Prentað þann 21. nóv. 2024
1031/2021
Reglugerð um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um heimildir stjórnmálasamtaka til aðgangs að kjörskrá, notkun hennar og eyðingu að lokinni notkun.
2. gr. Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá.
Þegar framlagning kjörskrár hefur verið auglýst, sbr. 26. gr. laga um kosningar til Alþingis og 9. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista við kosningar óskað eftir aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Kjósendum skal raðað á kjörskrá eftir kjördæmum eða sveitarfélögum.
Aðgangur að kjörskrá skal veittur án endurgjalds.
Þjóðskrá Íslands skal veita stjórnmálasamtökum aðgang að kjörskrá með öruggum hætti og eins og framast er unnt á því skráarformi sem óskað er. Skal fulltrúi stjórnmálasamtaka staðfesta móttöku gagnanna hjá Þjóðskrá Íslands.
Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá tekur ekki til merkinga við kjósendur í kjörskrá á kjördegi.
3. gr. Heimil not kjörskrárgagna.
Stjórnmálasamtökum er heimilt að nýta aðgang að kjörskrá með eftirfarandi hætti:
- í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga,
- til að sannreyna hverjir séu kjósendur og hvar þeir séu á kjörskrá,
- til að koma upplýsingum á framfæri við kjósendur í aðdraganda kosninga, þó að gættum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og annarra laga sem við eiga.
4. gr. Óheimil not kjörskrárgagna.
Stjórnmálasamtökum er óheimilt að birta kjörskrána opinberlega, í heild eða að hluta, og að miðla henni.
Óheimilt er að samkeyra kjörskrá við skrá sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar nema að gættum ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
5. gr. Vinnsla persónuupplýsinga.
Við vinnslu persónupplýsinga skulu stjórnmálasamtök uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
6. gr. Eyðing gagna.
Stjórnmálasamtökum ber að eyða kjörskrárgögnum og afritum sem þau hafa í sínum vörslum, í hvaða formi sem er, við fyrsta mögulega tækifæri eftir að notkun þeirra lýkur en þó eigi síðar en 21 dag eftir kjördag.
Stjórnmálasamtök skulu án tafar senda Þjóðskrá Íslands tilkynningu um eyðingu gagna skv. 1. mgr. þegar hún hefur farið fram.
7. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 29. gr. a laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sbr. 1. tölul. 15. gr. laga nr. 109/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, og tekur þegar gildi.
Dómsmálaráðuneytinu, 14. september 2021.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.