Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Aukin áhersla á forvarnir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

1. desember 2021

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi stendur nú sem hæst. Vinnueftirlitið leggur sífellt meiri áherslu á félagslegt vinnuumhverfi og forvarnir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og starfar meðal annars á samráðsvettvangi þar sem unnið er að því að uppræta mansal og félagsleg undirboð. Þá gekk stofnunin nýverið frá ráðningu verkefnastjóra sem ætlað er að efla fræðslu um félagslegt vinnuumhverfi.

Vinnueftirlitið - ungt fólk í öruggu vinnuumhverfi

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi stendur nú sem hæst en það hefst á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum 25. nóvember ár hvert og lýkur á alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Vinnueftirlitið leggur sífellt meiri áherslu á félagslegt vinnuumhverfi og forvarnir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og starfar meðal annars á samráðsvettvangi þar sem unnið er að því að uppræta mansal og félagsleg undirboð ásamt því að taka þátt í samstarfsverkefni þar sem unnið er að vitundarvakningu um heimilisofbeldi svo dæmi séu nefnd.

Þá gekk stofnunin nýverið frá ráðningu verkefnastjóra sem ætlað er að efla fræðslu um félagslegt vinnuumhverfi og leiða þróun nýrrar vefsíðu með áherslu á forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Verkefnið er liður í því að fylgja eftir tillögum aðgerðarhóps félags- og barnamálaráðherra í kjölfar #MeToo-hreyfingarinnar sem hófst árið 2017, en Vinnueftirlitið mun óska eftir tilnefningum fulltrúa frá Embætti landlæknis, Jafnréttisstofu, samtökum launafólks og samtökum atvinnurekenda til að eiga sæti í ritstjórn síðunnar ásamt fulltrúa Vinnueftirlitsins.

Atvinnurekendum ber að tryggja góðan aðbúnað á vinnustað og gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði þar sem meðal annars er gert sálfélagslegt áhættumat. Á vinnustöðum þar sem slík áætlun liggur fyrir og áhersla er á að efla vinnustaðamenningu sem styður við gott félagslegt vinnuumhverfi eru minni líkur á að einelti, áreitni og ofbeldi fái þrifist.

Vinnueftirlitið hvetur atvinnurekendur til að kynna sér þær upplýsingar og fróðleik sem nú þegar er að finna um félagslegt vinnuumhverfi hér á vefsíðunni og leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi. Innan tíðar mun svo fyrrnefnd vefsíða líta dagsins ljós en markmið hennar er ekki hvað síst að styðja atvinnurekendur í að bjóða upp á gott félagslegt vinnuumhverfi þar sem kynbundið ofbeldi fær ekki þrifist.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439