Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Tengiliðir farsældar

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kveða á um að öll börn og foreldrar skuli hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur.

Tengiliður skal hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barns. Hann má ekki vera tengdur barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis.

Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu.

Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili.

Tengiliður farsældar er:

  • starfsmaður í nærumhverf ibarns og foreldra þess.

  • sá aðili sem styður við samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.

  • sá sem veitir fjölskyldunni upplýsingar um þjónustu, tryggir aðgang að frummati, styður við samþættingu á fyrsta stigi þjónustu og kemur upplýsingum áfram ef þörf er á samþættingu á öðru stigi. 

Hlutverk tengiliðar farsældar er:

  • að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.

  • að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.

  • að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.

  • að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.

  • að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.

  • að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra.

  • að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.

Tengiliður farsældar þarf að:

  • hafa sótt viðeigandi fræðslu til Barna- og fjölskyldustofu

  • uppfylla almennt hæfi skv. Reglugerð nr. 1180/2022

  • hafa þekkingu og yfirsýn yfir þá þjónustu sem er í boði í sveitarfélaginu/þjónustusvæðinu.

  • vera í góðum tengslum við þau börn og foreldra sem hann þjónustar.

  • eiga í góðum samskiptum við aðra þjónustuveitendur á svæðinu.

Farsældarskólinn

Rafræn námskeið BOFS fyrir tengiliði farsældar er að finna í kennslukerfinu Teachable.