Fara beint í efnið

Prentað þann 13. nóv. 2024

Breytingareglugerð

403/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir talnagetraunir Íslenskrar getspár nr. 1170/2012 með síðari breytingum.

1. gr.

1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Félagið starfrækir talnagetraunir (lottó) undir heitunum Lottó 5/40, Jóker, Víkingalottó (Lottó 6/48 + 1/8) og EuroJackpot (5/50 + 2/10).

2. gr.

1. málsl. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Á hverju leikspjaldi Víkingalottós eru 10 leikir (raðir), sem merktir eru bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, I og J, og er hver leikur með tölunum 1‑48 auk Víkingatalna 1-8.

3. gr.

Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Auk þess velur þátttakandi í Víkingalottó eina Víkingatölu á bilinu 1-8.

4. gr.

Í stað orðanna "í Víkingalottó kr. 80" í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: í Víkingalottó kr. 100.

5. gr.

2. málsl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Kerfisleikspjald skal þátttakandi fylla út á þann veg að hann strikar lóðrétt í reiti þeirra talna er hann velur úr tölunum 1-48 auk einnar Víkingatölu frá 1-8 og staðfestir fjölda þeirra (7, 8, 9 eða 10) með því að merkja aftan við viðkomandi tölur á leikspjaldinu.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. reglugerðarinnar:

  1. 5.-7. mgr. orðast svo:

Útdráttur í Víkingalottó fer fram á hverjum miðvikudegi í heimalandi einhvers samstarfsaðila, undir eftirliti þarlendra yfirvalda, samkvæmt reglum sem samþykktar eru af opinberum eftirlitsaðilum samstarfsaðilanna, hér á landi af dómsmálaráðuneytinu. Þegar dráttur fer fram hér á landi fer um eftirlitið í samræmi við 2. mgr.

Aðalútdrátturinn fer fram með þeim hætti að valdar eru sex aðaltölur af tölunum 1-48 og ein Víkingatala úr talnaröð 1-8.

Útdráttur í Jóker sem tengdur er Víkingalottó fer fram á miðvikudögum, með Jóker útdráttarvél sem varðveitt er í innsigluðum kassa, með eftirfarandi hætti:

  1. Fimmtán mínútum eftir lokun sölukerfis ræsir starfsmaður Íslenskrar getspár útdrátt í vélinni. Útdrátturinn fer fram með sama hætti og lýst er í 4. mgr. og að viðstöddum eftirlitsmanni skv. 1. mgr. 16. gr.
  2. Útdrátturinn er tekinn upp á myndbandsspólu.
  1. 2. málsl. 10. mgr. orðast svo: Að því er varðar Víkingalottó skal vinnsla í tölvukerfinu falla niður einni klukkustund áður en útdráttur á að fara fram þar til útdrætti er að fullu lokið.

7. gr.

11. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Víkingalottó.

Vinningar í Víkingalottó skiptast þannig:

  1. Fyrsti vinningur er sameiginlegur hjá þátttökuaðilum, sbr. 2. gr., og skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa 6 aðaltölur réttar og Víkingatöluna. Greiðir hvert talnagetraunafyrirtæki 0,110 evrur af andvirði hvers selds leiks til þessa vinningsflokks. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi evru á útdráttardegi.
  2. Annar vinningur er sameiginlegur hjá þátttökuaðilum, sbr. 2. gr., og skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa 6 aðaltölur réttar. Greiðir hvert talnagetraunafyrirtæki 0,018 evrur af andvirði hvers selds leiks til þessa vinningsflokks. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi evru á útdráttardegi.
  3. 0,032 evrur renna í jöfnunarsjóð sem hefur það hlutverk að tryggja að 1. vinningur verði aldrei undir 3 milljónum evra. Auk þess renna í jöfnunarsjóðinn auramismunur og ósóttir vinningar úr vinningsflokkum 1 og 2.
  4. Til annarra vinninga renna 45% af heildarsölu hverrar leikviku hér á landi, að frádreginni greiðslu Íslenskrar getspár til vinninga, sbr. a-, b- og c-lið, og skiptast í vinningsflokka í eftirgreindum hlutföllum:

    1. 28% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina Víkingatölu.
    2. 7% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar.
    3. 12% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar.
    4. 53% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar.

Komi í ljós við útdrátt í Víkingalottó að:

  1. enginn þátttakandi hafi allar 6 aðaltölur réttar auk Víkingatölu skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá allar sex aðaltölur réttar auk Víkingatölu í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv. Fari vinningsfjárhæð fyrir þennan vinningsflokk yfir 35 milljónir evra skal umframfjárhæðin fara í 2. vinningsflokk í næsta útdrætti;
  2. enginn þátttakandi hafi allar 6 aðaltölur réttar skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra sem fá allar sex aðaltölurnar réttar í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv. Fari vinningsfjárhæð fyrir þennan vinningsflokk yfir 35 milljónir evra skal umframfjárhæðin fara í 1. vinningsflokk í næsta útdrætti;
  3. enginn þátttakandi hafi 5 aðaltölur réttar auk Víkingatölu skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 5 aðaltölur réttar auk Víkingatölu í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með 5 aðaltölur réttar auk Víkingatölu í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.;
  4. enginn þátttakandi hafi 5 aðaltölur réttar skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 5 aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði enginn þátttakandi með 5 aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.;
  5. enginn þátttakandi hafi 4 aðaltölur réttar skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 4 aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði enginn þátttakandi með 4 aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.;
  6. enginn þátttakandi hafi 3 aðaltölur réttar skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 3 aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði enginn þátttakandi með 3 aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

Þátttakendur hljóta eingöngu vinning í samræmi við hæsta fjölda talna í hverri röð, þ.e. sá sem hlýtur vinning samkvæmt a-lið 1. mgr. hlýtur ekki vinning samkvæmt b-lið 1. mgr.

Fyrir hvern útdrátt verður tryggð útborgun úr 1. vinningsflokki að lágmarki 3 milljónir evra. Ef einn eða fleiri vinningar í 1. vinningsflokki og regluleg útborgun þess vinningsflokks er lægri en tryggða útborgunin, mun útborgun þess vinningsflokks vera að fjárhæð 3 milljónir evra. Ef þar er enginn vinningshafi verður útborgun 1. vinningsflokks í næsta útdrætti aukin um það sem samsvarar tryggðu útborguninni.

Frávik vinninga á sér stað þegar fjárhæð vinninga eða stærð vinningspottar í sameiginlegum lægri vinningsflokki er hærri en í næsta sameiginlegum hærri vinningsflokki. Frávik geta aðeins átt sér stað í sameiginlegum vinningsflokkum 1 og 2 ef:

  1. vinningspottur í 2. vinningsflokki er stærri en vinningspottur í 1. vinningsflokki en þá skal leggja saman vinningspotta beggja vinningsflokka og deila í fjárhæðina með tveimur til að finna út vinningsfjárhæðina;
  2. fjárhæð vinnings á hvern vinningshafa er hærri í 2. vinningsflokki en í 1. vinningsflokki en þá skal leggja saman vinningsfjárhæðir beggja vinningsflokka og deila með fjölda vinningshafa til að finna út vinningsfjárhæðina.

Fjárhæðin í jöfnunarsjóði skal ekki fara yfir 7,5 milljónir evra. Umframfjárhæð skal bæta við 1. vinningsflokk í næsta útdrætti, nema fjárhæð í 1. vinningsflokki sé hærri en 35 milljónir evra en þá skal bæta umframfjárhæðinni ásamt umframfjárhæð í 1. vinningsflokki við 2. vinningsflokk í sama útdrætti. Ef fjárhæð í 2. vinningsflokki er einnig hærri en 35 milljónir evra skal umframfjárhæð fara í 1. vinningsflokk í næsta útdrætti þrátt fyrir að 1. vinningsflokkur kunni að vera hærri en 35 milljónir evra.

8. gr.

3. tölul. 13. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

3. Víkingalottó:

Sex réttar aðaltölur og Víkingatala 1:98.172.096
Sex réttar aðaltölur 1:14.024.585
Fimm réttar aðaltölur og Víkingatala 1:389.572
Fimm réttar aðaltölur 1:55.653
Fjórar réttar aðaltölur 1:950
Þrjár réttar aðaltölur 1:53

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um talnagetraunir nr. 26 2. maí 1986, öðlast gildi 18. maí 2017.

Dómsmálaráðuneytinu, 2. maí 2017.

Sigríður Á. Andersen.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.