Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Skráningar opinberra stofnana o.fl.
Opinberar stofnanir geta hafa tiltekinn skráningaraðgang í ökutækjaskrá vegna starfsemi sinnar eða tilkynnt Samgöngustofu um skráningar með öðrum hætti. Sama getur átt við um aðra aðila sem samkvæmt lögum og reglum skulu tilkynna Samgöngustofu um tiltekin atriði er varða ökutæki.
Efni kaflans
Tilkynning um boðun ökutækis í skoðun
Reynist ökutæki, sem lögreglan stöðvar, ekki vera í lögmæltu ástandi (vegna vanbúnaðar eða vanrækslu á skoðun) skal lögregla boða það til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu. Ekki skal veita lengri frest en sjö daga til að færa ökutækið til skoðunar.
Skoðunartegund: Boðun í skoðun (L)
Niðurstaða þessarar skoðunar getur verið þrennskonar (í ökutækjaskrá):
Ástand, viku frestur (10). Ökutækið hefur verið stöðvað vegna vanbúnaðar. Sé ökutækið með gilda skoðun (eins og oftast er) verður það skráð í "Aukaskoðun að kröfu lögreglu" hjá skoðunarstofu, annars í þá skoðun sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt "Aðalskoðun" eða "Endurskoðun"). Verði niðurstaða skoðunarstofunnar önnur en "Án athugasemda" eða "Lagfæring" þá skal hún verða "Notkun bönnuð" í þessum tilvikum.
Vanræksla á skoðun, viku frestur (11). Ökutækið hefur ekki verið fært til reglubundinnar skoðunar á réttum tíma og er ekki lengur með gilda skoðun. Ökutækið verður skráð í þá skoðun hjá skoðunarstofu sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt í "Aðalskoðun").
Vanræksla á endurskoðun, viku frestur (12). Ökutækið hefur ekki verið fært til endurskoðunar á réttum tíma (yfirleitt í framhaldi af reglubundinni skoðun) og er ekki lengur með gilda skoðun. Ökutækið verður skráð í þá skoðun hjá skoðunarstofu sem það hefur vanrækt að fara í (yfirleitt í "Endurskoðun eftir frest").
Komi í ljós að ökutæki hafi ranglega verið boðað til skoðunar vegna vanrækslu á skoðun kemur yfirleitt í ljós að villa er í útreikningi á næstu skoðun í ökutækjaskrá eða settur hefur verið rangur skoðunarmiði á ökutæki. Samgöngustofa leiðréttir slík tilvik í samráði við eiganda (umráðanda) og skoðunarstofu, eftir atvikum.
Lögregla sendir tilkynningu um boðanir á netfangið afgreidsla hjá Samgöngustofu.
Tilkynning um tjónaökutæki
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum samkvæmt tilkynningu frá lögreglu í þeim tilvikum þegar hún er kölluð til vegna umferðaratvika.
Grundvöllur að mati lögreglu á því hvort ökutæki ætti að vera merkt "Tjónaökutæki I" byggist á nokkrum einföldum atriðum. Ekki þarf sérstaka menntun eða reynslu á sviði bifvélavirkjunar til að geta framkvæmt eftirfarandi mat:
Líknarbelgir/loftpúðar hafa sprungið út: Gildir um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis, hvort sem þeir eru í stýri, í mælaborði, í hliðum eða annars staðar.
Ökutæki er óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaði: Hjólabúnaður eða stýrisbúnaður er á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ekki er hægt að aka ökutækinu. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur þó ekki eitt og sér merkingu.
Ökutæki hefur oltið: Beyglur og skemmdir eru verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir mögulega gengnar úr lagi (passa ekki lengur í dyragöt), rúður eru brotnar eða farnar úr.
Verulegt hliðartjón á ökutæki: Augljósar skemmdir eru á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.
Fyllt er út tilkynning um tjónaökutæki og hún látin fylgja með afklipptum merkjum þegar þeim er skilað til geymsluaðila (eða hún send á netfangið afgreidsla hjá Samgöngustofu). Hafi skráningarmerkjum ekki verið þegar skilað til geymsluaðila þegar tjónatilkynning berst Samgöngustofu í tölvupósti verður ökutækið skráð úr umferð (afklippt v/tjóns) samhliða tjónaskráningunni og skráningarmerkin sögð í vörslu lögreglu þar til þeim hefur verið skilað til geymsluaðila.
Tilkynning um skyndiskoðun á ökutæki
Skipulagt eftirlit lögreglu fer fram á vegum á ástandi vörubifreiða, hópbifreiða, svo og eftirvagna og tengitækja með leyfilega hámarksþyngd yfir 3.500 kg. Eftirlitið felst í einum, tveimur eða öllum eftirfarandi þáttum:
a) sjónskoðun á ástandi ökutækis í kyrrstöðu,
b) könnun á nýlegu skyndiskoðunarvottorði eða skoðunarvottorði frá síðustu skoðun ökutækisins á skoðunarstöð,
c) skoðun hvort um vanbúið ökutæki sé að ræða.
Skoðunin fer fram í samræmi við skoðunarhandbók ökutækja og tekur til eins, fleiri eða allra eftirfarandi atriða:
Auðkenni (tengibúnaður, merkingar o.fl.).
Hemlabúnaður (hemlabúnaður).
Stýrisbúnaður (stýrisbúnaður).
Útsýn (skynbúnaður og yfirbygging).
Ljósabúnaður og rafkerfi (skynbúnaður og tengibúnaður, merkingar o.fl.).
Ásar, hjól, hjólbarðar, fjöðrun (hjólabúnaður).
Undirvagn og viðfestur búnaður (burðarvirki, yfirbygging, hreyfill og fylgibúnaður).
Annar búnaður, þ.m.t. ökuriti og hraðatakmörkunarbúnaður (yfirbygging og aflrás).
Óþægindi, þ.m.t. útblástur og eldsneytis- og/eða olíuleki (hreyfill og fylgibúnaður og aflrás).
Lögregla sendir tilkynningu um skyndiskoðanir (vegaskoðanir) á netfangið afgreidsla hjá Samgöngustofu.
Afklipping skráningarmerkja
Lögregla fjarlægir skráningarmerki af ýmsum ástæðum af ökutækjum og verða ökutækin þá skráð úr umferð (vegna afklippingar).
Rétt er að árétta að hafi skráningarmerki verið fjarlægð af ökutæki vegna vanbúnaðar eða vegna vanrækslu á skoðun (afklippt v/vanbúnaðar, v/skoðunar eða v/endurskoðunar) þarf eigandi (umráðandi) í öllum tilvikum að færa ökutækið til skoðunar hjá skoðunarstofu áður en heimilt verður að skrá ökutækið í umferð á ný (og fá skráningarmerkin). Að auki gilda þessi skilyrði (og leiðbeina má um):
Hafi ökutæki verið boðað til skoðunar vegna vanbúnaðar (eða skráningarmerki fjarlægð af sömu ástæðu) er ökutækið skoðað að öllu leyti eins og um aðalskoðun sé að ræða (ekki bara þau atriði skoðuð sem lögregla gerir athugasemdir við).
Verði niðurstaða skoðunar önnur en "Án athugasemda" eða "Lagfæring" í þessum tilvikum þá skal hún verða "Notkun bönnuð". Frestir til endurskoðunar eru ekki veittir.
Óheimilt verður að skrá ökutæki í umferð á ný (taka út númer) nema niðurstaða skoðunarinnar verði "Án athugasemda" eða "Lagfæring".
Hafi skráningarmerki verið fjarlægð vegna tjóns þarf að skila inn tilkynningu um tjónaökutæki með afklipptum merkjum (eða hún send á netfangið afgreidsla hjá Samgöngustofu).
Afklipptum skráningarmerkjum skilar lögregla til Samgöngustofu eða þjónustuaðila Samgöngustofu sem hefur samning um umferðarskráningu ökutækja.
Meðhöndlun lista um óskoðuð ökutæki
Þegar liðnir eru þrír mánuðir frá álagningu vanrækslugjalds sendir Samgöngustofa lögreglu yfirlit um óskoðuð ökutæki. Hefur lögregla þá heimild til að fjarlægja skráningarmerki af viðkomandi ökutæki og verða ökutækin þá skráð úr umferð (vegna afklippingar).
Afklipptum skráningarmerkjum skilar lögregla til Samgöngustofu eða þjónustuaðila Samgöngustofu sem hefur samning um umferðarskráningu ökutækja.
Eftirlýsingar
Lögregla hefur heimild til að skrá ökutæki eftirlýst og hefur sínar forsendur fyrir því.
Lögregla skráir sjálf eftirlýsingar í ökutækjaskrá og þegar eftirlýsingu er hætt. Athuga að þegar eftirlýsingu er hætt þá ógildist lögreglulás ekki sjálfkrafa, hafi hann verið skráður líka, og því þarf að sérstaklega að taka lögreglulásinn af.
Lögreglulás
Um er að ræða lásinn
"2 Lögreglulás". Ekki er unnt að skrá eigendaskipti, ökutæki í umferð eða afhenda skráningarmerki á ökutæki sem ber þennan lás. Lögregla verður að aflétta lásnum áður en unnt er að framkvæma skráningarnar. Þegar ökutæki er skráð eftirlýst er einnig settur lögreglulás á ökutækið.
Lögregla skráir sjálf þennan lás í ökutækjaskrá og tekur hann af. Athuga að ef eftirlýsing hefur líka verið skráð þá fer hún ekki af sjálfkrafa við það að lögreglulás er tekinn af, það þarf því sérstaklega að taka eftirlýsinguna af.
Efni kaflans
Tilkynning um tjónaökutæki
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum samkvæmt tilkynningu frá Skattinum (tollasviði) í tengslum við innflutning ökutækja.
Grundvöllur að mati Skattsins (tollasviðs) á því hvort ökutæki ætti að vera merkt "Tjónaökutæki I" byggist á nokkrum einföldum atriðum. Ekki þarf sérstaka menntun eða reynslu á sviði bifvélavirkjunar til að geta framkvæmt eftirfarandi mat:
Líknarbelgir/loftpúðar hafa sprungið út: Gildir um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis, hvort sem þeir eru í stýri, í mælaborði, í hliðum eða annars staðar.
Ökutæki er óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaði: Hjólabúnaður eða stýrisbúnaður er á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ekki er hægt að aka ökutækinu. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur þó ekki eitt og sér merkingu.
Ökutæki hefur oltið: Beyglur og skemmdir eru verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir mögulega gengnar úr lagi (passa ekki lengur í dyragöt), rúður eru brotnar eða farnar úr.
Verulegt hliðartjón á ökutæki: Augljósar skemmdir eru á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.
Skatturinn sendir Samgöngustofu tilkynningu um tjónaökutæki á netfangið skraning.
Heimild til skráningar sérbyggðrar rallbifreiðar
Um er að ræða skráningu í notkunarflokk
"111 Sérbyggð rallbifreið". Bifreið sem ætluð er til rallkeppni og er sérbyggð og hönnuð sterkbyggðari en sambærileg bifreið og með aukabúnað sem almennt er ekki notaður í eða á bifreiðir í almennri umferð. Bifreiðin getur verið sérbyggð keppnisbifreið sem undanþegin hefur verið álagningu vörugjalds og ber að sérmerkja í ökutækjaskrá.
Skatturinn (tollasvið) staðfestir við Samgöngustofu í tengslum við tollafgreiðslu að bifreið uppfylli ákvæði í reglugerð um vörugjald af ökutækjum til að fá lækkun á eða sé undanþegin álagningu vörugjalda. Staðfestingin er send á netfangið forskraning hjá Samgöngustofu. Hún og önnur gögn liggja til grundvallar skráningu Samgöngustofu í notkunarflokkinn.
Skráning vörugjaldalása
Um er að ræða lásana
"7 Skráningarlás vegna vörugjalds". Lásinn er settur á vegna sérstakrar umsýslu vörugjalda í tengslum við nýskráningu eða endurskráningu. Lásinn veldur því að óheimilt að nýskrá eða endurskrá ökutæki um tiltekinn tíma vegna takmarkana eða réttinda sem fylgja notkun ökutækisins vegna ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum.
"9 Lögveð vegna vörugjalds". Lásinn er settur á til að hindra allar breytingar á eigendum og umráðamönnum. Einnig er óheimilt að breyta notkunarflokki ökutækis með þennan lás eftir nýskráningu en þó er heimilt að breyta honum fyrir og við nýskráningu.
Skatturinn (tollasvið) skráir sjálfur þessa lása í ökutækjaskrá og afléttir þeim.
Förgun ökutækja í tolli
Sé ökutæki, sem forskráð hefur verið, ekki leyst út úr tolli, tilkynnir Skatturinn (tollasvið) um að svo sé. Samgöngustofa læsir þá forskráningunni og gerir skráningu á grundvelli hennar óheimila.
Skatturinn (tollasvið) tilkynnir þessi tilvik með tölvupósti á netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu.
Efni kaflans
Skráning á vinnuvél
Vinnuvél sem notuð verður til aksturs á opinberum vegum er skráningarskyld í ökutækjaskrá (frá 1. september 2021). Vinnueftirlitið sér sjálft um skráninguna í ökutækjaskrá uppfylli hún skilyrði til skráningar.
Samgöngustofa pantar skráningarmerki á lager og afhendir Vinnueftirlitinu.
Vinnueftirlitið metur hvort skilyrði til skráningar séu uppfyllt og sendir þá inn skeyti um forskráningu til Samgöngustofu (með vefþjónustu) með nauðsynlegum upplýsingum.
Þegar vinnuvélin er tilbúin til skráningar sendir Vinnueftirlitið skeyti um nýskráningu til Samgöngustofu (með vefþjónustu) og afhendir skráningarmerkið til ásetningar á vinnuvélina.
Skilyrði til skráningar vinnuvélar
Við skráningu vinnuvélar þarf að tryggja að hún uppfylli skilyrði til skráningar og skilað verði inn nauðsynlegum tæknilegum og öðrum upplýsingum.
Breidd vinnuvélar má ekki vera meiri en 2,55 m í akstri.
Hæð vinnuvélar má ekki vera meiri en 4,20 m í akstri.
Ljósabúnaður vinnuvélar skal vera í samræmi við kröfur til ljósabúnaðar dráttarvéla.
Sé hámarkshraði vinnuvélar í akstri undir 40 km/klst er æskilegt að hún hafi hægfaramerki að aftan (sjá um ljósabúnað dráttarvéla).
Eigendaskipti á vinnuvél
Tilkynning um eigendaskipti vinnuvéla fer fram hjá Vinnueftirlitinu. Um leið sendir Vinnueftirlitið skeyti til Samgöngustofu um nýjan eiganda (með vefþjónustu).
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu vegna umsóknar um forskráningu með rafrænum er 694 krónur fyrir sérhvert ökutæki.
Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu á öktæki er nýskráningargjald 6.002 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.
Gjald Samgöngustofu fyrir skráningu eigendaskipta er eigendaskiptagjald 2.455 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.
Skráning tjónaökutækja
Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði. Samgöngustofa annast skráningu á tjónaökutækjum samkvæmt tilkynningu frá tryggingafélögum. Tilkynningaskyld tjón eru þessi:
Tjón á ökutæki þegar tryggingafélagið bætir tjón þess að hluta eða öllu leyti, hvort sem það var vegna ábyrgðartryggingar eða kaskótryggingar.
Þegar ökutæki veldur tjóni, sem hefur ábyrgðartryggingu hjá tryggingafélaginu en ekki kaskótryggingu, og ætla má að tjón á ökutækinu geti verið tilkynningaskylt.
Tilkynningar frá tryggingafélögum valda því að ökutæki eru merkt "Tjónaökutæki II" og er ekki hægt að fá þá merkingu endurmetna. Unnið skal eftir þeim verklagsreglum sem tilteknar eru í verklagsbók við tjónaendurmat í skoðunarhandbók ökutækja.
Efni kaflans
Vigtun ökutækja
Samgöngustofa gerir kröfu um að vigtun á eigin þyngd og ásþyngdum ökutækja sem notaðar eru til skráningar í ökutækjaskrá sé gerð af löggiltum vigtarmanni. Vigtarseðillinn verður hluti af skráningargögnum sem liggja í opinberri ökutækjaskrá.
Sjá lista yfir löggiltar vogir (uppfærður árlega, síðast 01.01.2024).
Skilgreining umferðarlaga á eigin þyngd er þessi:
Eigin þyngd er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar.
Gert er ráð fyrir að sömu skilyrði um útbúnað og ástand ökutækis gildi varðandi vigtun á sérhverjum ás eða ásasamstæðum, eftir atvikum.
Athugun á útbúnaði og ástandi ökutækis
Þegar ökutæki er tekið til vigtunar gengur Samgöngustofa út frá því að eftirfandi athuganir og skráningar séu gerðar af vigtarmanni:
Auðkenni ökutækisins út frá skráningarmerki lesið og skráð á vigtarseðilinn.
Ekki er gerð krafa um að ökutæki sé flett upp í ökutækjaskrá eða borið saman við skráningarskírteini. Séu ekki skráningarmerki á ökutækinu verður að finna verksmiðjunúmer þess og skrá það á vigtarseðilinn.
Magn eldsneytis í aðal eldsneytisgeymum fyrir fljótandi eldsneyti hreyfils lesið og skráð á vigtarseðilinn.
Almenna reglan er sú að eldsneytisgeymar ættu að vera með fullir við vigtun.
Hafi verið komið fyrir aukaeldsneytisgeymum ættu þeir að vera tómir (sést helst á breyttum torfærubifreiðum). Ekki þarf þó að gera athugasemd við það þótt eitthvað sé í þeim en rétt er að vara við því vegna þess að þessi aukaþyngd dregst frá burðargetunni.
Heimilt er að vigta vöru- og hópbifreið (ekki fólks- eða sendibifreið) þótt eldsneytisgeymar þeirra séu ekki fullir, enda leggi vigtarmaður þá mat á magn eldsneytis út frá eldsneytismæli (75%, 50%, 25% eða bara lögg á geymi).
Hafi vöru- eða hópbifreið verið vigtuð án þess að eldsneytisgeymar séu fullir, fæst vigtarseðill ekki móttekinn hjá skoðunarstofu nema eigandi (umráðandi) framvísi upplýsingum um stærð eldsneytisgeymanna frá umboði ökutækis, framleiðanda, tækniþjónustu eða frá sambærilegum aðila. Rétt er því að vara við að þetta sé gert og því oft betra að fylla geymana fyrir vigtun.
Sé verið að vigta eftirvagn eða vélknúið ökutæki sem er ekki með eldsneytisgeyma fyrir fljótandi eldsneyti (t.d. rafbíl), er merkt við að svo sé.
Sé ljóst að eldsneytismælir er bilaður er merkt við að svo sé. Í þessum tilvikum ætti mælir ekki að sýna neina hreyfingu eða nokkur merki um virkni við ræsingu ökutækisins, og yfirleitt að standa í núlli.
Varahjól ætti að vera til staðar við vigtun þegar um óbreytt ökutæki er að ræða og greinilegt er að framleiðandi gerir ráð fyrir því (greinilegar festingar fyrir varahjól).
Ekki er skylda að vera með varahjól á breyttum torfærubifreiðum (enda hafa hjólbarðar þá verið stækkaðir og passa ekki í festingu fyrir varahjól).
Smurolía, kælivatn, verkfæri og þess háttar er ekki skoðað sérstaklega. Þó má benda á að fjarlægja má fyrir vigtun búnað og hluti sem þurfa almennt ekki að vera í ökutækinu og ættu ekki að teljast með í vigtun eiginþyngdar.
Athuga þarf sérstaklega hvort einhver búnaður hafi mögulega verið fjarlægður fyrir vigtun, sem augljóslega að vera til staðar, til dæmis farþegasæti tekin úr.
Vigtun og útgáfa vigtarseðils
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á vigtarseðli fyrir eigin þyngd og ásþyngdir ökutækja vegna skráningar í ökutækjaskrá (mælt er með að nota form US.114):
Auðkenni ökutækis: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækis sem vigtað var.
Auðkenni vigtar: Nafn vigtar.
Auðkenni vigtarmanns: Nafn löggilts vigtarmanns og fyrstu sex tölurnar í kennitölu hans.
Dagsetning vigtunar.
Akstursmælir: Staða akstursmælis ökutækisins (sé það búið akstursmæli).
Eldsneytismagn: Staðfesting vigtarmanns á magn eldsneytis í geymum (samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda, frekari upplýsingar á vigtarseðli).
Eiginþyngd: Eigin þyngd ökutækisins (allt ökutækið á voginni, án ökumanns og farþega).
Ásþyngdir: Vegna vigtunar á hópbifreið og breyttri bifreið þarf að vigta ásþyngdir. Ef ekki er hægt að vigta staka ása í ásasamstæðum má vigta alla samstæðuna. Strikað skal yfir reitina séu þeir ekki notaðir.
Staðfesting vigtarmanns: Undirskrift og/eða stimpill löggilts vigtarmanns.
Staðfesting umbeiðanda: Nafn og undirskrift þess sem fór með ökutækið í vigtun. Hér þarf að koma skýrt fram nafn umbeiðanda (þess sem færir ökutækið til vigtunar), skrifað með prentstöfum, og undirritun hans.