Fara beint í efnið

Mælingar skipa og báta

Beiðni um útgáfa mælibréfs

Sérhvert fljótandi far sem skráð er í íslenska skipaskrá skal mælt og í kjölfarið gefið út mælibréf. Þetta á þá ekki við báta undir 6 metrum í skráningarlengd.

Brúttótonnamæling skipa

Tekin eru mál skipsins:

  • skráningarlengd

  • skráningarbreidd

  • mótuð dýpt

  • mesta lengd

Skip undir 15 metrum í mestu lengd

Þeir sem hafa heimild til að mæla skip undir 15 metrum í mestu lengd, eru starfsmenn Samgöngustofu og þeir starfsmenn faggildra skoðunarstofa sem hafa fengið til þess þjálfun á námskeiðum, sem eru haldin af Samgöngustofu.

Eftir mælingarnar hafa verið framkvæmdar, er skýrsla send til samþykktar hjá Skipatæknideild Samgöngustofu. Skipatæknideild sendir svo aðra skýrslu ásamt upplýsingum um brúttó- og nettótonnastærðir til skipaskráningar. Fyrrnefnd gögn eru sett í skjalasafn Samgöngustofu. Skipaskráning gefur svo út sameiginlegt mælibréf og skráningarskírteini.

Skip 15 metrar eða lengri

Einkareknar skipatækniþjónustur eða skipasmíðastöðvar með verkfræðinga eða tæknifræðinga í sinni þjónustu, reikna út brúttótonna- og nettótonnatölur samkvæmt Alþjóðasamningnum frá 1969 (ITC69) um mælingar skipa. Útreikningana skal senda til Samgöngustofu til samþykktar.

ITC69 (International Convention on Tonnage Measurement of Ships, 1969) gildir um skip sem eru 24 metra í skráningarlengd og lengri.

Ákvæði í reglugerð 527/1997 um mælingar skipa sem eru 15 metra í mestu lengd að 24 metrum í skráningarlengd eru mjög áþekk ákvæðunum í ITC69

Fulltrúar Samgöngustofu fara um borð í skip til að:

  • kanna hvort skip séu smíðuð eins og mælingar og útreikningar skipatækniþjónustu sýna

  • mæla aðalmál skipsins

  • Í nýsmíðum skipa erlendis hafa verið fengnir viðurkenndir aðilar til að mæla skip skv. ákvæðum ITC69. Fulltrúar flokkunarfélaga eru beðnir sérstaklega um vera vitni af mælingum.

Innflutningur eldri skipa að 24 metrum í skráningarlengd

Mælireglur fyrir skip undir 24 metrum í skráningarlengd eru mismunandi eftir þjóðríkjum.

Hugtakið skráningarlengd er t.d. ekki notað um skip og báta af þessari stærð hjá mörgum þjóðríkum. Þeir notast þá einungis við mestu lengd. Þetta þýðir að starfsmenn Samgöngustofu þurfa þá að mæla skráningarlengdina.

Þegar þessi skip eru flutt inn til landsins þarf ennfremur að endurskoða skipamælingarnar og brúttótonnaútreikninga skv. íslenskum mælireglum.

Sem dæmi má nefna að brúttótonnaútreikningar norskra skipa milli 15 metra í mestu lengd að 24 metrum í skráningarlengd gefur lægri BT tölu miðað við íslenskar reglur.

Úrvinnsla

Að loknum mælingum fer Samgöngustofa yfir gögnin og gefur út mælibréf sem tilgreinir þau rými sem brúttó og nettótonnastærð skipsins byggir á.

Staðfestir útreikningarnir eru sendir til skipatækniþjónustunnar eða skipasmíðastöðvar með rafrænni áritun og eru einnig, ásamt öðrum gögnum, settir í rafrænt skjalasafn Samgöngustofu.

Kostnaður

Eigendur skipa greiða fyrir skipamælingar í samræmi við gjaldskrá Samgöngustofu.

Lög og reglur

Beiðni um útgáfa mælibréfs

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa