Endurveiting íslensks ríkisfangs
Á þessari síðu
Íslenskt ríkisfang misst fyrir 1. júlí 2003
Ísland heimilaði tvöfalt ríkisfang 1. júlí 2003. Fyrir þann tíma missti íslenskur ríkisborgari íslenskt ríkisfang sitt við veitingu erlends ríkisfangs.
Einstaklingur, sem öðlaðist erlent ríkisfang fyrir 1. júlí 2003 og missti þar með íslenskt ríkisfang sitt, getur fengið íslenskt ríkisfang að nýju með því að óska eftir því við Útlendingastofnun.
Fái einstaklingur íslenskt ríkisfang veitt að nýju, fá ógift börn hans undir 18 ára aldri einnig íslenskt ríkisfang, ef hann hefur forsjá þeirra.
Skilyrði
Skilyrði fyrir endurveitingu íslensks ríkisfangs með beiðni er að:
Þú hafir misst íslenskt ríkisfang við töku erlends ríkisfangs fyrir 1. júlí 2003.
Þú hafir búið eða dvalið á Íslandi eða átt samskipti við landið sem eru talin nægja til að halda íslensku ríkisfangi.
Kostnaður
Afgreiðslugjald er 13.500 krónur.
Beiðnin er ekki tekin til vinnslu fyrr en greiðsla hefur borist, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds.
Hvernig er sótt um
Beiðnir er aðeins hægt að leggja fram á pappírsformi.
Þeim má skila í þar til gerðan póstkassa í anddyri Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi eða senda í bréfpósti á sama heimilisfang.
Útlendingastofnun (sjá á korti)
Dalvegi 18
201 Kópavogi
Ísland
Fylgigögn
Sjá nánari leiðbeiningar varðandi kröfur til skjala. Ekki þarf vottun á íslensk vottorð.
Beiðni: Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
Greiðslukvittun.
Erlent vegabréf: Afrit af síðum með persónuupplýsingum, rithandarsýnishorni og öllum stimplum.
Íslenskt vegabréf: Ef við á. Afrit af síðum með persónuupplýsingum, rithandarsýnishorni og öllum stimplum.
Fæðingarvottorð: Staðfest afrit af frumriti. Frumritið þarf að vera lögformlega staðfest með apostille vottun eða keðjustimplun, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Þýðing fæðingarvottorðs: Ef vottorðið er ekki á ensku eða Norðurlandamáli þarftu að leggja fram staðfest afrit eða frumrit þýðingar, sem gerð er af löggiltum skjalaþýðanda.
Búsetutímavottorð frá Þjóðskrá: Vottorðið tilgreinir í hvaða landi eða löndum þú hefur átt lögheimili frá upphafi lögheimilisskráningar á Íslandi til dagsins í dag.
Gögn um veitingu núverandi erlends ríkisfangs.
Upplýsingar um tengsl við Ísland: Ef umsækjandi er fæddur erlendis og hefur aldrei búið á Íslandi.
Viðbótargögn sem gæti þurft að leggja fram
Ef þú giftir þig erlendis þarftu einnig að leggja fram:
Hjúskaparvottorð: Staðfest afrit af frumriti. Frumritið þarf að vera lögformlega staðfest með apostille vottun eða keðjustimplun, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Þýðing hjúskaparvottorðs: Ef vottorðið er ekki á ensku eða Norðurlandamáli þarftu að leggja fram staðfest afrit eða frumrit þýðingar, sem gerð er af löggiltum skjalaþýðanda.
Gögn um skilnað, ef við á.
Ef þú átt börn yngri en 18 ára
Börn þín geta fengið íslenskt ríkisfang um leið og þú, ef:
Þau eru yngri en 18 ára.
Þau eru ógift.
Þú hefur forsjá þeirra.
Fylgigögn fyrir börn
Vegabréf: Afrit af síðum með persónuupplýsingum, rithandarsýnishorni og öllum stimplum.
Fæðingarvottorð: Staðfest afrit af frumriti. Frumritið þarf að vera lögformlega staðfest með apostille vottun eða keðjustimplun, og síðan tekið af því staðfest afrit.
Þýðing fæðingarvottorðs: Ef vottorðið er ekki á ensku eða Norðurlandamáli þarftu að leggja fram staðfest afrit eða frumrit þýðingar, sem gerð er af löggiltum skjalaþýðanda.
Forsjárgögn.
Ef þú ferð ein/einn með forsjá barnsins, þarftu að leggja fram gögn til staðfestingar á forsjá. Frumrit gagna skulu vera vottuð með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af þeim staðfest afrit. Ef gögnin eru á öðru máli en íslensku, ensku eða Norðurlandamáli þarf einnig að skila löggiltri skjalaþýðingu þess.
Ef báðir foreldrar fara með forsjá barnsins, þarftu að leggja fram undirritað samþykki hins forsjáraðilans og afrit af vegabréfi viðkomandi.
Samþykki barns, ef það er á aldrinum 12 til 18 ára.
Lög
Íslenskur ríkisborgararéttur er endurveittur þeim sem misstu íslenskt ríkisfang sitt áður en Ísland heimilaði tvöfalt ríkisfang samkvæmt 18. grein laga um íslenskan ríkisborgararétt númer 100/1952.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun