Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 13. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 3. júlí 2024
Sýnir breytingar gerðar 3. júlí 2024 af rg.nr. 777/2024

414/2021

Reglugerð um skoðun ökutækja.

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Markmið.

Reglubundinni skoðun ökutækja er ætlað að stuðla að auknu umferðaröryggi með því að tryggja að ökutæki sé í lögmæltu ástandi til þess að lágmarka hættu af notkun þess.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um reglubundna skoðun ökutækja sem skráð eru hér á landi, þ. á m. hvaða ökutæki skuli færa til reglubundinnar skoðunar, endurskoðunar og til annarrar skoðunar, hver skuli skoða, tíðni skoðunar, hvað skuli skoða og hvernig. Reglugerðin gildir einnig um endurskoðun ökutækja.

Þá gildir reglugerðin um samþykki og kröfur til skoðunarstofa, tæknilegra stjórnenda og skoðunarmanna, ásamt eftirliti og viðurlögum við brotum.

II. KAFLI Reglubundin skoðun ökutækja og endurskoðun.

3. gr. Reglubundin skoðun ökutækja (aðalskoðun).

Með reglubundinni skoðun ökutækja er í reglugerð þessari átt við aðalskoðun þeirra ökutækja sem talin eru upp í 1. mgr. 5. gr., og framkvæmd í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Reglubundin skoðun ökutækis skal fara fram innan tilgreinds frests skv. 6. gr.

Skoðunarstofa samkvæmt reglugerð þessari er fyrirtæki sem uppfyllir skilyrðin í III. kafla og hlotið hefur viðurkenningu Samgöngustofu. Einungis faggiltar skoðunarstofur geta framkvæmt reglubundnar skoðanir á ökutækjum með þeim undanþágum sem greinir í 3. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 14. gr.

4. gr. Ábyrgð eiganda (umráðamanns).

Eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á að ökutækið sé fært til reglubundinnar skoðunar skv. 5. gr., endurskoðunar skv. 8. gr. eða til sérstakrar skoðunar skv. VII. kafla.

Þegar skráður umráðamaður er annar en eigandi ökutækis, hvílir skyldan til að færa ökutækið til skoðunar á umráðamanni ökutækis.

5. gr. Ökutæki sem færa skal til reglubundinnar skoðunar.

Eftirtalin ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar:

  1. fólksbifreið (M1),
  2. sendibifreið (N1),
  3. hópbifreið I og II (M2 og M3),
  4. vörubifreið I og II (N2 og N3),
  5. létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II,
  6. bifhjól (L3e, L4e, L5e, L6e og L7e),
  7. eftirvagn II, III og IV (O2, O3 og O4), og eftirvagn I (O1) í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn,
  8. eftirvagn dráttarvélar I, II, III og IV (R1, R2, R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst. og ætlaður til notkunar á opinberum vegum,
  9. dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst. og aðallega notuð á opinberum vegum,

Eftirtalin ökutæki eru undanþegin skoðunarskyldu:

  1. dráttarvél sem hönnuð er til aksturs 40 km á klst. eða minna,
  2. dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst. og er aðallega notuð utan opinberra vega,
  3. torfærutæki,
  4. vinnuvél,
  5. eftirvagn dráttarvélar I, II, III og IV (R1, R2, R3 og R4) sem hannaður er til aksturs 40 km á klst. eða minna og eftirvagn dráttarvélar sem er nær eingöngu notaður utan opinberra vega,
  6. ökutæki sem hefur verið afskráð eða skráð úr umferð.
  7. rafknúið dráttartæki.

Heimilt er að veita ökutækjum í Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey undanþágu frá skoðunarskyldu að því tilskildu að þau séu ekki flutt frá eyjunni. Skulu þessi ökutæki auðkennd í ökutækjaskrá. Ef ökutækin eru flutt á meginlandið þá fellur undanþágan úr gildi og færa skal ökutækið án tafar til reglubundinnar skoðunar á næstu skoðunarstofu.

Nú er framvísað gögnum frá öðru aðildarríki að samningnum um evrópska efnahagssvæðið, sem sanna að vélknúið ökutæki sem færa skal til skoðunar hafi verið skoðað. Skal þá taka gögnin gild enda beri þau með sér að skoðunin sé sambærileg við reglur á evrópska efnahagssvæðinu um skoðun ökutækja.

6. gr. Tíðni reglubundinnar skoðunar.

Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar innan tiltekins frest samkvæmt neðangreindu:

  1. Eftirfarandi ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar innan fjögurra ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti:
    Fólksbifreið (M1),
    sendibifreið (N1),
    dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst.,
    létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II,
    bifhjól (L3e, L4e, L5e, L6e og L7e),
    eftirvagn II (O2) og eftirvagn dráttarvélar I (R1) og II (R2) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst.
  2. Ökutæki í notkunarflokknum "ökutæki í ökutækjaleigu" og ökutæki skv. a-lið sem notað er við ökukennslu skal færa til reglubundinnar skoðunar innan þriggja ára eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan á 24 mánaða fresti næstu tvö skipti og eftir það á 12 mánaða fresti.
  3. Fólks- eða sendibifreið í eftirfarandi notkunarflokkum skal færa til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi einu ári eftir fyrstu skráningu og þar á eftir á 12 mánaða fresti:
    Leigubifreið,
    skólabifreið,
    ökutæki sem flytja fatlaða og hreyfihamlaða í atvinnuskyni og
    ökutæki ætluð til neyðaraksturs.
  4. Eftirtalin ökutæki skal færa til skoðunar í síðasta lagi einu ári eftir fyrstu skráningu ökutækisins og þar eftir á 12 mánaða fresti:
    Hópbifreið I og II (M2 og M3),
    vörubifreið I og II (N2 og N3),
    eftirvagn III og IV (O3 og O4) og eftirvagn dráttarvélar III og IV (R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km á klst.
  5. Eftirvagn I og II (O1 og O2) í notkunarflokknum tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi skal skoðaður fjórum árum eftir að ökutækið var fyrst skráð, að skráningarárinu frátöldu og þar á eftir á 24 mánaða fresti.
  6. Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki skal skoðað á 24 mánaða fresti. Skoðunarár miðast við árið sem ökutækið var fyrst skráð.

Framangreindir tímafrestir miðast við skoðunarmánuð ökutækis, sbr. 5. mgr. þessarar greinar og við 7. gr.

Ef breyta á notkunarflokki ökutækis í notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni þarf ökutækið áður að gangast undir reglubundna skoðun, hafi hún ekki þegar verið framkvæmd á almanaksárinu, óháð skoðunarmánuði viðkomandi ökutækis. Skoðunarmánuður ökutækis breytist ekki vegna þessa nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari.

Falli ökutæki undir fleiri en einn lið í 1. mgr. gildir sá liður sem hefur örustu skoðunartíðni.

Ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til, sbr. þó 7. gr. Þannig skal t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október. Hafi ökutæki einkamerki með tölustaf sem síðasta staf á skráningarmerki, ræðst skoðunarmánuður af honum. Bókstafur sem síðasti stafur á skráningarmerki jafngildir 5 sem síðasta tölustaf á skráningarmerki.

Heimilt er að færa ökutæki til reglubundinnar skoðunar sex mánuðum fyrir lögbundinn skoðunarmánuð óháð almanaksári. Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur, að öðrum kosti leggst vanrækslugjald á eiganda (umráðamann) ökutækis, sbr. 45. gr.

Hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis sem býr fjær næstu skoðunarstofu sem veitir reglubundna þjónustu en 80 km ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan tilskilins frests getur hann fengið viðbótarfrest í tvo mánuði með því að tilkynna sýslumanninum á Vestfjörðum um þá ósk sína. Tilkynningin skal hafa borist sýslumanni áður en frestur skv. 6. mgr. er liðinn.

Það hefur ekki áhrif á lögbundinn skoðunarmánuð ökutækisins síðar þótt framangreindir frestir séu nýttir.

7. gr. Ökutæki sem færa skal til reglubundinnar skoðunar í maí á skoðunarári.

Eftirtalin ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar í maímánuði á skoðunarári, óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki og eru þau skoðuð líkt og þau hafi tölustafinn 5 í endastaf skráningarmerkis:

  1. ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki,
  2. bifreið í notkunarflokknum húsbifreið,
  3. létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II og bifhjól,
  4. eftirvagn í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn.

Heimilt er að færa ökutæki skv. 1. mgr. til reglubundinnar skoðunar sex mánuðum fyrir lögbundinn skoðunarmánuð óháð almanaksári. Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur en að öðrum kosti leggst vanrækslugjald á eiganda (umráðamann) ökutækis, sbr. 45. gr. Það hefur ekki áhrif á lögbundinn skoðunarmánuð ökutækisins síðar þótt framangreindir frestir séu nýttir.

8. gr. Endurskoðun.

Ökutæki skal fært til endurskoðunar ef niðurstaða skoðunar er "endurskoðun" eða "notkun bönnuð" eftir reglubundna skoðun skv. 21. gr.

Sé ökutæki fært til endurskoðunar innan veitts frests, skal endurskoðunin eingöngu fela í sér skoðun á þeim atriðum sem athugasemd var gerð við í fyrri skoðun, hvort heldur sem er reglubundin skoðun (aðalskoðun) eða endurskoðun, og athugun þess hvort viðgerð hafi verið fullnægjandi.

Til að ökutæki hljóti athugasemdalausa endurskoðun skulu öll frávik (öll atriði sem hafa hlotið dæmingu 1 og 2), sem gerðar voru athugasemdir við í síðustu skoðun, hafa verið lagfærð.

Frestur til endurskoðunar skal ekki vera lengri en til loka næsta mánaðar frá því að skoðun fór fram. Endurskoðun breytir ekki tímafrestum milli reglubundinna skoðana skv. 6. gr.

Ef ökutæki er ekki fært til endurskoðunar innan veitts frests leggst vanrækslugjald á ökutækið skv. 45. gr. og ökutækið skal þá skoðað eins og um reglubundna skoðun sé að ræða (endurtekin aðalskoðun).

Ef ökutæki er ekki fært til endurskoðunar innan veitts frests er lögreglu heimilt að fjarlægja skráningarmerkin af ökutækinu, sbr. 75. gr. umferðarlaga.

III. KAFLI Skyldur og viðurkenning skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæðis.

9. gr. Hverjir mega sinna lögbundnum skoðunum ökutækja.

Skoðunarstofa sem hlotið hefur viðurkenningu Samgöngustofu skv. 11. gr. má annast reglubundna skoðun ökutækja.

Endurskoðunarverkstæði sem hlotið hefur viðurkenningu Samgöngustofu skv. 14. gr. má annast endurskoðun ökutækja.

10. gr. Faggilding skoðunarstofu.

Skoðunarstofa skal vera faggilt skoðunarstofa af gerð A samkvæmt kröfum ÍST EN ISO/IEC 17020, og nánari ákvæðum reglugerða sem settar eru samkvæmt heimild í umferðarlögum og lögum um faggildingu.

Skoðunarstofu er óheimilt að annast viðgerðir á ökutækjum, sölu á varahlutum í ökutæki eða aðra þá þjónustu sem stangast á við hlutleysisreglur staðalsins ÍST EN ISO/IEC 17020.

11. gr. Viðurkenning skoðunarstofu.

Samgöngustofa viðurkennir skoðunarstofu til að skoða ökutæki og miðast viðurkenningin við þann búnað sem er til staðar skv. viðauka I og við 12. gr. reglugerðar þessarar.

Áður en skoðunarstofa er viðurkennd skal gengið úr skugga um að hún hafi faggildingu og að hún fullnægi að öðru leyti kröfum reglugerðar þessarar.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er skoðunarstofu, sem ekki hefur hlotið faggildingu, heimilt að skoða ökutæki á grundvelli bráðabirgðastarfsleyfis sem gefið er út af Samgöngustofu. Skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðastarfsleyfis er að skoðunarstofa sé í umsóknarferli um faggildingu hjá faggildingarsviði Hugverkastofunnar. Skoðunarstofa skal hafa byggt upp innra gæðakerfi ásamt því að hafa staðist skoðun Samgöngustofu á tækjabúnaði og kröfur um fullnægjandi rafræn samskipti, þ.m.t. varðandi innsendar skoðanir og innheimtu á opinberum gjöldum. Bráðabirgðastarfsleyfi má gefa út allt að tveimur vikum fyrir upphafsúttekt faggildingarsviðs Hugverkastofunnar til faggildingar sem gildir á meðan skoðunarstofa vinnur úr mögulegum frávikum sem upp koma við upphafsúttekt, þó ekki lengur en í þrjá mánuði frá upphafsúttekt faggildingarsviðs Hugverkastofunnar. Samgöngustofu er heimilt að framlengja gildistíma bráðabirgðastarfsleyfis skoðunarstofu um allt að þrjá mánuði ef málefnalegar ástæður eru fyrir seinkun umsóknarferlis um faggildingu. Komi í ljós að skoðunarstofa fari ekki eftir þeim skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu bráðabirgðastarfsleyfis skal Samgöngustofa afturkalla bráðabirgðastarfsleyfi skoðunarstofu.

Skoðunarstofa skal staðfesta að skilyrði 26. og 27. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt.

Samgöngustofa skal birta lista á vefsíðu sinni yfir viðurkenndar skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði.

12. gr. Skyldur skoðunarstofu.

Skoðunarstofa skal:

  1. hafa tæknilegan stjórnanda sem uppfyllir skilyrði 26. gr.,
  2. hafa skoðunarmenn sem uppfylla skilyrði 27. gr.,
  3. hafa húsnæði og aðstöðu þar sem skoðanir geta farið fram á vegum skoðunarstofunnar,
  4. ráða yfir viðeigandi tækjabúnaði í samræmi við I. viðauka,
  5. leiðbeina eigendum ökutækja um réttindi sín og skyldur samkvæmt reglugerð þessari,
  6. tilkynna til Samgöngustofu án tafar breytingar sem geta haft áhrif á viðurkenninguna, þ. á m. ef skoðunarstofan hættir starfsemi, ef skipti verða á tæknilegum stjórnanda eða staðgengli hans eða tækjakosti,
  7. taka þátt í samanburðarskoðunum Samgöngustofu og hlíta fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli skoðunarstofa koma fram. Skoðunarstofa skal bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku og ráðstafana sem gera verður,
  8. sé þess óskað, taka þátt í verkefnum sem unnin eru í samvinnu lögreglu, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu,
  9. senda niðurstöður reglubundinnar skoðunar, skoðunar vegna breytinga og skráningarskoðunar og dæmingu hvers einstaks skoðunarliðs, ásamt stöðu aksturs- eða tímamælis og niðurstöðu mengunarmælinga, samdægurs til Samgöngustofu. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Samgöngustofu,
  10. tilkynna þeim sem kemur með ökutæki til skoðunar, að þegar skoðun hefst skal henni ljúka með niðurstöðu. Frávik frá þessu skal tilkynna Samgöngustofu,
  11. innheimta og standa skil á innheimtu umferðaröryggisgjalds,
  12. innheimta og standa skil á innheimtu vanrækslugjalds í samræmi við VIII. kafla reglugerðarinnar,
  13. ganga úr skugga um að bifreiðagjald sé greitt og lögboðin ökutækjatrygging sé í gildi eftir því sem við á.

13. gr. Skoðun skoðunarstofu á endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði.

Skoðunarstofa getur, í samræmi við viðurkenningu skv. 11. gr., skoðað ökutæki:

  1. á endurskoðunarverkstæði sem er fjær skoðunarstofu en 35 km,
  2. á öðru verkstæði sem er fjær skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði en 35 km.

Áður en skoðunarstofa skoðar ökutæki skv. 1. mgr., skal skoðunarmaður ganga úr skugga um að aðstaða og tækjabúnaður á viðkomandi verkstæði sé fullnægjandi og í samræmi við I. viðauka.

14. gr. Viðurkenning endurskoðunarverkstæðis.

Samgöngustofa viðurkennir endurskoðunarverkstæði sem skoðar hvort þau atriði hafi verið lagfærð sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði þegar frestur var veittur til endurskoðunar.

Áður en Samgöngustofa viðurkennir endurskoðunarverkstæði, skal hún kanna hvort það hafi B-faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi endurskoðunarverkstæða með B-faggildingu og fullnægi að öðru leyti kröfum reglugerðar þessarar.

Endurskoðunarverkstæði skal afhenda Samgöngustofu yfirlýsingu um að það muni fullnægja skilyrðum 15. gr.

Viðurkenning endurskoðunarverkstæðis getur tekið til eins eða fleiri eftirfarandi flokka:

  1. skynbúnaðs,
  2. hreyfils og fylgibúnaðar,
  3. yfirbyggingar,
  4. stýrisbúnaðar,
  5. burðarvirkis,
  6. hjólabúnaðar,
  7. aflrásar,
  8. hemlabúnaðar,
  9. tengibúnaðar og merkingar.

Flokkar 1 - 9 skiptast þannig eftir stærð og flokkun ökutækja:

  1. bifreið ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
  2. bifreið > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
  3. eftirvagn ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn,
  4. eftirvagn > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn,
  5. létt bifhjól og bifhjól,
  6. dráttarvél ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst.,
  7. dráttarvél > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km á klst.,
  8. rafknúið dráttartæki ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
  9. rafknúið dráttartæki > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd.

15. gr. Skyldur endurskoðunarverkstæðis.

Endurskoðunarverkstæði skal:

  1. hafa tæknilegan stjórnanda sem uppfyllir skilyrði 26. gr.,
  2. hafa skoðunarmenn sem uppfylla skilyrði 27. gr.,
  3. hafa húsnæði og aðstöðu þar sem skoðanir geta farið fram á vegum skoðunarstofunnar,
  4. ráða yfir viðeigandi tækjabúnaði í samræmi við I. viðauka,
  5. leiðbeina eigendum ökutækja um réttindi sín og skyldur samkvæmt reglugerð þessari,
  6. tilkynna til Samgöngustofu án tafar breytingar sem geta haft áhrif á viðurkenninguna, þ. á m. ef endurskoðunarverkstæðið hættir starfsemi, ef skipti verða á tæknilegum stjórnanda eða staðgengli hans eða tækjakosti,
  7. taka þátt í samanburðarskoðunum Samgöngustofu og hlíta fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli skoðunarstofa koma fram. Skoðunarstofa skal bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku og ráðstafana sem gera verður,
  8. senda niðurstöður endurskoðunar og dæmingu hvers einstaks skoðunarliðs, ásamt stöðu akstursmælis og niðurstöðu mengunarmælinga, samdægurs til Samgöngustofu. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Samgöngustofu,
  9. tilkynna þeim sem kemur með ökutæki til skoðunar, að þegar skoðun hefst skal henni ljúka með niðurstöðu. Frávik frá þessu skal tilkynna Samgöngustofu.

16. gr. Afturköllun viðurkenningar.

Samgöngustofa getur afturkallað bráðabirgðastarfsleyfi eða viðurkenningu skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæðis tímabundið eða að fullu ef viðkomandi:

  1. uppfyllir ekki lengur skilyrði bráðabirgðastarfsleyfis eða viðurkenningar.
  2. fer út fyrir leyfilegt starfssvið sitt eða fer ekki eftir reglum með því að:

    1. skoða önnur ökutæki en honum er heimilt,
    2. sinna ekki innheimtu gjalda sem honum er falin,
    3. virða ítrekað ekki fyrirmæli í skoðunarhandbók,
    4. sinna ekki skriflegum fyrirmælum eða aðvörunum Samgöngustofu um úrbætur.

17. gr. Öryggiskröfur rafrænna samskipta.

Samgöngustofa setur fram kröfur um öryggi rafrænna samskipta milli skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæðis og Samgöngustofu. Samgöngustofa setur nánari verklagsreglur um öryggiskröfur rafrænna samskipta.

IV. KAFLI Skoðunarhandbók.

18. gr. Skoðunarhandbók.

Samgöngustofa gefur út skoðunarhandbók um skoðun ökutækja. Í henni skal tilgreina verklagsreglur fyrir skoðunarstofu um hvernig dæma skuli einstök skoðunaratriði.

19. gr. Skoðunaratriði.

Við skoðun skal:

  1. athuga hvort ökutæki sé í lagi, hvort finna megi á því galla eða bilanir sem geri það óöruggt í umferð,
  2. athuga hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis,
  3. athuga hvort ökutæki valdi meiri mengun umhverfisins en heimilt er,
  4. athuga atriði sem eru í ósamræmi við tilskilin gildi,
  5. staðfesta að samræmi sé á milli ökutækis og skráningargagna, hvort ökutækið sé rétt skráð og hvort verksmiðjunúmer þess sé í samræmi við ökutækjaskrá,
  6. tryggja að skráningarmerki séu á ökutækinu við skoðun. Séu skráningarmerki ekki á ökutækinu skal tryggja að skráningarmerkin og svæði fyrir þau á ökutækinu séu skoðuð. Óheimilt er að afhenda eða setja innlögð skráningarmerki á ökutæki ef niðurstaða skoðunar er "notkun bönnuð".

Ef ökutæki hefur eftirtalinn búnað skal hann skoðaður og gerð er krafa um að búnaðurinn sé í lagi:

  1. búnaður, sem tilgreindur er í skoðunarhandbók en ekki gerð krafa um í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, þar með talinn gasbúnaður, eða
  2. ljósa- og merkjabúnaður sem ekki er gerð krafa um en heimilt er að nota samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

20. gr. Dæming skoðunaratriðis.

Við reglubundna skoðun ökutækis skal skoðunarmaður leggja mat á öll atriði í skoðunarhandbók sem eiga við um viðkomandi ökutæki. Við endurskoðun skal einungis skoða þau atriði sem þarfnast viðgerðar samkvæmt skoðunarvottorði við reglubundna skoðun.

Dæming skoðunaratriðis getur verið þrenns konar:

  • Dæming 1: Minniháttar annmarkar sem hafa ekki marktæk áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið, ásamt öðrum minniháttar frávikum og þarfnast ekki tafarlausrar viðgerðar.
  • Dæming 2: Meiriháttar annmarkar sem geta haft áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið, ásamt öðrum minniháttar frávikum og þarfnast viðgerðar.
  • Dæming 3: Alvarlegir annmarkar sem skapa beina og tafarlausa hættu fyrir umferðaröryggi eða hafa áhrif á umhverfið sem réttlætir að notkun ökutækis sé bönnuð þar til viðgerð hefur farið fram.

Hafi verið gerð athugasemd við skoðun ökutækis, skal haga notkun þess í samræmi við niðurstöðu skoðunar.

21. gr. Niðurstaða skoðunar.

Niðurstaða skoðunar skal færð í skoðunarvottorð í samræmi við hæstu tölu dæmingar hvers einstaks skoðunaratriðis. Niðurstaða skoðunar getur verið ferns konar, þ.e. án athugasemda, lagfæring, endurskoðun eða notkun bönnuð:

  1. Niðurstaða skoðunar 0:

    • Engin athugasemd.
    • Niðurstaða skoðunar er "án athugasemda".
  2. Niðurstaða skoðunar 1:

    • Hæsta tala niðurstöðu skoðunar felur í sér kröfu um að lagfært verði allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði, án þess að krafa sé gerð um endurskoðun.
    • Niðurstaða skoðunar er "lagfæring".
    • Innan 30 daga skal eigandi (umráðamaður) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun.
  3. Niðurstaða skoðunar 2:

    • Hæsta tala niðurstöðu skoðunar felur í sér kröfu um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar.
    • Niðurstaða skoðunar er "endurskoðun".
    • Til endurskoðunar skal veita frest til loka næsta mánaðar.
  4. Niðurstaða skoðunar 3:

    • Hæsta tala niðurstöðu skoðunar hefur í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi.
    • Niðurstaða skoðunar er"notkun bönnuð".
    • Þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa ökutæki með eigin vélarafli frá viðgerðarstað stystu leið til skoðunar.
    • Þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa eftirvagn þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn stystu leið til viðgerðarstaðar og til skoðunar.

Hafi athugasemd verið gerð við skoðunaratriði með dæmingu sem merkt er við dæminguna með "B" í skoðunarhandbók, skal vísa ökutækinu til breytingarskoðunar.

Hafi athugasemd verið gerð við skoðunaratriði með dæmingu sem merkt er við dæminguna með "H" í skoðunarhandbók, skal hafna skráningu eða breytingu.

Niðurstaða reglubundinnar skoðunar skal vera óháð niðurstöðum undangenginna skoðana.

Niðurstaða skoðunar skal vera "notkun bönnuð" (3) ef:

  1. í ljós kemur við endurskoðun að ekki hefur verið bætt úr a.m.k. helmingi athugasemda sem gerðar voru við undangengna skoðun,
  2. við skoðun ökutækis sem lögregla hefur boðað í skoðun vegna vanbúnaðar (aukaskoðun að kröfu lögreglu) eða hefur fjarlægt skráningarmerki skv. 43. gr., sé niðurstaða þeirrar skoðunar 2 eða 3, þ.e. ef ökutæki hlýtur dæmingu 2 á skoðunaratriði í aukaskoðun að kröfu lögreglu, skal niðurstaða skoðunarinnar vera 3, "notkun bönnuð".

Komi í ljós við skoðun að óeðlileg breyting hefur orðið á akstursmæli ökutækis og þá helst að akstursmælir sýni lægri kílómetrastöðu en í fyrri skoðun, skal skoðunarstofa upplýsa eiganda ökutækisins um það og skrá sem athugasemd í ferilskrá.

22. gr. Skoðunarvottorð.

Frumrit skoðunarvottorðs sem undirritað er af skoðunarmanni skal afhent eiganda/umráðamanni ökutækisins og skal það geymt í ökutækinu. Skoðunarstofa skal varðveita afrit af skoðunarvottorðinu. Í skoðunarvottorði skulu eftirfarandi atriði koma fram:

  1. verksmiðjunúmer ökutækis (e. VIN (Vehicle Identification Number)),
  2. númer skráningarmerkis ökutækis og tákn skráningarríkis,
  3. staður og dagsetning skoðunar,
  4. staða akstursmælis eða tímamælis fyrri skoðunar og þegar skoðun fór fram,
  5. ökutækjaflokkur,
  6. annmarkar sem finnast og alvarleiki þeirra,
  7. niðurstöður skoðunar,
  8. dagsetning næstu skoðunar, endurskoðunar eða reglubundinnar skoðunar,
  9. heiti skoðunarstofu og undirritun eða auðkenni skoðunarmanns sem bar ábyrgð á skoðun ökutækisins,
  10. aðrar upplýsingar.

Viðurkenna skal skoðunarvottorð ökutækis sem flutt er frá EES-ríki að því tilskildu að vottorðið sé enn í gildi miðað við þær reglur sem gilda um tíðni skoðana samkvæmt reglugerð þessari.

23. gr. Skoðunarmiði.

Samgöngustofa annast útfærslu skoðunarmiða.

Við skoðun skal skoðunarmaður setja skoðunarmiða á þar til gerðan reit á skráningarmerki ökutækis og bæði skráningarmerki ef tvö skráningarmerki eru á ökutæki. Ef ekki er reitur fyrir skoðunarmiða á skráningarmerkinu, skal hann settur í neðra horn framrúðu ökutækis, til vinstri.

Fyrir önnur ökutæki en bifreiðar, með fyrsta skráningardag fyrir 1. janúar 1989, er heimilt að setja skoðunarmiða á aðra staði séu þeir auðgreinanlegir.

Eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á því að skoðunarmiði sé á ökutæki og að miðinn sé ávallt greinilegur og læsilegur.

Óheimilt er öðrum en skoðunarmanni á skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæði, svo og lögreglunni að hylja skoðunarmiða eða fjarlægja hann.

Mismunandi áletrun skoðunarmiða skal gefa til kynna að:

  1. ökutæki hafi fengið reglubundna skoðun. Á skoðunarmiða er þá áletrað það ártal sem ökutæki skal næst fært til reglubundinnar skoðunar. Skoðunarmiðar bera mismunandi liti eftir árum, í röðinni gulur (fyrir árið 2020), brúnn (fyrir árið 2021), rauður (fyrir árið 2022), blár (fyrir árið 2023), appelsínugulur (fyrir árið 2024) og fjólublár (fyrir árið 2025). Litaröðin er svo endurtekin.
  2. ökutæki skuli fært til endurskoðunar innan tiltekins frests. Á skoðunarmiða er áletrað "ENDURSKOÐUN" ásamt mánuðinum sem ökutæki skal fært til endurskoðunar. Litur skoðunarmiðans skal annars vegar vera með svörtu letri á grænum grunni, til notkunar á ári sem endar á sléttri tölu, og hins vegar með svörtu letri á grænum og appelsínugulum grunni þar sem litir eru aðskildir með skástriki, til notkunar á ári sem endar á oddatölu.

24. gr. Skráning og staðfesting á niðurstöðu skoðunar.

Skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæði skulu í samræmi við reglugerð þessa og skoðunarhandbók:

  1. skrá niðurstöðu skoðunar og aðrar tæknilegar upplýsingar í skoðunarvottorð og undirrita það,
  2. auðkenna ökutæki með skoðunarmiða til staðfestingar því að skoðun hafi farið fram í samræmi við niðurstöðu skoðunarinnar.

Niðurstöðu skoðunar, upplýsingar um stöðu akstursmælis ökutækis og gildi mengunarmælinga skal senda samdægurs til Samgöngustofu sem færir niðurstöður í ökutækjaskrá. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Samgöngustofu.

25. gr. Miðlun upplýsinga.

Samgöngustofa heldur skrá um reglubundna skoðun ökutækja sem reglugerð þessi nær til og tryggir eigendum eða umráðamönnum þeirra aðgang að upplýsingum í rafrænu formi um það hvenær færa skal ökutæki til skoðunar.

Samgöngustofa heldur skrá samkvæmt upplýsingum frá skoðunarstofum og endurskoðunarverkstæðum um þá þjónustu sem þær veita, svo sem tegund skoðana, opnunartíma, verðskrá og aðrar upplýsingar sem máli skipta.

Skrár skv. 1. og 2. mgr. skulu vera aðgengilegar notendum þjónustunnar.

V. KAFLI Kröfur til tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna.

26. gr. Kröfur til tæknilegs stjórnanda.

Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera verkfræðingur, tæknifræðingur eða meistari í bifvélavirkjun og hafa a.m.k. fjögurra ára skjalfesta starfsreynslu eða jafngildi þess, t.d. skjalfesta handleiðslu eða nám og viðeigandi þjálfun á tilteknum sviðum ökutækja sem talin eru upp í a-lið 1. mgr. IV. viðauka við tilskipun 2014/45/ESB. Tæknilegur stjórnandi skal hafa verið í viðeigandi starfi í minnst þrjú ár af síðustu tíu árum.

Tæknilegur stjórnandi ber tæknilega ábyrgð á skoðunarstofunni og skal vera ráðinn þar í fast starf. Hann skal hafa sótt námskeið fyrir skoðunarmenn og vera viðurkenndur sem slíkur.

Tæknilegur stjórnandi skal taka virkan þátt í að leiðbeina skoðunarmönnum og tryggja að skoðanir séu framkvæmdar í samræmi við skoðunarhandbók. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir því að skoðunarstofan sé starfrækt í samræmi við þessa reglugerð og er tengiliður hennar við Samgöngustofu.

Kröfur skv. a-lið 1. mgr. IV. viðauka við tilskipun 2014/45/ESB sem gerðar eru til tæknilegs stjórnanda skv. 1. mgr. teljast uppfylltar á grundvelli annarrar viðeigandi menntunar ef Samgöngustofa telur þær jafngildar.

27. gr. Kröfur til skoðunarmanna.

Skoðunarmaður sem sinnir reglubundnum skoðunum á ökutækjum skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu.

Til að hljóta viðurkenningu sem skoðunarmaður þarf viðkomandi að:

  1. hafa sveinspróf í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði eða vélvirkjun,
  2. hafa lokið grunnþjálfun eða eftir atvikum endurmenntun í reglubundinni skoðun ökutækja, sbr. 28. gr.

Skoðunarmaður þarf að hafa ökuréttindi á þau ökutæki sem hann skoðar.

Skoðunarmaður þarf að hafa nægan skilning á íslensku til að geta framkvæmt skoðun samkvæmt skoðunarhandbók og útskýrt niðurstöðu skoðunar fyrir eiganda eða umráðamanni ökutækis.

28. gr. Grunnþjálfun og endurmenntun skoðunarmanna.

Grunnþjálfun og endurmenntun skoðunarmanna skal fara fram hjá námskeiðshaldara sem viðurkenndur er af Samgöngustofu eða hjá öðrum aðila sem hefur sérstakt leyfi Samgöngustofu.

Grunnþjálfun og endurmenntun skulu fara fram í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur og ráðherra staðfestir.

29. gr. Viðurkenning tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna.

Samgöngustofa eða viðurkennd þjálfunarstöð gefur út skírteini til tæknilegs stjórnanda, staðgengla hans og skoðunarmanna þegar skilyrði viðurkenningar eru uppfyllt í samræmi við 26. og 27. gr. Áður en Samgöngustofa eða viðurkennd þjálfunarstöð gefur út skírteini til aðila í fyrsta sinn skal umsækjandi standast bóklegt og verklegt próf í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur skv. 28. gr. Í skírteininu skal m.a. koma fram nafn tæknilegs stjórnanda, staðgengils hans eða skoðunarmanns, heiti skoðunarstofu sem viðkomandi starfar á, númer skoðunarmanns, hvaða ökutækjaflokk viðkomandi er viðurkenndur fyrir, nafn stjórnvalds, útgáfudagsetning og gildistími.

Viðurkenning skoðunarmanns gildir í 5 ár.

Við endurnýjun á viðurkenningu skal skoðunarmaður sitja endurmenntunarnámskeið um reglubundnar skoðanir á þeim ökutækjaflokkum sem hann framkvæmir skoðun á. Endurnýjun viðurkenningar skal gilda í 5 ár.

Skoðunarmanni sem uppfyllir ekki lengur kröfur til viðurkenningar ber skylda til að tilkynna það til Samgöngustofu.

Samgöngustofa skráir upplýsingar, þ. á m. persónuupplýsingar, um skoðunaraðila í rafrænum skrám í tengslum við umsóknir, þjálfun, viðurkenningu, skoðanir og eftirlit.

30. gr. Afturköllun viðurkenningar.

Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu ef tæknilegur stjórnandi, staðgengill hans eða skoðunarmaður uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu.

31. gr. Hlutleysi skoðana.

Ef skoðunarstofa framkvæmir reglubundna skoðun á eigin ökutækjum, þeim sem hún hefur umráð yfir eða ökutækjum starfsmanna sinna skal skoðunarstofan setja sérstakar reglur sem tryggir hlutleysi þeirra skoðana.

VI. KAFLI Eftirlit með skoðunarstofum og endurskoðunarverkstæðum.

32. gr. Eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða.

Samgöngustofa hefur eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók og eftirlit með tæknilegum stjórnendum og viðurkenndum skoðunarmönnum. Skal Samgöngustofa í því sambandi hafa aðgang að húsnæði, tækjum og gögnum sem notuð eru við skoðun ökutækja.

Sá sem sinnir eftirliti samkvæmt þessari reglugerð skal hafa nauðsynlega hæfni til að meta gæði starfseminnar.

Kostnaður vegna eftirlits með starfsemi skoðunarstofu skal vera í samræmi við gjaldskrá Samgöngustofu sem ráðherra staðfestir.

Samgöngustofa setur nánari verklagsreglur um eftirlitið, sem skulu vera aðgengilegar í rafrænu formi, m.a. um samanburðarskoðanir milli skoðunarstofa.

Samgöngustofa getur falið öðrum athugun þess hvort skilyrði viðurkenningar eru fyrir hendi svo og eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða.

33. gr. Nánar um eftirlit með skoðun.

Skoðunarstofa og hver skoðunarmaður skulu leitast við að dæming og niðurstaða skoðunar verði innan tiltekinna frávika. Þetta á við um samanburð á skoðunum ökutækja sem skoðuð eru á þriggja mánaða fresti.

Nú fullnægir eftir atvikum skoðunarstofa eða skoðunarmaður ekki kröfu um að vera innan tiltekinna frávika og skal þá skoðunarstofan gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. veita skoðunarmönnum fræðslu og gera Samgöngustofu grein fyrir ástæðum frávika.

Fylgi skoðunarmaður ekki reglum skoðunarhandbókar um skoðun ökutækja, getur Samgöngustofa krafist þess að viðkomandi ökutæki sé fært til skoðunar á ný. Samgöngustofa getur jafnframt krafist þess að viðkomandi skoðunarmaður sitji sérstakt námskeið og sinni ekki skoðunarstarfi fyrr en að loknu námskeiði. Verði skoðunarmaður ítrekað uppvís að ámælisverðum vinnubrögðum sem ekki eru í samræmi við skoðunarhandbók um skoðun ökutækja getur Samgöngustofa svipt viðkomandi skoðunarmann viðurkenningu. Á sama hátt getur Samgöngustofa endurskoðað viðurkenningu skoðunarstofu verði starfsmenn hennar ítrekað vísir að ámælisverðum vinnubrögðum.

Samgöngustofu er heimilt að breyta niðurstöðum skoðunar, sem skoðunarmaður framkvæmir, ef dæming og niðurstaða skoðunar, eru augljóslega rangar.

VII. KAFLI Sérstakar skoðanir.

34. gr. Afhending innlagðra skráningarmerkja.

Afhenda má skráningarmerki, sem lögð hafa verið inn til geymslu, án þess að ökutæki hafi áður verið fært til reglubundinnar skoðunar, þó frestur til að færa ökutækið til skoðunar sé liðinn. Þetta gildir einungis ef skráningarmerki hafa verið lögð inn af eiganda eða umráðamanni ökutækis eða skráningarmerkin voru fjarlægð af lögreglu vegna vangoldinna iðgjalda lögboðinnar ökutækjatryggingar sem ekki eru lengur í vanskilum.

Veita má viku frest, þó ekki fram yfir mánaðamót, til að færa ökutæki til skoðunar enda hafi eigandi (umráðamaður) lýst því skriflega yfir að ökutækið sé hæft til skoðunar og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því að ökutækið verði tekið í notkun.

Hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar þegar liðinn er mánuður frá því að skráningarmerki voru afhent tímabundið til þess að færa mætti ökutækið til skoðunar leggst vanrækslugjald á eiganda (umráðamann) ökutækisins skv. 45. gr.

Ökutæki, sem lögreglan hefur tekið skráningarmerki af vegna vanbúnaðar, tjóns eða það hefur ekki verið fært til skoðunar á tilsettum tíma, skal færa til skoðunar áður en skráningarmerki eru afhent að nýju. Sama gildir um ökutæki sem er tjónaökutæki samkvæmt skilgreiningu í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Ekki má afhenda skráningarmerki ökutækis ef niðurstaða síðustu skoðunar var "notkun bönnuð".

35. gr. Skráningarskoðun.

Áður en ökutæki er nýskráð í ökutækjaskrá og tekið í notkun skal það skoðað til að ganga úr skugga um að það fullnægi kröfum reglugerðar um gerð og búnað ökutækja og sé í samræmi við skráningargögn, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja.

Skráningarskoðun er fyrsta skoðun á ökutæki á Íslandi og samsvarar reglubundinni skoðun (aðalskoðun).

36. gr. Fulltrúa- og samanburðarskoðun.

Áður en nýtt gerðarviðurkennt ökutæki er nýskráð í ökutækjaskrá og tekið í notkun skal það skoðað til að ganga úr skugga um að það sé í samræmi við skráningu í ökutækjaskrá og uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og reglugerð um skráningu ökutækja.

37. gr. Skoðun ökutækis sem skráð er til flutnings á hættulegum farmi (ADR-skoðun).

Við skoðun ökutækis, sem skráð er til flutnings á hættulegum farmi, skal ganga úr skugga um að búnaður ökutækisins í því sambandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra flutninga. ADR-skoðun gildir að jafnaði í eitt ár frá skoðunardegi nema annað sé tiltekið í ADR-skoðunarhandbók Samgöngustofu.

38. gr. Leyfisskoðun ökutækja sem skráð eru til flutnings farþega og farms í atvinnuskyni.

Við skoðun ökutækis, sem skráð er til flutnings farþega og farms í atvinnuskyni, skal ganga úr skugga um að ökutæki uppfylli viðeigandi kröfur skv. leyfisskoðunarhandbók ökutækja sem Samgöngustofa gefur út. Ef ökutækið stenst leyfisskoðun, er límdur viðeigandi skoðunarmiði í vinstra neðra horn framrúðu, sem segir til um það hvenær skoðun ökutækisins rennur úr gildi.

Forsenda þess að ökutæki geti verið leyfisskoðað er að niðurstaða reglubundinnar skoðunar sé "án athugasemda" eða "lagfæring".

Leyfisskoðun gildir í eitt ár. Leyfisskoðun skal fara fram innan sama mánaðar að ári liðnu og skal sá mánuður sem vísar upp á skoðunarmiða gefa til kynna hvenær næsta skoðun skal fara fram. Litur skoðunarmiða skal vera skv. 23. gr.

39. gr. Skoðun vegna breytingar á ökutæki.

Áður en skráningu ökutækis er breytt vegna breytingar á ökutækinu, skal skoða það sérstaklega til þess að ganga úr skugga um að breytingin sé í samræmi við reglur um gerð og búnað ökutækja.

40. gr. Endurskoðun sérstakra skoðana.

Endurskoðun sérstakra skoðana, að undanskildum leyfisskoðunum, ADR-skoðunum og fulltrúa- og samanburðarskoðun, skulu vera skv. 8. gr.

41. gr. Undanþága vegna sérstakra ökutækja og vegna stærri ökutækja.

Heimilt er að nota hemlaklukku við hemlaprófun í þeim tilvikum þar sem ekki verður við komið að færa ökutæki á hemlaprófara, s.s. ef um utanvegaökutæki, kranabifreið eða beltabifreið er að ræða eða ökutæki er stærra en reglugerð um stærð og þyngd ökutækja segir til um.

Skoðunarstofu er heimilt að skoða ökutæki sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd á endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði þótt hentug gryfja eða lyfta sé ekki til staðar ef lengra en 80 km er í skoðunarstofu sem hefur yfir að ráða gryfju eða lyftu. Skal þá tryggt að hemlaprófari fyrir bifreiðir og eftirvagna, óháð leyfðri heildarþyngd, sé notaður við skoðunina. Tryggja skal að öll atriði séu skoðuð samkvæmt skoðunarhandbók þrátt fyrir að gryfja eða lyfta sé ekki til staðar.

Í skoðunarvottorði skal tilgreina ef hemlunarvirkni ökutækis er mæld í akstri.

42. gr. Skoðun ökurita á skoðunarstofu.

Um prófun ökurita við reglubundna skoðun ökutækis fer samkvæmt reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit.

Aðeins skoðunarstofa sem hlotið hefur starfsleyfi Samgöngustofu til skoðunar ökurita er heimilt að annast skoðanir ökurita skv. 1. mgr. í samræmi við þau skilyrði sem starfsleyfið tiltekur.

43. gr. Aukaskoðun að kröfu lögreglu.

Reynist ökutæki, sem lögreglan stöðvar, ekki vera í lögmæltu ástandi (vegna vanbúnaðar eða vanrækslu á skoðun) skal boða það til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu. Ekki skal veita lengri frest en sjö daga til að færa ökutækið til skoðunar. Við aukaskoðun að kröfu lögreglu skal skoða ökutækið eins og um reglubundna skoðun sé að ræða (aðalskoðun) og skal niðurstaða skoðunar vera skv. b-lið 5. mgr. 21. gr.

Lögreglan getur fjarlægt skráningarmerki af ökutæki sem talið er að ógni umferðaröryggi, uppfyllir ekki kröfur um reglugerð um gerð og búnað ökutækja eða hefur ekki verið fært til skoðunar innan tilgreinds frests, sbr. 75. gr. umferðarlaga.

44. gr. Sérstakar skoðunarhandbækur.

Samgöngustofa skal gefa út, til viðbótar við skoðunarhandbók um skoðun ökutækja, sérstaka skoðunarhandbók um skráningu og búnað ökutækja sem ætluð eru til að flytja hættulegan farm (ADR-skoðun).

Samgöngustofa skal gefa út sérstaka skoðunarhandbók um leyfisskoðun ökutækja sem ætluð eru til flutnings á fólki og farmi í atvinnuskyni (leyfisskoðun).

Samgöngustofa setur verklagsreglur um sérstaka skoðun annarra ökutækja s.s. ökutækja til flutnings fatlaðra og hreyfihamlaðra og skólabifreiða.

Skoðunarhandbækur skulu vera aðgengilegar á rafrænu formi.

VIII. KAFLI Vanrækslugjald.

45. gr. Gjaldskylda og fjárhæð vanrækslugjalds.

Leggja skal á sérstakt gjald, vanrækslugjald, sem eigandi (umráðamaður) ökutækis skal greiða ef ökutæki er ekki fært til skoðunar innan tilgreindra tímamarka samkvæmt reglugerð þessari, það er vegna:

  1. reglubundinnar skoðunar: Fyrir lok annars mánaðar frá því er ökutæki skyldi fært til reglubundinnar skoðunar skv. 6. og 7. gr.,
  2. endurskoðunar: Þegar liðinn er mánuður frá lokum þess mánaðar er ökutækið skyldi fært til endurskoðunar skv. 8. gr.,
  3. skráningarmerki afhent tímabundið: Þegar liðinn er mánuður frá því að skráningarmerki var afhent tímabundið til þess að færa mætti ökutækið til skoðunar skv. 34 gr.

Vanrækslugjald vegna ökutækja sem talin eru í a-c-lið og e-f-lið 1. mgr. 6. gr. skal vera að fjárhæð 20.000 kr. Vanrækslugjald vegna ökutækja sem talin eru í d-lið 1. mgr. 6. gr. skal vera að fjárhæð 40.000 kr.

Sé ökutæki fært til skoðunar og vanrækslugjaldið greitt innan mánaðar frá því að það var lagt á, skal það lækka um 50%. Sama gildir ef skráningarmerki eru afhent skoðunarstofu innan mánaðar frá því að gjaldið var lagt á eða ökutæki er skráð tímabundið úr umferð með miða. Sé ökutæki afskráð og móttekið til úrvinnslu innan tveggja mánaða frá álagninu gjaldsins skal fella álagninguna niður.

Vanrækslugjald skal greitt samhliða því að ökutæki er fært til skoðunar eða innlögð skráningarmerki þess eru afhent eiganda (umráðamanni) ökutækis skv. 34. gr.

Skoðunarmanni er óheimilt að skoða ökutæki nema vanrækslugjald hafi verið greitt.

46. gr. Álagning og innheimta vanrækslugjalds.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds.

Gjaldið skal lagt á með bréflegri og/eða rafrænni tilkynningu sem send skal eiganda (umráðamanni) ökutækis.

Mótbárur eða varnir vegna álagðs vanrækslugjalds skulu hafa borist sýslumanninum á Vestfjörðum innan tveggja mánaða frá álagningu. Taki sýslumaður þær gildar getur hann frestað álagningu allt að einum mánuði eða fellt hana niður.

Hafi vanrækslugjald ekki verið greitt innan þriggja mánaða frá álagningu þess skal það innheimt. Fer um fullnustuaðgerðir vegna innheimtu gjaldsins eftir 6. og 7. mgr. 74. gr. umferðarlaga. Vanrækslugjald nýtur lögveðs í viðkomandi ökutæki sem helst við eigendaskipti og má gera fjárnám til tryggingar greiðslu þess hjá eiganda (umráðamanni) ökutækis án undangengins dóms eða sáttar.

Sýslumaður skal í nóvembermánuði ár hvert auglýsa álagningu vanrækslugjalds fyrir næsta ár þar sem tilgreindir eru þeir dagar sem álagningin fer fram. Auglýsinguna skal birta á vef sýslumanna, í Lögbirtingablaðinu og a.m.k. einu dagblaði.

Samgöngustofa skal láta sýslumanni í té nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti lagt á vanrækslugjald og innheimt það, hafi það ekki verið greitt.

Þegar liðnir eru þrír mánuðir frá álagningu vanrækslugjalds skal Samgöngustofa senda lögreglu yfirlit um óskoðuð ökutæki. Hefur lögregla þá skv. 75. gr. umferðarlaga heimild til að fjarlægja skráningarmerki af viðkomandi ökutæki.

IX. KAFLI Gildistaka o.fl.

47. gr. Málskot.

Sá sem ekki vill una niðurstöðu skoðunar ökutækis í skoðunarstofu getur, að undangenginni umfjöllun stjórnenda skoðunarstofunnar, skotið niðurstöðunni til Samgöngustofu innan mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um niðurstöðu skoðunarstofu. Á sama hátt getur sá sem ekki vill una niðurstöðu endurskoðunar á endurskoðunarverkstæði, að lokinni umfjöllun stjórnenda verkstæðisins, skotið niðurstöðunni til Samgöngustofu innan mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um niðurstöðu endurskoðunarverkstæðis.

49. gr. Viðauki.

Viðauki I - Lágmarkskröfur um aðstöðu til prófana á aksturshæfni og prófunarbúnað fylgir reglugerð þessari og er hluti hennar.

50. gr. Innleiðing.

Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2015, frá 30. apríl 2015, sem birt var 4. ágúst 2016 í viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 42, eru með reglugerð þessari tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/45/ESB frá 3. apríl 2014, um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og um niðurfellingu á tilskipun 2009/40/EB. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55 frá 17. september 2015, bls. 75-152.

Með reglugerð þessari eru eftirtaldar Evrópugerðir innleiddar í íslenskan rétt og gilda ákvæði þeirra hér á landi:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/47/ESB frá 3. apríl 2014, um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni atvinnuökutækja í Sambandinu og um niðurfellingu á tilskipun 2000/30/EB. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63 frá 15. október 2015, bls. 495-579.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/2205 frá 29. nóvember 2017 um ítarlegar reglur um málsmeðferð við að tilkynna atvinnuökutæki með meiriháttar eða hættulega annmarka sem greinast við tæknilegt eftirlit á vegum. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 289-297.
  3. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/621 frá 17. apríl 2019 um þær tæknilegu upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir prófun á aksturshæfni varðandi þau atriði sem á að prófa, um notkun á þeim prófunaraðferðum sem mælt er með og um að koma á ítarlegum reglum um gagnasnið og málsmeðferðarreglur um aðgang að viðkomandi tæknilegum upplýsingum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2023, 17. mars 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 430-453.
  4. Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1716 frá 29. júní 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/47/ESB að því er varðar breytingar á tilvísunum í ökutækjaflokka vegna breytinga á löggjöfinni um gerðarviðurkenningu, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 338/2022, 9. desember 2022, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 8 frá 26. janúar 2023, bls. 315-317.
  5. Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1717 frá 9. júlí 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/45/ESB að því er varðar uppfærslu tiltekinna tilvísana í ökutækjaflokka og viðbót eCall-kerfis við skrána yfir prófunaratriði, prófunaraðferðir, ástæður fyrir bilun og mat á annmörkum í I. og III. viðauka við þá tilskipun, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 112/2023 frá 28. apríl 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 40, frá 25. maí 2023, bls. 342-345.

51. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 74. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og 12. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012 öðlast gildi 1. maí 2021. Við gildistökuna fellur úr gildi reglugerð um skoðun ökutækja nr. 8/2009.

Ákvæði til bráðabirgða.

Kröfur a- og b-liðar 2. mgr. 27. gr. um að skoðunarmaður sýni fram á viðeigandi starfsréttindi og starfsreynslu til að hljóta viðurkenningu Samgöngustofu gilda ekki um þá skoðunarmenn sem eru í starfi og hafa sinnt reglubundnum skoðunum ökutækja fyrir gildistöku reglugerðar þessarar. Þeir skulu þó hafa lokið tilskilinni endurmenntun skv. 28. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 27. gr. í síðasta lagi 1. júlíjanúar 20242026. Ákvæði 3. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 8/2009 halda gildi sínu til 1. janúar 20242025 að því er varðar tæknilega stjórnendur og skoðunarmenn sem hefja störf á skoðunarstofu eftir gildistöku reglugerðarinnar en fyrir umrædda dagsetningu. Allir tæknilegir stjórnendur og skoðunarmenn skulu hafa öðlast viðurkenningu samkvæmt þessari reglugerð í síðasta lagi 1. júlí 2024.

Kröfur um búnað sem áskilinn er í 1. mgr. 1. gr. I. viðauka við reglugerð þessa skv. liðum 8, 15, 16 og 18 skulu vera uppfylltar eigi síðar en 1. júlíjanúar 20242025.

Viðbótarfrestur skv. 7. mgr. 6. gr. skal vera fjórir mánuðir til 1. júní 2022.

Þrátt fyrir 51. gr. skulu b- og f-liður 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 7. gr. og 2.-3. málsl. 2. mgr. 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 2025 og fram til þess tíma skulu ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. og 7. gr. reglugerðar nr. 8/2009 halda gildi sínu. Þá skal, þrátt fyrir 1. málsl. 6. mgr. 6. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 7. gr., fram til 1. janúar 20242026 fara um heimildir til að færa ökutæki til reglubundinnar skoðunar fyrir lögbundinn skoðunarmánuð samkvæmt 3. og 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 8/2009.

Ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 8/2009 heldur gildi sínu til 1. júlíjanúar 20242025, að því er varðar vegaskoðanir lögreglu.

Þrátt fyrir e-lið 1. mgr. 6. gr. skulu eftirvagnar í notkunarflokknum tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi, fyrst skráðir 2004 og á slétttöluárum fyrir það ár (2002, 2000, 1998 o.s.frv.), sem færðir voru til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, næst færðir til reglubundinnar skoðunar árið 2024 og annað hvert ár eftir það, í samræmi við 1. málsl. e-liðar 1. mgr. 6. gr.

Þrátt fyrir f-lið 1. mgr. 6. gr. skulu ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki, sem eru með fyrstu skráningu á slétttöluári en nýskráningarár á oddatöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, næst færð til reglubundinnar skoðunar á árinu 2024 og annað hvert ár eftir það, í samræmi við 1. málsl. Ökutæki í sama flokki og skv. 1. málsl., sem eru með fyrstu skráningu á oddatöluári en nýskráningarár á slétttöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2020, skulu færð næst til reglubundinnar skoðunar á árinu 2023 og annað hvert ár eftir það.

Fram til 1. júlíjanúar 20242025 er heimilt að veita 30 daga frest til viðbótar áður útgefnum fresti vegna endurskoðunar að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Slíkan frest er aðeins heimilt að veita ef ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins. Skoðunarstofa veitir frestinn og getur, teljist þess þörf, óskað eftir staðfestingu á því að framangreind skilyrði undanþágu séu uppfyllt. Veiti skoðunarstofa frestinn skal nýr skoðunarmiði skv. b-lið 6. mgr. 23. gr. settur á ökutækið eða staðfesting á veittum fresti send eiganda ökutækis (umráðanda) með rafrænum hætti.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.