Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Umskráningar (eigenda og umráðenda)

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar móttöku tilkynninga um skráningu eigenda og umráðenda (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    Efni kaflans

    Umráðendur

    Tilkynningu um skráningu, breytingu og niðurfellingu umráðanda ber að tilkynna með stafrænum hætti á heimasíðu Samgöngustofu. Einnig er í boði að að tilkynna á eyðublaði og framvísa því hjá þjónustuaðila.

    Móttaka stafrænna tilkynninga

    Samgöngustofa hefur það að markmiði að gera þjónustu sína stafræna og hvetur því til þess að viðskiptavinum sé leiðbeint um þann kost að ganga frá umráðendabreytingum þannig.

    Móttaka tilkynninga á pappír

    Ökutæki þarf að vera forskráð eða nýskráð til að heimilt sé að móttaka tilkynningu um umráðanda.

    Við móttöku tilkynninga er gengið úr skugga um að tilkynning sé í frumriti, hún sé rétt útfyllt og öll skilyrði skráningar uppfyllt. Ef tilkynning er ekki skráningarhæf (t.d. rangar upplýsingar, óljósar eða yfirstrikanir) skal vísa henni frá og leiðbeina viðskiptavini um það sem lagfæra þarf.

    • Merkja á við hvers eðlis tilkynningin er, þ.e. skráning á nýjum umráðanda, breyting eða niðurfelling.

    • Skráður eigandi og umráðandi skulu undirrita tilkynninguna og einn vitundarvott þarf að undirskriftum. Ef aðrir en ofangreindir aðilar undirrita tilkynninguna samkvæmt umboði skal umboð fylgja með.

    • Heimilt er að skrá breytingu á umráðanda ökutækis sem er á forskrá og skulu þá fyrri umráðandi og nýr báðir undirrita tilkynninguna. Ef ritað er undir fyrir þeirra hönd skal vottað umboð að fylgja með.

    • Ef óskað er skráningar umráðanda við nýskráningu ökutækis skal tilgreina umráðanda á nýskráningarbeiðni.

    • Ef óskað er skráningar umráðanda við eigendaskipti er það gert á eigendaskiptatilkynningu.

    Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda, tveir vitundarvottar, staður og dagsetning. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.

    Skráningarhæfar tilkynningar eru mótteknar, greiðslustimplaðar af þjónustuaðila og sendar daglega til Samgöngustofu. Réttaráhrif eigendaskipta miðast við skráningardag þ.e. eigendaskipti taka gildi þegar þau eru skráð hjá Samgöngustofu. Mótteknar tilkynningar sem berast Samgöngustofu til skráningar eru færðar í tímaröð. Fyrir rekjanleika skráir Samgöngustofa þjónustuaðila og móttökudag tilkynninga (eftir greiðslustimpli) í ökutækjaskrá.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir skráningu umráðamanns er 1.181 króna og fyrir niðurfellingu umráðanda er 558 krónur. Sömu gjöld eru innheimt fyrir umráðandaskipti á forskráð ökutæki.

    • Samgöngustofa tekur ekki gjald fyrir skráningu umráðanda samhliða nýskráningu og eigendaskiptum.

    Tölvuvinnsla

    Þjónustuaðilar móttaka tilkynningar á pappírsformi og senda þær til Samgöngustofu daginn eftir móttöku.