Orsakir og áhættuþættir
Þrýstingsskaðavarnir varða öryggi sjúklinga og hægt er að fyrirbyggja nær alla þrýstingsskaða.
Afleiðingar þrýstingsskaða eru alvarlegar, hann:
veldur sjúklingum þjáningum
lengir sjúkrahúslegu
eykur líkur á sýkingum og í verstu tilvikum dauða.
Þrýstingsskaði er einnig gríðarlega kostnaðarsamur fyrir heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisstarfsfólk ætti að hafa það að leiðarljósi og vinna markvisst að því að ekki myndist þrýstingsskaði hjá sjúklingum í þeirra umsjón.
Húðin og heilleiki hennar
Húðin skiptist í þrjú lög, yst er húðþekja (epidermis), síðan kemur leðurhúð (dermis) og innst er undirhúðin (subcutis). Á milli húðar og undirliggjandi mjúkvefja er bandvefshimna (fascia).

Húðþekjan, sem er ysta lag húðarinnar, ver líkamann fyrir utanaðkomandi efnum, áverkum og sýklum og enn fremur hindrar húðþekjan óeðlilegt vökvatap út um húðina.
Húðþekjan er að mestu byggð upp af frumum sem heita keratinocytar sem eru framleiddir í innsta lagi húðþekjunnar en færast sífellt nær yfirborði húðarinnar og flagna að lokum af. Húðþekjan er þannig í stöðugri endurnýjun og endurnýjast að fullu á um 15 dögum.
Ýmsir þættir hafa áhrif á heilleika húðar og þar með varnareiginleika hennar
Orsakir þrýstingsskaða
Þrýstingsskaði er vefjaskaði í húð og/eða undirliggjandi vef og er afleiðing af þrýstingi eða samblandi af þrýstingi og togi í húð. Þrýstingsskaði myndast yfirleitt yfir beinaberum svæðum en getur einnig verið afleiðing af þrýstingi frá íhlutum eða lækningatækjum. Þrýstingsskaði getur verið opið sár en getur einnig verið til staðar þó húðin virðist heil.
Þrýstingur (pressure) er kraftur sem myndast undan þunga líkamans eða vegna utanaðkomandi þrýstings af íhlutum, lækningatækjum, hjálpartækjum eða öðru. Þegar þyngdaraflið togar líkama að undirlagi (til dæmis rúmi eða stól) þrýstir beinagrindin á húð, vöðva og aðra mjúkvefi sem liggja milli hennar og undirlags. Þetta á sér einnig stað þegar hlutir þrýsta á húð utan frá.
Tog (shear) er kraftur sem eykur áhrif þrýstings á húð. Tog getur myndast þegar húð togast til á skjön við hreyfingu líkamans. Dæmi um þetta er þegar sjúklingur með hreyfiskerðingu sígur niður í rúmi eða stól en húðin á bakhlutanum situr eftir á undirlaginu.

Þessir kraftar, þrýstingur og tog, geta valdið álagi og aflögun á mjúkvefi með frumudauða og uppsöfnun úrgangsefna sem kallar á bólgusvar og bjúg, truflun á blóðflæði og vefjadrepi. Því meiri sem þrýstingurinn er og því lengur sem hann varir, því meiri verður skaðinn. Ekki er með vissu hægt að segja hversu langan tíma þarf til að þrýstingsskaði myndist, það fer eftir undirlaginu og líkamsástandi sjúklings.
Hægt er að fyrirbyggja flesta þrýstingsskaða en hjá deyjandi einstaklingum getur myndun þrýstingsskaða verið óumflýjanleg.
Áhættuþættir þrýstingsskaða
Áhættuþættir þrýstingsskaða eru fjölmargir en hreyfiskerðing, af hvaða orsökum sem er, er stærsti áhættuþátturinn. Þegar einstaklingur á erfitt með að hreyfa sig í rúmi eða stól eykst hætta á viðvarandi þrýstingi sem getur endað með þrýstingsskaða. Orsakir hreyfiskerðingar geta meðal annars verið:
lömun
meðvitundarskerðing
hrumleiki
alvarleg veikindi
vitræn skerðing
Sjúklingar með skerta skyntilfinningu finna síður fyrir óþægindum sem þrýstingur og tog á húð og undirliggjandi mjúkvefi veldur. Þeir bregðast því ekki við líkt og sjúklingur með fullt skyn myndi gera sem væri að fjarlægja þrýsting og tog með breyttri legu/setu. Skert skyntilfinning getur t.d. orsakast af mænuskaða, taugaskaða, slævandi lyfjum og æðasjúkdómum.
Aðrir áhættuþættir þrýstingsskaða eru til dæmis
hár aldur
raki við húð eða þurrkur
vannæring
beinbrot
kreppur
verkir
bráð veikindi
saga um fyrri sár
Því fleiri og alvarlegri sem áhættuþættirnir eru, því meiri hætta er á þrýstingsskaða.
Áhættumat
Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar mæla með því að staðlað áhættumat sé framkvæmt í upphafi meðferðar til að finna þá sjúklinga sem eru í hættu á að fá þrýstingsskaða.
Í framhaldi af því er sett upp einstaklingshæfð meðferðaráætlun um þrýstingsskaðavarnir fyrir þá sem eru í áhættu.
Á Landspítala á að framkvæma áhættumat við innlögn, vikulega eftir það og fyrr ef ástand sjúklings breytist, notast er við Braden kvarðann, sjá nánar um áhættumat fyrir þrýstingsskaða í gæðaskjali LSH-518
Útskýra þarf fyrir sjúklingi í áhættu fyrir myndun þrýstingsskaða, hversu mikilvægt er að skoða og meta húð hans reglulega og hvernig húðskoðun er framkvæmd. Sjúklingur er hvettur til að láta heilbrigðisstarfsfólk vita sjái hann roðablett, sár eða finni fyrir eymslum eða óþægindum á ákveðnum húðsvæðum.
Einnig er hægt að benda á þetta myndband Um þrýstingssáravarnir
