Fara beint í efnið

Milliríkjasamningar vegna almannatrygginga

Norðurlandasamningar

Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar

Þann 1. maí 2014 tók gildi nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar sem samþykktur var á Alþingi með lögum nr. 119/2013. Hann leysir af hólmi eldri Norðurlandasamning sem tók gildi 1. september 2004. 

Aðilar að samningnum eru Ísland, Danmörk, Finnland (og Álandseyjar),  Noregur og Svíþjóð.  Færeyjar og Grænland eru aðilar að samningnum frá 1. maí 2015 en voru þann tíma sem leið frá því samningurinn tók gildi í hinum löndunum áfram aðilar að eldri samningi.

Samningurinn byggir að mestu leyti á eldri samningi en er lagaður að þeirri þróun sem orðið hefur innan Evrópu og á löggjöf norrænu ríkjanna um almannatryggingar. Á grundvelli samningsins gilda reglur Evrópusambandsins einnig um Færeyinga og Grænlendinga. Sama á við um ríkisborgara landa utan EES/EFTA sem flytja milli Norðurlandanna. Danmörk hefur þó sett fyrirvara um ríkisborgara utan EES landa er varðar fjölskyldubætur, atvinnuleysisbætur þegar farið er til annars lands og reglur um grunnlífeyri.

Markmið samningsins er að auðvelda flutning milli Norðurlanda og tryggja þeim sem það gera almannatryggingaréttindi.

Ef ekki er annars getið í Norðurlandasamningum er gildissvið almannatryggingareglna EES samningsins rýmkað þannig að þær reglur taki til allra sem falla undir Norðurlandasamninginn og eru búsettir í norrænu landi.

Norðurlandasamningurinn tekur til allra sem falla undir EES reglurnar og annarra einstaklinga sem heyra undir að hafa heyrt undir löggjöf í norrænu landi, aðstandendur þeirra eða eftirlifendur sem rekja rétt sinn til þeirra sem um getur hér á undan.

Þannig gilda EES reglurnar að mestu um alla þá sem eru tryggðir og búsettir á Norðurlöndunum að Færeyjum og Grænlandi meðtöldum, og fara á milli þessara landa í atvinnuskyni eða flytja milli landanna.

Sérreglur í samningnum

Í samningnum eru einnig nokkrar sérreglur t.d. varðandi samvinnu um endurhæfingu, heimflutning vegna veikinda, atvinnuleysistryggingar og útreikning fjölskyldubóta.

Helsta atriði nýs samnings eru, hvað Tryggingastofnun varðar, ákvæði um að löndin geri með sér tvíhliða samninga um endurhæfingu og hvernig með þau mál eigi að fara.  Markmiðið er að endurhæfing geti farið fram í öðru norrænu landi en vinnulandi. Þannig myndi til dæmis aðili sem býr á Íslandi en starfar í Noregi geta sótt um að endurhæfast á Íslandi lendi hann í slysi eða veikist alvarlega. Sjá nánar á vef Tryggingastofnunar

Leiði veikindi eða slys til þess að einstaklingur sem dvelur tímabundið í öðru norrænu landi þurfi að nota dýrari ferðamáta við heimferð en hann ella myndi gera greiðir dvalarlandið þann aukakostnað. Þörf á dýrari ferðamáta skal staðfest af lækni með skriflegu vottorði og tekur stofnun á dvalarstað ákvörðun um endurgreiðslu fyrir heimför

Gerður hefur verið framkvæmdasamningur með samningnum þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd hans. Í viðauka hans er m.a. að finna stutta lýsingu á helstu bótaflokkum Norðurlandanna.

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar