Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 12. apríl 2024

387/2022

Reglugerð um aðgang að og birtingu upplýsinga úr kjörskrá.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um birtingu upplýsinga úr kjörskrá og framlagningu hennar í sveitarstjórnarkosningum og um heimildir stjórnmálasamtaka til nýtingar kjörskrárgagna og meðferð þeirra á kjörskrá.

II. KAFLI Aðgangur að upplýsingum úr kjörskrám.

2. gr. Uppfletting í kjörskrá.

Þegar Þjóðskrá Íslands hefur auglýst gerð kjörskrár í samræmi við 1. mgr. 30. gr. kosningalaga skal opnað fyrir uppflettingu í henni á vef Þjóðskrár Íslands og á vef landskjörstjórnar. Með innslætti kennitölu kjósanda í kjörskrá skulu birtast upplýsingar um nafn, lögheimili, sveitarfélag og kjörstað kjósanda. Að loknum kjördegi skal loka fyrir uppflettingu í kjörskrá.

3. gr. Framlagning kjörskrár.

Kjörskrá sveitarfélags skal aðgengileg almenningi til skoðunar á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað, sem sveitarstjórn ákveður, eigi síðar en 21 degi fyrir kjördag. Sveitarstjórn skal auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt á hverjum stað þar sem venja er að birta opinberar auglýsingar. Eftir að kjörskrá hefur verið lögð fram skal hún liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags.

III. KAFLI Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá.

4. gr. Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá.

Þegar auglýst hefur verið að gerð kjörskrár sé lokið, sbr. 30. gr. kosningalaga, geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista við sveitarstjórnarkosningar óskað eftir aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Aðgangur að kjörskrá skal veittur án endurgjalds.

Þjóðskrá Íslands skal veita aðgang að kjörskrá með öruggum hætti og eins og framast er unnt á því skráarformi sem óskað er. Skal fulltrúi stjórnmálasamtaka staðfesta móttöku gagnanna hjá Þjóðskrá Íslands.

5. gr. Heimil not kjörskrár.

Heimilt er að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga, þó að gættum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og annarra laga sem við eiga.

6. gr. Óheimil not kjörskrárgagna.

Óheimilt er að birta kjörskrána opinberlega, í heild eða að hluta, og að miðla henni.

Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrá heimilar ekki merkingar við kjósendur í kjörskrá á kjördegi.

Óheimilt er að samkeyra kjörskrá við skrá sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar nema að gættum ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

7. gr. Eyðing gagna.

Afritum af kjörskrá og öðrum skrám eða afritum sem framboð hafa í sínum vörslum, í hvaða formi sem er, skal eytt með varanlegum hætti við fyrsta mögulega tækifæri eftir að notkun þeirra lýkur en þó eigi síðar en 21 degi eftir kjördag.

Stjórnmálasamtök skulu tilkynna Þjóðskrá Íslands um eyðingu gagna skv. 2. mgr. þegar hún hefur farið fram.

IV. KAFLI Önnur ákvæði.

8. gr. Meðferð og vinnsla persónuupplýsinga.

Við vinnslu og meðferð persónuupplýsinga skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga með hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

9. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 3. mgr. 30. gr. og 2. mgr. 31. gr. kosningalaga nr. 112/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, og tekur þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 1031/2021 um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá.

Dómsmálaráðuneytinu, 31. mars 2022.

F. h. r.

Haukur Guðmundsson.

Hjördís Stefánsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.