Sýslumannafélag Íslands
Félagar í Sýslumannafélagi Íslands eru allir skipaðir sýslumenn, staðgenglar þeirra auk þeirra sem samþykkt hefur verið að veita aðild og heiðursfélaga.
Stjórn Sýslumannafélags Íslands
Á aðalfundi Sýslumannafélags Íslands 22. september 2023 var kosin stjórn fyrir næsta starfsár sem hér segir:
Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra - formaður
Meðstjórnendur:
Sæunn Magnúsdóttir - staðgengill sýslumannsins í Vestmannaeyjum
Einar Jónsson - staðgengill sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu
Aðsetur: Útgarði 1, 640 Húsavík.
Kennitala: 541207-1550
Netfang: syslumannafelagid@syslumenn.is
Banki: Landsbanki Íslands, bankanúmer: 0156-26-1262
Lög félagsins
1. grein
Félagið heitir Sýslumannafélag Íslands og hefur kennitölu 541207-1550. Heimili þess og varnarþing er á skrifstofu formanns hverju sinni.
2. grein
Félagar geta orðið allir skipaðir og settir sýslumenn, staðgenglar þeirra og þeir aðrir sem sækja um aðild og stjórn og félagsfundur samþykkja sem félagsmenn. Þá hafa þeir sem látið hafa af embætti rétt til að vera í félaginu með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.
3. grein
Tilgangur félagsins er:
· Að efla samhug og greiða fyrir samvinnu félagsmanna.
· Að vera ráðgefandi gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um nýmæli í löggjöf, sem vænta má að snerti verksvið félagsmanna eða þegar óskað er eftir áliti félagsins.
· Að stuðla að samræmi í lagaframkvæmd og allri embættisfærslu félagsmanna.
· Að annast fyrirsvar fyrir félagsmenn í kaup- og kjaramálum.
· Að vera á verði um að vegur og kjör embætta þeirra, er félagsmenn skipa, sé í samræmi við mikilvægi þeirra og þá ábyrgð, sem þeim fylgir, og vera í því sambandi einstökum félagsmönnum til fulltingis.
4. grein
Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður sem kosinn er sérstaklega og tveir meðstjórnendur. Kjósa skal einn varamann í stjórn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórn skiptir með sér verkum.
Stjórn félagsins semur dagskrá og boðar til aðalfundar félagsins, er fari fram í september eða október ár hvert. Meirihluti stjórnar getur boðað til aukafunda, þegar hann telur þess þörf. Á milli funda fer stjórnin með öll sameiginleg málefni félagsins, svo sem fræðslu- menningar og hagsmunamál, framfylgir fundarsamþykktum og er í fyrirsvari fyrir félagið í heild og einstaka félagsmenn út á við.
5. grein
Til aðalfundar félagsins skal boða með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi ber stjórninni að flytja ýtarlega skýrslu um einstök störf sín og leggja fram endurskoðaða félagsreikninga til samþykktar.
Á aðalfundi fer fram kosning formanns, tveggja meðstjórnenda og eins varamanns auk tveggja skoðunarmanna. Formaður skal kjörinn úr hópi skipaðra sýslumanna. Einnig fjallar aðalfundurinn um önnur mál, sem um er getið í fundarboði eða upp kunna að verða borin af fundarmönnum. Kosning formanns og meðstjórnenda skal vera skrifleg ef einhver fundarmanna óskar þess.
6. grein
Afl atkvæða ræður úrslitum á félagsfundum og stjórnarfundum. Lögum félagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykkt a.m.k. tveggja þriðju hluta fundarmanna.
7. grein
Stjórn félagsins ber að veita félagsmönnum jafnóðum, og þegar tilefni er til, upplýsingar um þau mál er hún hefur til umfjöllunar fyrir hönd félagsmanna og varða kaup- og kjör eða önnur mikilvæg hagsmunamál félagsmanna.
8. grein
Félagsmenn greiða árgjald til félagsins eftir ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Kostnað við störf félagsins skal greiða úr félagssjóði.
9. grein
Stjórn félagsins ber að varðveita tryggilega bækur og skjöl félagsins.
10. grein
Ákvörðun um slit félagsins verður einungis tekin á aðalfundi eða auka aðalfundi og þarf samþykki tveggja þriðju hluta allra félagsmanna. Sé ákveðið að slíta félaginu skal jafnframt tekin ákvörðun um hvert eignir félagsins renna, ef einhverjar verða.
Síðasta breytt á aðalfundi 22. september 2023.