Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Áhersla á bætt samskipti, skýr hlutverk og valdeflandi stjórnun hefur jákvæð áhrif á vinnustaðamenningu í skólum

20. janúar 2026

Vinnueftirlitið gaf í dag út skýrslu um samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands um vinnustaðamenningu í skólum 2023 - 2025, en félags- og húsnæðismálaráðuneytið styrkti verkefnið. Aðferðirnar sem stuðst var við í verkefninu hafa gefið góða raun og haft jákvæð áhrif á vinnustaðamenningu og líðan starfsfólks í þátttökuskólum.

Stofnað var til samstarfsins í kjölfar könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Vinnueftirlitsins árið 2022. Könnunin snéri að stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs úr starfi og gáfu niðurstöður hennar tilefni til þess að gefa vinnuumhverfi og vinnustaðamenningu í leik- og grunnskólum meiri gaum með hliðsjón af vellíðan starfsfólks.

Valdir voru fimm skólar úr hópi umsækjenda til að taka þátt í verkefninu. Það fólst í því að styrkja og skerpa sameiginlegan ramma í hverjum skóla til þess að valdefla starfsfólk og styðja við heilbrigða vinnustaðamenningu og vellíðan með samspili festu, stuðnings og sveigjanleika.

Aðferðir sem virka

Niðurstöðurnar gefa til kynna að markviss vinna við að skerpa hlutverk og ábyrgð og við að efla góð samskipti og valdeflandi forystu hefur skilað jákvæðum breytingum á vinnustaðamenningu þátttökuskólanna og fram koma merki um betri líðan starfsfólks. Dregið hefur úr upplifun á bæði á tilfinningalegu og líkamlegu álagi og fram koma vísbendingar um jákvæðari samskipti við nemendur, foreldra og samstarfsfólk.

Niðurstöðurnar endurspegla stöðu þekkingar og niðurstöður fyrri rannsókna um þætti sem innleiða og styrkja heilbrigða vinnustaðamenningu og vellíðan starfsfólks í skólum.

„Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með þátttökuskólunum og að fylgjast með hvernig starfsfólk og stjórnendur virkjuðu eigin krafta og hugvit og um leið fræðilega þekkingu til að styrkja heilbrigða vinnustaðamenningu í skólunum. Mat á framvindu verkefnisins gefur sterkar vísbendingar um að fræðin hafi sannað gildi sitt og reynst gagnleg til að efla vellíðan og virkni í skólastarfinu,“ segir Sigrún Gunnarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands sem stýrði verkefninu.

”Það er ánægjulegt að sjá hvernig þekktar aðferðir við að styrkja heilbrigða vinnustaðamenningu hafa jákvæð áhrif. Það sýnir sig alltaf hvað samskipti á vinnustöðum hafa mikið að segja ásamt öflugri forystu. Það skiptir líka máli að öll á vinnustaðnum taki virkan þátt og axli ábyrgð á hlutverkum sínum. Þetta eru allt atriði sem huga þarf þegar vinnustaðir vilja stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólksins,” segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Í skýrslunni er fjallað um samstarfsverkefnið í heild, hugmyndafræðilegan bakgrunn þess, þátttökuskólana fimm, framkvæmd verkefnisins og mat á árangri. Matið byggir á upplýsingum um framvindu verkefnisins frá hverjum þátttökuskóla, niðurstöðum kannana meðal starfsfólks í þátttökuskólunum vorið 2024 og vorið 2025 og niðurstöðum viðtala vorið 2025 við starfsfólk og stjórnendur skólanna.