Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Brjósklos í lendhrygg

Sjúkdómsgangur brjóskloss með taugaklemmu er góðkynja. Flestum batnar án skurðaðgerðar. Því er fræðsla, stuðningur og endurmat lykilatriði í meðferðarferli þessara sjúklinga.

Endurmat er nauðsynlegt áður en beiðni er send um mat með tilliti til skurðaðgerðar. Ef að taugaleiðniverkur er byrjaður að minnka í útbreiðslu eða styrk við endurmat, þýðir það oftast að frekari bata er að vænta án inngripa.

Ábending til skurðaðgerðar

Sjúklingar sem eru með:

  • daglegan lífsgæðatruflandi taugaleiðniverk sem hefur varað í meir en 6-8 vikur

  • er ekkert að batna þrátt fyrir hvíld og lyfjameðferð

  • sannaða taugaklemma á segulómskoðunarrannsókn sem er ekki eldri en tveggja mánaða

  • Tilgangur aðgerðarinnar er að lina/lækna taugaleiðniverkinn í gangliminn

Athuga skal að uppgefin tímamörk fyrir lengd leiðniverks og ábendingu til skurðaðgerðar eru afstæð, einstaklingsbundin og háð einkennaþróun.

Sjúklingar sem eru skornir upp innan uppgefinna tímamarka eru einstaklingar á fullri lyfjameðferð með það mikla hreyfiskerðingu vegna verkja að þeir geta ekki sinnt daglegu þörfum eins og að komast á salerni eða að þrífa sig og næra. Einstaklingar með vaxandi brottfallseinkenni frá taugarótum eins og miklar lamanir í ganglim, 3/5 eða minna eru skornir upp fyrr.

Einkenni alklemmu

Sjúklingar sem eru með einkenni um alklemmu á taugarótartagli (cauda equina) skulu metnir strax og segulómskoðun fengin samdægurs.

Einkenni cauda equina eru:

  • þvagteppa

  • dofi á nærbuxnasvæði beggja vegna

  • slappur sphinctertónus

  • Taugarótareinkenni niður í ganglimi oftast beggja vegna

Mikilvægt

Ef sjúklingurinn er með ofangreind þrenndar-einkenni og niðurstaða segulómskoðunar sýnir brjósklos með alklemmu á taugatagli þarf strax að hafa samband við vakthafandi heilaskurðlækni. Þetta einkennamunstur er sjaldgæft en mikilvægt að greina og meðhöndla strax með skurðaðgerð.

Bakgrunnur

Einkenni

Í færri tilfellum kynnir brjósklos sig með taugarótarverk, sem er neurogen verkur. Það gerist ef brjóskið leggst á taugarótina. Einkennin eru leiðniverkur á svæði dermatóms viðkomandi taugarótar og er kallaður taugaleiðniverkur eða taugarótarverkur, til aðgreiningar frá stoðkerfisverknum.

Taugaleiðniverknum fylgir oftast dofi á viðkomandi dermatómi en sjaldnar máttminkun í viðkomandi myotomi. Taugaleiðniverkurinn er oft heiftarlegur í byrjun, þar sem bólga er í tauginni og getur það ástand staðið yfir í liðlega tvær vikur. Á þessum tíma er gefin full verkjalyfjameðferð og sjúklingur látinn hvíla sig í þeim stellingum sem þeim líður best í.

Einstaklingar sem eru með taugleiðniverk vegna brjóskloss eru oftast einnig með stoðkerfisverk. Nauðsynlegt er að greina á milli þessara verkja og átta sig á hvor verkjagerðin er mest lífsgæðatruflandi.

Brjósklosskurðaðgerð hjálpar ekki sjúkling sem er með ríkjandi stoðkerfisverk.

Endurmat er nauðsynlegt í eftirfylgni einstaklinga með taugaleiðniverk vegna brjóskloss. Um leið og taugaleiðniverkir minnka þá heldur batinn oftast áfram án nokkurra inngripa.

Verkjalyfjameðferð

Full verkjalyfjameðferð er blanda af fjórum lyfjaflokkum, NSAID´s , flogalyf, ópíod-skyld lyf og verkja- og hitalækkandi lyf eins og paracetamol.

Dæmi um svokallaða fulla lyfjameðferð er Diclophenac 50mg x 3, Gabapentin 600mg x 3 og Paracetamól + kódein, Parkodin forte 2x4.

Einstaka sinnum er gefin sterakúr til að taka versta broddinn úr verknum. Þetta er gert þegar greiningin hefur verið staðfest og það er verið að hjálpa einstaklingnum að komast yfir versta verkjakaflann. Dæmi um slíkan sterakúr er Decortin/Prednisolon 5mg töflur, 50mg fyrsta daginn, 40mg annan daginn, 30mg þriðja daginn, 20mg fjórða daginn, 10mg fimmta daginn, 5mg sjötta daginn og hætta svo.

Fræðsla og regluleg eftirfylgni sjúklingsins gegnir lykilhlutverki í bataferlinu.

Ítarefni