Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 3. des. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 30. nóv. 2016 – 21. feb. 2018 Sjá núgildandi

1040/2016

Reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um úrgang.

Eftirtaldir viðaukar fylgja reglugerðinni:

I. viðauki: Skrá yfir úrgang,
II. viðauki: Eiginleikar úrgangs sem gera hann hættulegan,
III. viðauki: Förgunaraðgerðir,
IV. viðauki: Endurnýtingaraðgerðir.

2. gr. Skilgreiningar.

Fjölklóruð bífenýl og fjölklóruð terfenýl: PCB-efni eins og þau eru skilgreind í reglugerð nr. 739/2009, um hreinsun og förgun PCB og staðgengilsefna þess.

Hliðarmálmar: allir eftirtaldir málmar: öll efnasambönd skandíums, vanadíums, mangans, kóbalts, kopars, yttríums, níóbíums, hafníums, volframs, títans, króms, járns, nikkels, sinks, sirkons, mólýbdens og tantals sem og þessi efni í málmformi, að svo miklu leyti sem þessi efni eru flokkuð sem hættuleg efni.

Hættulegt efni: efni sem flokkast sem hættulegt vegna þess að það uppfyllir viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í 2. til 5. hluta I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1272/2008, sbr. reglugerð nr. 415/2014, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.

Storknun: ferli sem breyta aðeins eðlisástandi úrgangsins með notkun íblöndunarefna án þess að breyta efnafræðilegum eiginleikum úrgangsins.

Stöðgun: ferli sem breyta hættulegum eiginleikum efnisþátta í úrganginum og breyta hættulegum úrgangi í hættulausan úrgang.

Úrgangur, stöðgaður að hluta til: úrgangur sem inniheldur, eftir stöðgunarferlið, hættulega efnisþætti sem ekki hefur verið breytt að öllu leyti í hættulausa þætti og geta losnað út í umhverfið, hvort sem það gerist á stuttum eða löngum tíma.

Þungmálmur: öll efnasambönd antímons, arsens, kadmíums, króms (VI), kopars, blýs, kvikasilfurs, nikkels, selens, tellúrs, þallíums og tins sem og þessi efni í málmformi, að svo miklu leyti sem þessi efni eru flokkuð sem hættuleg efni.

3. gr. Mat og flokkun á hættulegum eiginleikum úrgangs.

  1. Mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.

    Við mat á hættulegum eiginleikum úrgangs gilda viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í II. viðauka. Að því er varðar hættuflokkana HP 4, HP 6 og HP 8 gilda þröskuldsgildi fyrir einstök efni, eins og fram kemur í II. viðauka. Ef efni er fyrir hendi í úrgangi í magni sem er undir þröskuldsgildi þess skal það ekki teljast með í neinum útreikningum á viðmiðunarmörkum. Ef hættulegur eiginleiki úrgangs hefur verið metinn með prófun og með því að nota styrk hættulegra efna, eins og fram kemur í II. viðauka, skulu niðurstöður prófunarinnar vega þyngra.

  2. Úrgangur flokkaður sem spilliefni.

    Allur úrgangur, sem er merktur með stjörnu (*) í skránni yfir úrgang, skal teljast spilliefni.

    Að því er varðar úrgang sem hægt er að úthluta úrgangskóða fyrir spilliefni eða hættulítinn úrgang gildir eftirfarandi:

    - Úrgangur telst spilliefni einungis ef úrgangurinn inniheldur viðkomandi hættuleg efni sem valda því að hann telst hafa einn eða fleiri af hættulegu eiginleikunum í HP 1 til HP 8 og/eða HP 10 til HP 15 eins og tilgreint er í II. viðauka. Mat á hættulegum eiginleika HP 9 "smitandi" skal unnið samkvæmt viðeigandi löggjöf eða tilvísunarskjölum.
    - Hægt er að meta hættulega eiginleika með því að nota styrk efna í úrganginum, eins og tilgreint er í II. viðauka eða, nema annað sé tilgreint í reglugerð (EB) nr. 1272/2008, sbr. reglugerð nr. 415/2014, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, með því að framkvæma prófun í samræmi við reglugerð (EB) nr. 440/2008, sbr. reglugerð nr. 496/2013 um prófunaraðferðir samkvæmt reglugerð nr. 750/2008, um skráningu, mat, leyfisveitingar og takmarkanir að því er varðar efni ("REACH"), eða aðrar alþjóðlega viðurkenndar prófunaraðferðir og leiðbeiningar, að teknu tilliti til 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008, að því er varðar prófanir á dýrum og mönnum.
    - Úrgangur sem inniheldur fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön (PCDD/PCDF), díklórdífenýltríklóretan (DDT) (1,1,1-tríklór-2,2-bis-(4-klórfenýl)etan), klórdan, hexaklórsýklóhexön (þ.m.t. lindan), díeldrín, endrín, heptaklór, hexaklórbensen, klórdekón, aldrín, pentaklórbensen, mírex, toxafenhexabrómbífenýl og/eða fjölklórað bífenýl (PCB) yfir styrkleikamörkunum sem fram koma í IV. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 850/2004, sbr. reglugerð nr. 954/2013 um þrávirk lífræn efni, skal flokkaður sem spilliefni.
    - Styrkleikamörkin sem eru skilgreind í II. viðauka gilda ekki um hreinar, gegnheilar málmblöndur (ekki mengaðar af hættulegum efnum). Þær málmblöndur sem teljast spilliefni eru sérstaklega taldar upp í I. viðauka og merktar með stjörnu (*).
    - Ef við á má taka tillit til eftirfarandi athugasemda, sem er að finna í VI. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1272/2008, sbr. reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, þegar hættulegir eiginleikar úrgangs eru ákvarðaðir:
    - 1.1.3.1. Athugasemdir um auðkenningu, flokkun og merkingu efna: Athugasemdir B, D, F, J, L, M, P, Q, R og U.
    - 1.1.3.2. Athugasemdir um flokkun og merkingu blandna: Athugasemdir 1, 2, 3 og 5.
    - Eftir að hættulegir eiginleikar úrgangs hafa verið metnir í samræmi við þessa aðferð skal úthluta viðeigandi færslu, "spilliefni eða hættulítill úrgangur", úr skránni yfir úrgang.

    Aðrar færslur í skránni yfir úrgang teljast ekki spilliefni.

4. gr. Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
  2. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1127 frá 10. júlí 2015, um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana.
  3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/532/EB frá 3. maí 2000, sem breytt var með ákvörðunum 2001/118/EB, 2001/119/EB, 2001/573/EB og 2014/955/ESB.
  4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1357/2014 frá 18. desember 2014, um að skipta út III. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipanna.

5. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í a. og f. liðum 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, tekur þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 184/2002, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, með síðari breytingum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 17. nóvember 2016.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.