Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Skráningarmerki og plötugeymsla
Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar geymslu og afhendingu skráningarmerkja (kallaðir þjónustuaðilar):
Faggiltar skoðunarstofur ökutækja
Umboð (ökutækja) með fulltrúa A
Efni kaflans
Pöntun skráningarmerkja
Pöntun skráningarmerkja fer fram hjá þjónustuaðila (skoðunarstöð). Einnig er hægt að panta skráningarmerki rafrænt á heimasíðu Samgöngustofu.
Við pöntun ber að skrá upplýsingar um afgreiðsluaðila pöntunar (viðeigandi þjónustuaðila).
Tilgreina ber afhendingarstað (viðkomandi þjónustuaðili).
Afgreiðslufrestur skráningarmerkja er yfirleitt þrír virkir dagar. Þó er unnt að sækja um flýtiafgreiðslu og koma merkin þá til Samgöngustofu frá framleiðsluaðila sama dag ef pantað er fyrir kl. 9:00 að morgni en annars næsta dag.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir pöntun og smíði skráningarmerkja er 6.616 krónur fyrir hvert stykki.
Gjald Samgöngustofu fyrir flýtipöntun skráningarmerkja er 3.119 krónur fyrir hvert stykki og leggst það ofan á grunngjald pöntunar og smíði.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar (skoðunarstöðvar) skrá sjálfir pantanir skráningarmerkja í Ekju.
Efni kaflans
Móttaka skráningarmerkja
Að lokinni framleiðslu skráningarmerkja eru þau send til afgreiðslu Samgöngustofu sem hefur eftirlit með framleiðslunni. Upp geta komið gallar eða skráningarmerki vantar. Samgöngustofa grípur til viðeigandi ráðstafana og pantar ný merki þegar þörf er á en viðbúið er að þetta geti valdið töfum sem taka þarf tillit til.
Samgöngustofa setur skráningarmerki í hólf þjónustuaðila og sjá þeir um að sækja merkin þangað (eða óska eftir því að Samgöngustofa sendi þeim merkin samkvæmt nánara samkomulagi).
Þjónustuaðilar bera ábyrgð á flutningi merkja til sín og skrá þau móttekin.
Gjaldtaka
Samgöngustofa tekur ekkert gjald fyrir móttöku skráningarmerkja.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar skrá sjálfir móttöku skráningarmerkja í Ekju þegar þau berast.
Efni kaflans
Framsending skráningarmerkja milli geymslustaða
Þegar skráningarmerki eru færð á milli þjónustuaðila kallast það framsending skráningarmerkja. Þjónustuaðili óskar eftir því við þann þjónustuaðila sem hefur skráningarmerkin að fá þau framsend og nær svo í þau (eða fær þau send ef samkomulag er um það).
Þjónustuaðili getur óskað eftir framsendingu til sín að beiðni eiganda (umráðanda) skráningarmerkja eða að beiðni Samgöngustofu. Skal sá þjónustuaðili sem hefur skráningarmerkin bregðast við beiðninni svo fljótt sem unnt er.
Framsending skráningarmerkja er skráð í ökutækjaskrá þegar þau leggja af stað. Þegar skráningarmerki eru móttekin á nýjum geymslustað ber að skrá þau móttekin.
Allir geymslustaðir eru sérstaklega skilgreindir í ökutækjaskrá (sérhvert hús þjónustuaðila) og ber þjónustuaðila að tryggja að skráningarmerki séu ætíð rétt skráð á meðan þau eru í geymslum hans.
Gjaldtaka
Samgöngustofa tekur ekkert gjald fyrir framsendingu skráningarmerkja til annars þjónustuaðila.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar skrá sjálfir bæði framsendingu og móttöku skráningarmerkja í Ekju.
Efni kaflans
Afhending skráningarmerkja á ökutæki
Afhending skráningarmerkja kallast það þegar plötur, sem ekki hafa verið á ökutæki, eru skráðar á það. Ökutækið getur verið þá þegar í umferð (er þá að skipta um gerð merkis eða endurnýja plötur), það er verið að nýskrá það eða skrá það í umferð (t.d. þegar eldri plötum hefur verið fargað úr geymslu eða plata hefur glatast).
Skilyrði þess að heimilt sé að afhenda skráningarmerki er að merkin séu skráð staðsett á viðkomandi afhendingarstað. Þó er heimilt að afhenda merki á geymslustað viðkomandi þjónustuaðila hafi þau verið móttekin á einhverjum öðrum geymslustað hans.
Ekki er heimilt að nýskrá eða endurská ökutæki nema afhenda á það skráningarmerki og verður afhending yfirleitt sjálfkrafa við þessar aðgerðir í ökutækjaskrá. Þessu þarf þó að fylgjast með þegar fleiri en ein gerð merkja eða áletrana hefur verið pöntuð.
Límdur skal viðeigandi skoðunarmiði í samræmi við skoðunarreglur. Þess skal gætt að miðinn sé límdur á réttan stað á merkinu.
Með öllu er óheimilt að líma önnur merki en skoðunarmiða á skráningarmerki.
Afhending á aukamerki er ekki gerð með afhendingarverklið skráningarmerkja. Þess í stað er farið í leiðréttingu í plötugeymslu, platan skráð úr geymslu og plötustaða skráð "á kerru".
Afhending á fornmerki krefst sérstakrar athugunar, sjá nánar um fornmerki.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir afhendingu einkamerkja er 558 krónur eða VSK-merkja á áður skráð ökutæki er breytingaskráningargjald 577 krónur. Er þó ekki innheimt ef merkin eru afhent á ökutæki við nýskráningu eða endurskráningu þar sem gjaldið fyrir skráningu merkjanna er þá innifalið.
Gjald Samgöngustofu fyrir afhendingu almennra merkja að nýju í staðinn fyrir einkamerki er 558 krónur eða VSK-merki, 577 krónur.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar sjá sjálfir um að skrá afhendingu skráningarmerkja í gegnum vefþjónustu eða með skeytasendingu.
Efni kaflans
Geymsla skráningarmerkja
Geymslur fyrir skráningarmerki skulu vera öruggar svo að áhætta á misnotkun sé lágmörkuð. Samgöngustofa hefur eftirlit með þessu.
Förgun skráningarmerkja
Farga skal skráningarmerkjum strax í ákveðnum tilvikum en í öðrum tilvikum ber að farga þeim eftir að lágmarksgeymslutíma er náð (þjónustuaðili hefur heimild til að geyma lengur, sjá þó um gjalddtöku).
Eftirtöldum skráningarmerkjum skal farga við móttöku:
Skráningarmerkjum sem skilað er inn við afskráningu ökutækja.
Almennum merkjum sem skilað er inn þegar ökutæki fer á VSK-merki.
VSK-merkjum sem skilað er inn þegar ökutæki fer á almenn merki.
Önnur merki sem skilað er inn þegar ökutæki fer á nýja gerð merkja.
Almennum merkjum þegar ökutæki fer á fornmerki.
Skráningarmerkjum sem hafa verið ranglega pöntuð.
Eftirtöldum skráningarmerkjum má farga eftir að þau hafa verið geymd í tiltekinn lágmarkstíma:
Innlögðum skráningarmerkjum (skráningarmerkjum ökutækja sem eru skráð úr umferð) sem verið hafa í geymslu í eitt ár.
Nýjum skráningarmerkjum sem aldrei hafa farið á ökutæki og hafa verið í geymslu í meira en tvö ár.
Einkamerkjum sem hafa verið í geymslu í meira en þrjú ár.
Almennum skráningarmerkjum þeirra ökutækja sem eru á einkamerkjum og hafa verið í geymslu í meira en þrjú ár.
Reglulega skal yfirfara plötugeymslur og farga (eigi sjaldnar en árlega):
Innlögðum skráningarmerkjum ökutækja sem hafa verið afskráð frá síðustu yfirferð.
Einkamerkjum sem liggja inni frá síðustu yfirferð og rétturinn er útrunninn.
Þjónustuaðili ber að tryggja örugga förgun skráningarmerkja. Það felur í sér að merki verði umsvifalaust gerð ónothæf eða þeim eytt.
Þegar skráningarmerkjum er fargað skal skrá það í ökutækjaskrá.
Gjaldskrá
Samgöngustofa tekur ekki gjald fyrir geymslu eða förgun skráningarmerkja (fyrir utan gjald sem innheimt er við innlögn skráningarmerkja).
Sé geymsla innlagðra skráningarmerkja framlengd tekur Samgöngustofa geymslugjald skráningarmerkja 1.114 krónur hverju sinni (gildir fyrir eitt ár í senn).
Framkvæmd
Þjónustuaðilar skrá sjálfir förgun skráningarmerkja í Ekju.
Efni kaflans
Efni þessa kafla á við um núgildandi skráningarmerki (ekki fornmerki).
Stærðir skráningarmerkja
Stærðir skráningarmerkja eru fjórar talsins og fær hver sinn bókstaf (líka talað um gerðir skráningarmerkja).
Stærð A er af stærðinni 520 x 110 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
Stærð B er af stærðinni 280 x 200 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
Stærð C er af stærðinni 240 x 130 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.
Stærð D er af stærðinni 305 x 155 mm, hæð stafa 61 mm og breidd stafleggja 9 mm.
Notkun stærðanna á ökutækjum
Nota skal stærðir skráningarmerkja á ökutækjum sem hér segir:
Bifreið (A, B, D): Skal merkt með viðeigandi tegund skráningarmerkja að framan og aftan af stærð A. Nota má skráningarmerki af stærð B, henti ekki merki af stærð A og merki af stærð D ef merkjum af stærð A og B verður ekki með góðu móti komið fyrir.
Eftirvagn (A, B, D): Skal merkt að aftan, sömu reglur um val merkja gilda og fyrir bifreið.
Bifhjól og létt bifhjól (C): Skal merkt að aftan.
Dráttarvél (C, A): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af stærð C en að framan ef merkinu verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Nota má merki af stærð A ef dráttarvél er hönnuð þannig að merki af stærð C verði ekki með góðu móti komið fyrir.
Torfærutæki (C): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af stærð C. Merkið má vera að framan eða á hlið ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan.
Efnisgerð og uppröðun svæða og stafa
Smíðaefni
Skráningarmerki skal vera úr a.m.k. 1,0 mm þykku áli (reynslumerki mega þó vera á segulmottum).
Litur
Grunnur skráningarmerkis skal vera hvítur með endurskini og stöfunum ÍS í vatnsmerki. Rammi (rönd á brúnum), stafir og bandstrik skulu vera blá. Nokkur frávik eru þó frá þessari litasamsetningu, sjá um tegundir skráningarmerkja.
Svæði
Á skráningarmerkjum geta verið eitt eða tvö svæði sem ætluð eru undir þjóðarmerki, fyrir skoðunarmiða, upphleyptan tígul eða ekki neitt. Þau eru kölluð svæði I og svæði II til aðgreiningar í kaflanum um tegundir skráningarmerkja.
Svæði I: Á merkjum af stærð A og B er átt við svæðið fyrir framan áletrunina á merkinu (í efri línu á stærð B). Á merki af stærð D er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju (og líka á einkamerki af stærð B). Á þessu svæði getur verið áprentað þjóðarmerki, tígull, upphleyptur flötur eða ekkert. Þetta svæði er ekki á merkjum af stærð C.
Svæði II: Á merkjum af stærðum A og B er átt við svæðið á milli fyrstu tveggja stafanna og síðari þriggja (fremst í neðri línu merkis af gerð B). Á merki af stærð C er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju og á merki af stærð D átt við svæðið hægra megin í hæðarmiðju. Á þessu svæði getur verið upphleyptur flötur eða ekkert.
Áletrun
Skráningarmerki af stærð A skulu hafa áletrun í einni röð. Skráningarmerki af stærðum B, C og D skulu hafa áletrun í tveimur röðum. Í efri röð skulu vera tveir bókstafir og bandstrik og eftir atvikum, bókstafur og tölustafir eða eingöngu tölustafir í þeirri neðri. Um áletrun á einkamerki gilda þó sérstakar reglur, sjá um tegundir skráningarmerkja.
Við smíði skráningarmerkja eftir 1. janúar 2025 gildir:
Áletrun í röð skal miðjusett (lárétt) á þann flöt sem er ætlaður fyrir áletrunina (milli svæða sitt hvoru megin eða milli svæðis og ramma, eftir því sem við á). Áletrun í röð einkamerkis af stærð A má þó miðjusetja miðað við ytri brúnir skráningarmerkisins sitt hvoru megin að ósk rétthafa.
Bil á milli stafa skal vera samsvarandi breidd stafleggjar. Þó skal breidd sitt hvoru megin við stafina 1, I og Í vera sem næst tvöfaldri breidd stafleggjar.
Bil á milli ysta stafs í röð og svæðis (upphleyfts flatar) eða ramma skal að lágmarki vera breidd stafleggjar og skal vera jafn stórt beggja megin.
Við mælingu á ofangreindu bili skal miða við það bil sem er milli lóðréttra lína sem liggja sitt hvoru megin við útmörk stafa.
Tegundir skráningarmerkja (litir, áletrun, fletir)
Tegundir skráningarmerkja geta verið tengdar notkun ökutækisins eða ökutækisflokki. Mismunandi samsetning á lit, áletrun og upplýsingum á svæðum mynda tegundir merkja.
Almenn merki
Öll skráningarskyld ökutæki skulu bera almenn merki nema annað sé ákveðið.
Gerðir: Gerðir A, B, C og D.
Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.
Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Fyrstu tveir (og í seinni tíð fyrstu þrír) eru bókstafir og afgangurinn tölustafir.
VSK merki
Fyrir bifreiðir sem skráðar eru notkunarflokkinn "VSK-ökutæki".
Gerðir: Stærðir A, B og D.
Litur: Hvítur grunnur. Rauður í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Rauður upphleyptur tígullaga flötur.
Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Einkamerki
Á bifreiðum og bifhjólum mega vera einkamerki (þó ekki á þeim sem skulu bera aðrar tegundir skráningarmerkja, s.s. VSK-merki, utanvegamerki, olíumerki eða undanþágumerki).
Gerðir: Stærðir A, B, C og D.
Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum og ramma.
Svæði I: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða (hefur ekki þjóðarmerki).
Svæði II: Ekkert slíkt svæði.
Áletrun einkamerkis skal vera 2–6 íslenskir bókstafir eða tölustafir að vali eiganda (umráðanda) ökutækisins. Á einkamerki má þó hvorki vera áletrun sem í eru tveir bókstafir og þrír tölustafir, eða þrír bókstafir og tveir tölustafir, né sama áletrun og er á skráningarmerki af eldri gerð í notkun. Áletrun má ekki vera svo lík áletrun annars skráningarmerkis, sem þegar er í notkun að valdið geti ruglingi. Hún má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líkleg til að valda hneykslun.
Áletrun einkamerkis af stærðum B, C og D (tveggjalínu) má hafa fjölda stafa eins og fyrir verður komið með góðu móti í hvorri línu (gætu verið fleiri en þrír þegar áletrun samanstendur af einum eða fleiri mjóum staf). Ekki má nota minni stafastærð en áskilin er fyrir viðkomandi stærð merkis.
Sendiráðsmerki
Fyrir ökutæki sem skráð eru notkunarflokkinn "Sendiráðsökutæki".
Gerðir: Stærðir A, B, C og D.
Litur: Grænn grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Ónotað.
Svæði II: Grænn upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru CD, svo kemur einn bókstafur og loks tveir tölustafir.
Olíumerki
Fyrir bifreiðir sem skráðar eru í notkunarflokkinn "Sérstök not".
Gerðir: Stærðir A, B og D.
Litur: Dökkgulur grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Svartur upphleyptur tígullaga flötur.
Svæði II: Dökkgulur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Undanþágumerki
Fyrir bifreiðir, dráttarvélar og eftirvagna sem skráð eru í notkunarflokkinn "Undanþáguökutæki".
Gerðir: Stærðir A, B og D.
Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.
Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Utanvegamerki
Fyrir bifreiðir og eftirvagna sem skráð eru í notkunarflokkana "Beltabifreið", "Námuökutæki" og "Flugvallarökutæki", og fyrir dráttarvélar sem aðallega er notaðar utan opinberra vega (og alltaf ef þær eru af yfirstærð).
Gerðir: Stærðir A, B og D.
Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Grænn upphleyptur tígullaga flötur.
Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Torfærumerki
Fyrir ökutæki í ökutækisflokknum "Torfærutæki".
Gerðir: Stærð C.
Litur: Rauður grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Ekkert slíkt svæði.
Svæði II: Ónotaður.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Léttbifhjólamerki
Fyrir ökutæki í ökutækisflokknum "Létt bifhjól".
Gerðir: Stærð C.
Litur: Blár grunnur. Hvítur í stöfum og ramma.
Svæði I: Ekkert slíkt svæði.
Svæði II: Blár upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.
Reynslumerki
Bílaumboðum er heimilt að nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki milli staða í tengslum við skráningu, til reynsluaksturs eða við kynningarstarfsemi.
Gerðir: Stærðir A, B, C og D.
Litur: Rauður grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og ramma.
Svæði I: Ónotað.
Svæði II: Rauður upphleyptur flötur fyrir gildismiða sem sýnir leyfilegan notkunartíma reynslumerkis. Reynslumerki geta þó verið á segulmottum án upplyftra flata.
Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru RN og svo þrír tölustafir.
Aukamerki
Dragi bifreið ökutæki sem ekki er skráningarskylt og skyggir á skráningarmerki bifreiðarinnar (t.d. óskráða kerru), skal merkja það að aftan með aukamerki. Það skal vera með sömu áletrun og sama lit og skráningarmerki bifreiðarinnar. Sama á við ef búnaður aftan á skráningarskyldu ökutæki sem ekið er skyggir á skráningarmerki þess. Hér er átt við búnað eða aðstæður sem koma tímabundið upp og skyggja (en ekki hylja) skráningarmerki ökutækisins (t.d. flutningur reiðhjóla á reiðhjólagrind sem fest er á kúlutengi).
Gerðir: Stærðir A, B eða D.
Litur: Litir á grunni merkisins og stöfum skulu vera þeir sömu og á skráningarmerki bifreiðarinnar. Ramminn skal ekki vera upplyftur og hafa sama lit og grunnur merkisins.
Svæði I: Ónotað (og ekki upplyftur flötur).
Svæði II: Ónotað (og ekki upplyftur flötur).
Áletrun: Sú sama og á skráningarmerki bifreiðarrinnar.
Tollamerki
Fyrir ökutæki sem hafa sérstaka akstursheimild Skattsins (tollasviðs).
Gerðir: Stærðir A og C.
Litur: Svartur grunnur. Stafir hvítir. Á hvorri hlið skráningarmerkis skal vera lóðrétt rauð rönd.
Svæði I: Ekkert slíkt svæði.
Svæði II: Ekkert slíkt svæði.
Áletrun: Fjórir tölustafir (þessir hvítu). Vinstra megin skal skrá með hvítum tölustöfum röð þess mánaðar og hægra megin tvo síðustu tölustafi þess árs þegar gildistíma skráningar lýkur.
Efni kaflans
Fornmerki
Þegar nýtt skráningarmerkjakerfi tók gildi árið 1989 komu fljótlega fram óskir um að fá að setja skráningarmerki með útliti upprunalegra merkja á gömul ökutæki. Við þeirri ósk var orðið og þannig varð til flokkur skráningarmerkja sem kallaður er fornmerki. Í sömu andrá er talað um skráningarmerki af eldri gerð, en það eru merki sem ökutæki hafa borið óslitið frá nýskráningu fyrir árið 1989. Í fyrra tilvikinu þarf ökutækið að vera skráð fornökutæki en ekki í hinu seinna. Þessi skráningarmerki hafa tekið nokkrum útlitsbreytingum síðustu hundrað árin og verða ökutæki að bera rétta gerð fornmerkis miðað við fyrstu skráningu (árgerð).
Heimild til notkunar fornmerkja
Ökutæki sem nýskráð eru 1. janúar 1989 eða síðar, en með fyrsta skráningardag fyrr, mega bera fornmerki uppfylli þau skilyrði sem fornökutæki og eru skráð sem slík.
Ökutæki sem skráð voru fyrir 1. janúar 1989 fengu skráningarmerki af eldri gerð við nýskráningu. Þau ökutæki mega vera merkt með þeim áfram, enda borið þau óslitið síðan, séu merkin heil og vel læsileg. Hafi skráningarmerki þessara ökutækja verið fjarlægð eða eyðilögð er ekki heimilt að setja á það skráningarmerki af eldri gerð aftur en getur fengið fornmerki uppfylli það skilyrði sem fornökutæki og verði skráð sem slíkt.
Gerð og áletrun fornmerkja
Áletrun þarf að vera í samræmi við þær reglur sem voru í gildi þegar ökutækið var fyrst skráð. Heimilt er að taka upp áletrun sem var áður í notkun, sé ökutækið sem merkið var á afskráð. Fornmerki má ekki vera samhljóða öðru merki, hvort sem er fastanúmer, einkamerki eða annað fornmerki.
Smíði fornmerkja
Rétthafi fornmerkis lætur sjálfur smíða fornmerkin þegar búið er að samþykkja umsókn hjá Samgöngustofu. Bent er á að Fornbílaklúbburinn hefur annast framleiðslu helstu merkja.
Samþykki og afhending fornmerkja
Eftir að smíði fornmerkja er lokið þarf að koma þeim til Samgöngustofu sem þarf að samþykkja smíðina. Eftir samþykki fara merkin í hefðbundið ferli eins og um afhendingu á nýjum skráningarmerkjum sé að ræða hjá skoðunarstofu.
Bifreið fyrst skráð 31.12.1937 eða fyrr
Mekin skulu hafa hvítt letur á svörtum grunni eða svart letur á hvítum grunni. Hæð merkjanna skal vera 120 mm og lengd eftir fjölda stafa.
Bifreið fyrst skráð 01.01.1938-31.12.1949
Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 112 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn og stærð stafa skal vera þessi: hæð 80 mm, breidd 50 mm og breidd strika 15 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 22 mm langt og 12 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 10 mm.
Bifreið fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988
Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 130 mm á hæð. Stafir skulu vera með steinskrift, þrykktir í spjaldið. Rönd skal vera á brúnum, 5 mm breið, þrykkt á sama hátt. Stafirnir og röndin skulu vera fægð og bera sama lit málmsins, en grunnur með svartri, gljálausri málningu. Stafir skulu vera 90 mm á hæð, 55 mm á breidd og breidd stafleggja 15 mm. Bil milli tölustafa skal vera 10 mm, en bil milli bókstafs og tölustafa 30 mm. Á stafi og rönd skráningarmerkis er heimilt að setja hvítt glitefni af gerð sem Samgöngustofa viðurkennir.
Bifhjól skráð 31.12.1949 eða fyrr
Hér er átt við bifhjól önnur en létt bifhjól. Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 90 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir, með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 65 mm, breidd 40 mm og breidd stafleggja 12 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 18 mm langt og 10 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.
Bifhjól fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988
Hér er átt við bifhjól önnur en létt bifhjól. Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, með steinskrift á svartan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.
Dráttarvélar fyrst skráðar 31.12.1988 eða fyrr
Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera rauðir, með steinskrift á hvítan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis og bókstafurinn d. Stærð bókstafsins d skal vera: hæð 27 mm, breidd 16 mm og breidd stafleggs 5 mm.