Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Forskráningar og upphafsviðurkenningar

    Forskráning ökutækis í ökutækjaskrá byggir á viðurkenningu þess til markaðssetningar á Íslandi. Framleiðendur og umboð gegna þar hlutverki og geta þau fengið viðurkennda fulltrúa í samskiptum við Samgöngustofu.

    Fulltrúi umboðs/framleiðanda er aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviður­kenn­ingu og skráningu ökutækja. Fulltrúi öðlast viðurkenningu og hefur bæði ábyrgð og skyldur.

    Efni kaflans

    Reynslumerki

    Umboðum er heimilt að fá og nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki milli staða í eftirfarandi tilvikum:

    • Í tengslum við skráningu: Flytja má ökutækið frá höfn á geymslustað innflytjenda, milli geymslustaða og í skoðun.

    • Til reynsluaksturs: Nota má reynslumerki á ökutæki í reynsluakstri en þá er átt við reynsluferðir í eðlilegri fjarlægð frá umboði. Ekki er heimilt að nota ökutæki með reynslumerki utan opnunartíma umboðs og ekki er heimilt að geyma ökutækið við íbúðarhús yfir nótt. Óheimilt er að flytja farþega og farm en starfsmanni umboðs og aðstandendum ökumanns er þó heimilt að sitja í ökutækinu við reynsluakstur.

    • Við kynningarstarfsemi: Nota má reynslumerki á ökutæki sem notuð eru í kynningarstarfsemi, við auglýsingargerð og í blaðamannalán. Óheimilt er að flytja farþega og farm en starfsmanni umboðs er þó heimilt að sitja í ökutækinu við reynsluakstur.

    Með blaðamannaláni er átt við þegar umboð lánar blaðamanni ökutæki á reynslumerkjum til kynningar vegna starfs hans á vegum fjölmiðla við umfjöllun um ökutæki á almennum vettvangi. Blaðamaðurinn skal hafa sérstaka heimild frá Samgöngustofu til að nota ökutæki með reynslumerki með þessum hætti og er heimildin gefin út á nafn hans og númer viðkomandi reynslumerkis í 3 samfellda daga í senn. Blaðamaður skal að jafnaði áður en heimild er veitt, framvísa blaðamannaskírteini eða með öðrum hætti sýna fram á starfstengsl sín við tiltekinn fjölmiðil. Heimildin skal ávallt vera meðferðis við akstur og sýnileg í ökutækinu þegar það er ekki í notkun. Notkun blaðamanns á ökutæki sem ber reynslumerki skal einskorðast við það sem nauðsynlegt er vegna umfjöllunar í fjölmiðli. Ökutæki á blaðamannaláni er heimilt að standa við íbúðarhús að næturlagi á meðan á leigutímanum stendur, enda sé heimildarbréf sýnilegt í ökutækinu.

    Bifreið skal ávallt bera tvö reynslumerki, að framan og að aftan, en önnur ökutæki, s.s. dráttarvélar, bifhjól og eftirvagnar, skulu bera reynslumerki að aftan. Heimilt er að setja fremra merkið í framrúðu bifreiðar og skal það staðsett þannig að það sjáist greinilega inn um framrúðuna. Aftara merkið skal fest á áberandi stað aftan á ökutækið og er heimilt að nota bráðabirgðafestingar t.d. segulfestingar.

    Leiga á reynslumerki

    Umboð sækir um reynslumerki til Samgöngustofu. Umboði er úthlutað áletrun og númeraplötur útbúnar (segulmerki).

    Samgöngustofa leigir umboðum reynslumerki í eitt almanaksár í senn. Alltaf er greitt fyrri heilt ár í senn, jafnvel þótt leiga hefjist á miðju ári. Settur er gildismiði á merkin sem sýnir leyfilegan gildistíma og þarf umboð að endurnýja rétt sinn árlega fyrir árslok hverju sinni og uppfærir þá gildismiðann. Við útleigu og endurnýjun þarf umboð að sýna fram á ábyrgðartryggingu reynslumerkisins með staðfestingu frá tryggingafélagi.

    Við leigu á reynslumerkjum fær leigutaki afhenta heimild til notkunar reynslumerkis. Í heimildinni koma fram upplýsingar um rétthafa, leigutíma, leigustað og reglur um heimila notkun reynslumerkis. Heimild til notkunar reynslumerkis skal ávallt geyma í ökutæki sem ber reynslumerki.

    Ef umboð endurnýjar ekki leigu skal það skila reynslumerkjunum inn til Samgöngustofu.

    Ef reynslumerki glatast skal tilkynna um það til Samgöngustofu og eru þá pantað nýtt merki á kostnað umboðs í stað þess glataða. Ef merki finnst skal það tilkynnt Samgöngustofu og því skilað.

    Misnotkun

    Það telst misnotkun á reynslumerki ef

    • skortur er á heimild til notkunar reynslumerkis á ökutæki,

    • notkun reynslumerkja er í andstöðu við ofangreind skilyrði um notkun,

    • bifreið ber aðeins eitt reynslumerki,

    • merkin eru ekki fest á áberandi stað á ökutæki,

    • merki er skráð á lista yfir eftirlýst reynslumerki,

    • reynslumerki bera ekki réttan gildismiða.

    Ef umboð verður uppvíst að misnotkun reynslumerkja þá fellir Samgöngustofa niður rétt þess til að hafa reynslumerki á leigu.

    Gjaldtaka

    • Greitt er árgjald fyrir reynslumerki 11.140 krónur.