Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Málstofa um rakaskemmdir og innivist

6. janúar 2022

Vinnueftirlitið heldur málstofu um rakaskemmdir og innivist á vinnustöðum í beinu streymi föstudaginn 14. janúar frá klukkan 9 – 10. Málstofan er haldin í framhaldi af 40 ára afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram 19. nóvember síðastliðinn.

Vinnueftirlitið-rakaskemmdir og innivist

Tveir helstu sérfræðingar landsins á sínum sviðum flytja erindi á málstofunni; María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir. Auk þess mun Sigurður Einarsson, sérfræðingur frá Vinnueftirlitinu, flytja stutt erindi um hlutverk stofnunarinnar vegna mála er varða rakaskemmdir og slæmt inniloft á vinnustöðum. Fundarstjóri verður Elsa Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.

María er lungna- og ofnæmislæknir. Hún hefur verið yfirlæknir ofnæmisdeildar Landspítala síðast liðin 10 ár. Hún er menntuð í Svíþjóð og lauk doktorsprófi þaðan 2006 en í náminu rannsakaði hún meðal annars tengsl á milli raka í húsnæði og öndunarfæraeinkenna og astma.

Erindi Maríu mun fjalla um faraldsfræði rakaskemmda og einkenna tengd þeim. Hún fer einnig yfir nokkrar rannsóknir og samantektir á þessu sviði, lýsir einkennum, greiningaraðferðum, meðferðum vegna útsetningar og leiðum til að verjast útsetningu fyrir raka og myglu innandyra.

Sylgja er líffræðingur að mennt sem stofnaði frumkvöðlafyrirtækið Hús og heilsu árið 2006. Hún er sérfræðingur í innivist á byggingarsviði EFLU verkfræðistofu þar sem helstu verkefnin snúa að  verkefnastjórn, byggingareðlisfræði, innivistfræði, myglugreiningum, viðhaldsaðgerðum og úttektum, til dæmis á rakaskemmdum byggingum. Þá hefur hún haldið fjölda erinda er varðar byggingar og innivist, sinnt kennslu, gæðastjórnun, áhættumati og fleiru.

Sylgja mun fjalla um innivist, loftgæði og rakaskemmdir. Hún mun ræða um mikilvægi loftgæða og loftskipta fyrir heilsu, sýna hvað leynist í rakaskemmdu húsnæði og bera saman við „þurrt“ húsnæði. Einnig kemur hún inn á algengi rakaskemmda og hvaða viðbragðsferla þarf að virkja þegar grunur vaknar um rakaskemmdir með sérstaka áherslu á hlutverk stjórnenda. Þá mun hún lýsa því hvernig úttektir á byggingum fara fram og ræða leiðir til að fyrirbyggja loftgæðavanda og tryggja góða innivist.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439