Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Stuðningur og réttindi í fóstri

Áður en barnaverndarþjónusta vistar barn utan heimilis gera starfsmenn hennar skriflega áætlun skv. 33. gr. barnaverndarlaga sem kallast áætlun um trygga umsjá. Þar er tilgreint hvers konar vistun er fyrirhuguð, hversu lengi vistun á að vara, markmið vistunar, stuðningur við barnið og aðra, auk annars sem skiptir máli. Sá stuðningur sem á að veita á meðan vistun stendur og er tiltekinn í áætluninni miðað við þarfir barns eins og þær eru metnar út frá niðurstöðum könnunar. Í áætlun um trygga umsjá skal fjalla um hvernig árangur verður metinn af hverju og einu úrræði, inngripi eða þjónustu.

Sá stuðningur sem veittur er í fóstri getur til að mynda verið: 

  • Meðferð fyrir barnið, svo sem viðtöl við sálfræðing, geðlækni eða aðra

  • Frekari þjónusta við barnið, svo sem heilbrigðisþjónusta, lyfjameðferð og þjálfun 

  • Handleiðsla fyrir fósturforeldra

  • Reglubundnir samráðsfundir þar sem taka þátt eftir atvikum barn, kynforeldrar, fósturforeldrar, fulltrúi barnaverndar, handleiðari, meðferðaraðili og/eða aðrir  

  • Heimsóknir fulltrúa barnaverndar á fósturheimili meðan fóstur varir

  • Aðstoð vegna samskipta við kynforeldra og umgengni

  • Annað sem þarft þykir að tilgreina

Ekki er gerður greinarmunur á stuðningi hvort sem um er að ræða tímabundið eða varanlegt fóstur.

Þegar vandi barns krefst sérstakrar umönnunar og þjálfunar er stuðningurinn alla jafna yfirgripsmeiri. Í 33. gr. áætlun vegna slíkrar vistunar gæti auk fyrrgreindra atriða verið, sérstök þjálfun fyrir barna vegna sértækra erfiðleika, sérstakur stuðningur í skóla, aukið vinnuframlag fósturforeldra og annar stuðningur við barn, kynforeldra eða fósturforeldra.

Þegar fóstursamningur er gerður ætti að liggja fyrir í hverju vinnuframlag og stuðningur við fósturforeldra sé fólgið. Ef frekari erfiðleikar barns koma í ljós eftir komu á fósturheimili, þarf að skoða í samvinnu við fósturforeldra hvort auka þurfi stuðning. 

Réttindi fósturbarna

Í barnaverndarlögum er getið sérstaklega um rétt barna í fóstri. Barnaverndarþjónustu ber að veita barni sem er í fóstri nauðsynlegan stuðning samkvæmt fóstursamningi. Fósturforeldrum ber að framfylgja þeim stuðningi til að mynda með þátttöku í úrræðum og eftirfylgni á meðan fóstrið varir.

Fósturbarn hefur rétt á að vita af hverju það er í fóstri og hvaða áform eru um framtíð þess, í samræmi við aldur og þroska barnsins. Fósturbarn á rétt á góðum aðbúnaði hjá fósturforeldrum og að þeir annist það af fyllstu umhyggju og nærgætni og svo sem hentar best hag þess og þörfum.

Þegar barni er ráðstafað í fóstur skal barnaverndarþjónusta stuðla að því eftir fremsta megni að stöðugleiki verði í uppvexti barnsins og að röskun á lífi þess verði sem minnst. Ávallt skal reyna að finna systkinum sameiginlegt fósturheimili eftir því sem unnt er. Hafa skal í huga að þegar líf barns hefur umturnast er framtíðin ógnvekjandi í augum þess til að byrja með. Því er samvinna allra aðila, barnaverndaryfirvalda og fósturforeldra, til þess fallin að skapa öryggi. 

Fósturbarn á rétt á stöðugleika, tryggum aðstæðum, heilsusamlegu húsnæði og umhverfi hjá fósturforeldrum. Fósturforeldrar þurfa að vera meðvitaðir um að þeir gætu þurft að gera breytingar á högum sínum, hefðum og venjum og þurfa því að búa til sveigjanleika til að koma til móts við þarfir fósturbarns. Fósturbarn á rétt á að tekið sé tillit til menningar þess og að það haldi tengslum við uppruna sinn og menningarbakgrunn. Því þurfa fósturforeldrar að leggja sig fram við að kynnast barninu, hefðum þess, venjum og menningu. Starfsmaður barnaverndar skal miðla þeim upplýsingum sem fósturforeldrar þurfa til að geta komið til móts við þessar þarfir.

Fósturbarn á rétt á að halda tengslum við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir, þá sérstaklega við í tímabundnu fóstri þar sem markmiðið er að fjölskyldan sameinist aftur við lok fósturvistunar. Vert er að hafa í huga að í kringum samskipti við kynforeldra, ættingja eða aðrar lykilpersónur gæti verið töluvert tilfinningarót hjá fósturbarni. Barnið gæti þurft stuðning fósturforeldra í kringum samskiptin. Það getur verið að það samræmist ekki endilega hugmyndum fósturforeldris um stuðning og því er mikilvægt að fósturforeldri taki vel eftir og hlusti eftir þörfum barnsins. Hlutverk starfsmanns barnaverndar er þá að styðja við fósturforeldra í því að styðja við fósturbarn í samræmi við þarfir þess. Þá getur verið gagnlegt fyrir barnaverndarþjónustu að fá til liðs við sig handleiðara til að styðja fósturforeldra í þessu hlutverki. Barn sem hefur náð 15 ára aldri getur sjálft gert kröfu um umgengni.

Fósturbarn á að eiga sinn tengilið hjá barnavernd sem það á rétt á að vera í samskiptum við. Sá barnaverndarstarfsmaður sem fer með mál barnsins skal gæta að því að fósturbarnið viti hvernig það getur komist í tengsl við hann. Oft er það þannig að fósturforeldrar fara með milligöngu þessara samskipta og ber starfsmanni barnaverndar að útskýra fyrir fósturbarni og fósturforeldrum hvernig barnið getur haft samband.

Stuðningur við barn

Á meðan fóstri stendur ber barnaverndarþjónustu að fylgjast með aðbúnaði barnsins og líðan barns og því að ráðstöfunin nái tilgangi sínum. Þarfir fósturbarna fyrir stuðning geta verið breytilegar eftir aldri og þroska auk þess sem þarfir þeirra geta breyst eftir því hversu lengi þau hafa dvalið í fóstri. 

Huga þarf að samvinnu um stuðning við barnið. Barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur þarf að leggja mat á hvaða aðila þarf að vera í samvinnu við; t.a.m. skóla, leikskóla eða aðra aðila.

Heimsækja skal barnið að minnsta kosti einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Nauðsynlegt getur verið að heimsækja fósturheimilið oft í upphafi vistunar á meðan barnið er að aðlagast nýjum aðstæðum og kynnast fósturforeldrum. Í heimsóknunum þarf að ræða við barnið og afla annarra mikilvægra upplýsinga svo hægt sé að meta líðan fósturbarnsins. Þegar rætt er við barnið þarf ætíð að hafa markmið fóstursins í huga. Ef fóstrið er tímabundið og stefnt er á að barnið snúi aftur heim skal ræða hvað sé að gerast á heimili barnsins, miðað við aldur þess og þroska, og hvaða hugmyndir barnið hefur um að snúa aftur heim. Ef fóstur er varanlegt þarf að hjálpa barninu að festa rætur á fósturheimilinu en eiga jafnframt kynforeldra sína og fortíð sína með þeim. 

Stuðningur við kynforeldra

Ef fóstur er tímabundið og markmiðið að barnið fari aftur heim til kynforeldra er ein meginforsenda þess að vel til takist að foreldrarnir séu aðstoðaðir við að breyta þeim aðstæðum sem leiddu til þess að barnið fór í vistun eða þeir fái aðstoð til að takast á við vandamál barnsins á annan hátt. Takist sú vinna ekki er hætta á að barnið komi aftur í óbreyttar aðstæður og vandamálin haldi áfram. Þrátt fyrir alla þá röskun sem hefur orðið á lífi barnsins við að fara í fóstur. Því þarf foreldrum að vera ljóst hvað það er sem þeir þurfa að takast á við og breyta á meðan barnið er í fóstri. Einnig er mikilvægt að foreldrar séu boðaðir á samráðsfundi (teymisfundi) með starfsmönnum barnaverndar og fósturforeldrum þar sem tilgangur og markmið ráðstöfunarinnar eru yfirfarin og metin.

Það að horfa á eftir barni sínu í fóstur er flestum afar erfitt, hvort sem um er að ræða tímabundið eða varanlegt fóstur. Foreldrar líta auðveldlega á það sem merki um að þeim hafi mistekist og geta verið hræddir við fordæmingu samfélagsins. Ekki síst sakna þau barnanna sinna og tekur sárt að geta ekki fylgst með þeim í sínu daglega lífi; hvernig þau stækka, þroskast og takast á við lífið. Ástæða þess að barn fer í fóstur er ekki sú að foreldrum þyki ekki vænt um barnið. Í þeim tilvikum sem um forsjársviptingu er að ræða finnst foreldrum oft að þeir hafi verið beittir miklu órétti, reiðin getur beinst bæði að barnaverndarþjónustu og fósturforeldrum. Með hliðsjón af þessu er ljóst að það þarf að styðja foreldra vel á þessu tímabili. Með því að tryggja að þeir fái reglulegan stuðning, hvort heldur sem það er hjá starfsmanni barnaverndarþjónustu eða öðrum sérfræðingi, er hægt að hjálpa foreldrum að takast á við þær tilfinningar sem vakna. Þannig getur einnig skapast meiri sátt um ráðstöfunina og barnið getur þá notið umgengni betur. 

Stuðningur við fósturforeldra

Barnaverndarþjónustu ber að undirbúa fósturforeldra fyrir hlutverk sitt áður en barni er ráðstafað til þeirra í fóstur. Í því felst m.a. að veita fósturforeldrum viðtöl, upplýsingar um barnið, sögu þess og stöðu auk annars sem að gagni kann að koma. Fóstur er teymisvinna starfsmanna barnaverndarþjónustu, fósturforeldra, og eftir atvikum annarra aðila sem koma að umönnun eða stuðningi við barnið. Mikilvægt er að kynforeldrar séu hluti af teyminu í tímabundnu fóstri því markmiðið er að barnið fari heim aftur. Góður stuðningur við fósturforeldra þegar barn er komið á fósturheimilið er gífurlega mikilvægur og hefur mikil áhrif á hvort markmið fóstursins náist. Nauðsynlegt er að fósturforeldrar fái stuðning og handleiðslu við hlutverk sitt.

Hluti af stuðningi er upplýsingagjöf til fósturforeldra á meðan fóstri stendur. Sem hluti af eftirfylgni skal starfsmaður barnaverndar miðla til fósturforeldra eftirfarandi upplýsingum á meðan fóstri stendur: 

  • Hvernig ganga markmið fósturs. 

  • Hvernig gengur foreldrum með sín markmið. 

  • Hvernig gengur umgengni barns við foreldra. 

  • Er útlit fyrir að framlengja þurfi ráðstöfun barns eða ljúka henni fyrr en áætlað var. 

Þegar fóstur er orðið varanlegt þarf að hafa í huga að hér eru fósturforeldrar í raun ígildi foreldra. Upplýsa þarf fósturforeldra um hvernig gengur hjá meðferðaraðilum ef barnið er í einhvers konar meðferð, t.a.m. hjá sálfræðingi, í Barnahúsi eða á meðferðarheimili. Einnig um allar þær upplýsingar sem geta haft áhrif á líðan barns á fósturheimili, s.s. um stöðu dómsmáls þegar mál sem tengjast barni eru til meðferðar hjá dómstólum.

Handleiðsla við fósturforeldra

Til að markmið og árangur vistunar náist þarf að veita fósturforeldrum leiðbeiningar og fræðslu til að sinna hlutverki sínu sem skyldi.

Sú barnaverndarþjónusta sem ráðstafar barni í fóstur ber að veita fósturforeldrum stuðning og þá skal taka afstöðu til handleiðslu fyrir fósturforeldra sem gerð eru skil á í fóstursamningi. Þegar fósturvistun hefst og fóstursamningur liggur fyrir skal því vera búið að ákveða hver mun veita fósturforeldrum handleiðslu í hlutverki sínu, hvernig form verður á handleiðslu og í hvaða magni. Þá er miðað við að handleiðslan sé í því formi að stuðla að markmiði vistunar. Gott er að huga að því hverjar þarfir barnsins eru og finna fagaðila sem sérhæfir sig í þeirri þekkingu sem gagnast fósturforeldrum og að þeir fái viðeigandi fræðslu til að sinna hlutverki sínu gagnvart fósturbarninu.

Þó að gott samband sé á milli starfsmanns barnaverndarþjónustu og fósturforeldris getur verið gagn að því að hafa utanaðkomandi fagaðila til að sinna handleiðslu. Handleiðslan er ekki einungis leiðbeiningar og fræðsla fyrir fósturforeldra heldur gagnast þeim einnig sem úrvinnsla í því flókna hlutverki sem þau sinna. Starfsmaður barnaverndar skal finna viðeigandi fagaðila til að sinna handleiðslunni en óski fósturforeldrar eftir ákveðnum aðila skal barnaverndarþjónusta skoða það með hliðsjón af vinnslu málsins, hvort sá aðili sé best til þess fallinn að sinna þessu hlutverki. Sá fagaðili sem sinnir handleiðslunni skal vera með menntun og tilskilin réttindi. Fósturforeldrar geta valið að sækja sér handleiðslu á eigin kostnað hjá öðrum aðila en barnaverndarþjónustan er samþykk að greiða fyrir.

Sá fagaðili sem sinnir meðferð fósturbarns getur leiðbeint fósturforeldrum í hlutverki sínu út frá meðferð barnsins. Það er þó ekki æskilegt að sá aðili sinni einnig handleiðslu við fósturforeldra þar sem það getur komið niður á meðferðarsambandi fagaðilans og fósturbarnsins.