Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Umgengni fósturbarns við foreldra og aðra nákomna

Barn á rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með fósturráðstöfuninni. Að sama skapi eiga þeir sem telja sig nákomna barninu rétt til umgengni við barnið, sé það til hagsbóta fyrir barnið. 

Barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur skal eiga frumkvæði að umgengni barns við foreldra og aðra nákomna. Leitast skal við að ná samkomulagi við þá sem eiga að vera í umgengni við barn í fóstri og ganga frá skriflegum samningi um fyrirkomulag hennar. Ef ekki næst samkomulag úrskurðar umdæmisráð um ágreiningsefni sem varða umgengni, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang hennar eða framkvæmd. Áður en gengið er frá samningi eða kveðinn er upp úrskurður um umgengni skal barnaverndarþjónustan kanna viðhorf fósturforeldra til hennar. Ákvæði umgengnissamnings eða úrskurðar skulu tekin upp í fóstursamningi. Því er mikilvægt að fyrir liggi annaðhvort samkomulag um umgengni eða úrskurður samhliða því að barni er ráðstafað í fóstur.

Þegar tekin er ákvörðun varðandi umgengni barns í fóstri skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best til að ná því markmiði sem stefnt er að með fóstri. Við ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldra eða aðra, skal meta í hverju tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og áhrif hennar á barnið. Hafa ber í huga að almennt er börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu sína og foreldra.

Fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri eru aðilar að máli um umgengni. Í því felst að þeir taka þátt í umgengnissamningi, geta óskað breytinga áður en ákvörðun um umgengni er tekin, eru aðilar að úrskurðarmáli og geta skotið úrskurði um umgengni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kanna skal viðhorf fósturforeldra barns í tímabundnu fóstri áður en ákvörðun um umgengni er tekin.

Aðrir nánir aðstandendur barnsins, þ.e.a.s. þeir aðilar sem eiga rétt skv. barnaverndarlögum til að óska eftir umgengni við barn sem er vistað í fóstri, njóta aðildar að þeim hluta málsins sem lýtur að beiðni þeirra um umgengni.