Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Gerð og vinnsla fóstursamnings og greiðslur

Barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur skal gera skriflegan fóstursamning við fósturforeldra áður en barn fer í fóstur. Það má líta á slíkan samning sem verkkaupasamning þar sem kveðið er á um hlutverk, skyldur og stuðning á samningstímabilinu. Skýrt þarf að vera í samningnum hver markmið eru með fóstrinu og hvernig á að vinna að þeim á samningstímabilinu.

Ef gert er ráð fyrir hlutdeild ríkisins í kostnaði vegna sérstakrar umönnunar og þjálfunar samkvæmt 4. mgr. 65. gr. og 88. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, eru ákvæði í fóstursamningi sem að þessu lúta háð samþykki Barna- og fjölskyldustofu.

Hvað felur fóstursamningur í sér? 

Fóstursamningur felur í sér þau réttindi og skyldur sem fóstrinu fylgja fyrir barnaverndarþjónustu og fósturforeldra. Í fóstri fara fósturforeldrar með umsjá barnsins og umönnun þess og uppeldi frá degi til dags.

Það getur komið til þess að endurskoða þurfi einstök atriði samningsins, t.d. varðandi stuðning við barnið og/eða fósturforeldrana ef í ljós kemur að aðstæður barnsins og staða þess krefst meiri eða annars konar umönnunar en gert var ráð fyrir í upphafi eða annað sem fjallað er um í samningnum.

Hvað á að koma fram í fóstursamningi?

Í fóstursamningi skal meðal annars kveðið á um:

  • lögheimili barns og daglega umsjá, 

  • forsjárskyldur, þar með talin lögráð, 

  • áætlaðan fósturtíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga, 

  • framfærslu barns og annan kostnað (sjá neðar)

  • umgengni barns við kynforeldra og/eða aðra nákomna, 

  • stuðning barnaverndar við barn og fósturforeldra meðan fóstur varir

  • lok fósturs

  • sérstaka umönnun og þjálfun, sbr. 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga, þegar það á við 

  • annað sem máli skiptir. 

Lögheimili barns og dagleg umsjá

Meta skal í hverju tilviki hvenær flytja skuli lögheimili barns í fóstri til fósturforeldra. Hafa þarf hliðsjón af markmiði með ráðstöfun barns í fóstur, lengd fóstursins og hagsmunum barnsins. Að jafnaði flyst lögheimili barns til fósturforeldra þegar um varanlegt fóstur er að ræða.

Forsjárskyldur

Í fóstursamningi skal taka fram hvaða forsjárskyldur fósturforeldrum er ætlað að fara með. Mestu varðar hér að tekin sé afstaða til þess hver skuli fara með lögráð barnsins í skilningi lögræðislaga, þ.e. sjálfræði og/eða fjárræði. Taka ber fram hvort og að hvaða marki fósturforeldrar skuli fara með lögráðin. Í sumum tilvikum kann t.d. að vera ástæða til að sérstakur fjárhaldsmaður sé skipaður, eða eftir atvikum að fela sérstökum fjárhaldsmanni umsjón tiltekinna eigna.

Að jafnaði verður að gera ráð fyrir að forsjárskyldur flytjist í ríkara mæli til fósturforeldra ef fóstri er ætlað að vara þar til barn verður 18 ára en fósturforeldrar fara þó ekki með forsjá fósturbarns.

Tímalengd fósturs

Tímalengd fósturs ræðst fyrst og fremst af þeirri áætlun sem gerð hefur verið í máli barnsins, annaðhvort í samvinnu við kynforeldra eða sá tími sem vistun er markaður í úrskurði umdæmaráðs barnaverndar eða dómstóls. Tímalengdin þarf að vera skýr í fóstursamningi þannig að öllum aðilum málsins sé ljóst að hverju er stefnt. Það getur valdið miklu óöryggi hjá barninu, fósturforeldrum og kynforeldrum ef tímalengd og markmið fóstursins eru óljós.

Ef um tímabundna ráðstöfun er að ræða er mikilvægt að vinna vel með kynforeldrum á meðan á fóstrinu stendur og að þeir viti til hvers er ætlast af þeim á meðan fósturvistun barns stendur.

Fóstursamning verður alltaf að gera með þeim fyrirvara að hann falli úr gildi ef krafa kynforeldris um endurskoðun ráðstöfunar barnaverndar nær fram að ganga. Í 32. gr. reglugerðar um fóstur er fjallað um uppsögn, breytingar og riftun fóstursamninga og er gott að fjalla um slík atriði í samningi.

Framfærsla og annar kostnaður

Ákvæði um greiðslur til fósturforeldra er að finna í reglugerð um greiðslur vegna barna í fóstri nr. 858/2013. Nauðsynlegt er að þessi atriði séu ákvörðuð eins og hægt er áður en barni er ráðstafað í fóstur.

Umgengni barns við kynforeldra og/eða aðra nákomna

Barn í fóstri á rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Kynforeldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Fjallað er um rétt barns í fóstri til umgengni í 74. gr. barnaverndarlaga og 25. gr. reglugerðar um fóstur.

Lesa nánar um umgengni við nákomna.

Stuðningur við barn og fósturforeldra

Sá stuðningur sem veittur er í fóstri getur til að mynda verið: Meðferð fyrir barn, heilbrigðisþjónusta eða önnur stuðningsúrræði, námskeið og fræðsla, handleiðsla fyrir fósturforeldra, samráðsfundir, heimsóknir barnaverndar á fósturheimilið, aðstoð vegna samskipta kynforeldra og umgengni eða annað sem þurfa þykir að tilgreina.

Ekki er gerður greinarmunur á stuðningi eftir því hvort um er að ræða tímabundið eða varanlegt fóstur. Þegar barnið krefst sérstakrar umönnunar og þjálfunar er stuðningurinn alla jafna yfirgripsmeiri.

Það ætti að liggja fyrir í hverju vinnuframlag og stuðningur við fósturforeldra felst þegar fóstursamningur er gerður. Þó geta frekari erfiðleikar barns komið í ljós eftir komuna á fósturheimilið og þá þarf að skoða í samvinnu við fósturforeldra hvort auka þurfi stuðninginn.

Lesa nánar um stuðning og réttindi í fóstri.

Tilkynna um gerð fóstursamnings

Þegar fóstursamningur hefur verið gerður þarf að tilkynna um það til Barna- og fjölskyldustofu og annarra opinberra aðila eftir því sem við á, sbr. 73. gr. barnaverndarlaga.

Sjá viðeigandi eyðublöð og leiðbeiningar

Þegar um varanlegt fóstur er að ræða þarf að senda tilkynningu til:

  • Barna- og fjölskyldustofu

  • Gæða- og eftirlitsstofnunar Velferðarmála

  • Tryggingastofnunar ríkisins

  • Barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi fósturforeldra

  • Skólanefndar í því umdæmi þar sem barnið var í skóla (ef barn er á grunnskólaaldri)

  • Skólanefndar í umdæmi fósturforeldra (ef barn er á grunnskólaaldri)

  • Þjóðskrár Íslands

Þegar barn er í tímabundnu fóstri og á áfram lögheimili hjá foreldrum skal senda tilkynningu til:

  • Barna- og fjölskyldustofu

  • Gæða- og eftirlitsstofnunar Velferðarmála

  • Tryggingastofnunar ríkisins

  • Barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi fósturforeldra

  • Skólanefndar í því umdæmi þar sem barnið var í skóla (ef barn er á grunnskólaaldri)

  • Skólanefndar í umdæmi fósturforeldra (ef barn er á grunnskólaaldri)

Uppsögn eða breyting á samningi

Sé fóstursamningur gerður til 12 mánaða eða skemmri tíma geta bæði barnaverndarþjónusta og fósturforeldri sagt upp samningnum. Gera skal ráð fyrir eins mánaðar gagnkvæmum uppsagnarfresti nema annað sé sérstaklega tekið fram í fóstursamningi. Uppsögn skal vera skrifleg og miðað við næstu mánaðarmót.

Sé fóstursamningur gerður til lengri tíma en 12 mánaða getur hvor aðili óskað eftir breytingu á samningi eða að samningur sé felldur úr gildi. Hvor aðili getur rift fóstursamningi ef um verulega vanefnd er að ræða af hálfu hins aðilans.

Verði breytingar á aðstæðum fósturforeldra svo sem vegna skilnaðar, andláts, flutninga eða heilsubrests, skulu fósturforeldrar tilkynna það til barnaverndarþjónustu sem ráðstafar barni í fóstur sem metur hvort þörf sé á endurskoðun fóstursamnings.

Náist ekki samkomulag milli barnaverndarþjónustu og fósturforeldra getur barnaverndarþjónusta úrskurðað um breytingu eða niðurfellingu á fóstursamningi. Úrskurðurinn er kæranlegur til Úrskurðarnefndar Velferðarmála.

Barnaverndarþjónusta getur sagt upp varanlegum fóstursamningi hafi foreldrar sýnt fram á að þau geti tekið aftur við barninu og ástæður fóstursins séu ekki lengur til staðar.

Greiðslur til fósturforeldra

Lög og reglugerðir

Barnaverndarlög nr.80/2004

Reglugerð um fóstur nr. 804/2004

Sjá einnig 

Viðmiðunarreglur vegna grunnskólanáms utan lögheimilissveitarfélags ásamt gjaldskrá 

Reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum nr. 547/2012