Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Aksturshemlar - virkni og hemlun vökvahemla

    Hemlunarkraftar og hemlun

    Hemlunarkraftar

    Þeir kraftar sem hjól gefa við notkun hemla og lesa má beint af skjá hemlaprófara fyrir hvern ás eða koma fram í útprentunum. Séu hemlunarkraftar sem fást fyrir hvern ás ökutækis lagðir saman fást heildarhemlunarkraftar sem ökutækið hefur gefið við prófun.

    Hemlunarkraftar sem nást við hemlaprófun eru háðir því hversu mikið er stigið á hemlafetilinn. Eftir því sem þyngd ássins sem hvílir í prófaranum er meiri og eftir því sem viðnámið á milli hjólbarða og rúllanna í prófaranum er hærra því hærri hemlunarkraftar nást fyrir ásinn.

    Hemlunarkraftar eru mældir í einingunni Newton (N), oft með forskeytin daN (dekaNewton sem eru tíu Newton) eða kN (kílóNewton sem eru þúsund Newton), þ.e. 1 kN er sama og 100 daN sem er sama og 1.000 N.

    Hemlunarkraftar milli hjóla á sama ási teljast ójafnir um meira en 50% í akstursprófi með hemlaklukku ef annað hjólið dregst á undan hinu.

    Hemlun

    Hemlun er hlutfall hemlunarkrafta og þyngdar ökutækis, að hluta eða í heild. Hemlun fyrir hvern ás er t.d. þeir hemlunarkraftar sem mælast deilt með þyngd viðkomandi áss, en hemlun ökutækisins miðað við eigin þyngd eru samanlagðir hemlunarkraftar allra ása deilt með eigin þyngdinni.

    Hemlun er mæld í m/s2 eða prósentum. Þessar einingar eru oft notaðar jöfnum höndum en prósentan er þó aðeins hærri. Hemlun í prósentum fæst með því að deila með 9,81 í hemlun í m/s2 og margfalda með 100.

    • Dæmi 1: Við hemlaprófun á ás sem vegur 1.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 6 kN. Hemlunin er því 6 kN / 1.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.

    • Dæmi 2: Við hemlaprófun á ás sem vegur 5.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 30 kN. Hemlunin er því 30 kN / 5.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.

    Ójafnir hemlunarkraftar (St8.2.3.1)

    Mismunur hemlunarkrafta milli hjóla á sama ási. Hlutfallslegur mismunur reiknast sem hlutfall af hemlunarkrafti þess hjóls sem gefur meiri hemlunarkraft. 

    • Dæmi: Við hemlaprófun mælist mestur mismunur þegar annað hjólið sýnir hemlunarkraftinn 2.000 N og hitt hjólið 1.800 N. Mismunurinn er því (2.000 N - 1.800 N) / 2.000 N = 200 N / 2.000 N = 10%. 

    Hemlaprófari sýnir á sérstökum mæli hver þessi mismunur er á meðan hemlapróf fer fram og endar yfirleitt á að læsa mælinum í hæsta gildinu. Stigið er jafnt og með vaxandi krafti á hemlafetilinn í prófa og má mismunurinn hvergi á hemlaferlinum fara yfir tilskilin mörk.

    Hemlaprófun bifreiða

    Hemlaprófun bifreiðar í rúlluhemlaprófara

    Ekið í hemlaprófara. Stigið á hemlafetil og gengið úr skugga um að hemlun ökutækis nái tilskildum mörkum með því að láta prófara reikna hemlun miðað við fengna krafta og vigtaða þyngd eða reikna hemlun út frá fengnum kröftum og skráðri eiginþyngd að viðbættum 100 kg.

    Hemlaprófun bifreiðar í plötuhemlaprófara

    Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.

    Hemlaprófun sídrifsbifreiða

    Hemlapróf fyrir sídrifsbifreiðir skal framkvæmt skv. leiðbeiningum framleiðanda bifreiðarinnar, þ.e. með aftengingu seigjutengslis, prófun eins hjóls í einu eða með sérstökum hemlamælitækjum (hemlaklukku).

    Algengt er að á gírkassa bifreiðar sé skiptiarmur sem getur aftengt seigjutengsli. Honum er haldið í læstri stöðu með stýrisbolta. Til að aftengja seigjutengslið á að losa boltann nokkra hringi og færa arminn niður. Að aflokinni hemlaprófun verður að færa arminn aftur á sinn stað og herða stýrisboltann. Sjá fleiri aðferðir einstakra gerða ökutækja hér.

    Hemlaprófun eftirvagna bifreiða

    Hemlaprófun eftirvagna með rafhemlaStjórnbúnaður rafhemla, sem verður að vera í vagninum sjálfum, skynjar hraðaminnkun bílsins og eykur hemlunina eftir því sem hraðaminnkunin er meiri. Þetta þýðir að þegar vagninn er stopp þá hemlar vagninn ekkert (jafnvel þótt ýtt sé á hemlafetil). Skynjun búnaðarins er stundum tengd hemlafetli (eða hemlaljósi) sem veldur því að rafhemlarnir hemla ekkert nema ýtt sé á hemlafetil þótt verið sé að hægja á.

    Til að prófa rafhemla er nær undantekningarlaust sérstakur prófunartakki, stundum sleði (sem rennur alltaf sjálfkrafa í núllstöðu), eða snúningstakki (sem verður að handsnúa til baka í núllstöðu). Til viðbótar er stillitakki sem háður er þyngd vagnsins og á bara að stilla einu sinni (í upphafi) m.v. þyngd vagnsins. Ef skylda er að hafa hleðslustýribúnað er þessi stilling sjálfkrafa breytileg eftir hleðslu vagnsins (sjálfvirkur búnaður). Við prófun hemlanna er prófunartakkinn notaður og hemlarnir þannig virkjaðir.

    Hemlaprófun bifhjóla/tví-fjórhjóla

    Sjá sérstakt skjal fyrir bifhjól, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.

    Hemlaprófun dráttarvéla og eftirvagna þeirra

    Sjá sérstakt skjal fyrir dráttarvélar og eftirvagna þeirra, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.


    Aksturshemlar - virkni og hemlunargeta lofthemlakerfa

    Hemlunarkraftar og hemlunargeta

    Hemlunargeta (St8.2.4.3)

    Hemlunargeta er sú hemlun sem ökutækið getur náð við heildarþyngd. 

    Til þess að fá rétta hemlunargetu verður að miða við þá krafta sem ökutækið getur mest gefið við fullan stýriþrýsting eða fullt ástig á hemla en ekki þá hemlunarkrafta sem nást á prófaranum.

    Þegar verið er að prófa óhlaðið ökutæki nást þessir hemlunarkraftar yfirleitt aldrei. Því verður yfirleitt að beita framreiknun til að finna hemlunargetu.

    Stýriþrýstingur (St8.2.4.4)

    Sá loftþrýstingur sem myndast í stýrilögn þegar stigið er á hemlafetil er nefndur stýriþrýstingur. Þessi þrýstingur er skilgreindur á tvennan hátt:

    • Pm er sá stýriþrýstingur sem mældur er áður en lögn fer í gegnum hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka. Fyrir bifreið með hemlajöfnunarloka er þessi þrýstingur mældur við úttak á hemlajöfnunarloka hemlafetilsmegin en fyrir eftirvagn er þessi þrýstingur mældur við tengingu vagns og bifreiðar. Ef ekki eru lokar sem minnka eða auka stýriþrýsting fyrir eftirvagn má einnig nota þrýsting við vagntengi fyrir þær bifreiðir sem eru búnar slíku tengi.

    • Px er sá stýriþrýstingur sem mældur er við hemlastrokka eða eftir að þrýstiloft hefur farið í gegnum hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka eða aðra hemlaloka.

    Þegar verið er að athuga stillingar hleðslustýrðs hemlajöfnunarloka er Pm ávallt notaður.

    Þegar verið er að reikna út hemlunargetu er Px ávallt notaður.

    Ójafnir hemlunarkraftar (St8.2.3.1)

    Mismunur hemlunarkrafta milli hjóla á sama ási. Hlutfallslegur mismunur reiknast sem hlutfall af hemlunarkrafti þess hjóls sem gefur meiri hemlunarkraft.

    • Dæmi: Við hemlaprófun mælist mestur mismunur þegar annað hjólið sýnir hemlunarkraftinn 2.000 N og hitt hjólið 1.800 N. Mismunurinn er því (2.000 N - 1.800 N) / 2.000 N = 200 N / 2.000 N = 10%.

    Hemlaprófari sýnir á sérstökum mæli hver þessi mismunur er á meðan hemlapróf fer fram og endar yfirleitt á að læsa mælinum í hæsta gildinu. Stigið er jafnt og með vaxandi krafti á hemlafetilinn í prófa og má mismunurinn hvergi á hemlaferlinum fara yfir tilskilin mörk.

    Hemlaprófun bifreiða

    Hemlunargeta (St8.2.3.4)

    Notaður er hemlaprófari. Hemlapróf er framkvæmt á eftirfarandi hátt.

    1. Loftþrýstingsmælar tengdir á rétta staði til mælingar

    Loftþrýsting skal mæla eins nálægt hemlastrokki og mögulegt er, Px. Minnkunarlokar (eins og t.d. hleðslustýrður hemlajöfnunarloki) skulu ekki vera á milli þess staðar sem mælt er á og hemlastrokks þess áss sem prófa skal. Reiknað er með að hemlajöfnunarlokinn virki rétt (hægt er að prófa hann sér, sjá kaflann um hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka) og minnki ekki loftþrýsting við heildarþyngd ökutækis ().

    Loftþrýsting má mæla lengra frá hemlastrokki (t.d. við tengingu eftirvagns) ef hemlajöfnunarloki er látinn gefa fullan þrýsting í gegn með því t.d að festa hann í þeirri stöðu sem gefur fullan þrýsting eða setja loftþrýsting inn á hann þar sem inntakið er frá loftfjörðum þegar um slíka fjöðrun er að ræða.

    2. Hemlapróf framkvæmt

    Hemlapróf framkvæmt og hemlunarkraftar og tilsvarandi loftþrýstingur mældur og skráður rétt áður en hjól læsast á hverjum ás fyrir sig.

    Leitast skal við að ná eins háum loftþrýstingi og mögulegt er. Hættuna á að skemma hjólbarða skal þó hafa í huga og lágmarka þann tíma sem háir hemlunarkraftar eru látnir verka.

    Ef fram kemur of mikill mismunur á milli hjóla við framkvæmd hemlaprófs (þannig að dæmt er á ójafna hemlunarkrafta) skal hætta við að prófa hemlunargetu en prófa aðra þá þætti sem athugaðir eru með hemlaprófara. Framkvæmd athugunar á hemlagetu fer þá fram við endurskoðun ökutækis.

    3. Útreikningur hámarks hemlunarkrafta hvers áss

    Útreikningur hámarks hemlunarkrafta fyrir hvern ás á eftirfarandi hátt:

    Fmax = Fmælt x (Pviðm - 0,4 bör) / (Px - 0,4 bör)

    þar sem:

    • Fmax er reiknaður hámarks hemlunarkraftur ássins sem um ræðir.

    • Fmælt er mældur hemlunarkraftur ássins í hemlaprófaranum.

    • Px er mældur þrýstingur viðkomandi áss þegar hemlakröftum (Fmælt) er náð.

    • 0,4 bör er skilgreindur aðfærsluþrýstingur hemlakerfis.

    • Pviðm er sá viðmiðunarþrýstingur sem framleiðandi ökutækisins ábyrgist að sé ávallt til staðar, sjá sértækar upplýsingar um viðmiðunarþrýsting ýmissa bifreiða. Á eftirvögnum er notaður þrýstingurinn 7,5 bör (eftirvagnar skráðir fyrir 01.03.1994) og 6,5 bör (á eftirvögnum skráðum eftir 01.03.1994).

    4. Útreikningur á hemlunargetu ökutækis

    Samlagning reiknaðra hámarks hemlunarkrafta er borin saman við heildarþyngd eða, ef um er að ræða festivagn, burðargetu ása, á eftirfarandi hátt:

    Zreikn = (Fmax1 + Fmax2 + ...) / Hþ

    þar sem:

    • Zreikn er hemlunargeta ökutækisins (reiknuð hámarks hemlun miðað við heildarþyngd).

    • Fmax1, Fmax2... eru samanlagðir reiknaðir hámarks hemlunarkraftar allra ása (ás 1, 2, 3 o.s.frv.) úr lið 3 hér að ofan.

    • er heildarþyngd ökutækis eða burðargeta ása á festivagni.

    SI-einingar eru notaðar í útreikningunum sem þýðir að kraftar eru mældir í Newton [N] (daN eða kN), þyngd í kílóum [kg] og hemlun því í m/s2.

    Annar valkostur til að meta hemlunargetu

    Ef þeir hemlunarkraftar sem fást á hemlaprófara við hemlapróf eru nægilega háir til að sýna að hemlunargetan er nægilega mikil fyrir heildarþyngd ökutækisins er ekki þörf á að mæla loftþrýstinginn og framreikna út frá honum. Slíkt getur átt við um ökutæki þar sem lítill munur er á eiginþyngd og heildarþyngd eða ökutækjum sem koma lestuð til skoðunar (og skal almennt miðað við að sé ökutæki meira en 75% hlaðið þurfi ekki að framreikna).

    Hemlaprófun eftirvagna bifreiða

    Sömu aðferðum er beitt og við hemlapróf bifreiðar, sjá fyrri kafla.

    Hleðslustýrður hemlajöfnunarloki (St8.1.3.19)

    Festur og armar eru athugaðir til að ganga úr skugga um að loki hafi möguleika á að stýra þrýstingi miðað við hleðslu. Ef vafi leikur á að loki sé rétt stilltur þarf að athuga stillinguna á eftirfarandi hátt.

    1. Lyftiás er hafður niðri þegar hemlaprófið fer fram (lestaður) og uppi (ólestaður).

    2. Stýriþrýstingur, Pm, er tengdur við vagntengi eða við stýriþrýsting áður en hann fer í gegnum hleðslustýrða hemlaventilinn. Hemlapróf er framkvæmt samkvæmt notkunarleiðbeiningum fyrir viðkomandi hemlaprófara. Ef eftirvagn er búinn EBS kerfi, þarf að taka raftengið úr sambandi.

    3. Hemlun ökutækis miðað við Pm þrýsting skal vera innan marka samkvæmt línuritum í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Meta skal niðurstöður út frá upplýsingum úr hemlaprófi og nánari útreikningum samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar sé þess þörf. Ahuga að fyrir dráttarbifreiðar og hengi- og tengivagna eru gröfin hliðruð fyrir hlaðið og óhlaðið ökutæki en fyrir festivagna eru línuritin háð K-stuðli fyrir vagninn sem er mismunandi fyrir hvern einstakan vagn og hvort hann er hlaðinn eða óhlaðinn. Upplýsingar um K-stuðla koma frá framleiðendum vagna skulu notast liggi þau fyrir.

    Ef ökutæki hefur fleiri en einn hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka og grunur leikur á að þeir séu ekki rétt stilltir þrátt fyrir að heildarhemlun ökutækisins sé innan marka getur reynst nauðsynlegt að athuga stillingu hvers hemlajöfnunarloka fyrir sig miðað við upplýsingarnar sem koma fram á skilti/merkingu um stillingu hemlajöfnunarloka.

    Hemlalæsivörn

    Varðar breytingar á reglugerð árið 2001 (St8.5.2.1)

    Í lið 06.14 vörubifreið var eftirfarandi reglugerðar ákvæði fellt niður þann 31.03.01:

    • (4) Vörubifreið II sem er yfir 16.000 kg að leyfðri heildarþyngd og hefur tengibúnað fyrir eftirvagn III og IV skal búin hemlum með læsivörn í flokki 1.

    Eftir þessa dagsetningu þá skulu allar vörubifreiðar vera búnar hemlum með læsivörn í flokki 1


    Stöðu-, ýti- og neyðarhemlakerfi

    Stöðuhemill

    Stöðuhemill - skilgreining (St8.4.2.0)

    Stöðuhemill: Hemlakerfi sem haldið getur ökutækinu kyrrstæðu í halla þótt ökumaður yfirgefi það.

    Varðar stöðuhemil á eftirvögnum (St8.4.2.1)

    Í núgildandi reglugerð um gerð og búnað ökutækja er kveðið á um að stöðuhemill skuli vera á skráningarskyldum eftirvagni. Í eldri reglugerð nr. 51/1964 var kveðið á um að „Hemlar skulu geta staðið í hemlunarstöðu, þótt vagn hafi verið leystur úr tengslum við dráttartæki” (36 gr.).

    Samkvæmt túlkun er með þessu átt við að eftirvagnar með 1.500 kg heildarþyngd eða meiri skuli skv. þessari eldri reglugerð einnig hafa stöðuhemil.

    Hins vegar var ekki byrjað að skrá eftirvagna fyrr en á árunum 1975 eða 1976, þannig að ekki er hægt að gera kröfu um stöðuhemil á eftirvögnum fluttum inn fyrir þann tíma. Því skal miða við að ofangreind krafa um stöðuhemil taki ekki til eftirvagna sem skráðir voru fyrir 1977, þ.e. kröfu um stöðuhemil skal einungis gera fyrir viðeigandi eftirvagna sem hafa verið skráðir 1977 eða síðar.

    Stöðuhemill skal virka á hjólhemla á vélrænan hátt. Til upplýsingar fyrir þá vagnaeigendur sem ekki hafa vagna sína í lagi hvað þetta snertir þá er algengasta útfærsla á stöðuhemli sveif með barka eða sambyggðir hemlastrokkar (gormastrokkar). Ef notuð er sveif eða annar handaflsvirkur búnaður skal gæta þess að við 600 N hámarksátak á búnaðinn verður tilskilin lágmarks hemlunargeta að nást. Ef notaðir eru sambyggðir hemlastrokkar skal gæta þess að lofttengingin inn á gormhlutann sé tekin beint út af þrýstiloftsgeyminum eða tilheyrandi tengi á vagnventli.

    Varðar stöðuhemil á bifreiðum (St8.4.2.2)

    Vegna þeirra bifreiða sem búnar eru stöðuhemli, knúnum með rofa, þá virkar búnaðurinn á sama hátt og þegar bifreiðar eru búnar handfangi. Í báðum tilvikum er um beinan vélrænan búnað að ræða.

    Prófun á virkni stöðuhemils - bifreið (St8.4.3.1)

    Ekið er á rúllur rúlluhemlaprófara með þann ás sem á að prófa og þegar rúllurnar eru farnar að snúast er tekið í stöðuhemilshandfang eða stigið á stöðuhemilsfótstig til að athuga hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól. Ef stöðuhemill nær ekki tilskilinni hemlun eða hann er óvirkur öðru megin skal prófa annað hjólið í einu.

    Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað með stöðuhemli þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.

    Prófun á virkni stöðuhemils - eftirvagn (St8.4.3.1)

    Eftirvagn sé tengdur við bifreið og standi á jöfnum fleti. Stöðuhemill settur á með einhverri af neðangreindri aðferð eftir því sem við á:

    • Stöðuhemill með sveif/armi (vírar, stangir): Takið í sveif og setið í hemlunarstöðu.

    • Stöðuhemill með snúinni sveif: Snúið sveif þannig að stöðuhemill fari á og fylgist með að armar færist til út við hjól.

    • Stöðuhemill með tvöfalda hemlakúta (gormakúta): Tappið lofti af loftgeymi þannig að loftkútar tæmist og fylgist með að armar færist til út við hjól.

    • Stöðuhemill með sérstökum rofa: Takið í eða ýtið á rofa, eftir því sem við á, sem setur stöðuhemil á og fylgist með að armar færist til út við hjól.

    Takið í eftirvagn með því að keyra bifreið áfram og gangið úr skugga um að öll hjól sem tengd eru stöðuhemli, hemli. Vagn taki verulega í öll hjól.

    Mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.2)

    Hemlun er metin á sambærilegan hátt og aksturshemlar.
    Á ökutækjum með lofthemlakerfi eru það gormastrokkarnir sem gefa hemlunina. Ef vafi leikur á að hemlun stöðuhemils sé nægjanleg þarf að reikna hana út með því að deila eiginþyngd alls ökutækisins (nema á festivagni þar sem notuð er vigt á ása) upp í hemlunarkrafta stöðuhemils í hemlaprófaranum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að lesta ökutækið til að fá fram mestu mögulegu hemlunarkrafta stöðuhemils.

    Á ökutækjum með vökvahemlum er stöðuhemill venjulega tengdur með beinu átaki, þ.e. vír sem oft leikur í barka. Ef vafi leikur á hemlun ökutækis með stöðuhemli sem verður virkur með börkum eða vírum er notaður átaksmælir á handfangið.

    Útiskoðun - prófun á virkni stöðuhemils (St8.4.3.3)

    Ekið er með 15-20 km hraða á vegi og stöðuhemill virkjaður þar til hjólin dragast. Hemlaförin eru síðan skoðuð og athugað hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól.

    Útiskoðun - mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.4)

    Hemlun mæld með hemlaklukku. Framkvæmdin skal fara fram á láréttum vegi með föstu yfirborði. Festa skal hemlaklukkuna í framrúðu bifreiðarinnar bifreiðarinnar eða leggja hana á gólf bifreiðarinnar og núllstilla hana, síðan skal ekið á 30 km hraða og tekið í stöðuhemilshandfangið þar til bifreiðin stöðvast. Lesið er af hemlaklukkunni.

    Ýtihemill fyrir eftirvagn

    Ýtihemill - skilgreining

    Hemlakerfi fyrir eftirvagn sem verður virkt við skriðþunga eftirvagnsins gagnvart dráttartækinu. Þetta getur verið búnaður í beisli eftirvagns sem gengur saman og virkjar hemla eða rafræn eða vélræn skynjun á hraðaminnkun sem virkjar hemla.

    Ýtihemill fyrir eftirvagn - virkni (St8.1.3.18)

    Bakklosun er athuguð með því að aka bifreið með eftirvagni afturábak til að ganga úr skugga um að það sé hægt. Ýtihemill er metinn að öllu leyti eins og hemlakerfi yfirleitt. Skoðað er í hemlaprófara hvort hemlunarkraftar séu nægir. Það er gert með sérstöku spenniverkfæri fyrir ýtihemilinn.

    1. Setjið fasta krók verkfærisins á háls dráttarkúlunnar. Haldið verkfærinu lárétt og ýtið því aftur á bak 30° - 45° frá bifreiðinni. Festið keðju í dráttarbeisli hengivagnsins (kerru), annaðhvort með því að krækja beint í beislið eða slá keðjunni utan um heppilegan hluta beislisins og krækja henni saman.

    2. Stillið lengd keðjunnar með því að láta lausa endann „renna” gegnum hólkinn. Kippið laust í skaftið til þess að ganga úr skugga um að hlekkur hafi festst í sporinu.

    3. Haldið tækinu með báðum höndum lárétt og togið (ath. ýtið ekki) að bifreiðinni með hóflegu átaki meðan hjól vagns snúast í hemlaprófaranum. Athugið að ekki má hemla dráttarbifreið við prófunina.

    4. Athugið útslátt á mælitæki. Ef vafi leikur á niðurstöðu er prófað aftur, e.t.v. með lestaðan vagn.

    Við athugun á raftengdum hemli verður að láta kvikna hemlaljós á bifreiðinni. Stígið létt á hemlafetil svo að ljósin kvikni án þess að hemlar taki við sér.

    Ef tilskilinn hemlunarkraftur (sjá verklagsbók) fæst aðeins þegar mjög miklum/litlum ýtikrafti hefur verið beitt er hemlun ófullnægjandi og skal gera athugasemd við hemlavirknina. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög mikill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er meira en 2,0-2,5% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 200-250 N (20-25 kg) átak. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög lítill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er minni en 0,5-1,0% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 50-100 N (5-10 kg) átak.

    Neyðarhemill

    Neyðarhemill - skilgreining (St8.3.2)

    Neyðarhemill: Hemlakerfi sem skal geta stöðvað ökutæki innan ákveðinnar vegalengdar ef virkni aksturshemils er skert. Neyðarhemill getur verið sjálfstætt hemlakerfi, sambyggður aksturshemli eða sambyggður stöðuhemli.

    Sjálfvirkt hemlakerfi eftirvagns (St8.3.3.1)

    Fæðiloft lofthemla er aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir. Á vélrænum neyðarhemli er aðeins athugað ásigkomulag vírs og möguleiki á að hann virki (stýring og annað). Á rafrænum neyðarhemli er raftengi aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir.

    Allir vagnar eiga að vera búnir hemlum sem hemla sjálfkrafa ef vagninn dettur aftanúr - þó mega hengivagnar undir 1.500 kg að leyfðri heildarþyngd nota trausta öryggistengingu (keðju) í stað neyðarhemils (tengingin á að koma í veg fyrir að beislið nemi við jörð ef tenging milli ökutækjanna rofnar).

    Fyrir rafmagnshemla getur þetta líka verið einhverskonar skynjun, t.d. vír sem fer úr sambandi og þá virkjast rafmagnshemlarnir, eða vélrænn búnaður sem virkjast þegar herðist á einhverjum vír, t.d. stöðuhemilsvír. Ef neyðarhemillinn er rafmagnshemill þá verður rafmagnið að koma frá rafgeymi í vagninum sjálfum. Rafmagn geymisins á að duga til að halda 20% hemlun á vagninum í a.m.k. 15 mínútur eftir að hann dettur aftanúr (evrópsk krafa, ekki prófað í skoðun).

    Við skoðun þessa búnaðar er athugað hvort neyðarhemillinn virkar með því að toga/virkja viðeigandi víra/lagnir sem liggja milli bifreiðar og vagns og eiga að virkja hemilinn ef vagninn slitnar frá. Vír sem virkjar neyðarhemil skal einnig skoða með tilliti til skemmda á vír eða kápu og dæma skal á ryðskemmdir og aðrar skemmdir sem hafa áhrif á hemlun.


    Sértækar upplýsingar: Samsetning hemlaröra

    Á markaðinum eru til samsetningar fyrir bremsurör bæði með lausum kónum og fyrir kónuð rör. Samsetning bremsuröra með lausum kónum eru ekki leyfðar, sjá dæmi á myndum 1 og 2, þar sem svona samsetningar þola ekki 1.000 N ástigskraft á hemlafetil. Samsetningar þar sem rörin eru kónuð, sbr. myndir 3 og 4, eru leyfðar.

    hemlun-mynd13

    Mynd 1. Samsetning með lausum kónum sem klemmast utan um rörið þegar samsetningin er hert. EKKI LEYFT.

    hemlun-mynd14

    Mynd 2. Sundurtekin samsetning með lausum kónum, þar sem sést hvernig kónninn klemmist utan um hemlarörið. EKKI LEYFT.

    hemlun-mynd15

    Mynd 3. Samsetningar fyrir kónuð rör. LEYFT.

    hemlun-mynd16

    Mynd 4. Til eru nokkrar útfærslur af því hvernig kónarnir eru formaðir, og eru þá samsetningarstykkin einnig formuð á sama veg. LEYFT.


    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Hemlaprófari, vökva: Fyrir bifreið, eftirvagn og afturdrifsdráttarvél (með annað en lofthemlakerfi).

    • Hemlaklukka: Fyrir ökutæki sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara eða sýna enga mælingu í hemlaprófara, s.s. aldrifsdráttarvél, bifhjól og minni þríhjóla og fjórhjóla ökutæki.

    • Hemlaprófari, stór (og fylgibúnaður): Fyrir bifreið og eftirvagn með lofthemlakerfi sem eru minna en 75% hlaðin við prófun.

    • Hemlaprófari, lítill: Fyrir bifreið og eftirvagn með lofthemlakerfi sem eru meira en 75% hlaðin við prófun.

    • Hemlaklukka: Fyrir mjög stórar eða þungar bifreiðir sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara, s.s. undanþágubifreiðir.

    Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.