Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Skráningarmerki og plötugeymsla

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar geymslu og afhendingu skráningarmerkja (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa A

    Efni kaflans

    Fornmerki

    Þegar nýtt skráningarmerkjakerfi tók gildi árið 1989 komu fljótlega fram óskir um að fá að setja skráningarmerki með útliti upprunalegra merkja á gömul ökutæki. Við þeirri ósk var orðið og þannig varð til flokkur skráningarmerkja sem kallaður er fornmerki. Í sömu andrá er talað um skráningarmerki af eldri gerð, en það eru merki sem ökutæki hafa borið óslitið frá nýskráningu fyrir árið 1989. Í fyrra tilvikinu þarf ökutækið að vera skráð fornökutæki en ekki í hinu seinna. Þessi skráningarmerki hafa tekið nokkrum útlitsbreytingum síðustu hundrað árin og verða ökutæki að bera rétta gerð fornmerkis miðað við fyrstu skráningu (árgerð).

    Heimild til notkunar fornmerkja

    Ökutæki sem nýskráð eru 1. janúar 1989 eða síðar, en með fyrsta skráningardag fyrr, mega bera fornmerki uppfylli þau skilyrði sem fornökutæki og eru skráð sem slík.

    Ökutæki sem skráð voru fyrir 1. janúar 1989 fengu skráningarmerki af eldri gerð við nýskráningu. Þau ökutæki mega vera merkt með þeim áfram, enda borið þau óslitið síðan, séu merkin heil og vel læsileg. Hafi skráningarmerki þessara ökutækja verið fjarlægð eða eyðilögð er ekki heimilt að setja á það skráningarmerki af eldri gerð aftur en getur fengið fornmerki uppfylli það skilyrði sem fornökutæki og verði skráð sem slíkt.

    Gerð og áletrun fornmerkja

    Áletrun þarf að vera í samræmi við þær reglur sem voru í gildi þegar ökutækið var fyrst skráð. Heimilt er að taka upp áletrun sem var áður í notkun, sé ökutækið sem merkið var á afskráð. Fornmerki má ekki vera samhljóða öðru merki, hvort sem er fastanúmer, einkamerki eða annað fornmerki.

    Smíði fornmerkja

    Rétthafi fornmerkis lætur sjálfur smíða fornmerkin þegar búið er að samþykkja umsókn hjá Samgöngustofu. Bent er á að Fornbílaklúbburinn hefur annast framleiðslu helstu merkja.

    Samþykki og afhending fornmerkja

    Eftir að smíði fornmerkja er lokið þarf að koma þeim til Samgöngustofu sem þarf að samþykkja smíðina. Eftir samþykki fara merkin í hefðbundið ferli eins og um afhendingu á nýjum skráningarmerkjum sé að ræða hjá skoðunarstofu.

    Bifreið fyrst skráð 31.12.1937 eða fyrr

    Mekin skulu hafa hvítt letur á svörtum grunni eða svart letur á hvítum grunni. Hæð merkjanna skal vera 120 mm og lengd eftir fjölda stafa.

    Fornmerki
    Fornmerki 1937

    Bifreið fyrst skráð 01.01.1938-31.12.1949

    Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 112 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn og stærð stafa skal vera þessi: hæð 80 mm, breidd 50 mm og breidd strika 15 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 22 mm langt og 12 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 10 mm.

    1938-1949

    Bifreið fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988

    Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 130 mm á hæð. Stafir skulu vera með steinskrift, þrykktir í spjaldið. Rönd skal vera á brúnum, 5 mm breið, þrykkt á sama hátt. Stafirnir og röndin skulu vera fægð og bera sama lit málmsins, en grunnur með svartri, gljálausri málningu. Stafir skulu vera 90 mm á hæð, 55 mm á breidd og breidd stafleggja 15 mm. Bil milli tölustafa skal vera 10 mm, en bil milli bókstafs og tölustafa 30 mm. Á stafi og rönd skráningarmerkis er heimilt að setja hvítt glitefni af gerð sem Samgöngustofa viðurkennir.

    1950-1988

    Bifhjól skráð 31.12.1949 eða fyrr

    Hér er átt við bifhjól önnur en létt bifhjól. Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 90 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir, með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 65 mm, breidd 40 mm og breidd stafleggja 12 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 18 mm langt og 10 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.

    bifhjol

    Bifhjól fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988

    Hér er átt við bifhjól önnur en létt bifhjól. Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, með steinskrift á svartan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.

    1950-bf

    Dráttarvélar fyrst skráðar 31.12.1988 eða fyrr

    Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera rauðir, með steinskrift á hvítan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis og bókstafurinn d. Stærð bókstafsins d skal vera: hæð 27 mm, breidd 16 mm og breidd stafleggs 5 mm.

    drattarvelar