Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 28. jan. 2022

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 20. júlí 2005 – 28. jan. 2022 Sjá núgildandi

686/2005

Reglugerð um tímabundna endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða.

Birta efnisyfirlit

Gildissvið.

1. gr.

Eftir ákvæðum reglugerðar þessarar geta þeir sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi fengið endurgreidda 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur var/er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða 1. september 2000 til 31. desember 2006.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu.

2. gr.

Endurgreiðsluheimild skv. 1. gr. er bundin við hópferðabifreiðir, sem nýskráðar eru á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2006 og búnar eru aflvélum samkvæmt EURO2 staðli ESB, eða sambærilegum aflvélum. Með hópferðabifreiðum er átt við ökutæki sem aðallega er ætlað til fólksflutninga og skráð er fyrir 18 menn eða fleiri að meðtöldum ökumanni. Heimildin tekur ekki til almenningsvagna.

Endurgreiðslubeiðni.

3. gr.

Sækja skal um endurgreiðslu til tollstjórans í Reykjavík á sérstökum eyðublöðum í því formi sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður.

Með umsókn skulu fylgja gögn sem sýni fram á að krafa 2. gr. reglugerðar þessarar um aflvél samkvæmt EURO2 staðli ESB, eða sambærilega aflvél, sé uppfyllt.

Með umsókn skal fylgja frumrit sölureiknings eða greiðsluskjal frá tollyfirvöldum þar sem virðisaukaskattur af kaupverði kemur sérstaklega fram. Þessi skjöl skal stimpla við endurgreiðslu og endursenda umsækjanda að lokinni afgreiðslu.

Þegar um leigu er að ræða skal afrit af leigusamningi fylgja með umsókn. Jafnframt skulu fylgja frumrit sölureikninga þar sem virðisaukaskattur af leigugjaldi kemur sérstaklega fram. Þessi skjöl skal stimpla við endurgreiðslu og endursenda umsækjanda að lokinni afgreiðslu.

Sölureikningar skulu uppfylla form- og efniskröfur skv. II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst tollstjóranum í Reykjavík eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

Afgreiðsla á umsóknum.

4. gr.

Tollstjórinn í Reykjavík afgreiðir beiðnir um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari. Hann skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og getur í því sambandi krafið umsækjanda og viðsemjanda hans nánari skýringa á viðskiptunum.

Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu.

5. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 72/2005, um breyting á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með síðari breytingum, kemur í stað reglugerðar nr. 540/2001, um tímabundna endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða, með síðari breytingum. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 1. júlí 2005.

F. h. r.

Baldur Guðlaugsson.

Ingvi Már Pálsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.