Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 9. des. 2021

835/2009

Reglugerð um ákvarðanir varðandi framkvæmd flugverndar sem leynt skulu fara.

1. gr. Markmið.

Reglugerð þessi er sett til að stuðla að auknu öryggi í flugi með bættri flugvernd. Mikilvægt er að unnt sé að birta einungis hluta þeirra reglna sem varða ákveðna þætti flugverndar. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að unnt sé að nýta sér upplýsingar um framkvæmd flugverndar til að vega að öryggi flugs.

2. gr. Birting leynilegra ákvarðana.

Samgönguráðherra hefur ákveðið að ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem vísað er til í 7. gr. reglugerðarinnar, um viðbótaraðgerðir við innleiðingu sameiginlegra grundvallarviðmiða um flugvernd, skuli öðlast gildi hér á landi en verði á grundvelli öryggissjónarmiða einungis birtar þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni þeirra.

3. gr. Efni ákvarðana.

Efni ákvarðana skv. 2. gr., sem verður hluti af reglugerð þessari, varðar beina flugverndarhagsmuni. Öryggi og leynd varðandi efni ákvarðananna leiðir af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar.

4. gr. Miðlun upplýsinga.

Miðlun upplýsinga um framkvæmd flugverndar á grundvelli ákvörðunar sem vísað er til í 2. gr. skal tryggð með sannanlegum hætti; með því að samgönguráðherra felur Flugmálastjórn Íslands að fullnægja upplýsingaskyldu gagnvart þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni ákvarðananna.

5. gr. Þagnarskylda.

Þeir einstaklingar sem starfs síns vegna fá vitneskju um efni ákvarðana samkvæmt reglugerð þessari skulu gæta fyllsta trúnaðar um efni þeirra í samræmi við ákvæði laga um loftferðir.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

6. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 70. gr. f., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum.

7. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu á ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar, um viðbótaraðgerðir við innleiðingu sameiginlegra grundvallarviðmiða um flugverndarmál:

  1. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2009 frá 29. maí 2009 um innleiðingu ákvörðunar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. C(2008)4333 08/VIII/2008 í EES-samninginn.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er sett á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 2320/2002 frá 16. desember 2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi, sbr. reglugerð (EB) nr. 820/2008 frá 8. ágúst 2008 um ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, með síðari breytingum.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. h-lið 1. mgr. 70. gr. d og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 23. september 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.