Skoðunarhandbók ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.
Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.
Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðunum þeirra. Lýsing á skoðunaraðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.
Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.
Verklagsbók reglubundinna skoðana - skoðunaratriðin
Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra
Efni kaflans
Skráningarmerki
Gerð og flokkur
Skráningarmerki skal vera af þeirri gerð sem ræðst af ökutækisflokki og notkunarflokki og af þeim skráningarflokki sem skráð er á ökutækið. Þetta er nánar útskýrt í skjali um skráningarmerki í skráningareglum ökutækja.
Ásetning og sýnileiki
Skráningarmerki skal komið fyrir á þar til gerðum fleti þar sem það sést vel og er tryggilega fest. Merkið skal vera í lóðréttri eða sem næst lóðréttri stöðu og hornrétt á lengdarás ökutækisins.
Óheimilt er að hylja skráningarmerkið eða hluta þess með nokkrum hætti eða koma fyrir búnaði sem skyggir á það. Heimilt er þó að hafa skráningarmerkið í þar til gerðum ramma. Hylji ramminn rönd merkisins skal hann vera svartur eða hafa sama lit og stafir merkisins. Skrúfur, sem notaðar eru til að festa skráningarmerki, má ekki setja þannig að dragi úr því að lesa megi á merkið. Haus skrúfunnar skal, ef unnt er, hulinn með hettu eftir því sem við á, í sama lit og grunnur merkisins eða stafir.
Krafa um endurnýjun ef ólæsilegt
Skráningarmerki skal ávallt vera sýnilegt og vel læsilegt. Skylt er að endurnýja skráningarmerki ef það verður ógreinilegt eða ónothæft. Þegar nýtt skráningarmerki er afhent í stað annars skal skila eldra merkinu.
Óheimil eða röng notkun
Skráningarmerki og önnur merki, sem ætluð eru á ökutæki, má eigi nota með öðrum hætti en fyrir er mælt. Óheimilt er að festa á ökutæki merki, áletranir eða önnur auðkenni ef hætta er á að villst verði á þeim.
Skylda til að bera skráningarmerki við skoðun
Tryggja skal að skráningarmerki séu á ökutækinu við skoðun. Séu skráningarmerki ekki á ökutækinu skal tryggja að skráningarmerkin og svæði fyrir þau á ökutækinu séu skoðuð.
Skráningarmerki skal skoða við aðalskoðun/endurskoðun. Ef þau eru ekki til staðar á ökutækinu við skoðun þarf ökutækið að færast til skoðunar á þeirri skoðunarstofu sem skráningarmerki eru innlögð, eða fá þau send á viðkomandi skoðunarstofu.
Ef niðurstaða aðalskoðunar/endurskoðunar er "notkun bönnuð" er óheimilt að afhenda eða setja innlögð skráningarmerki á ökutæki. Þetta á við um allar mögulegar ástæður þess að skráningarmerkin eru ekki á ökutæki, s.s. innlögð af eiganda, afklippt af lögreglu (vegna vanbúnaðar, tjóns, trygginga, o.fl.) eða skilað inn af öðrum aðila.
Skoðun vegna afhendingar innlagðra skráningarmerkja
Afhenda má skráningarmerki, sem lögð hafa verið inn til geymslu, án þess að ökutæki hafi áður verið fært til reglubundinnar skoðunar, þó frestur til að færa ökutækið til skoðunar sé liðinn, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (sjá nánar í skráningareglum ökutækja).
Styrkleikamissir
Styrkleikamissir vegna tæringar
Ryð og tæring
Ryð er heiti yfir efnasamsetningu járns (Fe) og súrefnis (O) og verður til þegar jónir þessara efna tengjast saman. Ryð er stökkt efni sem molnar við hnjask. Það getur verið gult, rauðleitt, brúnleitt eða dökkt á lit. Í umfjöllun hér á eftir er orðið tæring notað jöfnum höndum yfir sama fyrirbæri.
Hlutir úr járni eyðast smám saman vegna ryðs og eru því oft ryðvarðir eða húðaðir með einhverjum efnum til að hindra að súrefni komist að málminum. Ryðmyndun verður þegar óvarið járn kemst í snertingu við súrefni því þá streyma rafeindir frá járninu þannig að járnfrumeindirnar verða plúshlaðnar (Fe 2+ eða Fe 3+) en frumeindir súrefnisins (O2-) verða mínushlaðnar.
Áhrif tæringar
Þegar málmur hefur orðið fyrir tæringu þá missir hann styrk sinn og er þá talað um styrkleikamissi. Áhrif tæringar á öryggi ökutækisins fer eftir umfangi hennar og staðsetningum. Lítið ryð á mikilvægum hluta burðarvirkis ökutækis getur gert ökutækið óöruggt þar sem það hefur áhrif á samfellu burðarvirkisins, þ.e. styrkleiki þess sem heildar skerðist. Á hinn bóginn getur mikið ryð á óverulegum hlutum ekki haft nein eða óveruleg áhrif á öryggi ökutækisins. Í töflu 1 er þessu lýst.
Tafla 1. Grunnhugmynd við mat á alvarleika tæringar eftir umfangi og staðsetningu (berandi eða ekki berandi hlutar ökutækis).
Umfang tæringar | Berandi hlutar (hlutar burðarvirkis og festingar) | Ekki berandi hlutar (s.s. þekjandi hlutir) |
---|---|---|
Yfirborðstæring | Ásættanlegt | Ásættanlegt |
Pyttatæring | Oft ekki ásættanlegt | Ásættanlegt (að vissu marki) |
Gegnumtæring | Ekki ásættanlegt | Ekki ásættanlegt (alla jafna) |
Tæring flokkast sem annmarki ef umfang hennar eða staðsetning gerir það að verkum að:
ökutækið getur ekki staðist það álag sem það verður fyrir við hefðbundna notkun og lestun þess,
styrkur ökutækisins hefur minnkað þannig að það veitir ekki tilætlaða vernd við árekstur, og/eða
ökutækið er hættulegt fyrir bílstjóra, farþega eða aðra vegfarendur.
Meta skal tæringu á svæði, ásamt viðgerð, með tilliti til staðsetningar og hlutverks svæðisins/hlutarins í tengslum öryggi ökutækisins. Ef ryð eða tæring hefur einungis áhrif á útlit ökutækisins, telst það ekki sem annmarki hvað varðar styrk (en hafa verður í huga að myndi það t.d. skarpar brúnir gæti það flokkast sem hættulegur útstandandi hlutur).
Mögulegar skoðunaraðferðir
Þar sem mikil tæring tengist nær alltaf oxuðum málmi er sjónræn skoðun venjulega fullnægjandi. Þó er þessi aðferð ekki nægileg í öllum tilvikum.
Á undirvagnssvæðum sem eru viðkvæm fyrir tæringu, svo sem festingarpunktum stýris og fjöðrunar og helstu burðarhlutum (s.s. grindarbitum, berandi hlutum sjálfberandi yfirbygginga) er hægt að athuga hvort tæring sé til staðar með því að þrýsta þumli á svæðið eða með því að banka með ryðhamri eða öðrum viðeigandi verkfærum. Banka má harðar í efnismeiri málmhluta en þá sem eru efnisminni og forðast þarf að beita óþarfa krafti sem gætu valdið skemmdum. Þegar þessi aðferð er notuð skal gæta þess að forðast skemmdir á hlífum, ryðvörn eða málningarvinnu.
Jafnframt má beita vírbursta eða sköfu til að fjarlægja ryðflögur, óhreinindi og viðlíka. Eðlilegt telst að ryðverja á ný þau svæði sem svona hafa verið hreinsuð ef þau eru vanalega ryðvarin (með ryðvarnarefni úr sprautubrúsa).
Þegar athugað er með mikla tæringu ætti að huga sérstaklega að saumsuðu og punktsuðu. Hún ryðgar oft innan frá og getur leitt til þess að samsetningar losna að lokum í sundur. Þegar í ljós kemur að slíkar samsetningar eru orðnar óöruggar vegna tæringar verður að gera við þær.
Umfang tæringar - þrjú stig
Umfang tæringar getur verið allt frá léttri yfirborðstæringu yfir í pyttatæringu og loks gegnumtæring eða heildar niðurbrot málmsins. Almennt á sér stað tæringarmyndun og afleiddur styrkleikamissir á svæðum sem halda raka, vegna uppsöfnunar á óhreinindum á vegum og leðju osfrv.
Umfang tæringar - yfirborðstæring (stig 1)
Létt duftkennd tæring á yfirborði málmhluta er kölluð yfirborðstæring. Yfirborðstæring getur átt sér stað á eða á bak við hvaða íhlut sem er, sérstaklega ef hlífðarhúðin er rispuð eða skemmd (s.s. málning eða ryðvörn).
Mynd 1. Yfirborðstæring. Eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) sést að yfirborð málmsins er slétt og hreint.
Umfang tæringar - pyttatæring (stig 2)
Ef yfirborðstæring er látin vera eftirlitslaus getur hún þróast yfir í pyttatæringu, annað hvort á berum málmi eða undir málningu (pyttir eða holur í málminn sem ná ekki í gegn). Þetta á sér stað vegna þess að tæringarmyndunin felur í sér aukningu á rúmmáli sem veldur tæringargötum. Í pyttatæringu fer ryðið að grafa sig ofan í málminn.
Mynd 2. Pyttatæring. Eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) sjást pyttir/holur í málminum sem ná þó ekki í gegn.
Umfang tæringar - gegnumtæring (stig 3)
Lokastig tæringarferlisins orsakast af miklu hlutfalli oxaðs málms í upprunalega málminum. Þetta leiðir til eins eða fleiri tæringargata eða hreinlega að hluti málmsins er horfinn. Viðgerð felst ætíð því að tærði hluturinn (eða sá hluti hans sem hefur misst styrk) er endurnýjaður eða hann styrktur á varanlegan hátt (með suðu eða sambærilegri aðferð).
Mynd 3. Gegnumtæring. Eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) sést að yfirborð málmsins er mjög hrjúft og götótt. Einnig þegar greinileg ryðgöt eru sýnileg án þess að nokkuð þurfi að hreinsa.
Berandi hlutar ökutækis
Burðarhluti ökutækis felur í sér hvers kyns burðarvirki eða íhluti sem, ef þeir gæfu sig, myndi valda því að aksturshæfni ökutækisins yrði verulega ógnað eða myndi draga verulega úr öryggi farþega við árekstur.
Almennt ætti að vera ástæða til dæmingar ef finnst að berandi hluti lætur undan þrýstingi þegar þrýst er á hann með fingri (eða molnar og myndast gat), eða hann gefur eftir þegar bankað er á hann (eða molnar eða sundrast), viðeigandi forsendur dæminga er annars að finna í sérhverju skoðunaratriði.
Á myndum 4a-d eru sýnd algengustu svæði bifreiða sem sérstaklega þarf að huga að í þessu sambandi við skoðun.
Mynd 4a. Dæmi um berandi hluta bifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu. (1) Meginburðarbitar (s.s. hreyfilbitar, stafir, sílsar). (2) Festingarsvæði fyrir fjöðrunarbúnað. (3) Festingasvæði fyrir stýrisbúnað. (4) Dyrastafir og rammi. (5) Hurðarlamir og festingasvæði læsinga. (6) Festingasvæði sæta. (7) Festingasvæði öryggisbelta. (8) Öll gólf. (9) Skottgólf. (10) Hvalbakur og samsvarandi þil milli fólks- og farmrýmis.
Mynd 4b. Dæmi um berandi hluta sendibifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu. (1) Meginburðarbitar (s.s. hreyfilbitar, stafir, sílsar). (2) Festingarsvæði fyrir fjöðrunarbúnað. (3) Festingasvæði fyrir stýrisbúnað. (4) Dyrastafir og rammi. (5) Festingarsvæði hurðarlama. (6) Festingasvæði sæta og sætisbelta. (7) Öll gólf. (8) Hvalbakur. (9) Aðrir burðarbitar.
Mynd 4c. Dæmi um sjálfstæða grind með blaðfjöðrun. Bláskyggðu einingarnar eru berandi.
Mynd 4d. Dæmi um sjálfstæða grind með sjálfstæðri fjöðrun. Bláskyggðu einingarnar eru berandi.
Þekjandi hlutar ökutækis
Hinn flokkurinn felur í sér hvers kyns burðarvirki eða íhluti sem hafa ekki strax áhrif á stjórnhæfni ökutækis ef þeir gæfu sig. Venjulega myndi yfirborðstæring eða pyttatæring í þessum hlutum ökutækis ekki gera það óöruggt. Gegnumtæring í þessum íhlutum er þó venjulega annað hvort hættuleg fólki í eða nálægt ökutækinu vegna skarpra brúna þess eða vegna þess að útblástursgufur geta borist í ökutækið. Í slíkum tilvikum myndi þessi tegund af tæringu gera ökutækið óöruggt. Viðeigandi forsendur dæminga er annars að finna í sérhverju skoðunaratriði.
Mikil tæring í dæmigerðum íhlutum yfirbyggingar getur verið hættuleg farþegum og öðrum vegfarendum. Á mynd 5 eru sýnd þau svæði bifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu sem sérstaklega þarf að huga að í þessu sambandi við skoðun. Undir þennan flokk geta einnig fallið vélaríhlutir eins og útblásturskerfi.
Mynd 5. Dæmi um þekjandi hluta bifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu. (1) Bretti og stuðarar. (2) Þak. (3) Húdd, skottlok og hurðir (100 mm svæði umhverfis festingar telst þó til berandi hluta).
Viðgerðir á tærðum hlutum
Viðgerð á berandi hlutum verða ætíð að felast í því að tærði hluturinn (eða sá hluti hans sem hefur misst styrk) er endurnýjaður eða hann styrktur á varanlegan hátt (með suðu eða sambærilegri aðferð) svo að fyrri styrkur sé náð á ný. Notkun fylliefna einna og sér til að gera við berandi hluta dugar því engan vegin og er ekki samþykkt.
Leiðbeiningar við skoðun
Verkfæri og efni
Verkfæri og efni sem nota ætti við skoðanir á ryði og styrkleikamissi:
Ryðhamar: Er almennt með tveimur hausum, öðrum kúptum og hinum hoddmjóum.
Skafa: Flöt málningarskafa til að hreinsa ryðvörn og þessháttar.
Vírbursti: Hentugur til að skafa burt óhreinindi og viðlíka.
Málband: Til að meta stærð ryðflata o.fl.
Ryðvarnarefni: Í sprautubrúsa til að ryðverja að nýju svæði sem skoðuð hafa verið.
Leiðbeiningar
Stuttar leiðbeiningar við skoðun:
Hvenær á að skoða: Um leið og grunur vaknar. Þetta þýðir að séu einhverjar vísbendingar um ryð eða styrkleikamissi þá er farið að nota ryðhamar. Það þarf því ekki að vera komið gat á viðkomandi hlut, vísbendingar gætu verið ryð annars staðar, t.d. í yfirbyggingu eða hurðum, aldur ökutækisins gæti gefið vísbendingu, óhófleg (nýleg) ryðvörn, og fleira.
Hvernig er skoðað: Með því að banka með ryðhamri. Tveir endar eru á hamrinum, kúptur og oddmjór. Sá kúpti er fyrir efnisþynnri málmfleti, jafnþykka. Sá oddmjói er fyrir efnisþykkari hluti og á staði sem erfitt er að komast að.
Kúpti endirinn á ryðhamrinum: Kúpti endinn er notaður á tiltölulega efnisþunnan málmflöt þar sem dæma má eftir hljóðinu. Heill málmur gefur frá sér óm sem er svipaður allsstaðar á fletinum. Skemmdir hlutir gefa frá sér dempað hljóð eða holhljóð.
Oddmjói endinn á ryðhamrinum: Oddmjói endinn er fyrir efnisþykkari hluti og á staði sem erfitt er að komast að. Athugað er hvort hægt sé að banka í gegnum hlutinn eða vart verði alvarlegra misfellna.
Staða ökutækisins við skoðun: Á gólfi og lyftu í miðstöðu. Styrkleikamissir að innanverðu (fólksrými, farmrými, vélarhús) eru skoðuð á gólfi, en að utanverðu (hjólskálar, sílsar, grind og undirvagn) á lyftu í miðstöðu (ef til staðar) annars á gólfi og úr gryfju.
Tilfæringar við skoðun: Heimilt er að skafa ryðvarnarhúð og lyfta gólfmottum sé það gerlegt og nauðsynlegt. Sköfu ber að nota með varúð og að lokinni skoðun er æskilegt að ryðvarnarhúð sé endurnýjuð (með sprautubrúsa).
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.) til að meta umfang ryðskemmda.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
Efni kaflans
Aksturshemlar - virkni og hemlun vökvahemla
Hemlunarkraftar og hemlun
Hemlunarkraftar
Þeir kraftar sem hjól gefa við notkun hemla og lesa má beint af skjá hemlaprófara fyrir hvern ás eða koma fram í útprentunum. Séu hemlunarkraftar sem fást fyrir hvern ás ökutækis lagðir saman fást heildarhemlunarkraftar sem ökutækið hefur gefið við prófun.
Hemlunarkraftar sem nást við hemlaprófun eru háðir því hversu mikið er stigið á hemlafetilinn. Eftir því sem þyngd ássins sem hvílir í prófaranum er meiri og eftir því sem viðnámið á milli hjólbarða og rúllanna í prófaranum er hærra því hærri hemlunarkraftar nást fyrir ásinn.
Hemlunarkraftar eru mældir í einingunni Newton (N), oft með forskeytin daN (dekaNewton sem eru tíu Newton) eða kN (kílóNewton sem eru þúsund Newton), þ.e. 1 kN er sama og 100 daN sem er sama og 1.000 N.
Hemlunarkraftar milli hjóla á sama ási teljast ójafnir um meira en 50% í akstursprófi með hemlaklukku ef annað hjólið dregst á undan hinu.
Hemlun
Hemlun er hlutfall hemlunarkrafta og þyngdar ökutækis, að hluta eða í heild. Hemlun fyrir hvern ás er t.d. þeir hemlunarkraftar sem mælast deilt með þyngd viðkomandi áss, en hemlun ökutækisins miðað við eigin þyngd eru samanlagðir hemlunarkraftar allra ása deilt með eigin þyngdinni.
Hemlun er mæld í m/s2 eða prósentum. Þessar einingar eru oft notaðar jöfnum höndum en prósentan er þó aðeins hærri. Hemlun í prósentum fæst með því að deila með 9,81 í hemlun í m/s2 og margfalda með 100.
Dæmi 1: Við hemlaprófun á ás sem vegur 1.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 6 kN. Hemlunin er því 6 kN / 1.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.
Dæmi 2: Við hemlaprófun á ás sem vegur 5.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 30 kN. Hemlunin er því 30 kN / 5.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.
Ójafnir hemlunarkraftar (St8.2.3.1)
Mismunur hemlunarkrafta milli hjóla á sama ási. Hlutfallslegur mismunur reiknast sem hlutfall af hemlunarkrafti þess hjóls sem gefur meiri hemlunarkraft.
Dæmi: Við hemlaprófun mælist mestur mismunur þegar annað hjólið sýnir hemlunarkraftinn 2.000 N og hitt hjólið 1.800 N. Mismunurinn er því (2.000 N - 1.800 N) / 2.000 N = 200 N / 2.000 N = 10%.
Hemlaprófari sýnir á sérstökum mæli hver þessi mismunur er á meðan hemlapróf fer fram og endar yfirleitt á að læsa mælinum í hæsta gildinu. Stigið er jafnt og með vaxandi krafti á hemlafetilinn í prófa og má mismunurinn hvergi á hemlaferlinum fara yfir tilskilin mörk.
Hemlaprófun bifreiða
Hemlaprófun bifreiðar í rúlluhemlaprófara
Ekið í hemlaprófara. Stigið á hemlafetil og gengið úr skugga um að hemlun ökutækis nái tilskildum mörkum með því að láta prófara reikna hemlun miðað við fengna krafta og vigtaða þyngd eða reikna hemlun út frá fengnum kröftum og skráðri eiginþyngd að viðbættum 100 kg.
Hemlaprófun bifreiðar í plötuhemlaprófara
Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.
Hemlaprófun sídrifsbifreiða
Hemlapróf fyrir sídrifsbifreiðir skal framkvæmt skv. leiðbeiningum framleiðanda bifreiðarinnar, þ.e. með aftengingu seigjutengslis, prófun eins hjóls í einu eða með sérstökum hemlamælitækjum (hemlaklukku).
Algengt er að á gírkassa bifreiðar sé skiptiarmur sem getur aftengt seigjutengsli. Honum er haldið í læstri stöðu með stýrisbolta. Til að aftengja seigjutengslið á að losa boltann nokkra hringi og færa arminn niður. Að aflokinni hemlaprófun verður að færa arminn aftur á sinn stað og herða stýrisboltann. Sjá fleiri aðferðir einstakra gerða ökutækja hér.
Hemlaprófun eftirvagna bifreiða
Hemlaprófun eftirvagna með rafhemlaStjórnbúnaður rafhemla, sem verður að vera í vagninum sjálfum, skynjar hraðaminnkun bílsins og eykur hemlunina eftir því sem hraðaminnkunin er meiri. Þetta þýðir að þegar vagninn er stopp þá hemlar vagninn ekkert (jafnvel þótt ýtt sé á hemlafetil). Skynjun búnaðarins er stundum tengd hemlafetli (eða hemlaljósi) sem veldur því að rafhemlarnir hemla ekkert nema ýtt sé á hemlafetil þótt verið sé að hægja á.
Til að prófa rafhemla er nær undantekningarlaust sérstakur prófunartakki, stundum sleði (sem rennur alltaf sjálfkrafa í núllstöðu), eða snúningstakki (sem verður að handsnúa til baka í núllstöðu). Til viðbótar er stillitakki sem háður er þyngd vagnsins og á bara að stilla einu sinni (í upphafi) m.v. þyngd vagnsins. Ef skylda er að hafa hleðslustýribúnað er þessi stilling sjálfkrafa breytileg eftir hleðslu vagnsins (sjálfvirkur búnaður). Við prófun hemlanna er prófunartakkinn notaður og hemlarnir þannig virkjaðir.
Hemlaprófun bifhjóla/tví-fjórhjóla
Sjá sérstakt skjal fyrir bifhjól, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.
Hemlaprófun dráttarvéla og eftirvagna þeirra
Sjá sérstakt skjal fyrir dráttarvélar og eftirvagna þeirra, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.
Aksturshemlar - virkni og hemlunargeta lofthemlakerfa
Hemlunarkraftar og hemlunargeta
Hemlunargeta (St8.2.4.3)
Hemlunargeta er sú hemlun sem ökutækið getur náð við heildarþyngd.
Til þess að fá rétta hemlunargetu verður að miða við þá krafta sem ökutækið getur mest gefið við fullan stýriþrýsting eða fullt ástig á hemla en ekki þá hemlunarkrafta sem nást á prófaranum.
Þegar verið er að prófa óhlaðið ökutæki nást þessir hemlunarkraftar yfirleitt aldrei. Því verður yfirleitt að beita framreiknun til að finna hemlunargetu.
Stýriþrýstingur (St8.2.4.4)
Sá loftþrýstingur sem myndast í stýrilögn þegar stigið er á hemlafetil er nefndur stýriþrýstingur. Þessi þrýstingur er skilgreindur á tvennan hátt:
Pm er sá stýriþrýstingur sem mældur er áður en lögn fer í gegnum hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka. Fyrir bifreið með hemlajöfnunarloka er þessi þrýstingur mældur við úttak á hemlajöfnunarloka hemlafetilsmegin en fyrir eftirvagn er þessi þrýstingur mældur við tengingu vagns og bifreiðar. Ef ekki eru lokar sem minnka eða auka stýriþrýsting fyrir eftirvagn má einnig nota þrýsting við vagntengi fyrir þær bifreiðir sem eru búnar slíku tengi.
Px er sá stýriþrýstingur sem mældur er við hemlastrokka eða eftir að þrýstiloft hefur farið í gegnum hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka eða aðra hemlaloka.
Þegar verið er að athuga stillingar hleðslustýrðs hemlajöfnunarloka er Pm ávallt notaður.
Þegar verið er að reikna út hemlunargetu er Px ávallt notaður.
Ójafnir hemlunarkraftar (St8.2.3.1)
Mismunur hemlunarkrafta milli hjóla á sama ási. Hlutfallslegur mismunur reiknast sem hlutfall af hemlunarkrafti þess hjóls sem gefur meiri hemlunarkraft.
Dæmi: Við hemlaprófun mælist mestur mismunur þegar annað hjólið sýnir hemlunarkraftinn 2.000 N og hitt hjólið 1.800 N. Mismunurinn er því (2.000 N - 1.800 N) / 2.000 N = 200 N / 2.000 N = 10%.
Hemlaprófari sýnir á sérstökum mæli hver þessi mismunur er á meðan hemlapróf fer fram og endar yfirleitt á að læsa mælinum í hæsta gildinu. Stigið er jafnt og með vaxandi krafti á hemlafetilinn í prófa og má mismunurinn hvergi á hemlaferlinum fara yfir tilskilin mörk.
Hemlaprófun bifreiða
Hemlunargeta (St8.2.3.4)
Notaður er hemlaprófari. Hemlapróf er framkvæmt á eftirfarandi hátt.
1. Loftþrýstingsmælar tengdir á rétta staði til mælingar
Loftþrýsting skal mæla eins nálægt hemlastrokki og mögulegt er, Px. Minnkunarlokar (eins og t.d. hleðslustýrður hemlajöfnunarloki) skulu ekki vera á milli þess staðar sem mælt er á og hemlastrokks þess áss sem prófa skal. Reiknað er með að hemlajöfnunarlokinn virki rétt (hægt er að prófa hann sér, sjá kaflann um hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka) og minnki ekki loftþrýsting við heildarþyngd ökutækis (Hþ).
Loftþrýsting má mæla lengra frá hemlastrokki (t.d. við tengingu eftirvagns) ef hemlajöfnunarloki er látinn gefa fullan þrýsting í gegn með því t.d að festa hann í þeirri stöðu sem gefur fullan þrýsting eða setja loftþrýsting inn á hann þar sem inntakið er frá loftfjörðum þegar um slíka fjöðrun er að ræða.
2. Hemlapróf framkvæmt
Hemlapróf framkvæmt og hemlunarkraftar og tilsvarandi loftþrýstingur mældur og skráður rétt áður en hjól læsast á hverjum ás fyrir sig.
Leitast skal við að ná eins háum loftþrýstingi og mögulegt er. Hættuna á að skemma hjólbarða skal þó hafa í huga og lágmarka þann tíma sem háir hemlunarkraftar eru látnir verka.
Ef fram kemur of mikill mismunur á milli hjóla við framkvæmd hemlaprófs (þannig að dæmt er á ójafna hemlunarkrafta) skal hætta við að prófa hemlunargetu en prófa aðra þá þætti sem athugaðir eru með hemlaprófara. Framkvæmd athugunar á hemlagetu fer þá fram við endurskoðun ökutækis.
3. Útreikningur hámarks hemlunarkrafta hvers áss
Útreikningur hámarks hemlunarkrafta fyrir hvern ás á eftirfarandi hátt:
Fmax = Fmælt x (Pviðm - 0,4 bör) / (Px - 0,4 bör)
þar sem:
Fmax er reiknaður hámarks hemlunarkraftur ássins sem um ræðir.
Fmælt er mældur hemlunarkraftur ássins í hemlaprófaranum.
Px er mældur þrýstingur viðkomandi áss þegar hemlakröftum (Fmælt) er náð.
0,4 bör er skilgreindur aðfærsluþrýstingur hemlakerfis.
Pviðm er sá viðmiðunarþrýstingur sem framleiðandi ökutækisins ábyrgist að sé ávallt til staðar, sjá sértækar upplýsingar um viðmiðunarþrýsting ýmissa bifreiða. Á eftirvögnum er notaður þrýstingurinn 7,5 bör (eftirvagnar skráðir fyrir 01.03.1994) og 6,5 bör (á eftirvögnum skráðum eftir 01.03.1994).
4. Útreikningur á hemlunargetu ökutækis
Samlagning reiknaðra hámarks hemlunarkrafta er borin saman við heildarþyngd eða, ef um er að ræða festivagn, burðargetu ása, á eftirfarandi hátt:
Zreikn = (Fmax1 + Fmax2 + ...) / Hþ
þar sem:
Zreikn er hemlunargeta ökutækisins (reiknuð hámarks hemlun miðað við heildarþyngd).
Fmax1, Fmax2... eru samanlagðir reiknaðir hámarks hemlunarkraftar allra ása (ás 1, 2, 3 o.s.frv.) úr lið 3 hér að ofan.
Hþ er heildarþyngd ökutækis eða burðargeta ása á festivagni.
SI-einingar eru notaðar í útreikningunum sem þýðir að kraftar eru mældir í Newton [N] (daN eða kN), þyngd í kílóum [kg] og hemlun því í m/s2.
Annar valkostur til að meta hemlunargetu
Ef þeir hemlunarkraftar sem fást á hemlaprófara við hemlapróf eru nægilega háir til að sýna að hemlunargetan er nægilega mikil fyrir heildarþyngd ökutækisins er ekki þörf á að mæla loftþrýstinginn og framreikna út frá honum. Slíkt getur átt við um ökutæki þar sem lítill munur er á eiginþyngd og heildarþyngd eða ökutækjum sem koma lestuð til skoðunar (og skal almennt miðað við að sé ökutæki meira en 75% hlaðið þurfi ekki að framreikna).
Hemlaprófun eftirvagna bifreiða
Sömu aðferðum er beitt og við hemlapróf bifreiðar, sjá fyrri kafla.
Hleðslustýrður hemlajöfnunarloki (St8.1.3.19)
Festur og armar eru athugaðir til að ganga úr skugga um að loki hafi möguleika á að stýra þrýstingi miðað við hleðslu. Ef vafi leikur á að loki sé rétt stilltur þarf að athuga stillinguna á eftirfarandi hátt.
Lyftiás er hafður niðri þegar hemlaprófið fer fram (lestaður) og uppi (ólestaður).
Stýriþrýstingur, Pm, er tengdur við vagntengi eða við stýriþrýsting áður en hann fer í gegnum hleðslustýrða hemlaventilinn. Hemlapróf er framkvæmt samkvæmt notkunarleiðbeiningum fyrir viðkomandi hemlaprófara. Ef eftirvagn er búinn EBS kerfi, þarf að taka raftengið úr sambandi.
Hemlun ökutækis miðað við Pm þrýsting skal vera innan marka samkvæmt línuritum í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Meta skal niðurstöður út frá upplýsingum úr hemlaprófi og nánari útreikningum samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar sé þess þörf. Ahuga að fyrir dráttarbifreiðar og hengi- og tengivagna eru gröfin hliðruð fyrir hlaðið og óhlaðið ökutæki en fyrir festivagna eru línuritin háð K-stuðli fyrir vagninn sem er mismunandi fyrir hvern einstakan vagn og hvort hann er hlaðinn eða óhlaðinn. Upplýsingar um K-stuðla koma frá framleiðendum vagna skulu notast liggi þau fyrir.
Ef ökutæki hefur fleiri en einn hleðslustýrðan hemlajöfnunarloka og grunur leikur á að þeir séu ekki rétt stilltir þrátt fyrir að heildarhemlun ökutækisins sé innan marka getur reynst nauðsynlegt að athuga stillingu hvers hemlajöfnunarloka fyrir sig miðað við upplýsingarnar sem koma fram á skilti/merkingu um stillingu hemlajöfnunarloka.
Hemlalæsivörn
Varðar breytingar á reglugerð árið 2001 (St8.5.2.1)
Í lið 06.14 vörubifreið var eftirfarandi reglugerðar ákvæði fellt niður þann 31.03.01:
(4) Vörubifreið II sem er yfir 16.000 kg að leyfðri heildarþyngd og hefur tengibúnað fyrir eftirvagn III og IV skal búin hemlum með læsivörn í flokki 1.
Eftir þessa dagsetningu þá skulu allar vörubifreiðar vera búnar hemlum með læsivörn í flokki 1
Stöðu-, ýti- og neyðarhemlakerfi
Stöðuhemill
Stöðuhemill - skilgreining (St8.4.2.0)
Stöðuhemill: Hemlakerfi sem haldið getur ökutækinu kyrrstæðu í halla þótt ökumaður yfirgefi það.
Varðar stöðuhemil á eftirvögnum (St8.4.2.1)
Í núgildandi reglugerð um gerð og búnað ökutækja er kveðið á um að stöðuhemill skuli vera á skráningarskyldum eftirvagni. Í eldri reglugerð nr. 51/1964 var kveðið á um að „Hemlar skulu geta staðið í hemlunarstöðu, þótt vagn hafi verið leystur úr tengslum við dráttartæki” (36 gr.).
Samkvæmt túlkun er með þessu átt við að eftirvagnar með 1.500 kg heildarþyngd eða meiri skuli skv. þessari eldri reglugerð einnig hafa stöðuhemil.
Hins vegar var ekki byrjað að skrá eftirvagna fyrr en á árunum 1975 eða 1976, þannig að ekki er hægt að gera kröfu um stöðuhemil á eftirvögnum fluttum inn fyrir þann tíma. Því skal miða við að ofangreind krafa um stöðuhemil taki ekki til eftirvagna sem skráðir voru fyrir 1977, þ.e. kröfu um stöðuhemil skal einungis gera fyrir viðeigandi eftirvagna sem hafa verið skráðir 1977 eða síðar.
Stöðuhemill skal virka á hjólhemla á vélrænan hátt. Til upplýsingar fyrir þá vagnaeigendur sem ekki hafa vagna sína í lagi hvað þetta snertir þá er algengasta útfærsla á stöðuhemli sveif með barka eða sambyggðir hemlastrokkar (gormastrokkar). Ef notuð er sveif eða annar handaflsvirkur búnaður skal gæta þess að við 600 N hámarksátak á búnaðinn verður tilskilin lágmarks hemlunargeta að nást. Ef notaðir eru sambyggðir hemlastrokkar skal gæta þess að lofttengingin inn á gormhlutann sé tekin beint út af þrýstiloftsgeyminum eða tilheyrandi tengi á vagnventli.
Varðar stöðuhemil á bifreiðum (St8.4.2.2)
Vegna þeirra bifreiða sem búnar eru stöðuhemli, knúnum með rofa, þá virkar búnaðurinn á sama hátt og þegar bifreiðar eru búnar handfangi. Í báðum tilvikum er um beinan vélrænan búnað að ræða.
Prófun á virkni stöðuhemils - bifreið (St8.4.3.1)
Ekið er á rúllur rúlluhemlaprófara með þann ás sem á að prófa og þegar rúllurnar eru farnar að snúast er tekið í stöðuhemilshandfang eða stigið á stöðuhemilsfótstig til að athuga hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól. Ef stöðuhemill nær ekki tilskilinni hemlun eða hann er óvirkur öðru megin skal prófa annað hjólið í einu.
Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað með stöðuhemli þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.
Prófun á virkni stöðuhemils - eftirvagn (St8.4.3.1)
Eftirvagn sé tengdur við bifreið og standi á jöfnum fleti. Stöðuhemill settur á með einhverri af neðangreindri aðferð eftir því sem við á:
Stöðuhemill með sveif/armi (vírar, stangir): Takið í sveif og setið í hemlunarstöðu.
Stöðuhemill með snúinni sveif: Snúið sveif þannig að stöðuhemill fari á og fylgist með að armar færist til út við hjól.
Stöðuhemill með tvöfalda hemlakúta (gormakúta): Tappið lofti af loftgeymi þannig að loftkútar tæmist og fylgist með að armar færist til út við hjól.
Stöðuhemill með sérstökum rofa: Takið í eða ýtið á rofa, eftir því sem við á, sem setur stöðuhemil á og fylgist með að armar færist til út við hjól.
Takið í eftirvagn með því að keyra bifreið áfram og gangið úr skugga um að öll hjól sem tengd eru stöðuhemli, hemli. Vagn taki verulega í öll hjól.
Mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.2)
Hemlun er metin á sambærilegan hátt og aksturshemlar.
Á ökutækjum með lofthemlakerfi eru það gormastrokkarnir sem gefa hemlunina. Ef vafi leikur á að hemlun stöðuhemils sé nægjanleg þarf að reikna hana út með því að deila eiginþyngd alls ökutækisins (nema á festivagni þar sem notuð er vigt á ása) upp í hemlunarkrafta stöðuhemils í hemlaprófaranum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að lesta ökutækið til að fá fram mestu mögulegu hemlunarkrafta stöðuhemils.
Á ökutækjum með vökvahemlum er stöðuhemill venjulega tengdur með beinu átaki, þ.e. vír sem oft leikur í barka. Ef vafi leikur á hemlun ökutækis með stöðuhemli sem verður virkur með börkum eða vírum er notaður átaksmælir á handfangið.
Útiskoðun - prófun á virkni stöðuhemils (St8.4.3.3)
Ekið er með 15-20 km hraða á vegi og stöðuhemill virkjaður þar til hjólin dragast. Hemlaförin eru síðan skoðuð og athugað hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól.
Útiskoðun - mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.4)
Hemlun mæld með hemlaklukku. Framkvæmdin skal fara fram á láréttum vegi með föstu yfirborði. Festa skal hemlaklukkuna í framrúðu bifreiðarinnar bifreiðarinnar eða leggja hana á gólf bifreiðarinnar og núllstilla hana, síðan skal ekið á 30 km hraða og tekið í stöðuhemilshandfangið þar til bifreiðin stöðvast. Lesið er af hemlaklukkunni.
Ýtihemill fyrir eftirvagn
Ýtihemill - skilgreining
Hemlakerfi fyrir eftirvagn sem verður virkt við skriðþunga eftirvagnsins gagnvart dráttartækinu. Þetta getur verið búnaður í beisli eftirvagns sem gengur saman og virkjar hemla eða rafræn eða vélræn skynjun á hraðaminnkun sem virkjar hemla.
Ýtihemill fyrir eftirvagn - virkni (St8.1.3.18)
Bakklosun er athuguð með því að aka bifreið með eftirvagni afturábak til að ganga úr skugga um að það sé hægt. Ýtihemill er metinn að öllu leyti eins og hemlakerfi yfirleitt. Skoðað er í hemlaprófara hvort hemlunarkraftar séu nægir. Það er gert með sérstöku spenniverkfæri fyrir ýtihemilinn.
Setjið fasta krók verkfærisins á háls dráttarkúlunnar. Haldið verkfærinu lárétt og ýtið því aftur á bak 30° - 45° frá bifreiðinni. Festið keðju í dráttarbeisli hengivagnsins (kerru), annaðhvort með því að krækja beint í beislið eða slá keðjunni utan um heppilegan hluta beislisins og krækja henni saman.
Stillið lengd keðjunnar með því að láta lausa endann „renna” gegnum hólkinn. Kippið laust í skaftið til þess að ganga úr skugga um að hlekkur hafi festst í sporinu.
Haldið tækinu með báðum höndum lárétt og togið (ath. ýtið ekki) að bifreiðinni með hóflegu átaki meðan hjól vagns snúast í hemlaprófaranum. Athugið að ekki má hemla dráttarbifreið við prófunina.
Athugið útslátt á mælitæki. Ef vafi leikur á niðurstöðu er prófað aftur, e.t.v. með lestaðan vagn.
Við athugun á raftengdum hemli verður að láta kvikna hemlaljós á bifreiðinni. Stígið létt á hemlafetil svo að ljósin kvikni án þess að hemlar taki við sér.
Ef tilskilinn hemlunarkraftur (sjá verklagsbók) fæst aðeins þegar mjög miklum/litlum ýtikrafti hefur verið beitt er hemlun ófullnægjandi og skal gera athugasemd við hemlavirknina. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög mikill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er meira en 2,0-2,5% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 200-250 N (20-25 kg) átak. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög lítill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er minni en 0,5-1,0% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 50-100 N (5-10 kg) átak.
Neyðarhemill
Neyðarhemill - skilgreining (St8.3.2)
Neyðarhemill: Hemlakerfi sem skal geta stöðvað ökutæki innan ákveðinnar vegalengdar ef virkni aksturshemils er skert. Neyðarhemill getur verið sjálfstætt hemlakerfi, sambyggður aksturshemli eða sambyggður stöðuhemli.
Sjálfvirkt hemlakerfi eftirvagns (St8.3.3.1)
Fæðiloft lofthemla er aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir. Á vélrænum neyðarhemli er aðeins athugað ásigkomulag vírs og möguleiki á að hann virki (stýring og annað). Á rafrænum neyðarhemli er raftengi aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir.
Allir vagnar eiga að vera búnir hemlum sem hemla sjálfkrafa ef vagninn dettur aftanúr - þó mega hengivagnar undir 1.500 kg að leyfðri heildarþyngd nota trausta öryggistengingu (keðju) í stað neyðarhemils (tengingin á að koma í veg fyrir að beislið nemi við jörð ef tenging milli ökutækjanna rofnar).
Fyrir rafmagnshemla getur þetta líka verið einhverskonar skynjun, t.d. vír sem fer úr sambandi og þá virkjast rafmagnshemlarnir, eða vélrænn búnaður sem virkjast þegar herðist á einhverjum vír, t.d. stöðuhemilsvír. Ef neyðarhemillinn er rafmagnshemill þá verður rafmagnið að koma frá rafgeymi í vagninum sjálfum. Rafmagn geymisins á að duga til að halda 20% hemlun á vagninum í a.m.k. 15 mínútur eftir að hann dettur aftanúr (evrópsk krafa, ekki prófað í skoðun).
Við skoðun þessa búnaðar er athugað hvort neyðarhemillinn virkar með því að toga/virkja viðeigandi víra/lagnir sem liggja milli bifreiðar og vagns og eiga að virkja hemilinn ef vagninn slitnar frá. Vír sem virkjar neyðarhemil skal einnig skoða með tilliti til skemmda á vír eða kápu og dæma skal á ryðskemmdir og aðrar skemmdir sem hafa áhrif á hemlun.
Sértækar upplýsingar: Samsetning hemlaröra
Á markaðinum eru til samsetningar fyrir bremsurör bæði með lausum kónum og fyrir kónuð rör. Samsetning bremsuröra með lausum kónum eru ekki leyfðar, sjá dæmi á myndum 1 og 2, þar sem svona samsetningar þola ekki 1.000 N ástigskraft á hemlafetil. Samsetningar þar sem rörin eru kónuð, sbr. myndir 3 og 4, eru leyfðar.
Mynd 1. Samsetning með lausum kónum sem klemmast utan um rörið þegar samsetningin er hert. EKKI LEYFT.
Mynd 2. Sundurtekin samsetning með lausum kónum, þar sem sést hvernig kónninn klemmist utan um hemlarörið. EKKI LEYFT.
Mynd 3. Samsetningar fyrir kónuð rör. LEYFT.
Mynd 4. Til eru nokkrar útfærslur af því hvernig kónarnir eru formaðir, og eru þá samsetningarstykkin einnig formuð á sama veg. LEYFT.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Hemlaprófari, vökva: Fyrir bifreið, eftirvagn og afturdrifsdráttarvél (með annað en lofthemlakerfi).
Hemlaklukka: Fyrir ökutæki sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara eða sýna enga mælingu í hemlaprófara, s.s. aldrifsdráttarvél, bifhjól og minni þríhjóla og fjórhjóla ökutæki.
Hemlaprófari, stór (og fylgibúnaður): Fyrir bifreið og eftirvagn með lofthemlakerfi sem eru minna en 75% hlaðin við prófun.
Hemlaprófari, lítill: Fyrir bifreið og eftirvagn með lofthemlakerfi sem eru meira en 75% hlaðin við prófun.
Hemlaklukka: Fyrir mjög stórar eða þungar bifreiðir sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara, s.s. undanþágubifreiðir.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Efni kaflans
Stýrisbúnaður - stýrisendar, stýrisvél
Almenn atriði og varúð
Varúð - hætta á skemmdum
Til þess að forðast skemmdir við skoðun á stýrisbúnaði skal fara varlega þegar notað er spennijárn. Sérstaklega verður að gæta að því að skemma ekki hlífðargúmmí. Hætta er á að framlengingarverkfæri gleymist í tjakk lyftunnar þegar slakað er og gætu þau valdið miklum skemmdum á undirvagni bifreiðar þegar ekið er af lyftunni. Því er mjög mikilvægt að ýta tjakknum inn undir bifreiðina til að athuga hvort hann er laus frá bifreiðinni. Ekki skal nota eingöngu fellistykki tjakksins ef hætta er á að bifreiðin skriki á því eða of mikið átak lendi á einum stað.
Spindlar og stýrisendar við aflestun og aksturslegu
Við skoðun á stýrisbúnaði er æskilegt að hjól séu í aksturslegu, þ.e.a.s. í sömu legu miðað við undirvagn og í venjulegum akstri. Það er þó ekki alltaf gerlegt að ná hjólum samtímis í aksturslegu og létta af þeim álagi. Hér skiptir meira máli að ná þeim álagslausum. Aksturslegan skiptir oftast meira máli við athugun á stýrisendum en við athugun á spindlum.
Stýrisliðir - stýrisendar
Skoðun á splittun: Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.
Skoðun á festingum og slagi bifreiða allt að 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, þá fer athugun á festingum og mat á slagi fram á skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á stýrisenda. Einnig er togað í stýrisenda fram og til baka með því að taka á hjólum þegar þau eru á lofti. Ef líkur eru á slagi utan leyfilegra marka skal það mælt. Einnig er athugað hvort lega kúlu bendi til þess að stýrisendi sé að fara úr sambandi. Ef líkur eru á endaslagi er stýrisendi klemmdur saman með með stýrisendatöng. Skemmd á hlífðargúmmíi er metin með sjónskoðun.
Skoðun á festingum og slagi ökutækja sem eru yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, þau eru látin vera í akstursstöðu og slag í stýrisendum athugað þegar stýrishjóli er snúið til hvorrar handar. Endaslag er athugað með því að taka á liðum með stýrisendatöng.
Stýrisliðir - stýrisupphengja
Mat á slagi: Við mat á slagi í stýrisupphengju bifreiða undir 3500 kg af leyfðri heildarþyngd er notaður skakari. Að öðrum kosti er slagið athugað um leið og tekið er á hjólum og þau færð á milli stýrisstoppa. Athugun fer fram með hjól í akstursstöðu. Ef líkur eru á slagi utan leyfilegra marka skal það mælt.
Stýrisliðir - stýrisvél
Hlaup eða slag í stýrisvél: Í vafatilvikum er hlaup eða slag í stýrisvél metið með gráðuboga I. Athugun fer fram með hjól í beinni stöðu. Stýrishjól er snúið fram og tilbaka til að finna slag í stýrisvél. Bifreið skal vera í gangi við þessa skoðun.
Hrjúfleiki eða skemmd í stýrisvél: Framhjól bifreiðarinnar lyft upp með tjakki. Hjólum er snúið milli fulls stýrisútslags og skemmdir fundnar með höndum eða hlustað eftir hnökri. Í vafatilvikum er stýrishjóli einnig snúið.
Los eða slit í festingum stýrisvélar: Ef grunur leikur á losi er athugað hvort færsla verður á stýrisvél þegar stýrið er hreyft fram og til baka.
Skemmdir á hlífðargúmmíi tannstangarstýris: Tekið er á gúmmíi ef líkur eru á skemmdum.
Stýrisliðir - aflstýri
Virkni aflstýris: Hreyfill er hafður í gangi þegar hlaup, festur og virkni eru athuguð. Athuga þarf sérstaklega festingar á stýristjakk og ef líkur eru á að hann sé laus þarf að fylgjast með hvort festur hreyfist þegar stýri er snúið. Athugað er hvort stýri leitar til hliðar þegar bifreið er ekið. Ef líkur eru á að stýri sé þungt er stýriskraftur metinn við akstur bifreiðar inn í hring með 12.5 m radíus.
Skemmdir í vökvaleiðslum aflstýris: Tekið er á leiðslum ef líkur eru á að þær séu skemmdar.
Viðtengt orkuforðabúr: Ganga skal úr skugga um að orkuforðabúr sé fullhlaðið. Stöðvið hreyfil bifreiðarinnar, snúið stýrishjólinu þannig að hjól bifreiðarinnar fari til beggja hliða í fullt stýrisútslag og aftur í beina stefnu. Hjól skulu vera á jörðu þegar stýrishjólinu er snúið.
Leyfilegt slag
Stýrisendar: Ekkert slag er leyfilegt nema fyrir liggi upplýsingar frá framleiðanda um leyfileg mörk, sjá nánar hér.
Stýrisupphengjur: Ekkert slag er leyfilegt nema fyrir liggi upplýsingar frá framleiðanda um leyfileg mörk, sjá nánar hér.
Hjólastaða - upplýsingar og vottun
Rangt hjólabil (St6.6.3.1)
Ef grunur leikur á að hjólabil sé rangt er mæling framkvæmd með málbandi eða mælistiku. Hjól eru þá látin snúa beint fram og ökutækið hreyft aðeins fram og aftur til að tryggja að engin þvingun sé á hjólunum. Mæld er fjarlægð á milli felgubrúna að framanverðu og aftanverðu í miðri felguhæð. Þetta atriði getur einnig átt við um bifhjól II - V með tvö framhjól.
Við endurskoðun: Við endurskoðun skal gera kröfu um hjólstöðuvottorð hafi ökutækið verið dæmt til endurskoðunar vegna rangs hjólabils, ásamt því að skoða hjólastöðuna eins og gert var við fyrri skoðun.
Við breytingaskoðun: Hafi breyting verið gerð á hjólabúnaði og/eða stýrisbúnaði, sem haft getur áhrif á hjólastöðu, skal hjólastöðuvottorð fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.
Við móttöku vottorðs ber að yfirfara upplýsingar sem fram koma og tryggja að þær séu í samræmi við kröfur, m.a. að útgefandi (verkstæðið og fulltrúi þess) sé á lista Samgöngustofu yfir þá sem hún hefur samþykkt til útgáfu slíkra vottorða. Ekki er gildistími á hjólastöðuvottorði en tryggja skal að vottorðið hafi verið gefið út eftir að síðasta skoðun fór fram (í þeirri skoðun sem dæmt var á rangt hjólabil). Sé vottorðið ófullnægjandi á einhvern hátt ber að hafna móttöku þess og fyrri dæming stendur. Samþykkt vottorð skulu send til Samgöngustofu.
Útgáfa vottorðs um hjólastöðu
Útgáfa vottorðs um hjólastöðu er gefið út af viðurkenndum mælingamanni. Upplýsingar um móttöku vottorðsins, yfirferð og skil er að finna í skráningareglum ökutækja og á heimasíðu Samgöngustofu um útgáfu burðarvirkis- og hjólastöðuvottorða.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
Handverkfæri - mátar: Spindilmáti MB 201 589102300.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Efni kaflans
Þurrkflötur
Skilgreining á þurrkfleti (St1.1.2.1)
Þurrkflötur er það svæði framrúðu sem framrúðuþurrkur skulu að minnsta kosti hreinsa.
Þurrkflötur miðast við svæði fyrir framan ökumannssætið og fyrir framan ysta farþegasætið (sé það til staðar, bæði svæðin teljast áskilinn þurrkflötur). Svæðið skal vera að lágmarki 20x40 cm (hæð x breidd) með miðju í 80 cm hæð frá viðkomandi setu. Sjá mynd 1.
Mynd 1. Skilgreining á þurrkfleti.
Hreinsun nægilega stórs svæðis
Í reglugerð og um gerð og búnað er kveðið á um að á bifreið skuli vera vélknúnar þurrkur er hreinsað geta framrúðu bæði vinstra og hægra megin á nægjanlega stóru svæði til að veita ökumanni fullnægjandi útsýn. Þetta svæði hefur verið skilgreint nákvæmlega og kallast þurrkflötur, sjá lýsingu hér neðar.
Það svæði sem rúðuþurrkur ökutækisins þurrka í raun er kallað þurrksvæði. Ljóst er því að þurrksvæðið þarf að vera stærra en áskilinn þurrkflötur.
Rúður
Skemmdir og sprungur í rúðum
Framrúða skal vera þannig að hlutir verða ekki bjagaðir eða óskýrir sé horft á þá í gegnum rúðuna. Við dæmingar á ástand á framrúðu (atriði 3.2.a) er miðað við eftirfarandi:
Utan þurrkflatar (dæming 1): Skemmdir eða sprungur sem ekki er hægt að hylja með hring sem er 30 mm (skemmd) eða 150 mm (sprunga) að þvermáli.
Innan þurrkflatar (dæming 2): Skemmdir eða sprungur sem ekki er hægt að hylja með hring sem er 10 mm að þvermáli. Einnig fleiri minni skemmdir, rispur eða mött áferð (sandblástursáferð) sem veldur því að sýn í gegnum rúðuna bjagast eða veldur óskýrri sýn. Hið sama getur átt við um hliðarrúður ef þetta ástand skyggir á sýn ökumanns á hliðarspegla (er í sjónlínunni).
Skemmdir eða sprungur sem ná til svæðis sem er bæði innan og utan þurrkflatar skal meta í tvennu lagi og meta m.t.t. þeirra svæða sem hvor hlutinn er staðsettur í, og strangari dæmingin valin.
Ekki skal dæma á eftirfarandi:
Skemmdir eða sprungur sem gert hefur verið við þannig að viðgerð sé því sem næst ósýnileg.
Skemmdir eða sprungur á svæði sem eru á skyggðu/doppóttu svæði meðfram brún rúðunnar.
Skemmdir eða sprungur á skyggðu svæði rúðunnar fyrir aftan baksýnispegil ökumanns (í þeim tilfellum sem það á við).
Efni í rúðum bifreiða og litur þeirra
Bifreiðir skráðar fyrir 1. mars 1988 mega hafa plexigler í rúðum nema framrúðu. Þó stendur eftir sem áður að sjást verður vel út um hliðarrúðurnar.
Hópbifreiðir sem skráðar eru eftir 22. mars 1980 og aðrar bifreiðir sem skráðar eftir 1. mars 1988 skulu hafa framrúður úr viðurkenndu lagskiptu öryggisgleri og aðrar rúður úr viðurkenndu öryggisgleri, hertu öryggisgleri eða plastefni sem myndar ekki hvassar brúnir við brot.
Framrúða eða vindhlíf skal vera þannig gerð að hún hvorki brengli né óskýri mynd þeirra hluta sem sjást í gegnum hana. Ljósgegnumstreymi framrúðu og fremstu hliðarrúða skal innan eðlilegs sjónsviðs vera a.m.k. 70% (þó ekki ætlast til að það sé mælt á skoðunarstofu). Framrúða og fremstu hliðarrúður (sem eru fyrir framan ökumannssæti í öftustu stöðu) mega vera úr reyklituðu gleri sé það viðurkennt og með slíka merkingu skv. ECE reglu nr. 43 eða sambærilegu. Litaðar filmur eða litarefni sem sett eru á þessar rúður eru hins vegar ekki hluti af viðurkenningu rúðunnar og eru því ekki heimilaðar. Þetta ákvæði gildir um allar bifreiðir óháð því hvenær skráning þeirra átti sér stað. Dæma skal á niðurskrúfanlegar hliðarrúður sem eru fastar í neðstu stöðu eða hafa verið fjarlægðar þannig að ekki er hægt að greina hvort rúðan sé með álímdri filmu.
Ef skipt er um framrúðu í bifreið skal hún vera úr lagskiptu öryggisgleri óháð skráningardegi bifreiðarinnar.
Viðurkenndir staðlar fyrir öryggisgler
Rúður úr hertu öryggisgleri skulu bera viðurkenningarmerki sem Samgöngustofa hefur samþykkt. Algengustu merkingarnar eru e-, E- eða DOT-merkingar, en Samgöngustofa hefur einnig samþykkt eftirfarandi merkingar:
Ástralía:AS/NZS 2080 AS/NZS 2080T
Kanada:CMVSS 205 (C2)
Japan:11-4-21 (window glass) JISR 3211
Bretland:BS AU I78 / BS 85 7-2 / BS 5282
Bandaríkin: FMVSS 205 (U) og ANSI/SAE Z26.1-1996 (Section 7)
Þýskaland: (a) Þriggja toppa sínusbylgja með bókstafnum “D” á eftir. Eldri þýsk gerðarviðurkenning á öryggisgleri. (b) Gler merkt Birkholz, Seitz, Roxite, Para Press eða Bonoplex. (c) Gler merkt PMMA (polymethylmethylacrylate) eða PC (polycarbonate).
Rúðusprautur
Ákvæði um rúðusprautu tók gildi í fyrsta sinn 1. mars 1988. Bifreiðir sem skráðar eru fyrir þann tíma og eru búnar rúðusprautum skulu hafa búnaðinn í lagi, þ.e. dæma skal í samræmi við Skoðunarhandbók þrátt fyrir að ekki sé gerð krafa um slíkan búnað í bifreiðum fyrir þann tíma.
Speglar
Skemmdir og sprungur í áskildum speglum
Baksýnisspegill skal gefa greinilega og óbjagaða spegilmynd aftur með eða aftur eftir bifreiðinni. Við dæmingar á skemmdir og sprungur í speglum (atriði 3.3.b) er miðað við eftirfarandi:
Litlar skemmdir (dæming 1): Skemmdir eða sprungur sem liggja við jaðar spegilsins og ekki er hægt að hylja með hring sem er 30 mm að þvermáli.
Miklar skemmdir (dæming 2): Skemmdir eða sprungur sem eru á miðsvæði (ekki við jaðar spegils) og ekki er hægt að hylja með hring sem er 30 mm að þvermáli.
Séu skemmdir eða sprungur á fleiri en einum stað skal strangasta dæmingin valin.
Ekki skal dæma á eftirfarandi:
Skemmdir eða sprungur sem gert hefur verið við þannig að viðgerð sé því sem næst ósýnileg.
Flokkar spegla (St1.3.2.1)
Spegill í flokki I: Flatur baksýnisspegill sem er a.m.k. 70 cm2 að flatarmáli eða kúptur baksýnisspegill sem er a.m.k. 50 cm2 að flatarmáli.
Spegill í flokki II: Flatur baksýnisspegill sem er a.m.k. 300 cm2 að flatarmáli eða kúptur baksýnisspegill sem er a.m.k. 200 cm2 að flatarmáli og með a.m.k. 1.800 mm sveigjuradíus.
Krafa um spegla
Fólksbifreið (M1)
Frá 01.01.1989 skal fólksbifreið búin baksýnisspegli í flokki I á vinstri hlið. Fólksbifreið með tengibúnað skal hafa baksýnisspegil á vinstri og hægri hlið sem og fólksbifreið með stýrishjól hægra megin. Einnig skal vera spegill hægra megin og á vinstri hlið sé baksýn með innispegli að einhverju leyti skert.
Sendibifreið (N1)
Frá 15.05.1964: Á báðum hliðum.
Frá 01.03.1994: Í flokki I á báðum hliðum.
Hópbifreið (M2, M3)
Frá 15.05.1964: Á báðum hliðum og innispegill.
Frá 01.03.1994: Í flokki II á báðum hliðum.
Baksýnisspegill í flokki II á hægri hlið hópbifreiðar II skal vera rafhitaður með a.m.k. 5 W á hverja 100 cm2 spegilflatarins. Baksýnisspegill á hægri hlið skal sýna aðaldyr, aðrar en fremstu dyr, í fullri hæð.
Innispeglar: Við aðaldyr hópbifreiðar í undirflokkum I, II og A og fremri (fremstu) aðaldyr á hópbifreið IIB sem ökumaður hefur ekki beina sjónlínu til skal vera spegill. Í speglinum skal sjást neðri hluti dyra og inngangur. Í hópbifreið skal vera spegill sem sýnir bifreiðina að innanverðu og spegla við aðaldyr. Sjónlína á milli baksýnisspegils fram í og útgönguspegla aftur í hópbifreið skal vera órofin.
Vörubifreið (N2, N3)
Frá 15.05.1964: Á báðum hliðum.
Frá 01.03.1994: Í flokki II á báðum hliðum. Vörubifreið II skal búin gleiðhornsspegli og nálægðarspegli á hægri hlið sem komið er fyrir í a.m.k. 2,0 m hæð, miðað við fulllestaða bifreið. Því aðeins er gerð krafa um nálægðarspegil að unnt sé að uppfylla ákvæði um hæð hans.
Bifhjól (þungt) (L2e-L7e)
Frá 01.01.1968: Öðru megin.
Frá 11.10.1993: Beggja megin.
Létt bifhjól (L1e)
Frá 11.10.1993: Vinstra megin.
Dráttarvél til aksturs á opinberum vegum (T)
Sjá stoðrit um ökutækjaflokka Dráttarvélar og eftirvagnar þeirra.
Vinnuvélar til aksturs á opinberum vegum
Sömu ákvæði gilda og um dráttarvélar, sjá stoðrit um ökutækjaflokka Dráttarvélar og eftirvagnar þeirra.
Ökutæki til ökukennslu (bifreið, bifhjól, eftirvagn)
Sjá stoðrit um notkunarflokk Ökukennsla.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri:
Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Efni kaflans
Ljós og glit - áskilin og leyfð
Upplýsingar um ljós, glitaugu og glitmerkingar er að finna í sérstöku pdf-skjali:
Í skjalinu eru teknar saman gildandi kröfur um áskilinn og leyfðan ljósabúnað. Skjalið tók formlega gildi 1. mars 2024.
Vakin er athygli á því að í skjalinu sjást bæði ljósker og glitmerkingar sem ekki hafa verið tilgreind í reglugerð um gerð og búnað ökutækja áður og nöfnum einhverra hefur verið breytt. Upplýsingar í skjalinu eru í samræmi við gildandi Evrópureglur en einhvers ósamræmis hefur gætt milli þeirra reglna og reglugerðar um gerð og búnað ökutækja síðustu ár. Af þeim sökum skulu skoðunarstofur ekki gera athugasemd á vottorð við fyrirkomulag eða notkun (nú) óheimils ljósabúnaðar (ljóskera, glitaugna eða glitmerkinga) á atvinnubifreiðum, sem vafi hefur leikið á heimildum fyrir til þessa, fyrr en eftir 01.01.2025. Áríðandi er þó að eigendum (umráðendum) sé bent á ósamræmið og þeir hvattir til að bæta úr fyrir lok árs 2024.
Stilling aðalljósa og lögun geisla
Mæling á stillingu ljósa á við um eftirfarandi ökutækisflokka:
Bifreið: Lýst í þessu skjali.
Bifhjól: Lýst í skjalinu um Létt bifhjól og bifhjól.
Dráttarvél: Lýst í þessu skjali.
Undirbúningur mælingar
Athugað hvort los er að finna í ljóskeri. Hreyfill ætti að vera í hægagangi og allar dyr lokaðar. Ökumaður má sitja í bifreið.
Mæling stillingar
Evrópsk aðalljósker - mæld við lágan geisla
Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir lágljós tendruð.
Stilling skal að öllu jöfnu vera í samræmi við stilligildi framleiðanda (oft merkt með miða í vélarrúmi). Ef slíkar merkingar eru ekki til staðar eða hæð bifreiðarinnar hefur verið breytt þarf að taka tillit til efri og neðri marka ljósgeisla.
Mæling (óháð ljósaskoðunartæki) er gerð þannig:
Efri mörk: Lágljósgeisli skal ekki lýsa lengra en 80 m fram á akbrautina og ekki hafa minni niðurvísun en 1%. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það og má geislinn ekki lýsa ofan við hana. Ef hæð ljóskers (ljósmiðju) er meiri en 80 cm verður niðurvísunin að vera meiri (80 m og 80 cm þýðir 80/80=1% niðurvísun, 80 m og 90 cm hæð þýðir 90/80=1,1% o.s.frv.).
Neðri mörk: Lágljósgeisli skal lýsa að lágmarki 40 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 40 m = niðurvísun í %) og þá má ljósgeislinn ekki lýsa fyrir neðan hana.
Sérstök háljósker / amerísk aðalljósker - mæld við háljósgeisla
Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir háljós tendruð.Háljósgeisli skal lýsa veginn a.m.k. 100 m fram fyrir ökutækið og ekki hærra en beint fram (lárétt).
Mæling (óháð ljósaskoðunartæki) er gerð þannig:
Efri mörk:Miðja háljósgeisla skal ekki lýsa ofar en beint fram. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (á enga niðurvísun) og má miðja geislans ekki lýsa ofan við hana.
Neðri mörk: Miðja háljósgeisla skal lýsa að lágmarki 100 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 100 m = niðurvísun í %) og þá má miðja ljósgeislans ekki lýsa fyrir neðan hana.
Hliðarstefna geislans
Hliðarstefna athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og athugun á stillingu fer fram. Evrópskur lágljósgeisli skal fylgja viðmiðunarlínum á spjaldinu og miðja háljósgeisla skal lýsa á mitt spjaldið.
Lögun geislans
Skoðun með ljósaskoðunartækjum. Ljósaskoðunartækið er sett upp að ljóskerum ökutækisins. Athugað hvort evrópskur lágljósgeisli sé eðlilega lagaður og háljósgeisli myndi hringlaga geisla sem er þéttastur í miðjunni.
Bannákvæði er varða ljósabúnað
Litur og litun ljósflata
Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja eru settar fram kröfur um lit ljósa. Það túlkast þannig að viðkomandi litur skuli vera á ljósinu þegar það logar, ekki endilega á ljósfletinum (glerinu) þegar slökkt er á ljósinu. Síðustu ár hefur það færst í vöxt að ljósflötur hefur annan lit en hið lýsandi ljós (þannig útbúið af framleiðendum ökutækja). Sem dæmi má nefna gler stefnuljósa, sem gjarnan eru nú hvítmött eða rauðmött, en ljósið er gult vegna þess að undir er gul himna (sem sést ekki í gegnum matta glerið) eða gul pera er í ljóskerinu (sem sést ekki heldur). Slíkur frágangur framleiðenda túlkast í lagi.
Óheimilt að hylja ljós
Óheimilt er að hylja ljós þannig að ljósstyrkur skerðist, þó má grjótgrind skerða ljósstyrk óverulega samkvæmt reglugerð. Að öðru leyti er óheimilt að hylja ljós, svo sem með litun ljósflata eða með lituðum hlífum. Hið sama á við um glitaugu.
Óleyfilegur ljósabúnaður og glit
Í reglugerð um gerð og búnað segir að óheimilt sé að nota önnur ljósker eða glitaugu en þau sem boðin eru eða heimiluð í henni eða öðrum reglum sem ráðuneytið setur.
Sem dæmi um ljósabúnað sem ekki er heimilaður samkvæmt reglugerð:
Óheimilt er að hafa stigbrettaljós (sílsaljós) sem ekki uppfylla ákvæði um hliðarljós.
Óheimilt er að hafa aðgreiningarljós á fólksbifreiðum (þó má vörubifreið með aðgreiningarljós sem breytt er yfir í húsbifreið hafa þau áfram).
Óheimilt er að hafa breiddarljós á bifreiðum sem ná ekki breidd yfir 1,80 metra.
Um leið og dæmt er á þennan óleyfilega ljósabúnað skal benda eigendum (umráðendum) á að þennan ljósabúnað á að fjarlægja, ekki nægir að aftengja hann því allur ljósa og merkjabúnaður sem er til staðar í ökutækjum á að vera í lagi og virkni fullnægjandi.
Ljósaraftengi (raftengi fyrir eftirvagn)
Bifreið sem hefur tengibúnað fyrir eftirvagn skal búin raftengi sem uppfyllir eftirfarandi kröfur:
Fyrir 12 volta rafkerfi eftirvagns: Samkvæmt ISO staðli 1724 (7-póla) eða ISO staðli 11446 (áður DIN V 72570) (13-póla).
Fyrir 24 volta rafkerfi eftirvagns: Samkvæmt ISO staðli 1185 (7-póla) eða ISO staðli 12098 (13-póla).
Hið sama gildir um eftirvagninn, tengi hans þarf að samræmast raftengi bifreiðarinnar.
12V tengi samkvæmt ISO 1724 12 N (7 póla) og ISO 11446 (áður DIN V 72570) (13 póla)
Til eru tvær útfærslur af 7-póla 12V tengjum samkvæmt ISO stöðlum, annars vegar gerð N (normal) í ISO 1724 (áskilda tengið) og hins vegar gerð S (supplemental) í ISO 3732 sem er 7-póla viðbótartengi. Í viðbótartenginu bætast við tengingar sem ekki eru í hinu tenginu (t.d. stöðugur straumur til eftirvagns). Tengin eru svipuð útlits, en passa þó ekki saman, og er N tengið jafnan í svörtu húsi en S tengið í hvítu húsi.
Svo er það 13-póla útfærslan samkvæmt ISO 11446 (áður DIN V 72570) sem í eru allar nauðsynlegar tengingar.Myndir og tengingar 12V 7-póla og 13-póla tengja má sjá í töflu 1. Við skoðun er einungis prófuð virkni ljósapóla ljósaraftengjanna tveggja.
Mynd 1a. Tengi 12V 7-póla: innstungan í bílnum, séð utanfrá
Mynd 1b. Tengi 12V 7-póla: innstungan í bílnum, bakhlið
Mynd 1c. Tengi 12V 13-póla: innstungan í bílnum, séð utan frá
Mynd 1d. Tengi 12V 13-póla: innstungan í bílnum, bakhlið
Tafla 1. Tengi 12V 7-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 1724 12 N (og ISO 3732 12 S viðbótartengis) og 13-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 11446 (áður DIN V 72570).
Tengipóll | ISO 1724 12 N | ISO 3732 12 S | ISO 11446 (DIN V 72570) |
---|---|---|---|
1 | Vinstri: Stefnuljós. | Bakkljós. | Vinstri: Stefnuljós. |
2 | Þokuafturljós. | Óráðstafað. | Þokuafturljós. |
3 | Jörð. | Jörð fyrir póla 1-5. | Jörð fyrir póla 1-8. |
4 | Hægri: Stefnuljós. | 12V stöðug frá rafkerfi bifreiðar. | Hægri: Stefnuljós. |
5 | Hægri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós. | Óráðstafað. | Hægri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós. |
6 | Hemlaljós. | 12V frá straumlás (hleðslulögn fyrir rafgeymi eftirvagns). | Hemlaljós. |
7 | Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós og breiddarljós. Númersljós. | Jörð fyrir pól 6. | Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós. |
8 | --- | --- | Bakkljós. |
9 | --- | --- | 12V stöðug frá rafkerfi bifreiðar. |
10 | --- | --- | 12V frá straumlás (hleðslulögn fyrir rafgeymi eftirvagns). |
11 | --- | --- | Jörð fyrir pól 10. |
12 | --- | --- | Óráðstafað. |
13 | --- | --- | Jörð fyrir pól 9. |
24V tengi samkvæmt ISO 1185 24 N (7-póla) og ISO 12098 (15 póla)
Til eru tvær útfærslur af 7-póla 24V tengjum samkvæmt ISO stöðlum, annars vegar gerð N (normal) í ISO 1185 (áskilda tengið) og hins vegar gerð S (supplemental) í ISO 3731 sem er 7-póla viðbótartengi. Í viðbótartenginu bætast við tengingar sem ekki eru í hinu tenginu (t.d. stöðugur straumur til eftirvagns). Tengin eru svipuð útlits, en passa þó ekki saman, og er N tengið jafnan í svörtu húsi en S tengið í hvítu húsi.
Svo er það 15-póla útfærslan samkvæmt ISO 12098 sem í eru allar nauðsynlegar tengingar.
Myndir og tengingar 24V 7-póla og 15-póla tengja má sjá í töflu 2. Við skoðun er einungis prófuð virkni ljósapóla ljósaraftengjanna tveggja.
Mynd 2a. Tengi 24V 7-póla: innstungan í bílnum, séð utanfrá
Mynd 2b. Tengi 24V 7-póla: innstungan í bílnum, bakhlið
Mynd 2c. Tengi 24V 15-póla: innstungan í bílnum, séð utan frá
Mynd 2d. Tengi 24V 15-póla: innstungan í bílnum, bakhlið
Tafla 2. Tengi 24V 7-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 1185 24 N (og ISO 3731 24 S viðbótartengis) og 15-póla ljósaraftengis samkvæmt ISO 12098.
Tengipóll | ISO 1185 24 N | ISO 3731 24 S | ISO 12098 (24V) |
---|---|---|---|
1 | Jörð. | Jörð. | Vinstri: Stefnuljós. |
2 | Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós. | Óráðstafað. | Hægri: Stefnuljós. |
3 | Vinstri: Stefnuljós. | Bakkljós. | Þokuafturljós. |
4 | Hemlaljós. | 24V stöðug frá rafkerfi bifreiðar. | Jörð fyrir póla 1-13. |
5 | Hægri: Stefnuljós. | Óráðstafað. | Vinstri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós. |
6 | Hægri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós. | 24V frá straumlás bifreiðar. | Hægri: Stöðuljós, hliðarljós, breiddarljós. Númersljós. |
7 | Þokuafturljós. | Þokuafturljós. | Hemlaljós. |
8 | --- | Bakkljós. | |
9 | --- | --- | 24V stöðug frá rafkerfi bifreiðar. |
10 | --- | --- | Losun ýtihemla / Læsing stýrðs áss / Melding um hemlaslit. |
11 | --- | --- | Stýrikerfi spólvarnar / Bilun í stöðuhemli vagns. |
12 | --- | --- | Lyftiás. |
13 | --- | --- | Jörð fyrir póla 14-15. |
14 | --- | --- | Gagnalína CAN-High. |
15 | --- | --- | Gagnalína CAN-Low. |
Rafmagnsleiðslur
Fara þarf með gát við könnun ástands og öryggis leiðslna og sérstaklega við skoðun háspennukerfis rafknúinna ökutækja og blendingsökutækja. Þessar háspennuleiðslur eru litakóðar í appelsínugulum lit.
Fara þarf með sérstakri gát þegar rafknúin ökutæki og blendingsökutæki eru prófuð þar sem háspenna getur verið til staðar á nokkrum stöðum í kringum ökutæki þar með talið í geymsluþéttum og rafgeymum.
Í blendingsökutækjum getur kviknað á vélinni án viðvörunar þegar kveikt er á rafbúnaði eða rafgeymaspenna minnkar.
Að sjálfsögðu er ekki þörf á því að fjarlægja hlífðarplötur eða hluti innréttinga til að sjá rafmagnsleiðslur. Skoðun krefst þess að ástand, staða og öryggi allra sýnilegra leiðsla séu tekin til skoðunar. Skoðuni er almennt takmörkuð við þá hluta sem hægt er að sjá án þess að taka þá í sundur og byggist á hugmyndinni um að hlífðarplötur séu aðeins fjarlægðar þar sem ekki er mögulegt að skoða mikilvæg öryggisatriði. Vanalega á þetta ekki við um leiðslur sem eru á bak við hlífðarplötur nema það sé ástæða til þess að gruna að leiðslur séu mjög gallaðar/skemmdar.
Rafgeymar
Ef rafgeymir er aðeins festur með leiðslum (festing á plús og mínus pól) telst hann ekki vera öruggur. Rafgeymir skal vera tryggilega festur og byrgður eða honum þannig fyrir komið að ekki sé hætta á skammhlaupi geymisins við eðlilega notkun ökutækis.
Ef það er ekki mögulegt athuga með ástand rafgeymis og leka úr honum á að reyna eftir fremsta megni að skoða staðinn þar sem rafgeymi er komið fyrir til að fá staðfestingu á því að leki sé ekki til staðar.
Fara þarf með gát þegar skoða þarf ástand og öryggi rafleiðslna og háspennukerfi blendingsökutækja og rafknúinna ökutækja. Þessar háspennuleiðslur eru litakóðaðar með appelsínugulum lit.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri: Ýmsar lengdarmælingar (málband, skífmál o.þ.h.).
Ljósaskoðunartæki: Fyrir bifreiðir, bifhjól og dráttarvélar.
Prófari fyrir raftengi: Fyrir ljósaraftengi.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Staðall ISO 1724 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 7-pinna tengi gerð 12 N (normal) fyrir ökutæki á 12 V spennu.
Staðall ISO 11446 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 13-pinna tengi fyrir ökutæki á 12 V spennu (staðall í tveimur hlutum).
Staðall ISO 1185 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 7-pinna tengi gerð 24 N (normal) fyrir ökutæki á 24 V spennu.
Staðall ISO 12098 Ökutæki - Raftengi dráttartækis og eftirvagns - 15-pinna tengi fyrir ökutæki á 24 V spennu.
Efni kaflans
Lyftipunktar ökutækja
Lyftipunktar við aflestun spindilkúla
Á mynd 1 sjást algengustu útfærslur á sjálfstæðri fjöðrun. Beita þarf mismunandi aðferðum við að lyfta ökutækinu upp til að aflestun spindilkúlna eigi sér stað.
Mynd 1. Tegundir fjöðrunar (gerðir 1, 2 og 3 í efri röð, gerðir 4 og 5 í neðri röð). Örvarnar sýna lyftipunktana sem aflesta spindilkúlurnar.
Þegar verið er að lyfta upp ökutæki með fjöðrun að framan sem eru með vindustöng eða fjöðrunarkraft sem verkar á neðri spyrnuna verður að lyfta undir neðri spyrnuna til að aflesta spindilkúlurnar. Þetta á við gerðir 1 og 5 á mynd 1. Þar sem ásbitar eru til staðar ætti að lyfta undir þá (gerðir 2, 3 og 4 á mynd 1).
Sjá einnig sérstakt skjal um skoðun á stýrisbúnaði.
Aflestun á fóðringum í hjólspyrnum og stífum
Til að meta slit í fóðringum bifreiða, sem eru minna en 3500 kg af leyfðri heildarþyngd, er notaður skakari og/eða spennujárn.Festingar efri ófergðrar hjólaspyrnu eru athugaðar með því að lyfta framhluta bifreiðarinnar upp með tjakki. Fremri og aftari festingar eru athugaðar með því að taka á hjólinu í fullu stýrisútslagi til hægri og vinstri.Festingar fergðra spyrna eru athugaðar með sjónskoðun. Í vafatilvikum má aflesta festingarnar með spennijárni.Slit í spyrnum á tengivögnum má einnig athuga með því að hemla vagninum og skaka honum afturábak og áfram með dráttarbifreiðina tengda á meðan liðamótin eru athuguð.
Hjóllegur
Slag í hjóllegum (St6.2.3.1)
Ökutæki er lyft upp þannig að hjól hangi laus. Tekið er á hjólum að ofan og að neðan. Við skoðun ökutækja sem eru meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd skal nota spennijárn.
Hreyfing hjóls er metin og ef líkur eru á að hún sé nálægt leyfilegum mörkum er hún mæld á eftirfarandi hátt: Vinkill er lagður á gólfið eða á lyftu og að hjólbananum. Mæla skal bilið frá vinkli að felgubrún. Hjólið er tekið út að neðan og inn að ofan þannig að vinkillinn færist með. Síðan er hjólinu ýtt inn að neðan og út að ofan og bilið sem myndast á milli vinkilsins og felgubrúnar mælt. Raunveruleg færsla hjóls fæst með því að draga frá upphaflegu fjarlægðina frá vinkli að felgubrún. Í töflu 1 er að finna upplýsingar um leyfilega færslu hjólbana vegna slags í legu m.v. felgustærðir.
Tafla 1. Leyfileg færsla hjólbana vegna slags í legu. (St6.2.5.1)
Felgustærð | Færsla hjóls | Felgustærð | Færsla hjóls |
---|---|---|---|
12" | 2,5 ± 0,1 mm | 18" | 3,5 ± 0,1 mm |
13" | 2,5 ± 0,1 mm | 20" | 4,0 ± 0,1 mm |
14" | 3,0 ± 0,1 mm | 22" | 4,5 ± 0,1 mm |
15" | 3,0 ± 0,1 mm | 24" | 5,0 ± 0,1 mm |
16" | 3,5 ± 0,1 mm |
Hjólspyrnur og stífur
Fóðringar í hjólspyrnum og stífum og festingar þeirra (St6.3.3.1)
Til að meta slit í fóðringum bifreiða, sem eru minna en 3500 kg af leyfðri heildarþyngd, er notaður skakari og/eða spennujárn. Festingar efri ófergðrar hjólaspyrnu eru athugaðar með því að lyfta framhluta bifreiðarinnar upp með tjakki. Fremri og aftari festingar eru athugaðar með því að taka á hjólinu í fullu stýrisútslagi til hægri og vinstri. Festingar fergðra spyrna eru athugaðar með sjónskoðun. Í vafatilvikum má aflesta festingarnar með spennijárni.
Slit í spyrnum á tengivögnum má einnig athuga með því að hemla vagninum og skaka honum afturábak og áfram með dráttarbifreiðina tengda á meðan liðamótin eru athuguð.
Fjaðrir (allar gerðir)
Varðar krókblað (St6.4.2.1)
Fjaðrir sem hannaðar eru með krókblaði skulu vera með slíku blaði. Sé skipt um fjöður í heild sinni og sú fjöður ekki hönnuð með krókblaði skal ekki gera kröfu um það þó að slíkt hafi verið í upphaf-legri fjöður ökutækisins.
Aksturshæð (St6.4.3.4)
Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:
Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.
Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.
Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæstu og lægstu stöðu.
Spindilkúlur
Þessi atriði eru til skoðunar:
Skoðun á ísetningu: Ef um nýjar spindilkúlur er að ræða eða líkur eru á rangt ísettri kúlu er athugað hvort merki passi saman, ef þau eru fyrir hendi.
Skoðun á splittun: Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.
Skoðun á festingum og sliti: Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Stundum fyllist liðskál slitinnar spindilkúlu af óhreinindum þannig að ekkert hlaup kemur fram. Yfirleitt gerist þetta vegna ónýts hlífðargúmmís. Í slíkum tilfellum skal gæta sérstaklega að legu kúlunnar í liðnum og hvort lega kúlunnar bendi til þess að hún sé að fara úr kúluhúsinu. Þetta skal athuga sérstaklega ef hlífðargúmmí er skemmt eða vantar. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.
Aðferðir við aflestun og skoðun spindilkúla (fergð og ófergð)
Slit fer eftir því álagi sem spindilkúla verður fyrir. Fergð spindilkúla slitnar oftast í lengdarstefnu en slit í þverstefnu verður yfirleitt mun minna. Ófergð spindilkúla slitnar oftast svipað í lengdar og þverstefnu.
Fergð spindilkúla: Ef spindilkúla er höfð milli fjaðrar og hjóls ber hún þunga ökutækisins sem kemur á hjólið. Nefnist hún þá fergð spindilkúla. Fergð spindilkúla yfirfærir því þyngdarkraftinn frá fjöðrum út í spindilkúlu og niður í gegnum hjólið.
Ófergð spindilkúla: Hún ber ekki þunga og hefur fyrst og fremst það hlutverk að halda hjólinu í réttri stöðu.
Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.
Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í þremur algengustu útfærslum í stýrisbúnaði fólksbifreiða.
TVÆR SPYRNUR, EFRI SPINDILKÚLA FERGÐ
Mynd 1. Tvær spyrnur, efri spindilkúla fergð.
Lýsing: Þyngd ökutækis flyst um fjöður, efri spyrnu, efri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að þrýsta saman spindilkúlunni sem ber þyngdina. Sjá mynd 1.
Ökutækinu lyft: Bifreiðinni er lyft með átaki utan fjaðrabúnaðar þ.e. lyft undir burðarvirki. Á flestum ökutækjum er höggpúði sem heldur við efri spyrnu. Þá hvílir fjaðrarátakið á púðanum þegar framvagn er á lofti svo að ekkert verulegt átak er á spindilkúlunni. Við sum ökutæki, t.d. Saab, þarf að nota sérjárn á milli spyrna til að koma í veg fyrir sundurfjöðrun sem veldur því að spindilkúlur spennast fastar og slag finnst ekki.
Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Hjólinu er lyft upp með því að setja spennijárn undir það. Lega kúlunnar í spindlinum er metin með sjónskoðun. Þegar ætla má að þyngd hjólsins hafi ekki náð að draga völinn niður í neðstu stöðu er notað spennijárn til þess að ná honum niður.
Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Bæði er athugað lengdar og þverhlaup. Lengdarhlaup er athugað með því að taka á neðri spyrnu upp og niður. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólið utan frá. Heppilegasta tak á hjóli fer eftir afstöðu spindilkúlu og stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að taka á hjólinu út frá línu um hjólmiðju sem liggur þvert á línu um þá liði sem ekki er verið að athuga. Þverhlaupið finnst því betur sem styttra bil er milli spindilsins sem athugaður er og snúningsáss um hjólið við átakið. Sjá mynd 2.
Mynd 2. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.
TVÆR SPYRNUR, NEÐRI SPINDILKÚLA FERGÐ
Mynd 3. Tvær spyrnur og neðri spindilkúla fergð.
Lýsing: Þyngdin flyst af framásbita um fjöður, neðri spyrnu, neðri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að toga sundur spindilkúluna sem ber þyngdina. Sjá mynd 3.
Ökutækinu lyft: Við skoðun er framvagni lyft á neðri spyrnum eins nærri spindilkúlu og kostur er. Þyngdin fer þá um fjöður og neðri spyrnu á tjakkinn. Neðri spindilkúla tekur þá aðeins við þyngd hjólsins.
Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Spindilkúlunni er þrýst upp og niður með spennijárni. Óhreinindi eða frosið vatn í liðnum getur orðið til þess að hlaup komi ekki fram í skemmdri kúlu. Þess vegna þarf einnig að meta með sjónskoðun legu kúlunnar í skálinni.
Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Athugun á þverhlaupi og e.t.v. einnig lengdarhlaupi er hliðstæð þeim reglum sem lýst var um neðri ófergða spindilkúlu. Þar sem oftast er einfaldara að athuga þverhlaupið beinist athugun fyrst að því. Ef fram kemur þverhlaup skal einnig athuga lengdarhlaup og dæma síðan út frá því.
McPHERSON
Mynd 4. Fjöðrun af gerðinni McPherson með ófergða spindilkúlu.
Lýsing: Yfirleitt er sú þyngd ökutækisins sem kemur á hjólið borin beint uppi af hjólvalarstykkinu. Spindilkúlan er ófergð. Þrátt fyrir það kemur oft fram meira lengdarhlaup en þverhlaup í slitnum spindilkúlum í McPherson stýrisbúnaði. Sjá mynd 4.
Ökutækinu lyft: Lyft er undir burðarvirki. Þess verður að gæta við sundurfjöðrunina að spindilkúlur geta skorðast fastar þannig að hlaup finnst ekki. Öflugar spyrnustífur eða jafnvægisstöng geta einnig torveldað athugun á þverhlaupi. Því er best að athuga þverhlaup í spindilkúlu með skakaranum áður en ökutækinu er lyft.
Athugun á gormlegg: Gormleggir er metnir út frá hlaupi í legu og festingu og stirðleika við snúningshreyfingu. Þegar framvagn er á lofti má finna hlaup í legu með því að toga í og ýta utan á hjólið til skiptis eins og lýst var áður. Ef stýrisendar eru staðsettir lágt má taka á efri brún hjólsins. Sumar leggfestingar eru þannig að hlaup getur komið fram þegar framvagni er lyft undir burðarvirki án þess að slíkt hlaup stafi af bilun, t.d. í VW og Audi. Þegar hlaup finnst skal því einnig athuga búnaðinn í aksturslegu.
Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Lengdarhlaup er athugað annað hvort með framvagn á lofti eða áður en honum er lyft. Liðnum er þrýst saman og hann togaður sundur með átaki spennijárns á hjólspyrnuna. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólin utan frá. Heppilegasta tak á hjólunum fer eftir afstöðu stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að grípa á hjólinu eftir því sem fyrr var sagt eða samkvæmt því sem myndirnar hér á eftir sýna. Sjá mynd 5.
Mynd 5. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.
Leyfilegt slag í spindilkúlum
Leyfilegt slag er 1 mm nema annað sé tiltekið af framleiðanda (getur bæði heimilað aðeins meira slag en líka tekið alveg fyrir það að nokkurt slag sé sýnilegt).
Spindilboltar
Atriði til skoðunar
Skoðun á splittun: Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.
Skoðun á festingum og sliti: Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.
Aðferðir við aflestun og skoðun spindilbolta
Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.
Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í algengustu útfærslu spindilbolta í þyngri bifreiðum.
Mynd 6. Algeng útfærsla spindilbolta í stærri ökutækjum.
Lýsing: Á þungum ökutækjum er spindilbolti algengasta gerð spindla. Þunginn flyst frá framás um legu til hjólvalarstykkis, hjólvalar og hjóls. Sjá mynd 6.
Athugun á lengdarhlaupi: Lengdarhlaup er athugað annað hvort þegar ökutækinu er lyft eða með því að setja spennijárn undir hjólið þegar það er á lofti.
Athugun á þverhlaupi: Þverhlaup er athugað með því að stinga spennijárni í neðri eða efri hluta felgunnar sbr. mynd 7. Stigið er á fóthemil til þess að hugsanlegt hlaup í hjóllegu valdi ekki röngu mati.
Mynd 7. Skoðun á þverhlaupi spindilbolta með spennijárni.
Leyfilegt slag í spindilboltum
Leyfilegt slag í spindilboltum: (St4.1.5.3)
Bifreiðir undir 3.500 kg heildarþyngd: Lengdarslag (endaslag) má mest vera 1 mm og þverslag mest vera 1 mm.
Bifreiðir yfir 3.500 kg heildarþyngd: Mest 2 mm (bæði lengdarslag og þverslag).
Mynd 8. Línuritið sýnir færslu hjólbarða miðað við 2 mm þverslag í spindilboltum. 1 mm slag fæst með því að deila með 2 í þá tölu sem sýnir leyft þverslag á lárétta ásnum.
Hjólbarðar
Merkingar á hjólbörðum (DOT-, e-, E- eða JIS) (St6.1.2.1)
Frá og með 1. júlí 1990 er krafist e-,E- eða DOT- merkinga á hjólbarða. JIS-merktir hjólbarðar voru viðurkenndir tímabundið eða til 1. janúar 1993. Frá 1. janúar 1993 eru því eingöngu viðurkenndir e-, E- eða DOT-merktir hjólbarðar auk sólaðra.
Kröfur til hjólbarða og merkinga þeirra eru afturvirkar en þó er heimilt að nota áfram hjólbarða sem voru í notkun við gildistöku reglugerðarinnar.
Áletrun á hjólbörðum (St6.1.2.2)
Á hjólbörðum er áletrun sem segir til um stærð þess, framleiðsludag, innri gerð, þvermál felgu, hámarksburð og hámarkshraða. Þessu er lýst í töflum 2 og 3. Á mynd 1 má einnig sjá dæmi um uppbyggingu áletrana.
Mynd 1. Sýnishorn af merkingum hjólbarða.
Dæmi um EU merkingu hjólbarða: 185/70 R14 89T 253:
185: Breidd barða í cm.
70: Hlutfall hæðar og breiddar barða (70%). Í þessu tilviki er hæð barðans 70% af 185 = 130 cm.
R: Útfærsla banda þar sem R = Radial (þverbanda) og D = Diagonal (skábanda).
14: Þvermál felgu í tommum.
89: Burðarkóti fyrir leyfilegan hámarksburð dekksins (sjá töflu 2). Í þessu tilviki er 89 u.þ.b. 600 kg.
T: Hraðakóti fyrir leyfilegan hámarkshraða dekksins (sjá töflu 3). Í þessu tilviki er T = 190 km/klst hámark.
253: Framleiðsludagur gefinn upp sem vika og ár. Í þessu tilviki er vikan 25 og árið 3 táknar 1993.
Tafla 2. Burðarkótar fyrir leyfilegan hámarksburð hjólbarða. Burðarkótar eru tilgreindir með hækkandi tölu frá 0–279 og eru nokkur gildi sýnd hér til viðmiðunar.
Kóti | Hám.burður | Kóti | Hám.burður | Kóti | Hám.burður |
---|---|---|---|---|---|
20 | 81 kg | 90 | 600 kg | 160 | 4.500 kg |
30 | 106 kg | 100 | 800 kg | 170 | 6.000 kg |
40 | 140 kg | 110 | 1.060 kg | 180 | 8.000 kg |
50 | 190 kg | 120 | 1.400 kg | 190 | 10.600 kg |
60 | 250 kg | 130 | 1.900 kg | 200 | 14.000 kg |
70 | 335 kg | 140 | 2.500 kg | ||
80 | 450 kg | 150 | 3.350 kg |
Tafla 3. Hraðakótar fyrir leyfilegan hámarkshraða hjólbarða (all flestir sem til eru). Hraðakóti gefur til kynna þann hámarkshraða sem hjólbarðinn getur borið uppgefið álag við skv. burðarkóta.
Kóti | Hám.hraði | Kóti | Hám.hraði | Kóti | Hám.hraði | Kóti | Hám.hraði |
---|---|---|---|---|---|---|---|
A2 | 10 km/klst | B | 50 km/klst | K | 110 km/klst | S | 180 km/klst |
A3 | 15 km/klst | C | 60 km/klst | L | 120 km/klst | T | 190 km/klst |
A4 | 20 km/klst | D | 65 km/klst | M | 130 km/klst | U | 200 km/klst |
A5 | 25 km/klst | E | 70 km/klst | N | 140 km/klst | H | 210 km/klst |
A6 | 30 km/klst | F | 80 km/klst | P | 150 km/klst | V | 240 km/klst |
A7 | 35 km/klst | G | 90 km/klst | Q | 160 km/klst | Z | 240 km/klst |
A8 | 40 km/klst | J | 100 km/klst | R | 170 km/klst | W | 270 km/klst |
Naglar (St6.1.3.2)
Stærð eða gerð nagla er metin út frá þeim hluta naglans sem stendur út úr hjólbarðanum og hann borinn saman við “naglasýnishorn” ef vafi leikur á að um nagla skv. reglugerð sé að ræða. Fjöldi nagla er metinn. Ef vafi leikur á að fjöldinn sé yfir mörkum reglugerðar skal telja nagla í einum hjólbarða á 1/4 úr hring hans og margfalda þann naglafjölda með 4 til fá naglafjöldann í hjólbarðanum.
Mynsturdýpt (St6.1.3.3)
Hjólum ökutækis er lyft með tjakki og snúið til að finna þann stað á hjólbarðanum þar sem mynsturdýptin er minnst. Mynstrið er skoðað þvert á slitflötinn. Leiki vafi á að mynstur uppfylli kröfur, er það mælt með mynsturmæli eða skífumáli.
Skemmdir á hjólbarða (St6.1.3.4)
Hjólum ökutækis er lyft með tjakki og því snúið til að leita skemmda. Þreifað eftir lausum flipum. Athugað er hvort sést í bönd og/eða hvort bönd eru farin að skemmast.
Mynd 2. Viðgerðar- og óviðgerðarhæf svæði hjólbarða.
Felgur
Engar viðbótarleiðbeiningar hér.
Breytt stærð hjólbarða
Breytt stærð hjólbarða (St6.1.4)
Ef stærð hjólbarða breytist um meira en 10% af upprunalegri stærð sem framleiðandi gefur skal ökutækið fara í breytingarskoðun.
Framkvæmd mælingar á þvermáli hjólbarða (St6.1.5.2 St6.1.5.3)
Stærð hjólbarða er þvermál hans og skal það mælt lárétt yfir miðju hjólbarðans, á ystu brúnir hans (þ.e. á slitflöt) við eðlilegan loftþrýsting, sjá mynd 3.
Mynd 3. Mæling á þvermáli hjólbarða - skal mælt lárétt yfir miðju.
Í töflu 4 er útreikningur á þvermáli hjólbarða miðað við áletrun sem hægt er að nota við mat á því hvort hjólbarðastærð er innan marka. Í töfluna vantar þó hjólbarða merkta „LT“ og verður að reikna út stærð þeirra og annarra sem ekki finnast í töflunni og bera saman við mælt þvemál.
Formúla til að reikna þvermál hjólbarða er þessi (sjá líka um áletrun á hjólbarða í kaflanum um hjólbarða hér að ofan):Þh = B x H x 2 x 0,01 + Þf x 25,4 þar sem
Þh = þvermál hjólbarða í mm
B = breidd hjólbarða í mm (áletrun á hjólbarða)
H = hlutfall hæðar og breiddar hjólbarða (áletrun á hjólbarða)
Þf = þvermál felgu í mm (áletrun á hjólbarða)
Dæmi: Hjólbarði með áletrun 175/70R13 reiknast þannig: (175 x 70 x 2 x 0,01) + (13 x 25,4) = 575 mm.
Tafla 4. Þvermál hjólbarða, upprunaleg stærð ásamt 10% þvermálsbreytingu.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
Mynstursdýptarmælir: Vegna mynstursdýptar hjólbarða.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Efni kaflans
Mæling á lengd, breidd og hæð ökutækja
Mæling lengdar
Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur.
Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins.
Mæling breiddar
Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra. Belgur neðst á dekkjum dráttarvéla er ekki talin til breiddar hennar.
Mæling hæðar
Hæð skal mæld hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta ökutækisins sem hæst stendur.
Leyfileg lengd ökutækja
Mesta lengd einstakra ökutækja er mismunandi eftir ökutækisflokkum og svo eru ákvæði um hámarkslengd vagnlesta:
Hópbifreið með fleiri en tvo ása: Mest 15,00 m.
Hópbifreið með tvo ása: Mest 13,50 m.
Hópbifreið sem er liðvagn: Mest 18,75 m.
Bifreið, önnur en hópbifreið: Mest 12,00 m.
Festivagn: Mest 12,00 m. Að auki gildir að lárétt fjarlægð frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að hvaða hluta sem er fremst á festivagninum má mest vera 2,04 m.
Vagnlest, hópbifreið með eftirvagn eða tengitæki: Mest 18,75 m.
Vagnlest, bifreið, önnur en hópbifreið, með festi- eða hengivagni eða samsvarandi tengitæki: Mest 18,75 m.
Vagnlest, bifreið önnur en hópbifreið, með tengivagni eða samsvarandi tengitæki: Mest 22,00 m.
Að auki gildir að bifreið, svo og vagnlest, skal vera hægt að aka innan snúningsboga með 12,50 m radíus í ytri hring og 5,30 m radíus í innri hring. Ákvæði þetta telst vera uppfyllt fyrir vagnlest með festivagni ef fjarlægð frá tengipinna vagnsins til miðju fræðilegs afturáss er ekki meiri en 9,20 m.
Vagnlest bifreiðar og tengivagns (til fróðleiks):
Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar sem er bifreið með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda vagnsins, má mest vera 18,90 m.
Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, má mest vera 19,65 m.
Fjarlægð milli aftasta áss bifreiðar og fremsta áss tengivagns má ekki vera minni en 3,00 m.
Þrátt fyrir ofangriend ákvæði er heimilt að hafa vagnlest bifreiðar með tengivagni þannig að lengdin megi vera allt að 25,25 m þegar (a) lengd farmrýmis tengivagns fer ekki yfir 13,60 m og (b) bifreið og tengivagn eru búin hemlum með læsivörn. Heimild þessi er þó bundin nánari skilyrðum um vegi og tíma, sjá reglugerð um stærð og þyngd.
Leyfileg breidd ökutækja
Leyfileg breidd bifreiðar og eftirvagns er 2,55 m með þeirri undantekningu að yfirbygging jafnhitavagns má vera 2,60 m.
Leyfileg breidd vinnuvélar, eftirvagns hennar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m. Lögreglan getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.
Breidd eftirvagns eða tengitækis, sem bifreið dregur, má ekki vera meiri en sem nemur 30 cm út fyrir hvora hlið bifreiðar.
Leyfileg hæð ökutækja
Leyfileg hæð ökutækis er 4,20 m.
Mæling á hjólhafi, ásabili og sporvídd ökutækja
Hjólhaf (e. wheelbase)
Hjólhaf er bilið frá hjólmiðju fremsta áss að hjólmiðju aftasta áss ökutækis, sjá mynd 1.
Mynd 1. Mæling á hjólhafi.
Ásabil
Ásabil er bilið á milli hjólmiðju tveggja ása, sjá mynd 2.
Mynd 2. Ásabilið milli fram- og afturáss er 2,48 m og ásabilið á milli afturása er 1,32 m.
Sporvídd (e. track width)
Sporvídd er bilið milli miðju hjóla á sama ási (eða milli miðju tvöfaldra hjóla).Bæði er hægt að mæla frá miðjum sóla eða að utanverðu öðru megin að innanverðum sóla hinum megin, sbr. mynd 3.
Mynd 3. Sporvídd.
Eigin þyngd ökutækja
Skoðunarstofur taka á móti vigtarseðli vegna vigtunar á eigin þyngd. Upplýsingar um þau tilvik sem krefjast vigtarseðils, um móttöku hans og skil til Samgöngustofu er lýst í kaflanum um skráningu tækniupplýsinga (talnareita) í skráningareglum ökutækja
Að auki gildir, að ef tilefni er til að ætla að vigtarseðillinn sýni ekki raunverulega eiginþyngd ökutækisins, er hann ógildur. Þetta á t.d. við ef hemlaprófari sýnir 20% frávik frá vigtarseðli, þyngd ökutækisins er frábrugðin skráðri þyngd annarra sambærilegra ökutækja, eða magni í eldsneytistanki ber ekki saman við dagsetningu vigtarseðils og akstursmæli bifreiðar (ný bifreið).
Farmskilrúm
Krafa um farmskilrúm
Frá 1. október 1990 er gerð krafa um milliþil á milli farmrýmis og fólksrýmis, svokallað farmskilrúm, í bifreið sem er með sérstöku farmrými til vöruflutninga. Farmskilrúm er veggur eða skilrúm úr traustu efni sem komið er fyrir aftan við sæti og á að verja ökumann og farþega bifreiðar gegn framskriði farms.
Stærð farmskilrúms
Hæð farmskilrúmsÍ lokuðu farmrými bifreiðar skal farmskilrúm ná frá gólfi til lofts en í opnu farmrými skal það ná frá gólfi farmrýmis og í a.m.k. 100 cm hæð fyrir ofan setu þess sætis sem hæst stendur í fólksrými.
Breidd farmskilrúms
Um breidd farmskilrúms gildir:
Sendibifreið: Skal búin farmskilrúmi sem þekur a.m.k. rými ökumanns. Ef farþegasæti eru fyrir aftan sæti ökumanns skal farmskilrúmið ávallt ná a.m.k. frá vinstri hlið bifreiðar að hægri brún þess aftursætis sem er lengst til hægri í bifreiðinni.
Vörubifreið: Skal búin farmskilrúmi sem er í fullri breidd farmrýmis.
Hópbifreið: Milli farmrýmis og fólksrýmis hópbifreiðar sem einnig er gerð til vöruflutninga skal vera farmskilrúm sem þekur alla breidd fólksrýmisins.
Nánari útfærsla
Bil milli farmskilrúms og bifreiðar má mest vera 70 mm allan hringinn. Leyfilegt er að hafa opnanlega glugga eða lúgur á veggnum.
Styrkur farmskilrúms
Farmskilrúm á að þola framskrið farms sem svarar til 10 m/s2 hraðaminnkunar bifeiðar. Þetta samsvarar því að þilið þoli að á því liggi þyngd mesta leyfilega farms bifreiðarinnar. Mesta þyngd farms fæst með því að draga 75 kg (vegna ökumanns bifreiðarinnar) frá hlassþyngd bifreiðarinnar. Veggurinn má samanstanda af (a) fínriðnu vírneti í málmramma, (b) málm- eða tréplötu, eða (c) plasti eða öryggisgleri í málmramma.
Farmskilrúm gert úr fínriðnu vírneti í málmramma: Mesta leyfileg möskvastærð er 70x70 mm. Netið þarf að vera heilt, þ.e. ekki samofið (vírnet, hænsnanet, net sem notuð eru í grjótgrindur og önnur álíka net eru ekki samþykkt). Netið þarf að vera tryggilega fest við málmramma og hann þarf að vera það stöðugur að netið svigni ekki verulega við álag.
Farmskilrúm gert úr málm- eða tréplötu: Í minni bílum þurfa þessar málmplötur ekki að vera þykkari en 1-1,5mm ef þær eru stansaðar að einhverju leyti út og beygðar á köntum. Slíkar plötur þola mun meira álag en beinar plötur. Tréplöturnar þurfa að hafa töluvert meiri efnisþykkt.
Farmskilrúm gert úr plasti eða öryggisgleri í málmramma: Til eru mismunandi gerðir af t.d. plexigleri. Fyrir venjulegt plexigler er krafist a.m.k. 8 mm efnisþykktar en fyrir óbrjótanlegt plexigler þá er 4 mm þykkt nægjanleg. Ef einhver lítill hluti þilsins er úr gleri er þess krafist að það sé úr öryggisgleri. Málmrammi þarf að vera utan um plastið eða glerið sem gerir það að verkum að það svigni ekki mikið undir álagi.
Festingar farmskilrúms við bifreiðina
Farmskilrúm þarf að vera tryggilega fest við bifreiðina hvort heldur það er málmramminn eða plöturnar sjálfar. Blanda má saman mismunandi útgáfum t.d. plötu neðantil en plexigleri ofantil. Ef veggurinn er ekki festur í hliðar bifreiðarinnar þá þarf hann að vera festur í traustar stoðir.
Farþegafjöldi og sæti
Sæti og sætafjöldi - hópbifreið
Krafa um gögn
Eftirfarandi breytingar á eða yfir í hópbifreið valda því að framvísa þarf teikningum um skipan fólks- og farmrýmis og mögulega upplýsingum um styrk yfirbyggingar til samþykktar hjá Samgöngustofu fyrirfram. Upplýsingar um áskiln gögn er að finna í handbók um skráningareglur ökutækja.
Ökutækjaflokksbreyting yfir í hópbifreið.
Breytingar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett).
Farþegafjöldabreytingar í hópbifreið.
Mæling bils á milli sæta (St3.7.2.5)
Til að mæla bil á milli sæta í hópbifreið skal lárétta fjarlægðin frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan, frá hæsta punkti setu upp í 620 mm yfir gólfi ekki vera minni en 650 mm í hópbifreið I og IIA en 680 í hópbifreið IIB. Þetta á eingöngu við um hópbifreiðir sem skráðar eru 01.03.1993 og síðar. Á hópbifreiðum sem skráðar eru fyrir 01.03.1993 má breidd milli sætaraða ekki vera minni en 750 mm mælt frá sama punkti í hverri sætaröð, þ.e. bak í bak eða setu í setu.
Sérsmíði sæta
Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.
Sæti og sætafjöldi - fólks-, sendi- og vörubifreið
Fjöldi sæta (St3.7.2.6)
Fjöldi sæta fer eftir burðargetu bifreiðarinnar (miðað við 75 kg á ökumann, 68 kg á farþega og 160 kg á sérhvert hjólastólapláss).
Ekki er leyfilegt að skrá farþega nema fullur burður sé fyrir hann. Fram til 31.12.2023 var heimilt að skrá farþega náði bifreið 40 kg burði upp í næsta farþega og standa þær skráningar óbreyttar svo fremi sé bifreið verði ekki breytt. Verði henn hinsvegar breytt á einhvern hátt svo vigta þurfi hana upp á nýtt þá þarf hún að uppfylla núgildandi kröfur.
Þegar bifreið er færð til breytingaskoðunar vegna breytinga eða fjölgunar á sætum þarf hún að uppfylla öll ákvæði um viðkomandi sæti sem þá eru í gildi í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
Sérsmíði sæta
Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.
Dyrabúnaður
Hurðaropnun (St3.1.2.1)
Á fólksbifreið skal vera hægt að opna a.m.k. tvennar dyr að utanverðu, séu þær ekki læstar að innanverðu, án sérstaks utan að komandi búnaðar, t.d. fjarstýringu eða lausum hurðarhúnum.
Dyrabúnaður fólksbifreiðar sendibifreiðar, vörubifreiðar og eftirvagns telst vera fullnægjandi ef hann uppfyllir ákvæði EB-reglugerðar nr. 661/2009 og ESB-reglugerðar nr. 130/2012, með síðari breytingum. Dyrabúnaður dráttarvélar telst vera fullnægjandi ef ákvæði ESB-tilskipunar nr. 80/720 með síðari breytingum eru uppfyllt.
Skermun hjóla
Samfella hjólhlífar (St3.2.2.1)
Heimilt er að hjólhlíf sé rofin (samsett úr fleiri en einum hlut), þannig að þegar dregin er lína frá hjólmiðju hjóli sé hvergi opið á ferli hjólhlífar.
Skermun hjólhlífar (St3.2.3.1)
Í vafatilvikum er notuð réttskeið, gráðubogi II og málband til að meta hvort skermun hjóla sé fullnægjandi. Sjá einnig sérstök skjöl fyrir bifhjól og fyrir dráttarvélar og eftirvagna þeirra.
Til að meta hvort hjólhlíf skermi sóla hjólbarða er réttskeið sett meðfram hjólbarða og að hjólhlíf.
Til að meta hvort hjólhlíf nái tilskildum gráðum fram og aftur fyrir hjólmiðju er notaður gráðubogi I með viðmiðunarpunkt í hjólmiðju.
Til að kanna hvort hjólhlíf sé nægilega sveigð niður á við að hjólmiðju er notað málband.
Við athugun á því hvort tilskilinni hæð sé náð fyrir ofan hjólmiðju skal setja réttskeið meðfram hjólbarða frá hjólmiðju, mæla hæðina með málbandi í þeirri fjarlægð frá hjólbarða sem nemur þvermáli hjólbarða.
Til að meta hvort framlengja þurfi með aurhlíf vegna ófullnægjandi kasthorns skal nota gráðuboga II. Gráðuboginn skal nema við jörð með enda hans við hjólmiðju. Öðrum armi gráðuboga er lyft þar til hann nemur við enda hjólhlífar eða aurhlífar. Kasthorn er lesið af gráðuboga.
Breidd sóla hjólbarða er mæld yfir þann hluta sólans sem nemur við jörðu þegar eðlilegt loftmagn er í hjólbarðanum. Oft er ytri brún mynstursins ójöfn og skal þá mælt frá ystu brún að utanverðu yfir í ystu brún að innanverðu. Athugið að mæla einungis yfir þann hluta sólans sem getur snert jörðu.
Sídd aurhlífar (St3.2.3.2)
Mæling kasthorns með gráðuboga.
Mynd 1. Helstu stærðir hjólhlífa og aurhlífa.
Yfirbyggingar vörubifreiða og áfestur búnaður
Yfirbyggingar og áfestur búnaður vörubifreiða (St3.7.2.7)
Grind vörubifreiða er almennt samsett úr skúffubitum. Annars vegar eru það tveir langbitar (á hlið og snúa inn sitt hvoru megin), hins vegar nokkrir þverbitar (einnig á hlið). Algengt er að langbitarnir séu gataðir frá verksmiðju, hópur gata með reglulegu millibili, annars þarf að búa til ný göt skv. fyrirmælum framleiðanda. Í þau er ætlast til að yfirbygging sé boltuð eða hnoðuð.
Óheimilt er að eiga við efra og neðra flau skúffubitans, einnig er bannað að sjóða í eða á grindina nokkurn hlut.
Það sem tengir saman yfirbyggingu og bílgrind er oftast s.k. yfirgrind. Það er grind sem kemur ofan á bílgrindina og dreifir álagi yfirbyggingarinnar á hana. Þrenns konar álag á bílgrindur er aðallega um að ræða af völdum yfirbygginga; jafndreift álag (t.d. opinn pallur), dreifing á marga festipunkta (t.d. tankur), eða punktálag (t.d. krani).
Auðveldast er fyrir bílgrindina að bera jafndreifða álagið. Yfirgrind getur verið hluti sturtupalls, plata undir stól, rammi undir tank eða álagsdreifigrind undir krana. Hún er byggð með svipuðum hætti og bílgrindin, en er yfirleitt úr talsvert veigaminna efni. Á hana má sjóða festingar og sjálfa yfirbygginguna. Fremri endar langbitanna skulu vera fleyglaga til að minnka spennuhækkun í bílgrindinni við endann.
Festingar milli bílgrindarinnar og yfirgrindarinnar eru af fjórum megin gerðum:
Festiplata: Hún er annað hvort soðin eða boltuð í yfirgrindina og boltuð í bílgrindina. Þessi festing myndar færslulausa festingu milli grindanna.
Punktfesting, en hún leyfir snúning og ofurlitla færslu í láréttu plani.
Einása færslufesting sem leyfir færslu upp og niður, þ.e. yfirgrind og bílgrind geta færst hvor frá annarri í lóðréttu plani. Þessi festing vinnur gegn færslunni með gormi eða gúmmípúðum.
Tvíása færslufesting: Hún vinnur eins og einása, en leyfir að auki færslur fram og aftur.
Ljóst er að yfirbyggingin má ekki hindra eðlilegar hreyfingar bílgrindarinnar og því verður að velja réttar festingar m.v. sveigjanleika yfirbyggingarinnar. Því eru yfirleitt notaðar fleiri en ein tegund festingar fyrir sérhverja yfirbyggingu. Almennt má segja að notaðar séu festiplötur fyrir öftustu festingar yfirbyggingar. Mið- og fremstu festingar eru háðar því um hvers konar yfirbyggingu er að ræða:
Mjög sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru festiplötur eða punktfestingar.
Sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru einása færslufestingar.
Stífar: Tvíása færslufestingar eru bæði í miðjunni og fremst.
Þegar kranar, vörulyftur og svipuð tæki eru fest á bílgrindur verður í nær öllum tilfellum að styrkja þær. Það er gert annað hvort með vinkilbitum ofan á grindarbitana fyrir smærri tækin, eða með hjálpargrind fyrir stærri tækin. Hjálpargrind er eins og yfirgrind og gegnir sama hlutverki, en er alltaf fest með festiplötum.
Þegar yfirbygging vörubifreiðar er tekin út verða að fylgja gögn frá framleiðanda bifreiðarinnar um festur viðkomandi yfirbyggingar eða búnaðar við grind bifreiðarinnar. Gögnin skulu samþykkt af skoðunarstofu og gengið skal úr skugga um að festingar við grindina séu í samræmi við gögn viðkomandi yfirbyggingu. Þess þarf þó ekki þegar um eftirvagn eða aðra ökutækjaflokka er að ræða.
Yfirbygging sú sem skráð er á ökutæki er alltaf fest með varanlegum hætti á grind þess. Með varanlegum hætti er átt við að festingin sé boltuð með nokkrum boltum sem yfirleitt er búið að mála yfir. Skrá skal allar yfirbyggingar ökutækis eftir úttekt, að auki skal fyrir sérhverja yfirbyggingu skrá lengd, breidd og eiginþyngd ökutækisins með þeirri yfirbyggingu.
Varðandi lyftubúnað (vörulyftu) á ökutækjum (St3.7.2.2)
Lyftubúnað er að finna á mörgum ökutækjum og er til fjölbreytta nota. Lyftubúnaður er hluti af skoðun og þarf að sýna fram á að virkni hans sé eðlileg, ekki stafi hætta af honum við notkun eða í umferð og haldi stöðu sinni. Óheimilt er að nota nokkurskonar hjálparbúnað til að halda búnaðinum í réttri stöðu svo sem spennibönd til farmflutninga.
Gámafestingar (St3.6.2.1)
Gámur er festur með s.k. gámagrind sem ætluð er fyrir flutning sjálfberandi gáma af stöðluðum stærðum. Á hornum og jafnvel hliðum grindarinnar eru gámalásar sem læsast í stöðluð eyru gámanna. Staðsetning lásanna er samhverf um lengdarás bílsins. Lágmarksfjöldi þeirra er 4, einn fyrir hvert horn gámsins. Breiddarbil milli lása (miðja í miðju) er 2260 mm (±20 mm) og lengdarbil fyrir 20 feta gám er 5860 mm (±20 mm). Stundum bætast fjórir lásar við á mitt lengdarbilið til flutninga á tveimur eða fleiri gámum í einu.
Inn í mat á virkni gámalása skal koma mat á virkni gámalása út frá skemmdum á hleðslufleti gámagrindar eða palls. Ef hleðsluflötur er sveigður eða skemmdur þannig að ætla má að gámalás(ar) komi ekki að notum dæmist það í samræmi við Skoðunarhandbók.
Varðandi gámafestingar/lása fyrir krókheysis gáma. Það þarf að skoða virkni þeirra og stuðningsfleti.
Burðarvirki - grindarbreytingar og vottun
Lenging og stytting á grindum (St5.2.2.1)
Séu grindur á ökutækjum lengdar eða styttar skulu eftirfarandi starfsreglur viðhafðar:
Á bifreiðum yfir 3500 kg heildarþyngd frá öðrum markaðssvæðum en Ameríku og á bifreiðum yfir 5000 kg heildarþyngd frá Ameríku skulu samsetningar vera gerðar skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækjanna. Breytingaskoðunar er þörf vegna þessa og skulu gögn um samsetningar fylgja ökutækinu í breytingaskoðun.
Á öðrum ökutækjum er þessa ekki krafist en lengingar á grind skulu vera úr efni með svipaða eiginleika og mál og grind ökutækisins og allur frágangur á suðum og öðru góður. Ekki er krafist vottorða vegna suða.
Í einstaka tilfellum er hægt að meta hvort lenging sé samþykkt án þess að vera eftir fyrirmælum framleiðanda ef forsendur eru breyttar, t.d. vörubílagrind með yfirbyggingu sem er að miklu leyti sjálfberandi og álag á grind þar af leiðandi mun minna. Í slíkum tilfellum skal samráð haft við Samgöngustofu.
Vottorð um burðarvirkismælingu
Útgáfa vottorðs um burðarvirkismælingu er gefið út af viðurkenndum mælingamanni. Upplýsingar um móttöku vottorðsins, yfirferð og skil er að finna í skráningareglum ökutækja og á heimasíðu Samgöngustofu um útgáfu burðarvirkis- og hjólastöðuvottorða.
Undirvörn (fram-, hliðar-, aftur-, árekstravörn)
Undirvörn - skilgreining
Undirvörn flötur á ökutæki eða sérstakir bitar sem koma eiga í veg fyrir, eins og unnt er, að ekið verði inn undir ökutæki. Ekki er krafist sérstakra bita ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn og þeir. Sé ökutækið ekki að uppfylla kröfur til slíkra flata, eða hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu, þarf að koma fyrir samþykktum bitum til að uppfylla kröfuna. Orðið undirvörn er samheiti yfir fjórar mismunandi staðsetningar varna á ökutækjum:
Afturvörn: Þverbiti eða flötur aftan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði aftan frá inn undir ökutæki.
Árekstrarvörn: Þverbiti sem minnkar hættu á að ekið verði framan eða aftan frá inn undir breytta bifreið.
Hliðarvörn: Stangir eða flötur á hlið ökutækis sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að óvarðir vegfarendur lendi undir ökutæki framan við afturhjól þess.
Framvörn: Þverbiti eða flötur framan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði inn undir ökutæki að framan.
Eins og áður segir er í tilteknum ökutækjum krafist sérstakrar undirvarnar ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er EKKI þannig hannaður að hann nálgist að veita sömu vörn og krafist er. Skilyrði um staðsetningu undirvarna eru tiltekin í næstu köflum og séu þau ekki uppfyllt þurfa tiltekin ökutæki að vera búin viðeigandi undirvörn.
Undirvörn - mælingaraðferðir
Við mælingar á hæð undirvarna frá akbraut er gengið út frá því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
Mælt er frá akbraut að neðri brún undirvarnar.
Miðað er við að ökutækið sé óhlaðið.
Miðað er við að ökutæki með lyftiási sé með ásinn niðri.
Miðað er við að ökutæki með með stillanlega aksturshæð sé rétt stillt, sjá kafla um aksturshæð hér neðst.
Við mælingar á fjarlægð undirvarna innundir ökutæki eru eftirfarandi mæliaðferðir notaðar:
Mælt er frá fremstu/öftustu brún ökutækis inn að fremstu/öftustu brún framvarnar, afturvarnar eða árekstrarvarnar. Við mælingu frá öftustu brún er ekki talinn með varahjólbarði eða annar aukabúnaður sem nær aðeins yfir hluta af breidd ökutækis. Kant eða brún sem er í meiri hæð en 3 metrar skal heldur ekki telja með.
Mælt er frá ystu brún ökutækis og inn að ystu brún hliðarvarnar. Við mælingu frá ystu brún ökutækis eru ekki taldir með útstandandi hlutir eins og speglar eða ljós.
Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:
Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.
Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.
Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæðstu og lægstu stöðu.
Undirvörn af gerðinni afturvörn
Afturvörn þarf að uppfylla neðangreind skilyrði:
Hæð frá akbraut: Má hvergi vera meira en 550 mm.
Innundir: Má mest vera 400 mm (þó allt að 550 mm fyrir ökutæki skráð fyrir 01.07.90 en ekki meira en þörf krefur).
Breidd - ef afturás er breiðari en yfirbygging: Vörnin skal hvergi vera breiðari en afturás mælt á ystu brúnir hjólbarða í hjólmiðjuhæð og ekki meira en 100 mm styttri hvorum megin. Séu afturásar fleiri en
einn skal miða við þann breiðasta.Breidd - ef yfirbygging er breiðari en afturás: Endi varnarinnar skal vera 100 til 200 mm innan við ystu brún ökutækisins. Komi aðrir fastir hlutir á ökutækinu í stað varnarinnar að nokkru eða öllu leyti gilda áfram tilgreind mál um afturvörn.
Útfærsla:Hæð afturvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 100 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali). Athuga að gerð er krafa um undirvörn og árekstrarvörn á milli hjóla ökutækja þótt hjólin sjálf séu það aftarlega að þau uppfylli kröfur um staðsetningu undirvarnar (má ekki vera gat á milli hjólanna).
Afturvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:
Fólksbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búin afturvörn.
Hópbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búinafturvörn.
Vörubifreið skal búin afturvörn. Ef bifreiðin er búin lyftanlegum palli skal vörnin þannig gerð að sem minnst hætta sé á að laus efni sitji á henni.
Eftirvagn III og IV skal búinn afturvörn.
Undirvörn af gerðinni árekstrarvörn
Árekstrarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
Hæð frá akbraut: Má mest vera 800 mm.
Innundir: Má mest vera 400 mm.
Breidd: Breidd árekstrarvarnar skal vera a.m.k. jöfn breidd utanverðrar grindar eða sambærilegs burðarvirkis bifreiðar.
Útfærsla: Hæð árekstrarvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 80 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).
Árekstrarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:
Breytt torfærubifreið skal búin árekstrarvörn að framan- og aftanverðu. Ekki er þó krafist árekstrarvarnar að aftanverðu á breyttri bifreið sem skal búin afturvörn.
Undirvörn af gerðinni hliðarvörn
Hliðarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
Hæð frá akbraut: Má mest vera 550 mm.
Innundir: Hún má ekki auka breidd ökutækis. Má ekki vera innar en 120 mm frá ystu brún ökutækis. Öftustu 250 mm varnarinnar mega ekki vera meira en 30 mm innan við ystu brún afturhjóla.
Breidd (fram/aftur): Ef frambrún hliðarvarnar er ekki beint aftan við aðra fasta hluti ökutækis skal hún gerð úr samfelldum lóðréttum hluta sem er jafn langur hæð varnarinnar. Þessi hluti skal sveigja 100 mm inn á við a.m.k. 50 mm frá frambrún varnarinnar. Á vörubifreið II og eftirvagni II sem er meira en 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd skal hlutinn þó sveigja inn á við a.m.k 100 mm frá frambrún varnarinnar. Afturbrún varnarinnar má ekki vera framar en 300 mm framan við afturhjól.
Útfærsla: Hæð hliðarvarnar (stanga/bita/flatar) að lágmarki 100 mm (þó að lágmarki 50 mm háar á vörubifreið I og eftirvagni II sem er 10.000 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd). Bil milli efri brúnar hliðarvarnar og yfirbyggingar þar fyrir ofan má mest vera 350 mm og ef engin yfirbygging er ofan við vörnina skal efri brún vera a.m.k. 950 mm yfir akbraut (raða má saman stöngum með 300 mm lóðréttu hámarks millibili til að uppfylla þetta skilyrði). Efri brún varnarinnar þarf ekki að vera hærri en pallgólf. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).
Hliðarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:
Vörubifreið skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna skal frambrún varnarinnar vera að hámarki 300 mm aftan við framhjólið eða sveigja að ökumannshúsi undir horni sem má mest vera 45°.
Eftirvagn III og IV skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna má frambrún hennar ekki vera aftar en sem nemur:
250 mm aftar en framhlið yfirbyggingar á hengivagni.
500 mm aftan við framhjól á tengivagni.
2.700 mm aftan við tengipinna festivagns, en þó ekki lengra en 250 mm aftan við þverplan miðra stoðfóta (ath. ef slíkur vagn er lengjanlegur skulu ákvæði um staðsetningu fram- eða afturbrúnar vera uppfyllt í fullri lengd vagnsins).
Undirvörn af gerðinni framvörn
Framvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
Hæð frá akbraut: Mest 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.
Innundir: Ekki tilgreint.
Breidd: Má ekki vera breiðari en hjólhlífar framhjóla og ekki mjórri en 100 mm hvorum megin en gangbretti við ökumannshús eða 100 mm mjórri hvorum megin en ytri brún hjólbarða.
Útfærsla: Hæð framvarnar (bita/flatar) að lágmarki 100 mm fyrir vörubifreið I og 120 mm fyrir vörubifreið II. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).
Framvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:
Vörubifreið skal búin framvörn. Hæð framvarnar frá akbraut má ekki vera meiri en 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.
Undirvörn - undanþágur
Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um afturvörn:
Bifreið sem skráð er til neyðaraksturs.
Vörubifreið sem ætluð er til að draga festivagn.
Ökutæki sem verið er að flytja til umboðsaðila eða frá honum til yfirbyggingar.
Ökutæki þar sem grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn við árekstur aftan á og afturvörnin.
Ökutæki sem ætlað er til notkunar utan alfaraleiða
Ökutæki sem eru í þannig notkun að afturvörn verði ekki komið við meðan á þeirri notkun stendur
Hópbifreiðir skráðar fyrir 1. júlí 1990.
Ökutæki af framleiðsluári 1967 eða eldri.
Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um hliðarvörn:
Ákvæði um hliðarvörn gilda ekki um bifreið og eftirvagn sem skráð(ur) var fyrir 05.05.1989.
Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um framvörn:
Vörubifreið sem telst torfærubifreið er undanþegin framvörn.
Ákvæði um framvörn gilda ekki um vörubifreið sem skráð var til og með 31.12.2004.
Kröfur til festinga undirvarna
Viðmið um þol á festum
Festingar á bifreið skulu vera í samræmi við styrk bita og heildarþyngd bifreiðar. Hvor festa skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft þvert á bitann sem samsvarar hálfri heildarþyngd bifreiðarinnar. Ekki er þó gerð krafa um að hvor festing þoli meiri kraft en 100 kN (10 tonn).
Á eftirvagni skulu festingar afturvarnar þola a.m.k. 100 kN kraft (10 tonn) án tillits til heildarþyngdar eftirvagnsins.
Afturvörn og árekstrarvörn má útbúa þannig að hægt sé að lyfta henni eða láta hana síga, en hún verður samt sem áður að uppfylla kröfur um styrk í þeirri staðsetningu sem henni er ætlað.
Útfærsla festinga
Leyfilegt er að festa afturvörn við pallbita ökutækis ef nægilegur styrkur er fyrir hendi. Festur skulu koma í framanverðan bita afturvarnar. Eðlilegt er að styrkur festa aukist er nær dregur grind ökutækis eða sé a.m.k ekki minni þar en annarsstaðar. Séu notaðar plötur skal að jafnaði ekki nota þynnri plötur en 6 mm. Á þeim skulu einnig vera kantar, a.m.k. 2 cm, á hvorri brún.
Suður skulu vera góðar og í samræmi við efnisþykktir sem verið er að sjóða saman.
Boltar í festum eiga að vera vel dreifðir en þó ekki of nálægt brún festu, t.d. ekki nær en sem nemur hálfu þvermáli boltahauss. Þurfi bolti að ganga í gegnum t.d. prófíl skulu vera rör sem boltinn gengur í gegnum sem komi í veg fyrir að prófíllinn falli saman við herslu. Að jafnaði skal miða við að notaðir séu a.m.k. þrír boltar í hvorn grindarbita. Miða skal við lágmarksþvermál 10 mm og lágmarksstyrk efnis 8.8. Eftir því sem heildarþyngd bifreiðar eykst og á eftirvögnum er eðlilegt að boltar séu fleiri og/eða sterkari. Þar sem festur með boltum byggja að mestu leyti á þeim viðnámskröftum sem myndast á milli festunnar og grindar er mjög mikilvægt að boltar séu vel og rétt hertir.
Í töflu 1 er gefin til viðmiðunar hersla á 8.8 boltum miðað við breytileg þvermál. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.
Tafla 1. Hersla á 8.8 boltum eftir þvermáli þeirra. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.
Þvermál bolta | Hersla |
---|---|
10 mm | 48 Nm |
12 mm | 81 Nm |
14 mm | 129 Nm |
16 mm | 197 Nm |
18 mm | 276 Nm |
20 mm | 386 Nm |
Kröfur til bita í undirvörnum
Krafa til bita í undirvörn
Biti í afturvörn bifreiðar skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar sem nemur 1/8 af heildarþyngd bifreiðar án þess að bitinn bogni. Þannig skal beygjumótstaða bita (Wb), í einingunni cm3, vera a.m.k. jöfn leyfðri heildarþyngd bifreiðar í kg deilt með 370. Þessu sambandi er lýst með jöfnunni: Wb = heildarþyngd / 370 [cm3]
Biti í afturvörn eftirvagns skal þola 25 kN (2,5 tonn) láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar. Beygjumótstaða bita á eftirvagni skal því vera a.m.k. 54 cm3 óháð heildarþyngd eftirvagns. Bora skal 5 mm gat við enda bita til að hægt sé að mæla efnisþykkt hans.
Á ökutæki með lyftubúnaði þarf gjarnan að þrískipta bitanum eins og sést á mynd 1 og telst það samþykkt.
Mynd 1. Undirvörn á bifreið með lyftubúnaði (vörulyftu).
Biti í árekstrarvörn skal samsvara efnisstyrk holprófíls úr stáli (St 37) að stærð 80×40×3 mm. Beygjumótstaða slíks bita (Wb), í einingunni cm3, skal vera a.m.k. 9,2 cm3.
Í töflum 2-4 er að finna upplýsingar um samþykkta bita í undirvörn miðað við ýmsar forsendur.
Tafla 2. Samþykktir bitar í undirvörn fyrir bifreiðir og eftirvagna (takmörk eiga við leyfða heildarþyngd).
Lýsing bita | Bifreið | Eftirvagn |
---|---|---|
Sexstrendur biti á lyftum, 105×3 mm | Allar | Allir |
Álbiti með rifflum að ofan, 132×90 mm | Allar | Allir |
Álbiti með rifflum að ofan, 130×90 mm | Allar | Allir |
Álbiti, sléttur, 100×40×2,8 mm | Max 4.000 kg | Ekki leyft |
Beygð plata 190×85×2,6 mm | Max 10.000 kg | Ekki leyft |
Tafla 3. Dæmi um bita sem hafa nægjanlega beygjumótstöðu miðað við leyfðar heildarþyngdir ökutækja. Miðað er við að láréttur kantur a.m.k. 100 mm á hæð snúi aftur.
Heildarþyngd ca. | Lágmarks beygjumótstaða | Prófíll | Rör |
---|---|---|---|
3.500 kg | 9,5 cm3 | 100×40×2,5 | |
5.000 kg | 13,5 cm3 | 100×50×3,6 | |
10.000 kg | 27,0 cm3 | 120×60×5,0 | 114,3×3,6 |
15.000 kg | 40,5 cm3 | 140×80×4,0 | 114,7×4,5 |
17.000 kg | 40,5 cm3 | 100×60×8,0 | |
20.000 kg | 54,0 cm3 | 140×80×5,0 | 139,7×4,0 |
Eftirvagn | 54,0 cm3 | 140×80×5,0 | 139,7×4,0 |
Tafla 4. Ef biti snýr upp á kant þá eru þessir bitar samþykktir miðað við leyfðar heildarþyngdir.
Heildarþyngd ca. | Lágmarks beygjumótstaða | Prófíll |
---|---|---|
3.500 kg | 9,5 cm3 | prófílar upp á kant |
5.000 kg | 13,5 cm3 | 80×80×3,6 |
10.000 kg | 27,0 cm3 | 90×90×5,6 |
15.000 kg | 40,5 cm3 | 120×120×4,5 |
20.000 kg | 54,0 cm3 | 120×120×6,3 |
Eftirvagn | 54,0 cm3 | 120×120×6,3 |
Tengibúnaður bifreiða og eftirvagna þeirra
Skráning tengibúnaðar í ökutækjaskrá (St9.1.2.1)
Tengibúnaður vélknúins ökutækis skal skráður í ökutækjaskrá að undangenginni úttekt skoðunarstofu (skráð að tengibúnaður sé á ökutækinu).
Þyngdir hemlaðs- og óhemlaðs eftirvagns eða tengitækis sem heimilt er að tengja við ökutækið skulu jafnframt skráðar í ökutækjaskrá (ef þær vantar) skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækisins eða tengibúnaðarins. Á tengibúnaði bifreiða skal vera merking um framleiðanda og mestu leyfðu heildarþyngd sem tengja má við tengibúnaðinn. Ef fyrirmæli framleiðanda ökutækisins um þyngdir hemlaðs eftirvagns eru ekki þekkt, skal sú þyngd sem framleiðandi tengibúnaðarins gefur upp skráð í reitinn fyrir heimila þyngd hemlaðs eftirvagns.
Undanþága: Heimilt var að leyfa tengibúnað sem var án merkinga, sem festur hafði verið við bifreið fyrir 01.07.1991, en sá tengibúnaður skal samt sem áður að öðru leyti vera háður samþykki skoðunarstofu og skráður í ökutækjaskrá (ekki þarf að skrá heimila þyngd eftirvagns).
Merkingar um mestu leyfðu heildarþyngd (St9.1.2.1)
Á sumum gerðum tengibúnaðar eru ekki merkingar um mestu leyfða þyngd sem tengja má við tengibúnaðinn, heldur gefið upp D-gildi. D-gildi er reiknað út frá leyfðum heildarþyngdum bíls og eftirvagns. Til að finna leyfða þyngd eftirvagnsins út frá D-gildi þarf að reikna það út frá eftirfarandi formúlu.
V=(B*D)/(B-D)
þar sem
V = Leyfð þyngd eftirvagns (í kg).
B = Heildarþyngd bifreiðar (í kg).
D = D-gildi í DaN (sem er kNx100 eða N/10).
Útfærsla merkinga á tengibúnaði (St9.1.2.3)
Á tengibúnaði bifreiðar skal vera greinileg og varanleg merking um framleiðanda og mestu leyfða heildarþyngd eftirvagns sem tengja má við tengibúnaðinn.
Framleiðandi tengibúnaðar skal merkja framleiðslu sína í samræmi við þol búnaðarins og geta einstakir hlutar tengibúnaðar haft mismunandi álagsþol. Þegar um slíka samsetningu er að ræða skulu allar einingarnar merktar. Bolta- og stóltengi eru gjarnan skrúfuð eða boltuð saman og mynda þannig eina heild. Ef ein merking er á búnaðinum túlkast hún fyrir allt tengið.
Þær upplýsingar sem skulu koma fram á merkingu hlutar samanstanda af eftirfarandi þremur liðum:
Nafni framleiðanda (vörumerki, framleiðslumerki eða samsvarandi).
Gerð (og útfærslu ef við á).
Burðarþolstölum (a.m.k. mesta leyfða heildarþyngd eftirvagns).
Merkinguna má útfæra á tvennan hátt:
Með notkun spjalds og stansaðra stafa á hlut. Allar upplýsingarnar þurfa að koma fram á spjaldinu, en nægilegt er að aðeins gerðin sé stönsuð í hlutinn. Spjaldið skal vel fest (hnoðað, skrúfað eða límt).
Eingöngu stansaðir stafir á hlut. Nauðsynlegt að allar upplýsingarnar séu stansaðar á hlutinn.
Allar merkingar skulu vera varanlegar og vel læsilegar. Æskilegt er að hæð stansaðra stafa sé ekki minni en 8 mm, þó aldrei minni en 6 mm.
Tengibúnaði breytt í dráttarbúnað
Ef bíleigandi óskar þess að fá að nota dráttarkúlu sem dráttarbúnað en ekki tengibúnað er ekkert því til fyrirstöðu svo framarlega sem kúlunni er breytt þannig að ekki sé hægt að setja hanska á hana.
Leyfilegar tegundir tengibúnaðar eftir ökutækjaflokkum (St9.1.2.4)
Við bifreið, bifhjól og dráttarvél má aðeins tengja einn eftirvagn í einu. Ökutæki mega hafa eftirfarandi gerðir tengibúnaðar (og aðrar ekki):
Kúlutengi:
Dráttartæki: Bifreið, bifhjól og dráttarvél (bifreið og dráttarvél má hafa önnur tengi að auki).
Eftirvagn: Eftirvagn I og II með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.
Boltatengi:
Dráttartæki: Bifreið sem gerð er til þess að draga tengi- eða hengivagn sem er yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, önnur en fólksbifreið sem er að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Dráttarvél (óháð þyngd eftirvagns).
Eftirvagn: Eftirvagn III og IV sem er af undirflokki tengi- eða hengivagn yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.
Stóltengi:
Dráttartæki: Bifreið, önnur en fólksbifreið að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna.
Eftirvagn: Festivagn.
Sjá nánar í köflunum um sérhverja gerð tengis.
Kúlutengi
Leyfilegar gerðir kúlutengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)
Leyfilegar gerðir kúlutengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.Leyfileg gerð kúlutengis fyrir bifreið:
Kúla með 50 mm þvermáli og skv. ISO 1103 (sjá mynd 1).
Mynd 1. Kúlutengi á bifreið.
Leyfileg gerð kúlutengis á bifhjóli:
Kúla með 50 mm þvermáli og samkvæmt ISO 1103.
Leyfileg gerð kúlutengis á dráttarvél:
Sjá skjal um dráttarvélar og eftirvagna þeirra.
Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)
Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:
Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - fjarlægðin frá ytri brún kúlu að nálægasta hluta yfirbyggingar er mæld.
Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðri kúlu að ytri brúnum afturljósa borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu hanska að ytri brúnum ökutækisins borin saman.
Staðsetning skal vera sem hér segir:
Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 30 mm eða > 100 mm að kúlu.
Lárétt miðlína - dæmt ef kúla er > 20 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef hanski er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.
Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)
Almennt eru prófílar (rör, skúffur, vinklar, ferkantar) sterkara heldur en flatjárn, stangir, plötur og annað álíka. Prófíla skal því nota í þá hluta festigrindarinnar sem verða fyrir mestu álagi, s.s. þver- og langbita. Plötur eða flatjárn eru notuð í styrkingar við samskeyti bita, einnig sem festiplötur með boltagötum sem soðnar eru við bitaendana. Festigrind sem byggð er upp af þunnu flatjárni sem kúlan festist í er ekki samþykkt.
Skyndilegar formbreytingar eru hættulegar gagnvart sprungumyndunum. Þetta geta verið breytingar í efnisþykktum, raufar, skörð o.fl. Biti í festigrind sem búið er að veikja með því að brenna hluta hans í burtu (t.d. fyrir púströrið eða annað álíka) er ekki samþykkt.
Festigrind skal bolta við bifreið með boltum með lágmarks styrk 8.8. Rær á boltum skulu ekki geta losnað af sjálfu sér. Boltagöt á festigrind skulu vera hringlaga og henta boltunum sem notuð eru. Þó er leyfilegt að þverstæð aflöng göt séu fyrir bolta sem skrúfast lóðrétt upp eða niður í bifreiðina og er mesta leyfilega lengd slíkra gata 20 mm.
Ekki er leyfilegt að sjóða festigrind við bifreið nema með samþykki framleiðanda bifreiðarinnar. Suður eru mismunandi góðar og sérstaklega varasamar þegar mismunandi efnismiklir hlutar eru soðnir saman, þá hentar oft ekki sama suðuaðferðin báðum hlutunum.
Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)
a) Kúla
Lágmarksþvermál kúlu er 49 mm.Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns
b) Tengihanski
Hámarksþvermál tengihanska er 50 mm.
Stóltengi
Leyfilegar gerðir stóltengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)
Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.
Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir bifreið (sjá mynd 2):
Stóll með læsingu fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. 94/20/ESB eða ISO 337, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.
Stóll með læsingu fyrir 88,9 mm (3 ½”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. ISO 4086, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.
Mynd 2. Stóltengi - stóllinn á dráttarbifreiðinni.
Leyfilegar gerðir stóltengja á bifhjól og dráttarvél:
Ekki leyfð.
Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)
Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:
Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu stóls að ytri brún grindar borin saman, á festivagni er fjarlægðin frá miðlínu tengipinna að ytri brúnum festivagnsins borin saman.
Staðsetning skal vera sem hér segir:
Lárétt miðlína - dæmt ef stóll er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef pinni er > 30 mm frá miðlínu festivagns.
Ljós og rofi fyrir færanlegan tengistól (St9.1.3.6)
Rofi prófaður með því að ýta á hann. Rofinn á að ganga til baka þegar honum er sleppt. Ljós prófað um leið og læsing er prófuð (á að gefa til kynna í hvaða stöðu læsingin er þ.e. læst eða ólæst). Læsing stóls prófuð með því að halda rofanum inni, færa stólinn úr læsingu (sé engin vagn í stólnum er hann færður til með handafli, sé vagn í stólnum er honum hemlað með stöðuhemli og bílinn færður aðeins til), rofanum er þá sleppt og stólnum aftur ýtt í læsinguna. Stóllinn ætti þá að læsast aftur og ljósið að sýna viðeigandi stöðu.
Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)
Stóllinn skal hafa a.m.k. 8 göt með 17 mm þvermáli (eða stærri) sem eru samhverf um lengdar- og þverás stólsins. Þó er leyfilegt að hafa aflöng þverstæð göt. Boltar sem festa stólinn skulu vera a.m.k. af stærðinni M16, af lágmarks styrk 8.8 og skulu þeir henta götunum. Boltunum skal ætíð komið fyrir samhverft um lengdar- og þverás stólsins. Stólinn skal bolta við festiplötu eða -grind með a.m.k. 8 boltum ef stóllinn er fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna, en a.m.k. 12 boltum ef stóllinn er fyrir 88,9 mm (3½”) tengipinna.
Stól má ekki festa á grind vörubifreiðar nema samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.
Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)
a) Stóll LS
Heildarhlaup milli tengipinna og tengiklóar má ekki vera meira en 5 mm (sjónskoðun). Að öllu jöfnu má ekki koma fram neitt hlaup í dráttarstólum sem hafa sjálfvirka stillingu til þess að vega upp á móti sliti.
b) TengipinniLágmarksþvermál tengipinna: Brjóst Mitti
50,8 mm (2”) 71 mm 49 mm
88,9 mm (3 ½”) 112 mm 86 mm
Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eða plötu eftir hnjask af völdum vagns.Lengd tengipinna:
50,8 mm (2”) 82,5 – 84 mm
88,9 mm (31/2”) 70 – 71,5 mm
Boltatengi
Leyfilegar gerðir boltatengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)
Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.
Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir bifreið (sjá mynd 3):
40 mm bolti og skv. ISO 8755.
50 mm bolti og skv. ISO 1102 eða ECE reg. nr. 55.
57,5 mm bolti skv. eldri reglum (fyrir 1998).
Mynd 3. Boltatengi - á bifreiðinni.
Leyfileg gerð boltatengis á bifhjóli:
Ekki leyft.
Leyfileg gerð boltatengis á dráttarvél:
Sjá skjal um dráttarvélar og eftirvagna þeirra.
Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)
Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:
Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - fjarlægð frá ytri brúnum tengis að nálægasta hluta yfirbyggingar/grindar mæld.
Fjarlægð handfangs að yfirbyggingu/grind bifreiðar - tengið sjálft og handfang þess sett í óhagstæðustu stöðu og lóðrétta fjarlægðin frá handfanginu mæld í þann hluta yfirbyggingar/ grindar sem næst er, endurtekið fyrir mælingu á láréttri fjarlægð.
Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu bolta að ytri brún grindar borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu dráttarauga að ytri brúnum ökutækisins borin saman (stýrður ás skal stefna beint fram).
Lóðrétt hæð - við eiginþyngd bifreiðar er hæð frá jörðu upp í miðjan bolta mæld, við eiginþyngd eftirvagns/tengitækis er hæð frá jörðu upp í mitt dráttarauga mæld þegar eftirvagn stendur láréttur.
Lárétt fjarlægð að öftustu brún - fjarlægð milli miðju boltans og öftustu brúnar ökutækisins mæld.
Staðsetning skal vera sem hér segir:
Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 10 mm (hvernig sem því er snúið og staða þess er).
Fjarlægð handfangs frá yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef lóðrétta fjarlægðin er < 60 mm og ef lárétta fjarlægðin er < 100 mm.
Lárétt miðlína - dæmt ef bolti er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef dráttarauga er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.
Lóðrétt hæð - dæmt ef hæðin er utan 900 ± 100 mm markanna.
Lárétt fjarlægð að öftustu brún - dæmt ef fjarlægðin er > 420 mm, þó er leyfilegt að fjarlægðin sé meiri ef eitthvert eftirfarandi tilfella kemur upp (að því gefnu að auðveld og örugg notkun boltatengisins sé enn til staðar):
fjarlægð allt að 650 mm er leyfileg ef yfirbygging er hallandi að aftan eða búnaður er festur aftan á ökutækið,
fjarlægð allt að 1320 mm er leyfileg ef hindrunarlaus hæð frá jörðu er a.m.k. 1150 mm,
Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)
Boltatengi skal festa á ökutæki á þann hátt að notkun þess sé auðveld og örugg. Til viðbótar við þær aðgerðir að opna (og loka ef slíkt er notað) er einnig átt við athugun á stöðu boltans í tenginu (með sjónskoðun og átaki).
Stjórnandi tengisins má ekki vera í hættu við stjórnun tengisins, t.d. vegna skarpra brúna, horna o.fl., og skal hönnun á umhverfi tengisins taka mið af því. Ekkert má hindra stjórnanda tengisins í að víkja sér snögglega frá til beggja hliða. Hverskonar undirvörn má ekki hindra stjórnanda tengisins í að koma sér hæfilega fyrir við vinnu sína.
Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)
a) Bolti
Lágmarksþvermál brjóstsins á bolta boltatengis er eftirfarandi:
36,5 mm fyrir 40 mm bolta
46,0 mm fyrir 50 mm bolta
55,0 mm fyrir 57 mm bolta
Yfirleitt slitnar kúla boltatengis niður fyrir lágmark áður en neðri fóðring boltatengisins slitnar meira en leyfilegt er. Áslægt hámarksslag dráttarauga í boltatengi (upp og niður) er 6 mm. Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns.
b) Dráttarauga
Hámarksþvermál auga:
41,5 mm fyrir 40 mm dráttarauga
52,5 mm fyrir 50 mm dráttarauga
59,5 mm fyrir 57 mm dráttarauga
Festing slithrings: Slithringur skal sitja fastur og vera vel festur, þ.e. valsaður, pressaður eða soðinn. Um suðu gildir eftirfarandi sem viðmiðun:
Heill slithringur: Suða á afturbrún 10 15 mm
Raufaður hringur: Suða á fram og afturbrún 8 10 mm
Hættulegir útstæðir hlutir
Útstæðir hlutir sem ekki hafa augljósan tilgang og gæti stafað hætta af skulu dæmdir sem hættulegir útstæðir hlutir. Þannig hafa útispeglar augljósan tilgang en dæmi um hættulega útstæða hluti eru (St3.7.2.1):
Sumar vörubifreiðir hafa lága vör aftan á pallinum sem á að falla sjálfkrafa niður þegar pallinum er lyft. Ef þessi vör er óvirk eða vísvitandi fest þannig að hún stendur beint aftur af pallinum skal það metið sem hættulegur útstæður hlutur og dæmt í samræmi við Skoðunarhandbók.
Tengibúnaður án kúlu sem stendur út frá yfirbyggingu bifreiðar telst hættulegur útstæður hlutur þar sem hann hefur engan augljósan tilgang.
Vegna aukabúnaðar eða breytinga á bifhjólum skal dæma á hluti sem standa út frá yfirbyggingu og/eða hluti sem auka hættu á meiðslum, t.d. hlutir með hvössum brúnum, oddhvassir stýrisendar og fóthvíluendar o.s.frv.
Eldsneytiskerfi
Þrýstigeymar og lagnir - kröfur
Eldsneytisgeymar og eldsneytisleiðslur skulu vera úr seigu og endingargóðu efni sem stenst tæringu, áhrif hita og kulda og þolir það eldsneyti sem notað er.
Eldsneytisgeymir skal vera úr óeldfimu efni eða uppfylla ákvæði reglugerðar ESB nr. 661/2009 og UN-ECE reglu 34.
Gasgeymar skulu uppfylla skilyrði reglna og merkinga um þrýstihylki samanber reglugerð nr. 218/2013.
Metangeymir skal til viðbótar uppfylla skilyrði UN-ECE reglu 110 eða staðalsins ISO11439 og vera þannig merktur.
Við skráningu eða breytingu, og ef ástæða þykir til við almenna skoðun (s.s. vísbendingar um að skipt hafi verið um geymi), er viðurkenningarmerking skoðuð.
Festingar og lega þrýstigeyma
Lega þrýstigeyma
Geymir má ekki vera í vélar- eða fólksrými. Sé geymir í farmrými sem eru sambyggð fólksrými skal nota rafsegultankloka með öndun og helst fyrir neðan þverplan sætissetu.
Geymi skal þannig fyrir komið að sem minnst hætta sé á að hann verði fyrir hnjaski og að titringur eða vindu- og beygjuhreyfingar valdi ekki hættu á sliti eða skemmdum við eðlilega notkun ökutækis.
Sé geymir staðsettur inni í yfirbyggingu (í farmrými) skal honum komið þannig fyrir að hann verði ekki fyrir skemmdum af farangri eða farmi.
Sé geymir í lokuðu rými, hvort sem það er sérstakt lokað rými utan farmrýmis, eða inni í farmrými, skal það vera loftræst. Nægilegt er að hafa loftræstiop (óþvingaða ræstingu) með lágmarksrýmd 500 mm2. Loftræstiop skal vera a.m.k. 250 mm frá útblásturskerfi.
Ef geymir er nær útblásturskerfi en 100 mm skal vera vörn milli hans og útblásturskerfis. Vörnin felst í skilrúmi eða þili.
Ef við verður komið skulu liggjandi geymar, ef þeir eru í farþegahæð, snúa þvert á akstursstefnu (fyrir ofan þverplan setu neðsta sætis). Snúi þeir fram er æskilegt að halla þeim aðeins (þannig að þeir liggi ekki alveg láréttir).
Geymir má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.
Geymi ber að snúa þannig að auðvelt sé fyrir eftirlitsaðila að sjá viðurkenningarmerkingar og gildistíma eftir ísetningu.
Festing þrýstigeyma
Festa skal þrýstigeymi við burðarvirki eða berandi hluta ökutækis. Miða skal við að festingarnar þoli að lágmarki tífalda þyngd geymisins eða geymaknippisins í allar áttir (upp, niður, fram, aftur og til hliðar).
Staðsetning áfyllingarops fyrir þrýstigeyma
Áfyllingarop og öndun eldsneytisgeymis má ekki vera í fólks-, farangurs- eða hreyfilrými.
Áfyllingarop má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.
Gildistími þrýstigeyma fyrir eldsneyti
Eldsneytisgeymar sem innihalda gas undir þrýstingi hafa ákveðinn gildistíma sem skráður er á tankinn af framleiðanda. Upplýsingarnar eru oft stansaðar í yfirborð geyma eða komið fyrir á spjaldi sem fest er á þá með varanlegum hætti. Upplýsingarnar verður að vera hægt að lesa eftir að geymi hefur verið komið fyrir í ökutæknu (snúa ber geymum þannig að merkingar sjáist). Þó er heimilt að taka gilda staðfestingu um gildistíma geyma sem komið er fyrir á bakvið hlífar (sem losa þarf með verkfærum), enda komi slík staðfesting frá framleiðanda, fulltrúa framleiðanda (umboði) eða umboðsverkstæði. Staðfestingin innihaldi upptalningu á geymunum, stærð þeirra og gildistíma hvers og eins.
Gildistíma er í sumum tilvikum hægt að endurnýja með þrýstiprófun og yfirferð viðurkenndra aðila og/eða Vinnueftirlitsins. Í öllum tilvikum verður Vinnueftirlitið að samþykkja verkið og merkja sér framlenginguna. Ekki er heimilt að endurnýja gildistíma þrýstigeyma fyrir metan (CNG).
Viðbótarorkugjafi metan (CNG)
Einstaklingar geta hlotið viðurkenningu Samgöngustofu sem ísetningaraðilar metanbúnaðar. Skilyrði til að hljóta slíka viðurkenningu eru þessi (nánar metið af Samgöngustofu hverju sinni):
Að hafa starfsréttindi sem bifvélavirki eða hafa sambærileg réttindi eða nám að baki.
Að hafa aflað þekkingar varðandi ísetningu metanbúnaðar, annað hvort hjá framleiðanda búnaðarins eða hjá viðurkenndum skóla eða fræðsluaðila.
Sjá viðurkennda aðila á lista US.366 á heimasíðu Samgöngustofu. Viðurkenndur ísetningaraðili metanbúnaðar má gefa út vottorð um ísetningu metanbúnaðar. Sjá um útgáfu vottorðs og móttöku þess á skoðunarstöð í skráningareglum ökutækja.
Úrtaka metan orkugjafa (CNG)
Ökutæki sem framleitt hefur verið með metan sem orkugjafa, eða breytt hefur verið þannig að metan er orðinn viðbótarorkugjafi, skal hafa orkugjafann virkan og er það prófað við skoðun. Ef upp kemur sú staða að kerfið er ekki lengur virkt, og að öðrum skilyrðum uppfylltum, má sækja um að búnaðurinn verði tekinn úr, sjá skráningareglur ökutækja.
Gashylki, gaslagnir og gastæki
Fjöldi og staðsetning gashylkja
Miða skal við eftirfarandi reglur:
Hámarksþyngd gashylkis er 11 kg.
Gashylki í ökutæki mega ekki vera fleiri en tvö talsins, eitt í notkun og annað til vara.Gashylki eiga að standa upprétt og svo tryggilega frá þeim gengið að þau færist ekki úr stað.
Gashylki, sem tekur meira en tvö kg af gasi, skal ásamt þrýstiminnkara vera staðsett utan á ökutækinu eða í þéttu einangruðu rými inni í ökutækinu.
Gashylki sem tekur minna en tvö kg af gasi má koma fyrir inni í ökutæki án þess að það sé í lokuðu rými en sömu reglur gilda um tryggilegan frágang.
Gashylki komið fyrir í rými inni í ökutæki
Gashylki sem komið er fyrir inni í ökutækinu skal hafa í þéttu einangruðu rými. Í rýminu verður að vera op (a.m.k. 100 cm2) á botninum til loftræstingar og má rýmið aðeins vera aðgengilegt að utan.
Rými fyrir gashylki á að vera með læsingu. Þegar gas er notað á rýmið að vera ólæst til þess að hægt sé að skrúfa fyrir gashylkið í skyndingu.
Gashylki komið fyrir að utanverðu
Gashylki sem komið er fyrir að utanverðu skal vera í tryggilegri hæð frá akbraut og hafa læsanlega hlíf sem nær a.m.k. yfir loka og þrýstiminnkara.
Frágangur gaslagna
Gaslögn skal gerð úr kopar, koparblöndu eða stáli og vera fest með fóðruðum festingum á minna en 300 mm millibili. Gasleiðslu í gegnum vegg verður að leggja í hlífðarhulsu.
Uppsetning gastækja og loftræsting
Brennsluloft gastækja, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, skal taka inn í ökutæki í gegn um aðloftsrás. Rásarop á að vera á botni ökutækisins þar sem því verður við komið, annars á hlið. Fráloft frá gastækjum verður að leiða beint út úr ökutækinu um fráloftsrás. Rásarop á að vera í lofti þar sem því verður við komið, annars ofarlega á hliðinni.
Ofna og önnur sambærileg gastæki, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, verður að tengja við lokað loftrásarkerfi.
Gastæki og tilheyrandi fráloftsbúnaður skal valinn og þannig settur upp að ekki stafi af eldhætta. Ef ekki er annað tekið fram í leiðbeiningum skal fylgja eftirfarandi lágmarks málsetningu við uppsetningu:
Fjarlægð frá hitunartæki að brennanlegu efni má ekki vera minni en 100 mm.
Hitunartæki, sem snúa inn í ökutækið, verða að hafa grind eða net til þess að brennanlegir hlutir komist ekki nær hitafletinum en 100 mm.
Fráloftsrás verður að vera a.m.k. 75 mm frá brennanlegu efni.
Fjarlægð frá brennara í eldavélum að óvörðum vegg úr brennanlegu efni verður að vera a.m.k. 250 mm.
Gaseldavélar í ökutækjum verða að hafa logavara.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
Þyngdarmælibúnaður: Vog í hemlaprófara til að meta eiginþyngd út frá mældum ásþyngdum vegna mögulegs samanburðar við upplýsingar á vigtarseðli. Þetta mat má ekki nota í öðrum tilgangi.
Vigtarseðill frá löggiltri vog: Mæling er framkvæmd af löggiltum vigtarmanni á löggiltri vog, sjá kaflann um mælingu á eigin þyngd ökutækis.
Handverkfæri - mátar: Spindilmáti MB 201 589102300.
Gaslekamælar: Mælitæki til að greina leka fljótandi jarðolíugass (LPG), þjappaðs jarðgass (CNG) og fljótandi jarðgass (LNG). Þessi krafa gildir frá 01.01.2024, sjá dæmi um búnað á mynd 1.
Mynd 1. Dæmi um búnað til að þrýstiprófa LPG gaskerfi.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007.
Tilskipun ESB um vélrænan tengibúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og festing þeirra við þau ökutæki nr. 94/20/ESB.
UN ECE regla um samræmd ákvæði um viðurkenningu á vélrænum tengihlutum samsettra ökutækja nr. 55.
Staðall ISO 1103 Ökutæki - Kúlur kúlutengja fyrir létta eftirvagna - Stærðir.
Staðall ISO 337 Ökutæki - 50 tengipinni festivagna - Grunnstærðir og festingar á eftirvagn (50,8 mm / 2”).
Staðall ISO 4086 Ökutæki - 90 tengipinni festivagna - Festingar á eftirvagn (88,9 mm / 3 ½”).
Staðall ISO 3842 Ökutæki - Stóltengi - Festingar á bifreið.
Staðall ISO 8755 Atvinnuökutæki - 40 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.
Staðall ISO 1102 Atvinnuökutæki - 50 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.
Reglugerð um færanlegan þrýstibúnað nr. 218/2013.
ESB-reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 661/2009/ESB.
UN-ECE reglur um eldvarnir í ökutækjum nr. 34.
UN-ECE reglur um gerð CNG íhluta og ísetningu þeirra í ökutæki nr. 110.
Staðall ISO 11439 um háþrýstigeyma fyrir geymslu CNG í ökutækjum.
Efni kaflans
Öryggisbelti
Skilgreiningar á orðum og hugtökum
Skilgreiningar á orðum: (St3.4.2.1)
Tveggjafestu: Mjaðmarbelti, fest á tveimur stöðum.
Þriggjafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á þremur stöðum (fer yfir aðra öxlina).
Fjögurrafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á fjórum stöðum (fer yfir báðar axlirnar). Ekki er heimilt að hafa eingöngu fjögurraafestu belti í ökumannssæti ef ökumaður nær ekki til allra stjórntækja með beltið spennt. Sæti fyrir farþega mega vera búin fjögurrafestu beltum án sérstakra skilyrða
Rúllubelti: Útdraganlegt belti á rúllu sem sjálfkrafa dregur beltið inn eins og hægt er hverju sinni (myndar ekki slaka). Rúllan læsist þegar reynt er að draga beltið snögglega út.
Framvörn: Höggmildandi afturhluti sætisbaks, eða sambærileg höggmildandi vörn fyrir framan viðkomandi sæti, sem er í innan við 100 cm láréttri fjarlægð frá sætiskverk.
Frambil: Frítt bil frá sætiskverk að einhverjum hlut innréttingar eða bifreiðar sem ekki telst höggmildandi (t.d. stýrishjól, framrúða, skilveggir eða ófóðraðar slár).
Fellisæti: Sæti sem jafnan takmarka gangpláss og eru felld niður þegar þau eru í notkun (seta felld niður til hliðar og baki lyft upp til að taka í notkun).
Veltisæti: Sæti sem mögulegt er að velta fram til að ganga um dyr.
Öryggibelti - samantekt krafna um áskilin öryggisbelti
Öryggisbelti eiga að vera í eftirtöldum sætum (miðað við fyrsta skráningardag og leyfða heildarþyngd). (St3.4.2.1) Athuga að þetta eru lágmarkskröfur og því er ætíð heimilt að nota öruggara belti og búa fleiri sæti beltum en áskilið er.
Fólksbifreið ≤ 3.500 kg
Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum.
Eftir 01.01.1989: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum fólksbifreiða, og tveggjafestu belti í öðrum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisæti. Verði rúllubeltum ekki komið fyrir er heimilt að nota þriggjafestu belti án rúllu, og verði þeim ekki heldur viðkomið skal nota tveggjafestu belti.
Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum sem snúa fram, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.
Fólksbifreið > 3.500 kg
Eftir 01.03.1994: Tveggjafestu belti í framsætum.
Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.
Sendibifreið
Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum sendibifreiða fyrir allt að 1000 kg. farm.
Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.
Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisætum.
Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.
Hópbifreið ≤ 3.500 kg
Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.
Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum
Eftir 01.10.2001: Hópbifreið B: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum, sætum sem liggja að hlið og sætum án framvarnar, og tveggjafestu rúllubelti í öðrum sætum. Ekki er krafist belta í fellisæti.
Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.
Hópbifreið > 3.500 kg
Eftir 01.03.1994: Undirflokkur B: Tveggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framvísandi sætum án framvarnar.
Eftir 01.10.1999: Undirflokkur B: Þriggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framsætum án framvarnar og tveggjafestu rúllubelti í öðrum framvísandi sætum (ekki er krafist belta í fellisæti).
Eftir 10.11.2006: Undirflokkar II, III og B: Þriggjafestu rúllubelti í framvísandi sætum (tveggjafestu rúllubelti þó leyfileg sé framvörn eða yfir 130 cm frambil) og tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.
Vörubifreið
Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða fyrir allt að 1000 kg farm.
Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða < 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd (eru nú flokkaðar til sendibifreiða).
Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum sætum án framvarnar.
Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum án framvarnar. Hliðarvísandi sæti eru óheimil
Aðrir ökutækisflokkar
Séu öryggisbelti í ökutækjum sem eru skráð í aðra flokka en bifreið skulu þau vera í lagi.
Öryggisbelti - ýmsar upplýsingar
Merking um sætisbeltaskyldu í hópbifreiðum
Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum er kveðið á um að merking um sætisbeltaskyldu sé sýnileg úr öllum sætum hópbifreiðar sem búin eru öryggisbeltum. Miðarnir sem Samgöngustofa hefur látið útbúa eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm, sjá mynd 1.
Þar sem krafan er að þessi miði skuli vera sýnilegur úr öllum sætum hópbifreiða, þá er í sumum tilfellum nægjanlegt að í minni hópbifreiðum sé fullnægjandi að hafa einn stóran miða fremst í bifreiðinni en nauðsynlegt er að merkja stærri bifreiðar einnig með minni miðanum. Ekki er tilgreint hvar miðinn skal vera – en sem dæmi væri hægt að setja hann á sætisbak, hliðarrúðu eða gluggapóst
Mynd 1. Límmiðar sem setja skal í hópbifreið og sýnir hvernig spenna skal öryggisbelti. Miðarnir eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm. Hvít mynd og stafir á bláum grunni.
Öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum (St3.4.2.1)
Séu öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum skulu þau vera í lagi. Dæmi um ökutæki sem skráð er sem bifhjól er af gerðinni Reva (er í flokknum L7e) og kemur með beltum.
Öryggisbeltafestingar á snúningsstólum (St3.4.2.3)
Í nokkrum útfærslum amerískra „Van”-bifreiða með snúningsstólum fyrir framsæti eru neðri festur öryggisbeltanna í stólunum sjálfum. Ef snúningurinn undir þessum stólum er upprunalegur (sívalningurinn u.þ.b. 15 til 20 cm í þvermál) og stólarnir hafa komið útbúnir á þennan hátt frá framleiðanda, er slík útfærsla samþykkt.
Ef snúningurinn hefur hins vegar verið smíðaður hér á landi (grennri sívalningur og minni festiplata) er aðeins ein festa öryggisbeltis leyfð í stólinn sjálfan, þ.e. innri festan að neðan. Ytri festuna verður í þeim tilfellum að færa niður í dyrastaf.
Öryggisbeltafestingar í sætisbekkjum (nýtt)
Óheimilt er að festa öryggisbelti í sætisbekki bifreiðar nema sú smíði hafi verið viðurkennd af framleiðanda bifreiðarinnar eða af viðurkenndri tækniþjónustu. Enginn íslenskur framleiðandi hefur hlotið viðurkenningu til að smíða eða framleiða sætisbekki í bíla sem heimilt er að festa belti í.
Séu óviðurkenndir sætisbekkir settir í bíl (t.d. við breytingu úr sendibíl í fólksbíl) verða beltafestingar fyrir öll sæti bekkjarins að festast með traustum hætti ofan í gólf bílsins og hliðar (þriggjafestu belti). Þó er heimilt að axlarfestan sé í bekkinn sjálfan ef ekki er hægt að festa í hlið bílsins (gildir um miðjusæti og endasæti ef hliðarhurðir eða hliðargluggar koma í veg fyrir festu í hlið bílsins). Að auki gildir að bekkurinn sjálfur verður að vera festur í gólf bílsins með traustum hætti.
Ofangreint gildir fyrir bifreiðir með fyrstu skráningu eftir 01.03.2023 eða er breytt eftir þennan tíma. Þetta er ráðstöfun eftir ábendingar Rannsóknarnefndar samgönguslysa í skýrslu um alvarlegt umferðarslys. Skoða ber sérstaklega vel festingar sætisbekkja ofan í gólf í bifreiðum sem breytt var fyrir þessa dagsetningu og gera athugasemdir við styrkleikamissi ef minnsta ástæða er til.
Öryggisbeltastrekkjari
Tilgangur öryggisbeltastrekkjara er að ganga úr skugga um að öryggisbeltið sitji þétt að líkama einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra. Öryggisbeltastrekkjarinn virkjast yfirleitt bara í hörðum árekstrum. Hann er í þremur megin útfærslum.
Vélrænn öryggisbeltastrekkjari. Hann er í grunninn öflugur gormur sem læst í samþjappaðri stöðu. Í árekstri losnar lásinn og gormurinn þrýstist út og þrengir beltið sem snöggvast. Eftir að vélrænn strekkjari hefur virkjast verður að skipta um búnaðinn.
Rafrænn öryggisbeltastrekkjari. Hér er það rafmótor sem er látinn þrengja beltið þegar til áreksturs kemur. Hann er tengdur við tölvu bílsins. Hröðunarskynjari, oft sá sami og virkjar loftpúðana, gefur skilaboð í gegnum tölvuna til mótorsins þegar árekstur verður og hann þrengir þá beltið í skyndi. Ekki þarf að skipta um búnaðinn þótt hann hafi virkjast en komi fram bilun í honum ætti gaumljós bilanavísis að sýna það.
Gasþrýstingsknúinn öryggisbeltastrekkjari. Þetta er algengasti búnaðurinn í dag, hann þykir áreiðanlegastur og virkar hraðar en hinar útfærslurnar. Um er að ræða litla gassprengingu sem virkjar vélræna herðingu beltisins. Búnaðurinn er tengdur við tölvu bílsins og nýtir sér ytri hröðunarskynjara. Skipta þarf um þennan búnað ef hann hefur virkjast og sýnir gaumljós bilanavísis það.
Öryggisbeltaslakari
Ákveðin sætisbeltakerfi nota öryggisbeltaslakara (álagstakmarkara) til að lágmarka meiðsli af völdum sætisbelta. Grunnhugmyndin er sú að álagstakmarkari losi aðeins á beltinu þegar mikið álag myndast á beltinu við árekstur. Þar með minnki álag á brjóstkassa þess sem spenntur er í beltið.
Einfaldasti álagstakmarkarinn er felling sem er saumuð í efni sætisbeltisins. Saumarnir sem halda fellingunni á sínum stað eru hannaðir til að rifna þegar ákveðinn kraftur togar í beltið. Allt þetta veldur skemmdum á beltinu sem þýðir að skipta skal um belti.
Álagstakmarkari getur svo verið flóknari búnaður og virkjaður í gegnum öryggiskerfi ökutækisins og þar með verður ástand hans raflesanlegt.
Öryggispúðar og öryggispúðakerfi (SRS)
SRS stendur fyrir Supplemental Restraint System, eða öryggispúðakerfi. SRS kerfið er viðbót (e. supplemental) við öryggisbeltakerfið sem eykur öryggi einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra með því að tengja saman virkni öryggispúða, öryggisbelta og jafnvel annarra kerfa og hámarka virkn allra kerfa sem heildar.
Gaumljós bilanavísis öryggispúðakerfis er gjarnan tákn eða merki sem sýnir manneskju með spennt sætisbelti og stóran skyggðan hring í fanginu (púðann), ásamt jafnvel stöfunum “SRS”. Bilanavísir öryggispúðakerfis getur gefið til kynna að það sé bilun í öryggisbeltaslakara, öryggisbeltastrekkjara, öryggispúða og/eða einhverjum skynjurum kerfisins.
Slökkvitæki
Krafa um gerð
Öll slökkvitæki skulu viðurkennd gerð fyrir A, B og C brunaflokka (A-föst efni, B-olía og bensín, C-gas).
Samkvæmt reglugerð um slökkvitæki og fyrirmælum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eiga slökkvitæki að vera af viðunandi gæðum, þeim skal viðhaldið þannig að þau séu að fullu virk á hverjum tíma, þau skuli merkt með auðskildum íslenskum leiðbeiningum og skulu yfirfarin eða þjónustuð reglulega.
Áskilnaður m.v. ökutæki
Slökkvitæki eiga að vera í eftirtöldum ökutækjum. Þetta eru lágmarkskröfur um stærð (slökkvimátt) tækja. Strangasta krafan um slökkvitæki gildir ef bifreið tilheyrir fleiri en einum flokki. Lágmarks slökkvimáttur sérhvers slökkvitækis skal samsvara 2 kg slökkvimætti dufts (ekki er þó dæmt á lágmarksstærð fyrr en eftir 01.01.2025).
Hópbifreið A og B: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 4 kg duftslökkvitæki.
Hópbifreið I: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki.
Hópbifreið II og III: Tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki hvert um sig.
Breytt bifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.
Í notkunarflokki Húsbifreið, Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.
Krafa um staðsetningu og festingar
Í hópbifreið M3 má staðsetning slökkvitækis ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.
Festingar slökkvitækja skulu vera traustar þannig að ekki sé hætta á að slökkvitæki losni úr festingum sínum við eðlilega notkun ökutækisins. En um leið á að vera auðveldlega hægt að losa tækið úr festingum sínum þegar á því þarf að halda.
Krafa um merkingar
Slökkvitæki á að vera merkt skráningarnúmeri bifreiðar (eftir 01.03.1994).
Slökkvitæki á að vera merkt með íslenskum leiðbeiningum. Gildir um hópbifreiðir eftir 01.03.1993 og breyttar bifreiðir og húsbifreiðir eftir 01.03.1994.
Krafa um reglubundna úttekt
Ný slökkvitæki í bifreiðum skulu úttekin í fyrsta sinn áður en gildistími frá framleiðanda á fyrstu vottun fellur úr gildi. Gerð er athugasemd ef fyrsta vottun er fallin úr gildi eða ef upplýsingar um fyrstu vottun eru ekki auðlæsilegar eða sýnilegar.
Eftir það skal slökkvitæki í bifreiðum úttekið eigi sjaldnar en árlega (gerð er athugasemd ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu úttekt). Samanber fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og reglugerð um slökkvitæki sem segir (8. gr): „Tæki sem eru geymd við breytilegt hitastig eða aðrar aðstæður sem geta haft áhrif á virkni þeirra þjónustuð oftar í samræmi við fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða annarra þar til bærra stofnana.“.
Sjúkrakassi
Krafa um innihald
Innihald sjúkrakassa skal vera að fyrirmælum landlæknis. Samkvæmt þeim fyrirmælum skal innihald sjúkrakassa vera sem hér segir:
Verkjatöflur
Heftiplástur
Grisjuplástur
Sárabindi
Sáraböggull
Silicongrisjur (fyrir skafsár) eða sambærilegar grisjur
Saltvatn til sárahreinsunar (einnota) eða sambærilegt
Teygjubindi
Skæri
Innihald sjúkrakassa skal vera í kassa eða púða sem hægt er að loka með traustum hætti. Sjúkrakassinn skal vera merktur skráningarnúmeri bifreiðarinnar. Innihald sjúkrakassans og merking skráningarmerkis gildir fyrir allar hópbifreiðir óháð skráningardegi þeirra.
Áskilnaður m.v. ökutæki
Sjúkrakassi á að vera í eftirtöldum bifreiðum:
Hópbifreiðir.
Breyttar bifreiðir. Gildir frá 01.01.1993, bifreiðir sem samþykktar voru fyrir þann tíma með sjúkrakassa sem ekki uppfylla þessar kröfur, þurfa ekki að endurnýja hann.
Bifreiðir í notkunarflokki Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið.
Krafa um staðsetningu
Í hópbifreið II má staðsetning sjúkrakassa ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.
Kröfur um merkingar
Áskilinn sjúkrakassi á að vera merktur skráningarnúmeri bifreiðar.
Hraðamælir
Skoðunarstofur ökutækja mega gefa út staðfestingu á hraðamæli (valkvætt). Ekki þarf að krefjast staðfestingar um réttan hraðamæli vegna bifreiða þar sem breyting hjóla er undir 10%. Þegar breyting hjóla er orðin meiri en 10% skal krefjast staðfestingar um að hraðamælir sé réttur óháð því hvort um breytingaskoðun vegna breyttar bifreiðar er að ræða eða ekki.
Ferli staðfestingar á hraðamæli, útgáfa vottorðs og skil til Samgöngustofu er lýst í skráningareglum ökutækja.
Ökuriti
Kröfur til ökurita
Gerð og virkni ökurita skal vera samkvæmt reglugerð ESB um ökurita í ökutækjum. Úttekt þeirra er gerð á viðurkenndum verkstæðum samkvæmt reglugerð um prófun á ökuritum.
Notkunarskylda ökurita
Eftirfarandi ökutæki gætu þurft að vera búin ökurita:
Vörubifreiðir yfir 3.500 kg (N2, N3).
Hópbifreiðir skráðar fyrir 16 farþega eða fleiri (M2, M3).
Allar hópbifreiðir í atvinnurekstri skráðar eftir 01.07.2011 (M2, M3).
Gerðir ökurita:
Ökuritaskyld bifreið skráð fyrir 01.09.2006 má vera búin skífuökurita.
Ökuritaskyld bifreið skráð eftir 01.09.2006 skal búin rafrænum ökurita.
Skoðunarskylda ökurita
Þar sem notkun ökurita er bæði háð gerð og notkun bifreiða getur skoðunarstofa ekki ákveðið hvort ökuriti er áskilinn í ákveðnum bifreiðum eða ekki. Því verður það á ábyrgð eigenda/umráðamanna að ákveða hvort ökuriti eigi að vera í bifreiðinni. Skoðun á ökurita skal því ekki fara fram nema að báðum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
hann sé í ökutækinu, og
á honum sé uppsetningarplata.
Ekki er skylt að nota ökurita sé um að ræða:
bifreið sem fer ekki yfir 40 km/klst hámarkshraða, þó unnt sé að aka henni hraðar,
bifreið hins opinbera sem notuð er í almannaþjónustu,
bifreið í reynsluakstri eða ökukennslu, eða
bifreið til neyðaraksturs.
Skoðun uppsetningarplötu
Uppsetningarplata er plata eða miði sem festur er á ökuritann (venjulega undir lokið). Hún skal vera föst á og vel læsileg. Á henni skal eftirfarandi koma fram:
Nafn, heimilisfang eða viðskiptaheiti samþykkts viðgerðarmanns eða verkstæðis.
Einkennisstuðull ökutækisins, sýnt sem w = ... snún/km,
Virkt ummál hjólbarða, sýnt sem I = ... mm. Mælt er með málbandi frá miðju hjóls lóðrétt niður á jörð (mm) og sú tala margfölduð með 6,28.
Dagsetning(ar) þegar w og I voru ákveðin.
Skoðun innsigla
Þau innsigli sem skal skoða eru á eftirfarandi stöðum:
Innsigli á uppsetningarplötu (nema hún sé fest á þann hátt að ekki sé mögulegt að fjarlægja hana án þess að eyðileggja merkingarnar).
Innsigli um tenglaenda milli gírkassa og hraðastýribúnaðar og/eða mælabarka.
Skiptirofar ökutækja með tvö eða fleiri áshlutföll.
Fjögur innsigli inni í ökuritanum á bakvið kortið sem innsigla eftirfarandi:
lokið sem lokar af innri búnað ökuritans,
stilliskrúfu / kvörðunarbúnað,
teljarann,
tengi fyrir prófunarbúnað.
Hraðatakmarkari
Gerð hraðatakmarkara
Gerð og virkni hraðatakmarkara skal vera samkvæmt reglugerð ESB um uppsetningu og notkun hraðatakmarkara í tilteknum ökutækjaflokkum, reglugerð ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja, og UN-ECE-reglum um samræmdar kröfur til hraðatakmarkara. Úttekt þeirra er gerð á viðurkenndum verkstæðum samkvæmt reglugerð um frágang á hraðatakmarkara (sjá þó sérákvæði um létt bifhjól).
Búnaðarskylda hraðatakmarkara
Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun við 45 km/klst (L1e, L2e):
Létt bifhjól (innbyggð af framleiðanda, sjá um Hraðamælingu).
Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun við 90 km/klst (N2, N3):
Vörubifreiðir skráðar eftir 01.01.1994 yfir 10 t heildarþyngd.
Vörubifreiðir skráðar eftir 27.04.2007 yfir 7,5 t heildarþyngd.
Vörubifreiðir skráðar eftir 01.01.2008 yfir 3,5 t heildarþyngd.
Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun 100 km/klst (M2, M3):
Hópbifreiðir skráðar eftir 01.01.1994 yfir 10 t heildarþyngd.
Hópbifreiðir skráðar eftir 27.04.2007 yfir 7,5 t heildarþyngd.
Hópbifreiðir skráðar eftir 01.01.2008 yfir 5 t heildarþyngd.
Allar hópbifreiðir skráðar eftir 02.07.2009.
Ekki er skylt að hraðatakmörkun sé um að ræða:
bifreið til neyðaraksturs,
bifreið með lægri tæknilegan hámarkshraða en sem nemur takmörkunarhraðanum,
bifreið sem eingöngu er ætluð til að veita opinbera þjónustu í þéttbýli, eða
bifreið sem notuð er í tengslum við vísindalegar tilraunir.
Skoðun uppsetningarplötu
Uppsetningarplata er plata eða miði sem festur er oftast í hurðarstaf. Hún skal vera föst á og vel læsileg. Á henni skal eftirfarandi koma fram:
Nafn, heimilisfang eða viðskiptaheiti samþykkts viðgerðarmanns eða verkstæðis.
Einkennisstuðull ökutækisins, sýnt sem w = ... snún/km,
Virkt ummál hjólbarða, sýnt sem I = ... mm. Mælt er með málbandi frá miðju hjóls lóðrétt niður á jörð (mm) og sú tala margfölduð með 6,28.
Dagsetning(ar) þegar w og I voru ákveðin.
Skoðun innsigla
Þau innsigli sem skal skoða eru á eftirfarandi stöðum:
Innsigli á uppsetningarplötu (nema hún sé fest á þann hátt að ekki sé mögulegt að fjarlægja hana án þess að eyðileggja merkingarnar).
Akstursmælir
Skilgreining krafna
Út frá eftirfarandi kröfum er unnið:
Úr reglugerð um gerð og búnað ökutækja: Hvorki eru gerðar kröfur um að ökutæki sé búið akstursmæli, né til nákvæmni hans eða útfærslu sé hann til staðar.
Úr reglugerð um skoðun: 21. grein reglugerðarinnar um niðurstöðu skoðunar hljóðar svo: Komi í ljós við skoðun að óeðlileg breyting hefur orðið á akstursmæli ökutækis og þá helst að akstursmælir sýni lægri kílómetrastöðu en í fyrri skoðun, skal skoðunarstofa upplýsa eiganda ökutækisins um það og skrá sem athugasemd í ferilskrá. 19. grein reglugerðarinnar um það sem er til skoðunar: b) athuga hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis.
Úr reglugerð ESB um skoðun ökutækja: Annmarki við skoðun (sjónskoðun eða með rafrænum aflestri): Augljóslega hefur verið átt við kílómetramælinn (svik), ef hann er til staðar, til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana.
Ályktun Evrópuþingsins: Í ályktun Evrópuþingsins EU-þingsins (31.05.2018) er bent á ýmsar leiðir til að spyrna við sviksamlegum breytingum á stöðu akstursmælis, enda eru þær jafnan gerðar með hagnaðarsjónarmið í huga. Helsta leiðin er að skrá stöðu akstursmælis í miðlægar skrár sem oftast, hvort sem það er við reglubundna skoðun, í verkstæðisheimsóknum eða í tengslum við hefðbundið viðhald. Einnig að skilgreina kröfur til akstursmæla, reyna að hindra það að átt sé við þá og gera athæfið refsivert.
Framkvæmd skoðunar og skráningar
Akstursmælir er í flestum vélknúnum ökutækjum. Sé hann ekki til staðar er staðan 1 (talan einn) skráð á skoðunarvottorð.
Sé akstursmælir til staðar er ætlast til að staða hans lesin og skráð í ökutækjaskrá í öllum skoðunum ökutækisins. Vanda verður til verka við aflestur og skráningar svo sem minnst hætta sé á mistökum. Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (km eða mílum), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).
Eðlilegt telst að akstursmælir hækki á milli skoðana (þó getur verið eðlilegt að mælir gangi yfir, þ.e. vélrænn mælir fari í botn og byrji að telja upp á nýtt). Eðlileg hækkun er mismunandi eftir notkun ökutækisins og tímans sem liðið hefur frá síðustu skoðun. Ekki er gerð athugasemd við hækkun en skoðunarmaður er hvattur til að yfirfara aflestur sinn sé hækkun óeðlilega mikil að hans mati og upplýsa eiganda (umráðamann) ef svo er.
Hafi akstursmælir ekkert hækkað milli aflestra (staðið í stað) eru ekki heldur gerðar athugasemdir. Rétt er samt að skoðunarmaður hafi orð á því við eiganda (umráðamann) til að hann sé upplýstur.
Hafi akstursmælir lækkað milli skoðana (og ekki gengið yfir) er fyrsta skrefið að yfirfara aflestur til að tryggja að ekki hafi verið rangt lesið af. Ef aflestur er réttur er síðustu skráningum akstursmælis flett upp í ökutækjaskrá og metið hvort einhverja skýringu megi finna þar (t.d. síðasta skráning akstursmælis augljóslega röng). Ef skýringa er að leita í röngum eldri skráningum er eigandi (umráðamaður) upplýstur um það án þess að aðhafast frekar í málinu gagnvart honum. Eðlilegt er þó að skoðunarstofan athugi svo hvort skoðunarmaður hennar hafi skráð rangt í fyrri skoðun og leitist þá við að leiðrétta mistökin í samræmi við ferla hennar þar um.
Á þessum tímapunkti er orðið ljóst að staða akstursmælis er lægri en við síðustu skráningu akstursmælis (og í ósamræmi við síðustu skráningar akstursmælis ef þær eru fleiri). Eigandi (umráðamaður) skal þá upplýstur um stöðuna og beðinn um að staðfesta að aflestur við þessa skoðun sé réttur.
Dæming á akstursmæli
Sé orðið ljóst við skoðun og skráningu á stöðu akstursmælis (sbr. fyrri kafla) að hann sýnir lægri stöðu en í fyrri skoðun, er það túlkað sem svo að átt hafi verið við mælinn til lækkunar. En hvort það hafi verið gert með sviksamlegum hætti er annað mál. Mögulegt er t.d. að skipt hafi verið um akstursmæli eða mælaborð af eðlilegum ástæðum og mælir ekki stilltur rétt eftir viðgerð. Ekki er heldur víst að núverandi eigandi (umráðamaður) hafi upplýsingar um það.
Skoðunaratriði 7.11 er dæming 2 ef augljóslega hefur verið átt við akstursmælinn (svik) til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana. Slík augljós breyting á akstursmæli, með sviksamlegum hætti, þarf að túlka þröngt og gerir í raun kröfu um játningu eiganda (umráðamanns) eða að önnur staðfest sönnun liggi fyrir svo beita megi dæmingunni. Liggi slík sönnun fyrir er dæmingunni beitt, annars ekki og ekki frekar aðhafst.
Framkvæmd endurskoðunar vegna dæmingar á akstursmæli
Hafi verið dæmt á akstursmæli, dæming 2, í fyrri skoðun eru tvær leiðir til að lagfæra þann annmarka:
Að breyta stöðu akstursmælis til hækkunar. Ekki er hægt að leggja mat á hvað telst eðlileg hækkun í þessu tilviki. Ný staða er skráð í endurskoðuninni og annmarki telst vera lagfærður.
Eigandi (umráðamaður) skilar skriflegum útskýringum á hinu sviksamlega athæfi. Skoðunarstofa leggur ekki sérstakt mat á innihaldið. Hafi orðið eigendaskipti á ökutækinu, og fyrri eigandi þar með ekki lengur tiltækur, þarf nýi eigandinn að skila yfirlýsingu um að hann sé upplýstur um þennan annmarka (enda markmiðinu náð um að við eigendaskipti sé eigandi upplýstur um gjörninginn). Þessi gögn skulu merkt fastnúmeri ökutækisins og skilað til Samgöngustofu.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
GPS-tæki: Vegna staðfestingar á hraðamæli, sjá kröfur til tækisins í skjalinu (valkvætt fyrir skoðunarstofu að stunda þessa starfsemi).
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007.
Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.
Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010.
Reglugerð um prófun á ökuritum nr. 572/1995.
Reglugerð um frágang á hraðatakmarkara í bifreið nr. 71/1998.
Reglugerð ESB um ökurita í ökutækjum nr. 2014/165/ESB.
Tilskipun ESB um uppsetningu og notkun hraðatakmarkara í tilteknum ökutækjaflokkum nr. 1992/6/ESB.
Reglugerð ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja nr. 2019/2144/ESB
Regla UN-ECE-89 um samræmdar kröfur til hraðatakmarkara.
Tilskipun ESB um skoðun ökutækja nr. 2014/45/ESB.
Ályktun Evrópuþingsins með tillögum til Evrópuráðsins varðandi sviksamlegar breytingar á akstursmælum ökutækja nr. 2017/2064(INL).
Efni kaflans
Mæling á útblástursmengun
Mæling á CO- og λ-gildi í útblæstri (St2.3.3.1)
A. Notkunarsvið
Þessi mæling er til þess að athuga magn mengandi efna í útblástri bensínökutækja og annarra ökutækja sem eru með hreyfli búnum rafkveikju. Útblástur ökutækja með tvígengisvél skal ekki mældur.
Mælt er kolsýrlingsmagn (CO) allra ökutækja í hægagangi og kolsýrlingsmagn (CO) og λ-gildi bifreiða með bensínvél sem eru búnar þrívirkum hvarfakúti og lambdanema við >2000 sn/mín.
Hafi ökutæki verið breytt til þess að brenna einnig metan gas skal vera rofi í mælaborði til að aftengja búnaðinn á meðan afgasmæling fer fram.
B. Undirbúningur fyrir CO- og λ-gildis mælingu
Fyrir mælingu skal gengið úr skugga um að útblásturskerfi leki ekki verulega en það getur breytt niðurstöðu mælingarinnar. Ef um mikinn leka er að ræða skal ekki mæla og skrá frávik á skoðunarvottorð. Þegar bifreið eða bifhjól er fært til endurskoðunar vegna slíks leka á útblásturskerfi skal í öllum tilfellum mæla og skrá CO-innihald (óháð niðurstöðu þeirrar mælingar í undangengnum skoðunum). (St2.2.2.2)
Hreyfill ökutækja skal ganga við eðlilegan vinnuhita. Ef þörf er á skal búa hreyfil undir mælingu með því að láta hann ganga hraðar nokkrar sekúndur fyrir mælingu. Reynist hreyfill ekki kominn upp í eðlilegan vinnuhita verður að láta hann ganga lengur til þess að hita sig. Ekki skal mæla ökutæki þar sem innsogs- eða kaldræsibúnaður hefur enn áhrif eftir að hreyfill er orðinn heitur. Sjá einnig sértækar upplýsingar um of háan hita í blöndungi.
Hreyfill ökutækis skal ganga annars vegar á eðlilegum hægagangshraða og hinsvegar við >2000 sn/mín þegar mælt er. Ekki skal mæla hreyfil sem gengur óeðlilega hratt í hægagangi.
Beinskipt ökutæki skulu vera í hlutlausum gír með tengslisfetil uppi. Ökutæki með sjálfskiptingu skulu settar í stöðugír.
C. Mæling
Áður en mæling er framkvæmd skal tengja sogbarka þétt við útblástursrör. Hafa skal sogbarka í beinni stöðu, þ.e.a.s. úttak fyrir afgasmæli skal vísa upp.
Ef mörg útblástursrör eru á sömu bifreið skal mæla útblástur frá hverju röri. Mæliniðurstaða verður þá hæsta gildið.
Að uppfylltum skilyrðum í kafla B: „Undirbúningur fyrir CO-og λ- gildis mælingu” er mæling á CO-gildi framkvæmd á öllum bifreiðum í hægagangi og CO- og λ-gildi við >2000 sn/mín. á bifreiðum sem eru með þrívirkan hvarfakút og lambdastýringu. Lesa skal af mæli eftir að hann er kominn í jafnvægi.
Þegar mæling hefur farið fram skal mælir aftengdur.
Mæling á reykþykkni (St2.3.3.2)
A. Notkunarsvið
Við mælingu er dæmt um reykþykkni frá díselhreyflum. Mældur er svonefndur K-stuðull (m-1) í útblæstri hreyfils.
B. Undirbúningur fyrir mælingu reykþykktar
Fyrir mælingu skal þess gætt að hreyfill ökutækis hafi náð u.þ.b. 80°C vinnuhita. Þetta er mælt með skynjara í röri fyrir olíukvarða eða með innrauðum geislamæli á hreyfilblokkinni. Ef ekki er hægt að mæla hitastigið með þessum aðferðum vegna byggingar ökutækisins verður að meta hitastig hreyfilsins á annan hátt, t.d. með því að láta hreyfilinn ganga þar til kælivifta fer í gang eða vatnslás opnar. Auk þess skal þess gætt að útblásturskerfi leki ekki verulega en það gæti þynnt reykinn.
C. Mæling
Mæliskynjara skal stungið inn í útblástursrörið svo djúpt að samsvari a.m.k. þreföldu þvermáli þess. Jafnframt skal þess gætt eftir föngum að skynjarinn liggi samhliða straumstefnu útblástursins og jafnframt þannig að op skynjarans sé í miðju rörinu. Aldrei skal þó stinga skynjaranum grynnra en 20 cm inn. Ef ekki er unnt að stinga skynjara nægilega djúpt skal bæta framlengingu við útblástursrörið af hæfilegri stærð og skal hún falla þétt að stútnum.
Bifreiðin skal höfð í hlutlausum gír. Með hreyfilinn í lausagangi skal auka inngjöf snögglega, en þó ekki harkalega í fulla gjöf á innan við einni sekúndu, til að ná hámarksskammti frá eldsneytisdælu. Þessari stöðu skal haldið þar til hámarkssnúningshraða (2/3 af snúningshraða ef ökutækið er sjálfskipt) er náð og gangráðurinn slær af. Þá skal sleppa eldsneytisgjöfinni. Eftir þetta skal K-gildið lesið af reykþykknismæli.
Aðferðin sem lýst er í b. lið hér að framan skal framkvæmd a.m.k. sex sinnum með a.m.k. 10 sek. millibili. Fyrstu þrjár mælingarnar er ekki lögð til grundvallar niðurstöðu mælingarinnar, heldur notuð til að hreinsa útblásturskerfið. Niðurstaðan er meðaltal þriggja síðustu mælinga, nema mæligildi annarrar mælingar sé K<1,8 m-1 fyrir hreyfil án forþjöppu og K<2,1 m-1 fyrir hreyfil með forþjöppu. Þá telst mæligildi vera innan viðmiðunarmarka.
Mæling á hávaðamengun
Mæling á hljóðstyrk
Mælingar á hljóðstyrk (nálægðarmæliaðferð) (St2.2.3.3). Í vafatilvikum skal mæling á hljóðstyrk framkvæmd eins og hér er lýst.
A. Mælisvæði
Til að draga úr áhrifum umhverfis er nauðsynlegt að mælisvæði sé opið svæði með a.m.k. 3 m til allra átta frá jöðrum ökutækis. Ef á mælisvæðinu er einhvers konar upphækkun, t.d. tröppur, þá verður hún að vera í a.m.k. 1 m fjarlægð frá jaðri ökutækisins. Vegna hættu á truflunum skulu hvorki menn né hlutir vera á mælisvæðinu meðan á mælingu stendur fyrir utan skoðunarmann og umráðamann ökutækisins. Sjá mynd 1.
Mynd 1. Mælisvæði og mælistaður.
B. Umhverfishávaði og áhrif vinds
Til þess að mælingar séu marktækar þarf umhverfishávaði (þar með talinn vindur) að vera a.m.k. 10 dB lægri en mæld gildi á hvaða mælistað sem er. Mælingar skulu ekki gerðar í óhagstæðri veðráttu því vindur og þoka getur haft áhrif á mælingar.
C. Undirbúningur mælingar
Staðsetja skal ökutækið í miðju mælisvæðisins í hlutlausum gír og með stöðuhemil á. Ekki má stíga á tengslisfótstig meðan á mælingu stendur. Í þeim tilvikum þar sem bifhjól hefur engan hlutlausan gír skal mæling fara fram með afturhjólið í lausu lofti.
Áður en mæling á sér stað skal þess gætt að vél ökutækisins hafi náð eðlilegum vinnuhita.
Hljóðnemi er staðsettur þannig að hæð hans frá jörðu skuli í öllu falli vera sú sama og hæð útblástursrörs ökutækisins en þó ekki minni en 0,2 m. Fjarlægð milli hljóðnemans og enda rörsins skal vera 0,5 m og mynda 45 ± 10° horn við lóðrétt plan frá endastefnu útblástursrörsins (sjá mynd 1). Í þeim tilvikum þar sem ökutæki hefur fleiri en eitt útblástursrör sem tengjast í einum hljóðdeyfi með fjarlægð minni en 0,3 m milli röranna skal eingöngu nota einn mælipunkt. Hljóðneminn skal staðsettur við það op sem næst er annarri hvorri hlið ökutækisins, en ef slíkt op er ekki fyrir hendi skal miða við það op sem hæst er yfir jörðu. Hins vegar ef fjarlægðin er meiri en 0,3 m skal taka mælingu á öllum útblástursrörum og hæsta gildi lagt til grundvallar. Í ökutækjum með lóðrétt útblástursrör skal hljóðneminn staðsettur í hæð þess í 0,5 m fjarlægð frá rörinu fjærst ökutækinu.
D. Framkvæmd mælinga
Snúningur vélar ökutækisins við mælingu skal vera 75% af þeim snúningshraða vélar sem framkallar hámarksafköst samkvæmt upplýsingum framleiðanda. Fyrir bifhjól gildir sú regla að mælt skal við helming þess snúnings sem gefur hámarksafköst ef sá snúningur er meiri en 5000 sn/mín, en á sama hátt og fyrir bifreið ef snúningur við hámarksafköst er minni en 5000 sn/mín. Strax eftir að þessum snúningshraða er náð er eldsneytisgjöfinni sleppt snögglega og hæsta gildi mælingar alls ferlisins lagt til grundvallar.
Á hverjum mælistað skal taka a.m.k. þrjú mæligildi hvert á eftir öðru. Mæling er marktæk ef mismunur milli mæligilda er minni en 2 dB. Meðaltal þessara þriggja mæligilda gefur niðurstöðu mælingarinnar.
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Útblástursmengun bensínhreyfils - fjórgasmælir: Mælingar á útblæstri bensínvéla.
Útblástursmengun díselhreyfils - reykþykknimælir: Mælingar á útblæstri díselvéla.
Snúningshraðamælir (valkvæður): Mat á snúningshraða hreyfils vegna mælinga á útblástursmengun eða hávaðamengun.
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
Hávaðamælir: Mælingar á hávaða frá vélknúnum ökutækjum.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Tilskipun um skoðun ökutækja nr. 2014/45/EU.
Efni kaflans
Hópbifreið - dyr, sæti, merkingar
Sjá skjal um tækniupplýsingaskráningar í skráningareglum ökutækja.
Farþegafjöldi og sæti
Sjá samnefnt skjal í kafla 6 hér í skoðunarhandbókinni.
Flutningur á hreyfihömluðum
Sjá notkunarflokkaskjal í skráningareglum ökutækja.
Flutningur á skólabörnum
Sjá notkunarflokkaskjal í skráningareglum ökutækja.