Íslenskur vinnumarkaður kynjaskiptur
13. febrúar 2023
Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að fást við krefjandi einstaklinga í starfi, að því er fram kemur í rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið fólu stofnuninninni að gera.
Niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði voru birtar á vef Stjórnarráðsins fyrir helgi, en rannsóknin var framkvæmd í nóvember 2021 og fram í maí 2022.
Þær sýna meðal annars að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og að konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að fást við krefjandi einstaklinga í starfi, erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur. Upplifunin var algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun en næst á eftir fylgdi starfsfólk í kennslu og uppeldisfræði. Þar á eftir komu sérfræðingar í heilbrigðisvísindum.
Rannsóknin gefur jafnframt sterkar vísbendingar um að almennt sé hægt að draga úr brotthvarfi af vinnumarkaði með því að bæta aðstæður og samskipti á vinnustöðum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur falið Vinnueftirlitinu að vinna áfram með niðurstöðurnar og hefur undirritað samning um þriggja ára samstarfsverkefni þessu tengt.
Verkefnið gengur út á að greina með hagaðilum áhættuþætti í vinnuumhverfi þeirra starfsstétta sem verst komu út í niðurstöðum rannsóknarinnar, þar á meðal áhrif vinnustaðamenningar, skipulags og samskipta.