Fara beint í efnið

Prentað þann 15. jan. 2025

Stofnreglugerð

866/2020

Reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, samhæfingar- og eftirlitsstjórnvöld í skilningi laga nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Reglugerðin gildir um net- og upplýsingakerfi sem eru undirstaða fyrir veitingu þjónustu sem skilgreind er nauðsynleg fyrir viðhald mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi samkvæmt ákvæðum II. kafla á sviði bankastarfsemi og innviða fjármálamarkaða, flutninga, heilbrigðisþjónustu, orku-, hita- og vatnsveitna, svo og stafrænna grunnvirkja.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja með sem bestum hætti samfellda virkni og áfallaþol nauðsynlegrar þjónustu með því að kveða nánar á um lágmarkskröfur til umgjarðar net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, ekki síst í þágu almannahagsmuna. Enn fremur að tryggja samhæfð viðbrögð við ógnum og atvikum í net- og upplýsingakerfum sem eru undirstaða fyrir veitingu nauðsynlegrar þjónustu.

Reglugerð þessari er einnig ætlað að stuðla að samræmi í eftirfylgni og framkvæmd eftirlits með net- og upplýsingakerfum mikilvægra innviða.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Atburður: Óviðbúin staða, óþekkt eða þekkt, sem getur skipt máli fyrir öryggi net- og upplýsingakerfa eða skert þjónustu mikilvægs innviðar.
  2. Atvik: Hver sá atburður sem hefur skaðleg áhrif á öryggi net- og upplýsingakerfa.
  3. Áhætta: Aðstæður eða atburðir sem gætu haft skaðleg áhrif á öryggi net- og upplýsingakerfa.
  4. Eignir: Hvaðeina, bæði efnislegt og óefnislegt, sem er einhvers virði fyrir starfsemi mikilvægra innviða.
  5. Mikilvægir innviðir: Rekstraraðilar nauðsynlegrar þjónustu og veitendur stafrænnar þjónustu eins og þeir eru skilgreindir í lögum nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, og reglugerð þessari.
  6. Nauðsynleg þjónusta: Þjónusta sem skilgreind er nauðsynleg fyrir viðhald mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi samkvæmt ákvæðum II. kafla á sviði bankastarfsemi og innviða fjármálamarkaða, flutninga, heilbrigðisþjónustu, orku-, hita- og vatnsveitna, svo og stafrænna grunnvirkja.
  7. Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu: Opinber aðili eða einkaaðili sem veitir þjónustu sem telst nauðsynleg samkvæmt ákvæðum II. kafla á sviði bankastarfsemi, innviða fjármálamarkaða, flutninga, heilbrigðisþjónustu, orku-, hita- og vatnsveitna, svo og stafrænna grunnvirkja.
  8. Stjórnunarkerfi: Fyrirkomulag skipulagslegra og tæknilegra ráðstafana sem notast er við til að tryggja öryggi net- og upplýsingakerfa.
  9. Umferðartakmarkanir: Stýringar á takmörkun á umferð í og úr kerfum til að tryggja öryggi gegn ógnum.
  10. Veitandi stafrænnar þjónustu: Veitandi stafrænnar þjónustu í skilningi laga nr. 78/2019, sem starfrækir netmarkað, leitarvél á netinu eða skýjavinnsluþjónustu og telst ekki til örfélaga í skilningi laga um ársreikninga.

Að öðru leyti gilda orðskýringar í lögum nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

II. KAFLI Þjónusta sem teljast skal nauðsynleg fyrir viðhald mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi.

4. gr. Þjónusta á sviði bankastarfsemi.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði banka er átt við þann hluta þjónustu lánastofnunar sem snýr að greiðsluþjónustu, skv. 4. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Þá er það einnig skilyrði að veitandi þjónustunnar sé jafnframt kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki samkvæmt ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands.

5. gr. Þjónusta á sviði innviða fjármálamarkaða.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði innviða fjármálamarkaða er átt við rekstraraðila skipulegra verðbréfamarkaða og markaðstorgs fjármálagerninga samkvæmt skilgreiningu laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og miðlæga mótaðila samkvæmt skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 648/2012, sem lögfest er með lögum nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.

6. gr. Þjónusta á sviði flutninga.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði flutninga er átt við:

  1. veitingu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar;
  2. rekstur alþjóðaflugvalla;
  3. þjónustu flutningsaðila með flugrekstrarleyfi útgefið hér á landi sem flytur fleiri en 25% flugfarþega til og frá landinu á ári;
  4. þjónustu flutningsaðila með flugrekstrarleyfi útgefið hér á landi sem flytur meira en 25% af flugfrakt til og frá landinu á ári;
  5. veitingu upplýsingaþjónustu vegna siglinga;
  6. þjónustu útgerðarfélaga samkvæmt skilgreiningu í viðauka I við reglugerð (EB) nr. 725/2004 um að efla vernd skipa og hafnaraðstöðu sem sjá um flutning meira en 25% af sjóflutningum til og frá landinu, sé útgerðarfélag skráð hér á landi. Ekki fellur hér undir innflutningur á olíu, né hrávöru til framleiðslu í stóriðju;
  7. þjónustu í tengslum við lestun og losun farms á milli hafnar og flutningsaðila, sbr. f-lið, þar sem farmflutningar eru umfram 25% af öllum sjóflutningum til og frá landinu að undanskildum flutningum á olíuvörum og hrávöru til stóriðju;
  8. veitingu upplýsingaþjónustu vegna umferðar á vegum;
  9. móttöku neyðarboða vegna umferðar á vegum.

Telji aðilar sem vísað er til í c-, d-, f- og g-liðum 1. mgr. sig ekki falla undir ákvæði reglugerðar þessarar þar sem umfang þjónustu þeirra á ári sé undir þeim mörkum sem kveðið er á um, skulu þeir að kröfu Samgöngustofu sýna fram á að svo sé.

7. gr. Heilbrigðisþjónusta.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu er átt við:

  1. bráða- og slysamóttöku;
  2. heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu;
  3. heilbrigðisstofnanir og starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna með sjúkrarýmum;
  4. heimahjúkrun;
  5. sjúkraflutninga;
  6. lyfjabúðir þar sem að minnsta kosti 27.500 lyfjaávísanir eru afgreiddar á ári;
  7. lyfjabúðir utan höfuðborgarsvæðisins þar sem að minnsta kosti 10.000 lyfjaávísanir eru afgreiddar á ári;
  8. lyfjabúðir og lyfsölur sem einar þjóna tilteknum byggðarlögum og
  9. lyfjaheildsölur (birgðastöðvar fyrir lyf);

sem falla undir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lyfjalög nr. 100/2020 sem taka gildi 1. janúar 2021 og lyfjalög nr. 93/1994 fram að þeim tíma.

8. gr. Þjónusta á sviði orku- og hitaveitna.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði orku- og hitaveitna er átt við:

  1. rekstraraðila olíuframleiðslu, olíuflutninga, olíuflutningsleiðslna eða olíubirgðastöðva sem framleiðir, flytur eða geymir að lágmarki 100.000 tonn af olíu árlega;
  2. flutningsfyrirtæki á raforku sem hefur fengið leyfi til reksturs flutningsfyrirtækisins samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003;
  3. dreifiveitu raforku sem starfar á grundvelli sérleyfis samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 og nær til raforkunotenda, 1.000 eða fleiri;
  4. vinnslufyrirtæki sem hefur í rekstri raforkuvirkjun með uppsett afl 50 MW eða meira, í tilfelli vindorkulunda er miðað við 80 MW eða meira;
  5. aðila sem eiga viðskipti með raforku og hafa fengið raforkusöluleyfi í samræmi við 18. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og fjöldi notenda fer yfir 1.000;
  6. hitaveitu sem starfar á grundvelli einkaleyfis skv. orkulögum nr. 58/1967 og þjónustar 1.000 notendur eða fleiri.

9. gr. Þjónusta á sviði vatnsveitna.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði vatnsveitna er átt við birgja og dreifingaraðila neysluvatns sem þjónusta 5.000 notendur eða fleiri.

10. gr. Þjónusta á sviði stafrænna grunnvirkja.

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði stafrænna grunnvirkja er átt við:

  1. rekstraraðila tengi- og skiptipunkta þar sem árleg markaðshlutdeild hér á landi er 50% eða meiri og ekki er til staðar fullnægjandi staðganga fyrir þá þjónustu sem veitt er;
  2. rekstraraðila lénsheitakerfa ef sami rekstraraðili rekur:

    1. nafnaþjóna (e. resolvers) sem fá samtals að meðaltali yfir 8.000.000 fyrirspurnir á hverjum sólarhring síðasta almanaksár; eða
    2. sannvottunar nafnaþjóna (e. authoritative name servers) sem geyma grunnupplýsingar um vistfang í IP-samskiptareglunum fyrir samtals yfir 1.200 lénsheiti (e. domain) í lok hvers árs;
  3. rekstraraðila sem sinnir skráningu landshöfuðléna ásamt nafnaþjónustu fyrir þau.

III. KAFLI Lágmarkskröfur um áhættustýringu og ráðstafanir.

11. gr. Skipulag net- og upplýsingaöryggis.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal eftir fremsta megni tryggja öryggi þeirra net- og upplýsingakerfa sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar. Honum ber að útbúa og viðhalda skjalfestri lýsingu á stjórnskipulagi og stjórnunarkerfi net- og upplýsingakerfa sinna og skal jafnframt, með skipulegu áhættumati, bera kennsl á nauðsynlegar ráðstafanir og viðhafa aðgerðir til að stýra og stjórna net- og upplýsingakerfum með tilliti til áhættu. Skilgreina skal með skýrum hætti hlutverk og ábyrgð stjórnenda og starfsmanna, svo og ytri aðila ef við á, sem bera ábyrgð á framkvæmd áhættumats og skipulagi net- og upplýsingaöryggis.

Við framkvæmd áhættustýringar og viðbúnaðar í starfsemi sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar, skal rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu byggja á gildandi alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um bestu framkvæmd á sviði net- og upplýsingaöryggis. Það á bæði við um almenna staðla á borð við ISO/IEC 27001 (Stjórnunarkerfi um upplýsingaöryggi), ISO/IEC 27002 (Starfsvenjur fyrir upplýsingaöryggisstýringar), ISO/IEC 27005 (Áhættustýring upplýsingaöryggis) og aðra sértæka staðla og reglur á hlutaðeigandi sviði.

IV. KAFLI Skipulagslegar ráðstafanir.

12. gr. Öryggisstefna.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal útbúa og viðhalda skriflegri öryggisstefnu. Í stefnunni skal tilgreina stefnuyfirlýsingu, markmið og meginreglur net- og upplýsingaöryggis og hvernig öryggi net- og upplýsingakerfa er best tryggt í starfsemi hans. Stefnan skal samþykkt með formlegum hætti af yfirstjórn og birt öllum starfsmönnum. Skal hún sérstaklega kynnt starfsmönnum sem vinna með beinum eða óbeinum hætti við net- og upplýsingakerfi. Þá skal vera skýrt í skipulagi rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu hver ber ábyrgð á framkvæmd öryggismála. Öryggisstefnu skal rýna og uppfæra eftir því sem tilefni er til og að lágmarki á tveggja ára fresti.

13. gr. Áhættumat.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal framkvæma áhættumat á net- og upplýsingakerfum sínum á grundvelli viðurkenndrar og þekktrar aðferðarfræði, með það að markmiði að skapa forsendur fyrir vali á öryggisráðstöfunum og draga úr áhættu sem steðjað getur að öryggi net- og upplýsingakerfa hans. Áhættumat skal vera skriflegt. Það skal framkvæmt reglubundið og aðferðarfræði þess endurmetin, hvort tveggja á a.m.k. tveggja ára fresti. Ávallt skal leggja mat á hvort atvik eða áhætta í net- og upplýsingakerfum gefi tilefni til endurskoðunar á áhættumati og bregðast strax við ef forsendur áhættumats eða aðstæður breytast sem kalla á slíkt endurmat.

Framkvæmd áhættumats samkvæmt 1. mgr. skal að lágmarki ná yfir eftirfarandi atriði:

  1. Bera skal kennsl á áhættu, með því að greina umfang og áhrif ógna, sem og mat á líkindum þeirra. Áhættu skal forgangsraðað í ljósi skilgreindra og skriflegra viðmiða um ásættanlega áhættu og markmiða sem sett hafa verið í öryggisstefnu.
  2. Eignir skulu skilgreindar og metnar, s.s. með tilliti til þess hverjir eru helstu veikleikar og/eða ógnir sem steðjað geta að eigninni, þar á meðal rýrnun trausts.
  3. Ef við á skal mat lagt á að hvaða marki veiting þjónustu er háð afhendingu á vöru eða þjónustu frá þriðju aðilum (s.s. birgjum eða þjónustuveitendum), þ.m.t. öðrum mikilvægum innviðum, svo og möguleg áhrif ef rof verður á slíkri afhendingu.
  4. Ef við á skal mat lagt á það hvernig net‑ og upplýsingakerfi eða undirliggjandi búnaður eru háð kerfum þriðju aðila, þ.m.t. annarra mikilvægra innviða. Hér skal einnig líta til þess hvort, og þá hvernig, röskun á starfsemi kerfa þriðju aðila kann að hafa áhrif á starfsemi net‑ og upplýsingakerfa við veitingu nauðsynlegrar þjónustu.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal að auki, að beiðni eftirlitsstjórnvalds, framkvæma sértækt áhættumat á einstökum hlutum net- og upplýsingakerfa, sérstakri áhættu sem getur steðjað að kerfunum sem og vegna útvistunar á rekstri þeirra. Skal hann, eftir atvikum, setja sér sértækar öryggisráðstafanir á grundvelli niðurstöðu slíks mats, sbr. 14. gr.

14. gr. Öryggisráðstafanir.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal, á grundvelli niðurstöðu áhættumats, innleiða öryggisráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi net- og upplýsingakerfa og koma til móts við greinda áhættu sem steðjað getur að hlutaðeigandi eignum og nauðsynlegri þjónustu, takmarka líkur á henni og áhrifum sem hún getur haft. Öryggisráðstafanir skulu taka mið af alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd sem og þeirri reynslu og lærdómi sem aflað hefur verið, til dæmis við beitingu fyrri öryggisráðstafana og meðhöndlun atvika og áhættu. Öryggisráðstafanir rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu skulu þó að lágmarki vera í samræmi við kröfur III.-V. kafla.

Setja skal fram skriflegar lýsingar á þeim öryggisráðstöfum sem gripið er til samkvæmt 1. mgr. sem og útfærslu þeirra og innleiðingu, þar á meðal við hönnun, þróun, rekstur, prófun og viðhald hvers kerfis sem og raunlæga vernd öryggisrýma, sbr. 19. gr. Skriflegar leiðbeiningar skulu vera til staðar fyrir einstaka ferla sem nauðsynlegir eru fyrir öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu.

Öryggisráðstafanir skulu endurskoðaðar reglubundið í samræmi við endurskoðun, framkvæmd og niðurstöður áhættumats og að minnsta kosti á tveggja ára fresti. Ávallt ber að endurskoða öryggisráðstafanir þegar atvik eða áhætta kemur upp eða aðstæður breytast sem kalla á endurmat.

15. gr. Öryggisráðstafanir vegna starfsmanna.

Í þeim tilgangi að fyrirbyggja og takmarka tjón vegna mistaka, svika og annarrar misnotkunar starfsmanna og þriðju aðila, svo sem verktaka, sem vegna starfa sinna hafa aðgang að net- og upplýsingakerfum eða hýsingarrýmum kerfisbúnaðar (öryggisrýmum), skal rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustur grípa til eftirfarandi öryggisráðstafana:

  1. Leggja mat á hvort viðeigandi sé að afla sakavottorðs og, eftir því sem við getur átt, annarrar öryggisvottunar umsækjanda áður en starf er veitt eða gengið er til samninga við þriðju aðila. Við slíkt mat skal líta til ábyrgðar sem starfi eða verkefni fylgir.
  2. Láta starfsmenn og þriðju aðila undirrita trúnaðaryfirlýsingar.
  3. Skilgreina ábyrgð og skyldur starfsmanna og þriðju aðila í tengslum við öryggi net- og upplýsingakerfa og framkvæmd verkferla.
  4. Skilgreina hvaða starfsmenn eða þriðju aðilar eru í lykilhlutverki við að tryggja öryggi net- og upplýsingakerfa og tryggja virkar boðleiðir, þannig að þess sé ávallt gætt að hægt sé að ná í þá eða varamenn þeirra í neyð.
  5. Fræða og eftir atvikum prófa þekkingu starfsmanna og þriðju aðila á þeim lögum og reglum sem gilda um öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu. Einnig skal tryggja að starfsmönnum og þriðju aðilum sé með reglubundnum hætti gerð grein fyrir starfsskyldum sínum og þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér að brjóta þær.

16. gr. Útvistun á rekstri net- og upplýsingakerfa.

Ef rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu semur við þriðju aðila um rekstur net- og upplýsingakerfa, í heild eða að hluta, skal hann tryggja að þjónustuveitandi þekki og starfi í samræmi við lög nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, og uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar.

Þjónustusamningur um rekstur net- og upplýsingakerfa skal vera skriflegur og afmarka á skýran hátt hlutverk og skyldur aðila. Þar skal tilgreina með skýrum hætti þá þjónustu sem rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu er veitt, svo og þau kerfi og búnað sem notaður er vegna veitingar nauðsynlegrar þjónustu.

Rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu er heimilt, ef þörf þykir, að fela þjónustuveitanda á grundvelli þjónustusamnings að tilkynna um alvarleg atvik eða áhættu samkvæmt 25. gr. er varðar þann hluta reksturs net- og upplýsingakerfa sem hann sinnir.

Í þjónustusamningi skal tryggja að eftirlitsstjórnvald hafi aðgang að viðeigandi upplýsingum frá þjónustuveitanda og geti við framkvæmd eftirlits á grundvelli laga nr. 78/2019 og reglugerðar þessarar gert athuganir á starfsstöð þjónustuveitandans og prófanir á kerfum hans og búnaði sem tilgreind eru í þjónustusamningi.

Þrátt fyrir útvistun samkvæmt ákvæði þessu, er ábyrgð á uppfyllingu lágmarkskrafna laga nr. 78/2019 og reglugerðar þessarar um áhættustýringu og viðbúnað, þar með talin ábyrgð á því að tilkynningarskyldu sé fullnægt, þess rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu sem í hlut á.

V. KAFLI Tæknilegar ráðstafanir.

17. gr. Almennt.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal, í samræmi við niðurstöður áhættumats, gera þær tæknilegu öryggisráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja með sem bestum hætti öryggi net- og upplýsingakerfa hans.

Auk þeirra ráðstafana sem rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu innleiðir á grundvelli niðurstöðu áhættumats skal hann jafnframt að lágmarki viðhafa þær ráðstafanir sem kveðið er á um í þessum kafla, kerfislægar og raunlægar.

18. gr. Kerfislægar ráðstafanir.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal að lágmarki viðhafa eftirtaldar kerfislægar ráðstafanir fyrir net- og upplýsingakerfi sín:

  1. Kerfislægar aðgangsstýringar:

    1. Innleiða viðeigandi aðgangsstýringarkerfi til sannvottunar á notendum og kerfum.
    2. Takmarka aðgangsréttindi starfsmanna og verktaka að upplýsingum og kerfum/kerfishlutum við það sem þeim er nauðsynlegt til að sinna starfi sínu og við þann tíma sem nauðsynlegur er.
    3. Skrá með formlegum hætti veitingu aðgangsheimilda og aðgangsréttinda og yfirfara aðgangsréttindi reglulega.
    4. Viðhafa ráðstafanir sem tryggja viðeigandi rekjanleika uppflettinga og vinnsluaðgerða.
  2. Nota dulritun og/eða aðrar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga í net- og upplýsingakerfum.
  3. Setja viðeigandi umferðartakmarkanir í net- og upplýsingakerfum.
  4. Lágmarka virkni, tengingar og aðgang milli kerfishluta með því að skilgreina kröfur um samskipankerfis (e. system configuration). Tilgangurinn er sá að uppsetning þjónustu eða annarrar virkni í net- og upplýsingakerfum, eða tenging slíks kerfis við búnað, takmarkist við þætti sem eru nauðsynlegir fyrir starfsemi og öryggi net- og upplýsingakerfa.
  5. Aðgreina milli kerfishluta eins og kostur er til að takmarka dreifingu/útbreiðslu atvika innan og á milli net- og upplýsingakerfa.
  6. Setja upp búnað sem vaktar umferð í net- og upplýsingakerfum og greinir t.a.m. ummerki um atvik eða áhættu, s.s. óeðlilegan aðgang, árásir, spillikóða og aðrar hættulegar aðstæður. Meta skal sérstaklega hvort setja eigi upp innbrotsvarnir (e. intrusion prevention) þar sem þörf er á sterkum vörnum fyrir gögn og vinnslur.
  7. Viðhalda órofinni viðeigandi slóð sönnunargagna sem nýst gætu við greiningu atvika og áhættu. Skilgreina skal fyrir fram skráningu í búnaði og vinnslum innan kerfa þannig að mikilvægir atburðir komi með skýrum hætti fram í eftirlitskerfum.
  8. Vakta öryggisuppfærslur fyrir net- og upplýsingakerfi og innleiða allar nauðsynlegar uppfærslur eins fljótt og mögulegt er.

19. gr. Raunlægar ráðstafanir.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal að lágmarki viðhafa eftirfarandi raunlægar ráðstafanir fyrir net- og upplýsingakerfi sín:

  1. Raunlæg aðgangsstýring:

    1. Hindra óleyfilegan aðgang að öryggisrýmum með traustum hurðum og læsingum. Leitast skal við að hafa öryggisrými gluggalaus eða glugga varða sérstaklega gegn innbrotum og þannig að byrgi ásýnd inn í rýmin.
    2. Stýra aðgengi starfsmanna og þriðju aðila að öryggisrýmum með aðgangskorti eða sambærilegu auðkenni og skal rekjanleiki tryggður. Takmarka skal aðgang inn í mikilvæg öryggisrými við nauðsynlega aðila. Verktakar og aðrir ytri aðilar sem hafa ekki aðgangsheimild að öryggisrýmum skulu ávallt vera undir eftirliti inni í þeim.
  2. Raunlægar varnir öryggisrýma:

    1. Tryggja ber að byggingarefni öryggisrýma og annar frágangur byggingar sé úr eldtefjandi efni sem ver öryggisrýmin fyrir eldsvoða utan þeirra í að lágmarki eina klukkustund. Öll gegntök skulu vera reykþétt og eldvarin.
    2. Verja skal mikilvæg öryggisrými fyrir raka- og vökvaskemmdum. Setja lekapönnur undir vökvalagnir kerfa sem eru með takmörkuðu magni vökva, til dæmis kælikerfi, og tryggja að ekki séu vatns- og hitaveitulagnir í gegnum öryggisrýmin.
    3. Haga skal frágangi virks búnaðar og leiðslna þannig að hann verði ekki fyrir skaða ef vökvi lekur inn í öryggisrýmin, t.d. með því að lyfta búnaði í ákveðna hæð frá gólfi.
    4. Öryggisrými skulu alla jafna vera útbúin sjálfvirku slökkvikerfi.
    5. Haga skal frágangi öryggisrýma þannig að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar gagnvart innbrotum og skemmdarverkum.
  3. Vöktun öryggisrýma:

    1. Öryggisrými skulu útbúin sjálfvirkum vaktbúnaði sem tengist stjórnstöð og gefur viðvörun um eld og ef umhverfisaðstæður breytast umfram það sem búnaðurinn er gerður fyrir og að lágmarki vegna raka, vökvaleka og hita. Þá skal hitastig við virkan búnað jafnframt vaktað sérstaklega.
    2. Setja upp sjálfvirkt innbrotsviðvörunarkerfi með myndavélum og innbrotsskynjurum þar sem það á við, í og við öryggisrými.
  4. Varnir gegn straumrofi fyrir net- og upplýsingakerfi:

    1. Tryggja skal varaafl sem getur að lágmarki haldið uppi óbreyttri virkni net- og upplýsingakerfa í samræmi við uppitímaviðmið þjónustu á grundvelli niðurstöðu áhættumats, en þó eigi skemur en í 2 klst.
    2. Verja skal mikilvægan búnað í öruggum rýmum sérstaklega fyrir rofi í raffæðingu og öðrum skammtíma truflunum í rafveitu, t.d. með órofaaflgjafa.
    3. Auk þess skal meta sérstaklega hvort verja skuli net- og upplýsingakerfi sem eru undirstaða fyrir veitingu nauðsynlegrar þjónustu gegn langtíma straumrofi með sérstakri vararafstöð sem getur haldið kerfum gangandi um lengri tíma.

VI. KAFLI Viðhald, viðbragðsáætlun, innra eftirlit og atvikatilkynningar.

20. gr. Viðhald net- og upplýsingakerfa.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal viðhalda áreiðanlegum rekstri net- og upplýsingakerfa sinna, t.a.m. með virkri endurnýjun búnaðar og uppfærslu hugbúnaðar.

Þá skal rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu hafa virka viðbúnaðarumgjörð fyrir net- og upplýsingakerfi sín og tryggja að kerfi séu reist við eins fljótt og kostur er komi til atviks og/eða þjónusturofs. Tryggja skal að til staðar séu afrit af síðustu stillingum búnaðar sem nauðsynlegur er til að viðhalda og reisa við rekstur net- og upplýsingakerfa. Afritunargögnin skulu vistuð á öruggum stað.

Á grundvelli bilana- og truflanaskýrslna eða tilkynninga frá búnaði, skal rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu, á hvaða tíma sólarhringsins sem er, hafa getu til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bregðast við atvikum sem valda mikilli truflun eða rofi á þjónustu. Meiri háttar röskun á nauðsynlegri þjónustu skal svo fljótt sem verða má tilkynna um í samræmi við 25. gr. til að tryggja netöryggissveit sem réttasta stöðumynd vegna netógna sem gæti þurft að bregðast við.

21. gr. Stjórnun breytinga í net- og upplýsingakerfum.

Breytingar á net- og upplýsingakerfum rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, eða endurnýjun þeirra, skal framkvæma þannig að þær trufli sem minnst starfsemi hans. Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal setja verklagsreglur um hvernig standa skal að slíkum breytingum sem og hvernig tryggja megi sem minnsta röskun á þjónustu hans.

22. gr. Viðbragðsáætlun.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal útbúa viðbragðsáætlun sem virkja ber ef upp kemur atvik eða áhætta í net- og upplýsingakerfum hans. Viðbragðsáætlunin skal byggja á niðurstöðum áhættumats og m.a. taka mið af því hvernig leysa á úr mögulegum atvikum, hvernig tryggja beri samfelldan rekstur og/eða endurreisn net- og upplýsingakerfa, svo og að takmarka tjón. Í viðbragðsáætlun skal að lágmarki kveða á um eftirfarandi atriði:

  1. Aðila sem ber ábyrgð á því að virkja viðbragðsáætlun þegar við á og aðra lykilstarfsmenn.
  2. Verkferla við reglulega prófun viðbragðsáætlana.
  3. Hvernig leita skal orsaka atvika og koma aftur á eðlilegu rekstrarástandi.
  4. Leiðbeiningar um hvernig bregðast skal við atvikum og áhættu, þar á meðal skilgreina ábyrgðarsvið viðeigandi starfsmanna og boðleiðir, s.s. nauðsynlegar upplýsingar til að ná í viðgerðarmenn eða aðra sérfræðinga, upplýsingar um varabúnað, skipulag tilkynninga og annars sem við á.
  5. Hvernig skuli tryggja heildstæða skráningu og greiningu atvika og þeirra ráðstafana sem gripið er til svo unnt sé að byggja á og læra af fyrri reynslu.

Viðbragðsáætlun skal metin og prófuð með reglulegu millibili, þ. á m. með æfingum.

23. gr. Innra eftirlit og prófanir.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal viðhafa virkt innra eftirlit til að tryggja að umgjörð áhættustýringar og viðbúnaðar í starfsemi hans uppfylli kröfur laga nr. 78/2019 og reglugerðar þessarar, þar á meðal með prófunum.

Gerð skal áætlun um framkvæmd kerfisbundins innra eftirlits samkvæmt fyrir fram skilgreindri aðferð. Prófanir geta meðal annars falið í sér úttektir á virkni tæknilegra öryggisráðstafana skv. V. kafla og viðbragðsáætlun, sbr. 22. gr.

Tíðni og umfang innra eftirlits skal ákveðið út frá öryggislegum markmiðum m.a. með hliðsjón af niðurstöðu áhættumats sem framkvæmt er skv. 13. gr. Innra eftirlit skal þó framkvæmt eigi sjaldnar en árlega.

Niðurstöður úttektar samkvæmt kröfum um innra eftirlit skulu skrásettar og vera aðgengilegar hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi.

24. gr. Meðhöndlun atvika.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal halda skrá yfir öll atvik og áhættu sem upp koma í eða steðja að net- og upplýsingakerfum hans. Atvikaskrá skal uppfærð reglulega og atvik og áhætta skráð á grundvelli skýrra verkferla.

Þá skal greina orsök og afleiðingu atvika og áhættu, draga lærdóm af því og gera nauðsynlegar úrbætur svo unnt sé að koma í veg fyrir að sambærileg atvik eða áhætta endurtaki sig. Niðurstöður greininga og úrbætur skal skjalfesta.

Við endurskoðun áhættumats skv. 13. gr. skal taka mið af atvikaskráningu og -greiningu samkvæmt ákvæði þessu.

25. gr. Tilkynning um atvik eða áhættu.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal tilkynna netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar um öll alvarleg atvik og áhættu sem ógna öryggi net- og upplýsingakerfa hans.

Skal tilkynning berast í gegnum tilkynningagátt stjórnvalda, með tölvupósti á tölvupóstfang netöryggissveitarinnar eða, eftir atvikum, símleiðis. Netöryggissveit skal gefa út nánari leiðbeiningar um boðleiðir samkvæmt ákvæði þessu.

Við mat á því hvort að atvik eða áhætta teljist alvarleg skal, auk viðmiða samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 78/2019, litið til þess hvort að atvik eða áhætta:

  1. hefur eða líklegt þykir að muni valda þjónusturofi eða ósamfellu í veitingu nauðsynlegrar þjónustu;
  2. raskar eða líklegt þykir að muni raska öryggi og/eða virkni net- og upplýsingakerfa sem eru grundvöllur fyrir veitingu nauðsynlegrar þjónustu;
  3. hefur eða líklegt þykir að muni hafa áhrif yfir landamæri;
  4. hefur eða líklegt þykir að muni hafa áhrif á veitingu þjónustu annarra mikilvægra innviða, þar á meðal vegna viðhalds.

Netöryggissveitin skal gefa út nánari leiðbeiningar um mat á alvarleika atvika og áhættu samkvæmt 3. mgr. og skal rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu, eftir fremsta megni, taka mið af þeim við mat á því hvort tilkynna beri um atvik eða áhættu til sveitarinnar.

Tilkynning til netöryggissveitarinnar samkvæmt 1. mgr. skal berast eins fljótt og verða má og eigi síðar en 6 klukkustundum eftir að borin hafa verið kennsl á atvik eða áhættu í kerfum rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu. Í tilkynningu skal m.a. veita eftirfarandi upplýsingar:

  1. hvenær atviks eða áhættu varð fyrst vart í net- og upplýsingakerfum;
  2. frummat á eðli og/eða tegund atviks eða áhættu í net- og upplýsingakerfum;
  3. frummat á umfangi atviks eða áhættu;
  4. frummat á mögulegum smitáhrifum;
  5. hver sé rekstraraðili umræddra net- og upplýsingakerfa, t.a.m. ef rekstri þeirra er útvistað.

Liggi ekki allar upplýsingar fyrir við framangreind tímamörk ber rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu að fylgja upprunalegri tilkynningu um atvik eða áhættu eftir með frekari samskiptum við netöryggissveit, eins fljótt og verða má.

Netöryggissveitin skal miðla tilkynningum samkvæmt ákvæði þessu til þess eftirlitsstjórnvalds sem fer með eftirlit gagnvart hlutaðeigandi rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu eins fljótt og verða má. Þá skal netöryggissveit upplýsa önnur stjórnvöld, eftir því sem við á, enda sé atvik eða áhætta af þeim toga að haft getur alvarleg áhrif á veitingu þjónustu af hálfu annarra mikilvægra innviða.

26. gr. Tilkynningar til viðskiptavina.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal vera með skýra og skilvirka ferla vegna tilkynninga um ósamfellu í virkni eða þjónusturof, svo sem af völdum atviks, bilana, breytinga eða viðhalds. Á heimasíðu hans, eða með öðrum sambærilegum leiðum, skal tilgreina almenn þjónustuviðmið, svo sem um þjónustustig og reglubundið viðhald.

Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal án ónauðsynlegrar tafar tilkynna viðskiptavinum um truflanir eða þjónusturof. Í tilkynningu skal að lágmarki koma fram eftir því sem ljóst er hvaða áhrif truflunin eða þjónusturofið hefur eða getur haft og þær ráðstafanir sem rekstraraðilinn muni grípa til, ásamt ráðleggingum til viðskiptamanna ef svo ber undir. Sé rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu viðskiptavinur annars mikilvægs innviðar skal tilkynna honum slíkt sérstaklega.

VII. KAFLI Eftirlit, samræmi og viðurlög.

27. gr. Stefna eftirlitsstjórnvalda.

Eftirlitsstjórnvöld, hvert á sínu sviði, hafa eftirlit með að rekstraraðilar nauðsynlegrar þjónustu uppfylli lágmarkskröfur laga nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, um áhættustýringu og viðbúnað sem nánar eru útfærðar í reglugerð þessari.

Eftirlitsstjórnvald skal setja sér stefnu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits samkvæmt 1. mgr. Henni skal miðlað til samhæfingarstjórnvalds.

28. gr. Aðgangur að upplýsingum.

Um aðgang eftirlitsstjórnvalda að upplýsingum fer samkvæmt lögum nr. 78/2019. Rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu skal afhenda eftirlitsstjórnvaldi allar upplýsingar sem óskað er eftir og varða net- og upplýsingaöryggi, þ.m.t. um skipulag net- og upplýsingaöryggis, öryggisstefnu, áhættumat, lýsingu á öryggisráðstöfunum, viðbragðsáætlun, atvikaskrá og skýrslur um innra eftirlit, hvenær sem óskað er eftir því.

Eftirlitsstjórnvald getur óskað eftir nánari skýringum og gögnum um einstök atvik í starfsemi rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu. Rekstraraðila ber að verða við slíkri beiðni eins fljótt og auðið er. Aðgangsheimild eftirlitsstjórnvalds samkvæmt ákvæði þessu nær einnig til persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með framkvæmd laga nr. 78/2019 og reglugerðar þessarar.

Við mat eftirlitsstjórnvalds á uppfyllingu lágmarkskrafna um áhættustýringu og viðbúnað í starfsemi rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu skal meðal annars horft til atvikaskrár og niðurstaðna atvikagreiningar.

Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt, að eigin frumkvæði, að óska eftir reglubundinni skýrslugjöf frá rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu um meðhöndlun atvika. Rekstraraðila ber að verða við slíkri beiðni innan viðeigandi tímamarka sem eftirlitsstjórnvald ákveður.

29. gr. Úttektir og prófanir.

Um heimildir eftirlitsstjórnvalda til úttekta og prófana fer samkvæmt lögum nr. 78/2019. Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að prófa öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu og gera úttektir á því hvort kröfur samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar séu uppfylltar. Gildir einu hvort það er að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu. Viðeigandi eftirlitsstjórnvald ákveður framkvæmd prófana eða úttekta, að teknu tilliti til leiðbeinandi tilmæla skv. 1. mgr. 30. gr.

Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að fela sjálfstætt starfandi sérfræðingi að annast framkvæmd úttektar og skýrslugerð um niðurstöðu hennar. Skal hann bundinn þagnarskyldu um störf sín í þágu eftirlitsstjórnvalds. Rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu skal gefinn kostur á því að gera athugasemdir við val eftirlitstjórnvalds á slíkum sérfræðingi.

30. gr. Samhæfingarstjórnvald.

Samhæfingarstjórnvald skal sinna almennri stefnumörkun um eftirlit með lágmarkskröfum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða samkvæmt lögum nr. 78/2019 og reglugerð þessari, með það að markmiði að stuðla sem best að samræmi og jafnræði við framkvæmd laganna. Í því skyni er samhæfingarstjórnvaldi meðal annars heimilt að gefa út almenn leiðbeinandi tilmæli um framkvæmd eftirlits, svo sem aðferðarfræði úttekta.

Samhæfingarstjórnvald skal vera tengiliður milli eftirlitsstjórnvalda og hvetja til reglulegra upplýsingafunda og samskipta meðal eftirlitsstjórnvalda.

Samhæfingarstjórnvald skal koma á og leiða samráðsvettvang eftirlitsstjórnvalda til að miðla þekkingu og reynslu sem og að samhæfa framkvæmd eftirlits. Það skal leitast við að verða við beiðni eftirlitsstjórnvalds um aðstoð við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni úttekta á grundvelli laga nr. 78/2019.

31. gr. Bindandi fyrirmæli eftirlitsstjórnvalda.

Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að gefa bindandi fyrirmæli um úrbætur ef mat þess er að rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu uppfylli ekki kröfur laga nr. 78/2019 og reglugerðar þessarar, þ.m.t. um skipulag net- og upplýsingakerfa og einstakar lágmarksöryggisráðstafanir. Skal gefinn til þess hæfilegur frestur. Áður en bindandi fyrirmæli eru gefin skal gefa viðkomandi aðila tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og skýringum.

Vanræki rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu að verða við bindandi fyrirmælum eftirlitsstjórnvalds innan þess frests sem stjórnvaldið setur er eftirlitsstjórnvaldi heimilt að láta vinna verkið fyrir hönd og á kostnað hlutaðeigandi aðila. Kröfur sem kunna að myndast samkvæmt þessu ákvæði eru aðfararhæfar.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

32. gr. Heimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3., 7., 8., 13. og 28. gr. laga nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 1. september 2020.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.