Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir skorti á merkingum og fræðslu um rafræna vöktun í strætisvögnum Strætó bs. Persónuvernd fór í tvær vettvangsathuganir til að kanna hvernig merkingum og fræðslu væri háttað í strætisvögnum Strætó bs. Niðurstaða fyrri athugunarinnar var að merkingum með viðvörunum um að fram færi rafræn vöktun væri ábótavant fyrir þá sem gengju inn um miðdyr vagnanna og að frekari fræðsla væri ófullnægjandi. Við síðari vettvangsathugun Persónuverndar, sem fór fram rúmu ári síðar, kom í ljós að úr þessu hafði verið bætt og var það niðurstaða stofnunarinnar að merkingar og fræðsla um rafræna vöktun í strætisvögnunum samrýmdist þá persónuverndarlögum.