Forgangur 3: Að bæta öruggi í notkun áhættusamra lyfja
Umbótastarfinu er stýrt af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) með aðkomu heilsugæslunnar.
Örugg notkun áhættusamra lyfja sem tengjast ensku skammstöfuninni „APINCHS“ er sett í forgang:
(A) sýklalyf
(P) kalíum og aðrar saltalausnir
(I) insúlín
(N) lyf með ávanahættu (ópíóíðar) og önnur róandi lyf
(C) krabbameinslyf
(H) heparín og önnur segavarnarlyf
(S) örugg kerfi
Tilraunaverkefni eru hafin á lyflækningadeildum Landspítalans, SAK og í heilsugæslunni.

Insúlín er áhættusamt lyf. Óviðeigandi eða röng meðferð sjúklinga með sykursýki á sjúkrahúsi leiðir til lakrar stjórnunar glúkósa og getur leitt til sárasýkinga eftir aðgerð, lengri legu á sjúkrahúsi, endurinnlagna og dauðsfalla sem hefði mátt koma í veg fyrir. Stór hluti lyfjaatvika sem tilkynnt er um á Landspítala snúast um insúlin og tengjast mörg hver skorti á verkferlum og þjálfun starfsfólks í réttri notkun insúlíns.
Inngrip til að bæta insúlínöryggi er tilraunaverkefni á einni af lyflækningadeildum Landspítalans. Lausnir fela í sér:
Aðgengilegar leiðbeiningar um ávísun insúlíns, sérstaklega við hækkun blóðsykurs.
Starfsfólk er minnt á að mæla reglulega blóðsykur.
Þjálfun starfsmanna og fræðsla um örugga notkun insúlíns.
Klínískum teymum gert auðveldara að bregðast við niðurstöðum blóðsykurs sem eru utan viðmiðunarmarka.
Verkefnahópurinn er nú að meta áhrif þessara inngripa. Lausnir sem virka verða gerðar aðgengilegar öðrum legudeildum á Landspítala og Akureyri.
1. Skilningur á ávísanamynstri ópíóíða á Íslandi
Unnið er að greiningu á mynstri ópíóíða ávísana á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvaða sjúklingahópar fá endurnýjaða ópíóíða lyfseðla, hvers konar ópíóíða þeir fá og hvaða greinar læknisfræðinnar eru fyrirferðarmestar í þessum lyfjaávísunum.
Niðurstöðurnar munu gera stýrihópi um áhættusöm lyf kleift að ákvarða grunnorsakir þess að sala á ópíóíðum er mest á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd (Ritstjórn NOMESCO Health Statistics, 2020) og hvers vegna rannsóknarniðurstöður sýna endurtekið að 10% sjúklinga sem ekki glímdu áður við ópíóíðafíkn hafa orðið langtíma notendur eftir skurðaðgerð (Steen T, Lirk PB & Sigurdsson MI, 2019) (Ingason AB et al., 2022).
Áætlað er að niðurstöður rannsóknarinnar verði kynntar vorið 2022 og umbótaátaki verður hrundið af stað um haustið.
2. Niðurtröppun ópíóíða í heilsugæslu
Ávísun ópíóíða í heilsugæslu er eitt af forgangsverkefnum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu. Bein ávísunargögn verða aðgengileg öllum heilsugæslustöðvum og öllum heimilislæknum á Íslandi til að stuðla að aukinni vitund um ávísunarmynstur (í gegnum Gagnasýn).
Einnig er verið að þýða upplýsingabækling um ópíóíða niðurtröppun á íslensku (af www.deprescribing.org). Þetta úrræði miðar að því að bæta samskipti sjúklinga og umönnunaraðila við lækna varðandi niðurtröppunarferlið. Upplýsingarnar eru í samræmi við gagnreyndar leiðbeiningar um niðurtröppun, skrifaðar á einföldu máli.
3. Skynsamlega ávísun lyfja með ávanahættu
Í undirbúningi er verkefni á vegum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu(ÞÍH) sem hefur að markmiði eins og nafnið bendir til að stuðla að skynsamlegri ávísun þessarra lyfja. Fundað verður með læknum allra heilsugæslustöða, ávísanir stöðvanna skoðaðar í Gagnasýn í Sögu og hvatt til aðgerða sem gætu stuðlað að skynsamlegri ávísun lyfjanna. Dæmi um þætti sem gætu stuðlað að árangri:
Verklag við endurnýjun lyfja,
verkfæri sem geta stutt við niðurtröppun
þróun annarra úrræða en lyfja við vanda skjólstæðinganna
Fræðslubæklingurinn Þér kann að vera hætta búin, sem fjallar um róandi lyf og svefnlyf getur hjálpað einstaklingum að meta í samvinnu við heilbrigðisstarfsmenn, hvort þeir geti fetað veg að betri heilsu og hafið niðurtröppun róandi lyfja eða svefnlyfja.
Á nokkrum stöðum í heilsugæslunni hefur þegar verið unnið að þáttum sem stuðla að skynsamlegri ávísun lyfja með ávanahættu m.a. á Heilsugæslunni í Efra Breiðholti sem kynnti verkefnið og árangurinn af því á Læknadögum í mars 2022, sjá samantekt (pdf).
Á Landspítala er unnið að því að bæta ávísun og meðferð warfaríns. Einstök klínísk teymi nota nú mismunandi aðferðir til að fylgjast með legusjúklingum sem fá warfarín. Nýleg rannsókn á atviki leiddi í ljós ýmsar grunnorsakir sem tengjast meðhöndlun warfaríns:
ein þeirra varðar skort á öryggisnetum í rafrænu ávísanakerfi sjúkrahússins (meðferð) sem eiga að tryggja að fylgst sé með sjúklingum á warfaríni með viðeigandi millibili,
önnur er skortur á samræmdri meðferð sjúklinga á warfaríni á mismunandi deildum.
Nýjar reglur hafa verið forritaðar í Therapy fyrirmælakerfið á Landspítala þar sem warfaríni er aðeins ávísað í 3 daga og síðan minnt á að endurskoða skammtinn áður en ávísað er áfram. Þetta var nýlega reynt á hjartadeild og sýnt var fram á að það skilar árangri. Þessar reglur er nú í prófun á öldrunardeildum og verða sendar öðrum deildum og sjúkrahúsum þegar sýnt er fram á að þær virka vel við þessar aðstæður.
Frekari rannsóknir standa nú yfir á aðgengi upplýsinga sem varða ávísanir á warfaríni. Upplýsingar um warfarín skömmtun eru sem stendur ekki aðgengilegar öllum heilbrigðisstarfsmönnum á stofnunum. Ef sjúklingur er í umsjón blóðþynningarteymis utan Landspítala eru þessar upplýsingar ekki aðgengilegar starfsfólki sjúkrahússins við innlögn sjúklings. Sama er uppi á teningnum þegar sjúklingar eru útskrifaðir af sjúkrahúsi og þurfa á umönnun teymis að halda í annarri heilsugæslu.
Upplýsingar um warfarín skömmtun eru tiltækar í mörgum ósamþættum kerfum á heilbrigðisstofnunum sem skapar meiri hættu á mistökum þegar sjúklingar flytjast á milli stofnana.
Nú er verið að þróa staðlaða hááhættulyfjaskrá í samvinnu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem er byggð á APINCHS skammstöfuninni. Tilgangurinn er að bæta lyfjaafgreiðslu, undirbúning og lyfjagjöf á legudeildum.
Nú er verið að fá hjúkrunarfræðinga á völdum deildum til að ákvarða hvernig hægt er að nýta þennan lista til að bæta 6Rs (6R við lyfjatiltekt, lyfjagjöf og skráningu).
