Fara beint í efnið

Merki sýslumanna og einkennisklæðnaður

Einkennisfatnaður

Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skuli bera einkennisfatnað eftir því sem ráðherra ákveður í reglugerð. Einkennisfatnaður þeirra er tvenns konar; annars vegar til nota við dagleg störf og hins vegar hátíðarbúningur. Þá er gert ráð fyrir sérstökum einkennisfatnaði löglærðra fulltrúa sýslumanna, sem í meginatriðum er eins og einkennisfatnaður sýslumanna.

Einkennisfatnaður við dagleg störf

Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 882/2013 skal klæðast einkennisfatnaði sem hér segir:

  • Við hátíðleg tækifæri og meiri háttar viðburði í héraði, sem sýslumaður eða lög­lærður fulltrúi hans er viðstaddur stöðu sinnar vegna.

  • Við hjónavígslur.

  • Við framkvæmd aðfarargerða utan skrifstofu sýslumanns.

  • Við framkvæmd bráðabirgðagerða utan skrifstofu sýslumanns.

  • Við öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

  • Við uppboð utan skrifstofu sýslumanns.

  • Fyrir dómi þar sem sýslumaður mætir stöðu sinnar vegna.

  • Þegar nauðsynlegt eða æskilegt þykir við önnur verkefni utan starfsstöðvar þar sem sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans kemur fram stöðu sinnar vegna.

Hátíðarbúningur

Hátíðarbúningur

Sýslumaður skal samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar nota hátíðarbúninginn við opinber og/eða hátíðleg tækifæri, eins og hér segir:

  • Við heimsókn, móttöku og fylgd forseta Íslands eða annarra þjóðhöfðingja. 

  • Við hátíðleg tækifæri og meiri háttar viðburði í héraði, sem sýslumaður er viðstaddur stöðu sinnar vegna.

Sýslumanni er heimilt að nota hátíðarbúning við hjónavígslur. Heimilt er að nota kraga í stað einkennisfatnaðar við embættisathafnir ef aðstæður mæla með því að mati sýslumanns. Við hjónavígslur á skrifstofu er heimilt að notast við skikkjur í stað einkennisfatnaðar.

Skikkjur og kragar

Í reglugerðinni er einnig að finna ákvæði um sérstakar skikkjur til afnota við hjónavígslur.

Loks er í reglugerðinni ákvæði um kraga (eða stólur) fyrir sýslumenn og fulltrúa þeirra, sem heimilt er að nota  í stað einkennisfatnaðar við embættisathafnir ef aðstæður mæla með því að mati sýslumanns. Skal hún vera úr svörtu ullarefni, um 140 sm að lengd og 14 sm breið og með gylltum borðum, tveimur fyrir sýslumenn, einum fyrir fulltrúa, með  ísaumuðu skjaldarmerki og einkennismerki sýslumanna úr gylltu efni.

Merki og einkenni sýslumanna

Í 3. gr. reglugerðar nr. 882/2013 um einkennisfatnað og merki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra segir um merki sýslumanna á einkennisbúningum þeirra.

Merki sýslumanna skal vera gylltur munstraður hringur og er hluta af sverðsblaði með hjöltum stungið niður í hringinn. Merkið skal vera 3,5 sm á hæð, breidd hjaltanna 3 sm, en hringurinn 2,5 sm í þvermál.

Þess má geta að sýslumenn nota þetta merki sem merki félags síns, Sýslumannafélags Íslands. 

Um einkennishnappa segir í reglugerðinni að þeir skuli vera hringlaga, kúptir, gylltir með upphleyptri mynd af skjaldarmerki Íslands.  Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 1,6 sm í þvermál en hin stærri 2,4 sm í þvermál.

Um axlafetil segir að hann skuli fléttaður úr gylltum borða upphleyptum, þverbryddur að ofan og framan og ganga borðaendarnir felldir undan fremri bryddingunni. Fetillinn skal vera u.þ.b. 3 sm breiður að ofan og tvöfalt breiðari að framan.

Skilríki sýslumanna

Í 18. og 19. grein reglugerðar númer. 882/2013 eru svohljóðandi ákvæði um skilríki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.

Úr 18. grein:

Á skilríkjum sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra skal vera merki sýslumanna og skjaldarmerki íslenska ríkisins ásamt árituninni „Sýslumaður“. Þar skal vera andlitsmynd af skilríkishafa, nafn hans, kennitala, stöðuheiti, raðnúmer og útgáfudagur skilríkisins. Þá skal skilríkið vera undirritað af viðkomandi sýslumanni og bera stimpil hans. Að öðru leyti ákveður ráðuneytið útlit skilríkjanna í verklagsreglum.

Úr 19. grein:

Notkun skilríkja sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.

Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu ávallt bera skilríkin á sér við embættis­athafnir utan skrifstofu sinnar og geta framvísað þeim, sé þess óskað. Óheimilt er að nota þau í öðrum tilgangi en við skyldustörf.

Verklagsreglur um útgáfu skilríkja sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra voru gefnar út 17. febrúar 2015. 

Samkvæmt reglunum er Sýslumaðurinn á Vestfjörðum umsjónaraðili með útgáfu skilríkja fyrir ráðuneytið og aðra sýslumenn.  

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15