrki í nýjan vinnuverndarsjóð – umsóknarfrestur til 12. desember

16. október 2023

Vinnuverndarsjóður er nýtt samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Markmið hans er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því.

Viinnuverndarsjodur

Áhugasöm eru hvött til að kynna sér nánar reglur um úthlutun styrkja úr Vinnuverndarsjóði en við mat á umsóknum verður einkum litið til verkefna og rannsókna er varða:

  • tengsl einstakra sjúkdóma og vinnutengdra einkenna við vinnuumhverfi

  • samfélagslegan og efnahagslegan ávinning af vinnuvernd

  • orsakir, tíðni og þróun vinnuslysa í ákveðnum starfsgreinum

  • jákvæða ímynd og viðhorf almennings til vinnuverndar

  • vitundarvakningu einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, svo sem starfsfólks sem skilur ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks er sinnir áhættusömum störfum.

  • þekkingu á mikilvægi góðrar vinnustaðamenningar

  • tengsl slæmra vinnuskilyrða og fjarveru starfsfólks

  • aukna vitund almennings um vinnutengda kulnun og hvernig megi fyrirbyggja hana

  • nýsköpun á sviði vinnuverndar

  • viðbrögð við áhrifum aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar á vinnuumhverfið

  • áhrif samþættingar fjarvinnu og vinnu á vinnustað á vinnuvernd

Við fyrstu úthlutun sjóðsins verður lögð sérstök áhersla á verkefni og rannsóknir er varða tengsl einstakra sjúkdóma og vinnutengdra einkenna við vinnuumhverfi.

Í umsókn skal eftirtalið koma fram:

  • Almennar upplýsingar um umsækjanda, nafn verkefnisstjóra og annarra þátttakenda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru

  • Upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn umsækjanda og upplýsingar um fyrri verkefni sem tengist vinnuvernd

  • Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðing

  • Tímaáætlun og lýsing á aðstöðu þátttakenda til að vinna verkefnið;

  • Hvernig staðið verði að stjórnun verkefnis

  • Upplýsingar um nýnæmi og gildi verkefnis og stöðu þekkingar á viðfangsefninu, þ. á m. hvers er vænst að verkefnið muni bæta við þá þekkingu

  • Verkáætlun, lýsing á aðferðafræði, áfangaskiptingu og helstu verkþáttum

  • Greinargóðar upplýsingar um áætlaðan kostnað við verkefnið

  • Hvernig staðið verði að bókhaldsumsjón með verkefninu

  • Upplýsingar um hvort sótt hafi verið um aðra styrki fyrir sömu umsókn

Gæði rannsóknar- eða verkefnaáætlunar ásamt vísindalegu gildi, nýmæli og mikilvægi er lagt til grundvallar við mat á styrkhæfi umsókna auk menntunar og hæfis umsækjenda.Stjórn sjóðsins annast mat á umsóknum um styrki en hana skipa fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirlitinu.

Vinnuverndarsjóður hefur 10 milljónir króna til úthlutunar á árinu 2023.Hámarksstyrkur til einstaks verkefnis er 4 milljónir króna.

Umsóknir sendist á vinnueftirlit@ver.is. Óska má eftir nánari upplýsingum í gegnum sama netfang.