Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Hagnýtur leiðarvísir að vellíðan í vinnu

8. september 2021

Stoðkerfisvandi og vandamál tengd streitu eru algengasta ástæðan fyrir veikindafjarvistum í Evrópu. Evrópska vinnuverndarstofnunin hefur gefið út leiðarvísi sem ætlað er að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að hanna vinnuumhverfi þar sem starfsfólk er heilsuhraust og skilar góðu dagsverki.

Vinnueftirlitið - Heilsueflandi vinnustaður

Kannanir á líðan starfsfólks í Evrópu sýna að stoðkerfisvandi og vandamál tengd streitu eru algengasta ástæðan fyrir veikindafjarvistum í Evrópu. Þær sýna einnig að veikindaleyfi vegna stoðkerfisvanda eða streitu eru oftast lengri en veikindaleyfi af öðrum orsökum.

Jafnvel þó við lítum fram hjá þeim fyrirsjáanlegu þjáningum sem einstaklingar verða fyrir, þá geta þessi viðfangsefni valdið verulegri röskun og kostnaði fyrir fyrirtæki og samfélagið allt.

Niðurstöður rannsókna sýna að þessi viðfangsefni geta tengst. Félagsleg áhætta er talin vera eitt þeirra atriða sem getur valdið stoðkerfisvanda. Á hinn bóginn getur stoðkerfisvandi líka stuðlað að streitu og leitt til of mikils andlegs álags. Þar sem þessi atriði eru tengd, þá geta fyrirbyggjandi aðgerðir til að takast á við áhættu á einu sviði stuðlað að forvörnum á öðrum sviðum.

Fyrirtækjum getur þótt mjög krefjandi að ná tökum á þessum atriðum í skipulagi öryggis og heilsu á vinnustaðnum.

Heilbrigt starfsfólk, stöndug fyrirtæki

Evrópska vinnuverndarstofnunin hefur gefið út leiðarvísi sem leitast við að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að hanna vinnuumhverfi þar sem starfsfólk er heilsuhraust, skilar góðu dagsverki og eykur hag fyrirtækisins.

Í leiðarvísinum er kynnt hagnýt nálgun við að koma í veg fyrir og stjórna vinnutengdum félagslegum áhættum og stoðkerfissjúkdómum. Til þess hefur verið hannað fimm skrefa ferli.

Þó að leiðarvísirinn sé aðallega ætlaður fyrir atvinnurekendur og stjórnendur er hann líka gagnlegur fyrir starfsfólk, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði, ráðgjafa og aðra sérfræðinga í vinnuvernd.

Að skapa gott vinnuumhverfi þarf ekki að vera kostnaðarsamt. Því fyrr sem gripið er til aðgerða því fyrr kemur ávinningurinn í ljós. Breytingar á framkvæmd starfa sem bæta heilsu og auka vellíðan starfsfólks bæta einnig tengingu þeirra við vinnustaðinn og frammistöðu þeirra.

Í leiðarvísinum eru einfaldar útskýringar og er boðið upp á úrval verkefna og æfinga sem hægt er að nota til að gera þýðingarmiklar langtíma úrbætur í þágu starfsfólks og fyrirtækja.