Fara beint í efnið

Prentað þann 15. jan. 2025

Brottfallin reglugerð felld brott 9. sept. 2022

1144/2008

Reglugerð um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnum ökutækjum sem flutt eru úr landi.

1. gr. Réttur til endurgreiðslu.

Tollstjóranum í Reykjavík er heimilt að endurgreiða eiganda áður skráðs vélknúins ökutækis vörugjald og virðisaukaskatt af því, enda hafi það verið afskráð og flutt úr landi og ástand þess sé í samræmi við eðlilega notkun og aldur að mati tollstjóra.

Réttur til endurgreiðslu tekur til vélknúinna ökutækja sem flutt eru úr landi frá og með gildistöku laga nr. 140/2008 um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og tekur til ökutækja sem hafa verið afhent farmflytjanda og tollafgreidd til útflutnings frá gildistöku laganna til og með 31. desember 2009.

Hafi eigandi ökutækis fengið virðisaukaskatt af því endurgreiddan í formi innskatts skapast ekki réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Hafi virðisaukaskattur fengist endurgreiddur sem innskattur að hluta til skal fjárhæð endurgreiðslu lækka hlutfallslega í samræmi við það.

Endurgreiðsluheimildin nær einungis til vélknúins ökutækis sem afskráð hefur verið af Umferðarstofu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja.

Réttur til endurgreiðslu fellur niður ef ökutæki hefur ekki verið skoðað af tollgæslu fyrir útflutning sbr. 1. tölul. 3. gr.

2. gr. Endurgreiðslufjárhæð.

Fjárhæð endurgreiðslu skal miða við vörugjald og virðisaukaskatt sem greiddur var við innflutning ökutækis samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, og reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. umferðarlög, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Fjárhæð endurgreiðslu skal lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina eftir nýskráningu ökutækisins og 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það til útflutningsdags þar til að 100% fyrningu er náð.

Samanlögð fjárhæð endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal þó ekki vera hærri en 2.000.000 kr. fyrir hvert ökutæki.

Hafi vörugjald eða virðisaukaskattur verið endurgreitt eða lækkað á viðkomandi ökutæki, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal fjárhæð endurgreiðslu lækkuð hlutfallslega til samræmis.

Kvöð sem hvílir á ökutæki um endurgreiðslu lækkaðs vörugjalds skv. reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, fellur niður ef skilyrðum endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari er fullnægt.

3. gr. Framkvæmd endurgreiðslu.

Eigandi ökutækis, eða annar sem til þess hefur skriflegt umboð, skal sækja um endurgreiðslu til embættis tollstjórans í Reykjavík á sérstöku eyðublaði sem hann lætur útbúa.

Skilyrði endurgreiðslu eru að öðru leyti:

  1. Að ökutækið hafi verið skoðað af tollgæslunni fyrir útflutning. Skal skoðun fara fram þegar ökutæki hefur verið afhent farmflytjanda til útflutnings.
  2. Skráningarnúmer ökutækis hafi verið afhent Umferðarstofu, ökutækið hafi verið afskráð til nota hér á landi og fyrir liggi upplýsingar þar að lútandi.
  3. Farmflytjandi hafi flutt ökutækið úr landi eða farmflytjanda verið afhent ökutækið til útflutnings og það tollafgreitt til útflutnings.
  4. Fyrir liggi að veðbönd eða aðrar kvaðir hvíli ekki á ökutæki sem hindra útflutning þess. Hvíli slíkar veðskuldir eða aðrar kvaðir á ökutækinu skal liggja fyrir samþykki kröfuhafa um útflutning ökutækisins.

Tollstjóra er heimilt að innheimta skoðunargjald vegna skoðunar á ökutækjum sem flutt eru úr landi samkvæmt reglugerð þessari. Skoðunargjald skal vera í beinu samræmi við kostnað við skoðun hvers ökutækis.

Við endurgreiðslu skal liggja fyrir útflutningsskýrsla ásamt fylgiskjölum. Ákvæði 30. gr. tollalaga, nr. 88/2005, gilda að öðru leyti um upplýsingaskyldu vegna endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari.

4. gr. Úrskurðarvald og kæruleiðir.

Rísi ágreiningur um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari skal kæra send tollstjóranum í Reykjavík. Um kæru og málsmeðferð fer eftir 117. og 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

5. gr. Gildistaka og gildistími.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. og 2. gr. laga nr. 140/2008 um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 17. desember 2008.

F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.

Ögmundur Hrafn Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.