Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 20. júní 2014
Sýnir breytingar gerðar 20. júní 2014 af rg.nr. 581/2014

36/2009

Reglugerð um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerðin kveður á um hlutverk og valdsvið úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, skipan nefndarinnar, málskotsgjald, kærufresti, réttaráhrif kæru, málsmeðferð, efni úrskurða, birtingu úrskurða úrskurðarnefndarinnar, kostnað vegna úrskurða nefndarinnar, málskot til dómstóla og aðra þætti sem lúta að starfsumhverfi nefndarinnar.

2. gr. Hlutverk.

Hlutverk úrskurðarnefndar er að leysa með skjótum, vönduðum og óhlutdrægum hætti úr kærum sem nefndinni berast vegna ákvarðana Póst- og fjarskiptastofnunar. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum.

Úrskurðarnefndin tekur til úrskurðar, að kröfu þess sem á sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta, kæranlega ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, hvort heldur sem kæra lýtur að málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til samgönguráðherraráðherra. Málskot til dómstóla hindrar að úrskurðarnefnd sé heimilt að taka kæru til meðferðar. Verði máli vísað til dómstóla á meðan nefndin hefur málið til meðferðar skal nefndin fella mál niður um leið og vitneskja um málskot til dómstóla verður nefndinni kunn.

3. gr. Skipan úrskurðarnefndar.

Í úrskurðarnefnd sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherraráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Formaður og varaformaður skipa jafnan nefndina á hverjum tíma ásamt meðnefndarmanni. Varaformaður leysir formann af ef hann forfallast. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.

4. gr. Skipulag daglegra starfa, starfsstöð, starfslið og aðkeypt þjónusta.

Formaður úrskurðarnefndar stýrir störfum nefndarinnar og ber á henni ábyrgð. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við.

Formaður ákveður hvort og eftir atvikum hver starfsstöð úrskurðarnefndar eigi að vera í samráði við ráðherra.

Að fengnu samþykki ráðherra getur nefndin ráðið starfslið eða falið sjálfstætt starfandi aðila að annast skrifstofuhald fyrir nefndina. Þóknun slíkra aðila skal greiða úr ríkissjóði.

Séu mál sérlega flókin getur nefndin að fengnu samþykki ráðherra kallað sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Skulu þeir aðilar starfa með úrskurðarnefnd eftir nánari ákvörðun formanns sem ákveður þeim þóknun fyrir starfann. Leitast skal við að halda slíkum sérfræðikostnaði í lágmarki. Ef fyrirséð er að kostnaður vegna sérfræðiþjónustu verði umfangsmikill skal nefndin leita sjónarmiða þeirra sem hugsanlega bera kostnað af málinu áður en ráðist er í hann. Kostnaður við sérfræðiráðgjöf er hluti af málskostnaði samkvæmt 12. gr.

5. gr. Kærufrestur.

Kæru skal beina til úrskurðarnefndar innan fjögurra vikna frá því kæranda varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Gagnvart fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum ber að miða upphaf kærufrests við þann dag sem ákvörðun er birt á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar. Kæru sem berst eftir lok fjögurra vikna kærufrestsins skal að öllu jöfnu vísa frá nefndinni, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæra telst nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

6. gr. Málskotsgjald.

Með kæru fjarskiptafyrirtækis og/eða póstrekanda til úrskurðarnefndar skal fylgja málskotsgjald að upphæð 150.000 kr. sem endurgreiðist ef málið vinnst fyrir nefndinni. Úrskurðarnefnd skal ekki taka kæru til meðferðar nema málskotsgjald fylgi.

Notendum fjarskiptaþjónustu og Póst- og fjarskiptastofnun er ekki gert að greiða málskotsgjald. Kostnaður vegna málskots þeirra til úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

7. gr. Form kæru.

Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Kærunni skal fylgja frumrit eða endurrit þeirrar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar sem kæran tekur til og upplýsingar um kæranda.

Í kæru skulu koma fram upplýsingar um til hvaða atriða í viðkomandi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar kæran tekur, ásamt kröfum kæranda, málsatvikalýsingu, málsástæðum og rökstuðningi.

Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 1. og 2. mgr. skal úrskurðarnefnd beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal úrskurðarnefnd vísa kærunni frá.

Kærur vegna málsmeðferðar Póst- og fjarskiptastofnunar eiga almennt ekki að koma til meðferðar úrskurðarnefndar fyrr en Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið endanlega ákvörðun í máli. Beinist kæra að málshraða Póst- og fjarskiptastofnunar getur úrskurðarnefndin tekið málið til úrskurðar varðandi þann þátt málsins án undangenginnar ákvörðunar stofnunarinnar.

8. gr. Réttaráhrif kæru.

Kæra til úrskurðarnefndar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar.

Úrskurðarnefnd er þó heimilt, að kröfu málsaðila, að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þegar sérstakar ástæður mæla með því, í samræmi við stjórnsýslulög. Póst- og fjarskiptastofnun skal gefinn kostur á því að tjá sig skriflega um slíka kröfu áður en ákvörðun liggur fyrir.

9. gr. Málsmeðferð.

Málsmeðferð úrskurðarnefndar skal vera í samræmi við ákvæði 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, með síðari breytingum. Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir VII. og VIII. kafla stjórnsýslulaga og reglugerð þessari.

Úrskurðarnefnd skal taka mál til meðferðar án tafar eftir að kæra berst henni.

Nú er kæra tæk til efnismeðferðar og gefur nefndin þá málsaðilum, Póst- og fjarskiptastofnun og öðrum þeim sem nefndin telur beinna, verulegra og lögvarinna hagsmuna hafa að gæta af niðurstöðu máls kost á að tjá sig skriflega um efni kærunnar innan hæfilegs frests. Hæfilegur frestur í þessu sambandi getur verið tvær til þrjár vikur eftir umfangi máls.

Úrskurðarnefnd er jafnan heimilt að beina því til málsaðila og/eða Póst- og fjarskiptastofnunar að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja ákveðinn frest í því skyni.

Taka skal mál til úrskurðar að fengnum gögnum sem um ræðir í 2.- 4. mgr. Séu gögn ekki lögð fyrir úrskurðarnefnd innan frests er úrskurðarnefnd heimilt að kveða upp úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna, enda telji hún málið nægilega upplýst.

Úrskurðarnefndin skal ákveða tímafresti sem tryggja hraða málsmeðferð kærumála. Hafi aðili máls ekki lagt fram gögn innan tilskilinna tímafresta má taka ákvörðun þó það sé til tjóns fyrir viðkomandi aðila.

10. gr. Munnlegur málflutningur.

Formaður úrskurðarnefndar ákveður hvort munnlegur málflutningur fari fram í máli og skal tilkynna málsaðilum og Póst- og fjarskiptastofnun um þá ákvörðun sína án tafar. Formaður skal boða til fundar með sannanlegum hætti.

Munnlegur málflutningur kemur einkum til álita ef mál er flókið, hefur að geyma vandasöm úrlausnarefni, er sérlega þýðingarmikið eða varðar ágreining um grundvallaratriði í fjarskiptarétti eða á sviði póstmála.

Sé um munnlegan flutning máls að ræða fer hann fram á þeim stað sem formaður nefndarinnar ákveður.

Heimili úrskurðarnefnd munnlegan málflutning getur aðili því aðeins breytt kröfugerð sinni, borið fyrir sig nýjar málsástæður eða lagt fram ný gögn í munnlegum málflutningi ef það er afsakanlegt að slíkt hafi ekki verið gert í kæru. Heimili úrskurðarnefnd ofangreint skal nefndin veita aðilum máls, Póst- og fjarskiptastofnun og öðrum sem kunna að hafa lögmætra hagsmuna að gæta tækifæri til þess að koma við andsvörum. Í því skyni er nefndinni heimilt að fresta málinu.

11. gr. Meðferð trúnaðarupplýsinga.

Séu aðilar máls fleiri en kærandi og Póst- og fjarskiptastofnun ber úrskurðarnefnd að gæta þess að gögn málsins sem dreift er til málsaðila hafi ekki að geyma upplýsingar sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni málsaðila eða annarra sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.

12. gr. Málskostnaður.

Málskostnaður er kostnaður nefndarinnar sem verður til við kærumeðferð málsins hjá henni. Til hans telst kostnaður vegna þóknunar nefndarmanna, reksturs málsins fyrir nefndinni, starfsaðstöðu, sérfræðiaðstoðar og gagnaöflunar að teknu tilliti til málskotsgjalds.

Tapist mál í grundvallaratriðum skal sá málsaðili sem tapar að jafnaði greiða málskostnað nefndarinnar. Úrskurðarnefnd kveður á um fjárhæð og skiptingu málskostnaðar í úrskurðarorðum sínum samkvæmt 14. gr.

Notendum fjarskiptaþjónustu og Póst- og fjarskiptastofnun verður ekki gert að greiða málskostnað samkvæmt þessari grein. Kostnaður vegna þeirra er ákveðinn af ráðherra og greiddur úr ríkissjóði.

Vísi málsaðili ágreiningi til dómstóla á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd getur nefndin kveðið á um málskostnað sem til hefur orðið við meðferð málsins hjá nefndinni að teknu tilliti til málskotsgjalds.

Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðfararhæf.

13. gr. Uppkvaðning úrskurðar.

Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan tólf vikna frá því að kæra berst henni. Sé mál flókið og viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna það málsaðilum og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær úrskurðar sé að vænta.

Afl atkvæða nefndarmanna ræður niðurstöðu máls. Minnihlutaatkvæði skal fylgja úrskurði. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni, eða niðurstaða getur eigi ráðist af atkvæðamagni, ræður atkvæði formanns.

14. gr. Efni úrskurðar.

Úrskurðir skulu vera skriflegir og rökstuddir. Í þeim skal greina:

  1. hvenær mál var kært,
  2. nöfn aðila,
  3. kröfur aðila,
  4. efni það sem til úrlausnar er, þ. á m. hin kærða ákvörðun,
  5. stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því,
  6. helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á,
  7. rökstuðning fyrir niðurstöðum nefndarinnar,
  8. úrskurðarorð, þ.m.t. skipting málskostnaðar milli fjarskiptafyrirtækja og/eða póstrekenda.

Í úrskurði skal tekið fram í forsendum nefndarinnar að úrskurði hennar þurfi að bera undir dómstóla innan sex mánaða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar.

Álit minnihluta skulu útgefin samhliða áliti meirihluta nefndar.

Úrskurðir skulu undirritaðir af öllum nefndarmönnum sem að honum standa. Formaður nefndarinnar ber ábyrgð á ritun og birtingu úrskurða eftir að nefndin hefur komist að niðurstöðu um efni úrskurðar og úrskurðarorð.

15. gr. Birting úrskurða.

Úrskurðir skulu færðir í gerðabók eða varðveittir með öðrum tryggum hætti. Úrskurðarnefnd getur leiðrétt augljósar villur í úrskurði og úrskurðarorðum.

Úrskurðarnefnd skal kynna aðilum kærumáls niðurstöðu sína með sannanlegum hætti án tafar eftir að niðurstaða liggur fyrir. Úrskurðarnefnd skal birta alla úrskurði sína opinberlega á heimasíðu sinni eða fela samgönguráðuneytinuráðuneytinu að birta úrskurðina með slíkum hætti.

Úrskurðarnefnd ber ábyrgð á því að birtir úrskurðir hafi ekki að geyma upplýsingar sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni málsaðila eða annarra sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.

16. gr. Ársskýrsla.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála skal skila árlegri skýrslu um starfsemi undangengins árs til samgönguráðherraráðherra í janúar ár hvert.

17. gr. Afturköllun kæru.

Sá aðili sem kærir mál til úrskurðarnefndar getur afturkallað kæru sína hvenær sem er á meðan málsmeðferð stendur. Kærandi skal engu að síður bera þann málskostnað sem til hefur orðið við meðferð málsins hjá nefndinni fram að afturköllun.

18. gr. Málskot til dómstóla.

Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun getur í undantekningartilfellum borið úrskurð nefndarinnar undir dómstóla enda liggi fyrir samþykki ráðherra. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.

Aðili getur borið ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar undir dómstóla án þess að mál sé fyrst borið undir úrskurðarnefnd. Slíkt mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um ákvörðun stofnunarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvarðana stofnunarinnar.

19. gr. Þagnarskylda.

Nefndarmönnum úrskurðarnefndar, starfsmönnum nefndarinnar og sérfræðingum á hennar vegum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um viðskipti og rekstur málsaðila. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

20. gr. Gildistaka og brottfelling.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 7. mgr. 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, sbr. 2. gr. laga nr. 117/2008, öðlast þegar gildi.

Á sama tíma fellur brott reglugerð um úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála nr. 378/1999.

 Samgönguráðuneytinu, 6. janúar 2009. 

 Kristján L. Möller. 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.