Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júlí 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Kröfur til skoðunarstofa

    Lýsing á kröfum til skoðunarstofa er í kafla III í reglugerð um skoðun ökutækja. Samantekt helstu atriða og túlkanir:

    • Skoðunarstofa sem annast allar skoðanir ökutækja skal hljóta viðurkenningu Samgöngustofu og vera faggilt skoðunarstofa af gerð A samkvæmt kröfum ÍST EN ISO/IEC 17020. Umfang viðurkenningarinnar miðast við þann búnað sem er til staðar.

    • Skoðunarstofa sem annast einungis endurskoðanir ökutækja í starfsemi sinni sem bílaverkstæði, svokallað endurskoðunarverkstæði, skal hljóta viðurkenningu Samgöngustofu og vera faggilt skoðunarstofa af gerð B samkvæmt kröfum ÍST EN ISO/IEC 17020. Viðurkenningin getur tekið til ökutækja að hluta eða heild.

    • Skoðunarstofur skulu hafa tæknilegan stjórnanda, skoðunarmenn, húsnæði, aðstöðu og tækjabúnað, auk þess að taka þátt í faglegu samstarfi og sinna öðrum tilteknum verkefnum.

    • Ef skoðunarstofa framkvæmir reglubundna skoðun á eigin ökutækjum, þeim sem hún hefur umráð yfir eða ökutækjum starfsmanna sinna skal skoðunarstofan setja sérstakar reglur sem tryggir hlutleysi þeirra skoðana.

    • Samgöngustofa getur afturkallað viðurkenningu skoðunarstofanna tímabundið eða að fullu ef viðkomandi uppfyllir ekki lengur skilyrði bráðabirgðastarfsleyfis eða viðurkenningar, eða fer út fyrir leyfilegt starfssvið sitt eða fer ekki eftir reglum með því að; skoða önnur ökutæki en henni er heimilt, sinna ekki innheimtu gjalda sem henni eru falin, virða ítrekað ekki fyrirmæli í skoðunarhandbók, eða sinna ekki skriflegum fyrir­mælum eða aðvörunum Samgöngustofu um úrbætur.

    Kröfur til skoðunarmanna

    Lýsing á kröfum til skoðunarmanna er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja. Samantekt helstu atriða og túlkanir:

    • Skoðunarmaður sem sinnir reglubundnum skoðunum á ökutækjum skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu.

    • Skoðunarmaður skal hafa sveinspróf í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði eða vélvirkjun.

    • Skoðunarmaður skal hafa sótt námskeið fyrir skoðunarmenn og vera viður­kenndur sem slíkur.

    • Skoðunarmaður þarf að hafa ökuréttindi á þau ökutæki sem hann skoðar. Þetta ákvæði gildir um þau ökutæki sem skoðunarmaður þarf að aka sjálfur til að geta framkvæmt skoðun sína.

    • Skoðunarmaður þarf að hafa nægan skilning á íslensku til að geta framkvæmt skoðun samkvæmt skoðunarhandbók og útskýrt niðurstöðu skoðunar fyrir eiganda (umráð­anda) ökutækis.

    • Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu skoðunarmanns ef hann uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu.

    Kröfur til tæknilegs stjórnanda

    Lýsing á kröfum til tæknilegs stjórnanda er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja. Saman­tekt helstu atriða og túlkanir:

    • Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu.

    • Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera verkfræðingur, tæknifræðingur eða meistari í bifvélavirkjun og hafa a.m.k. fjögurra ára skjalfesta starfsreynslu á bíltækni­sviði eða jafngildi þess.

    • Tæknilegur stjórnandi skal hafa sótt námskeið fyrir skoðunarmenn og vera viður­kenndur sem slíkur.

    • Tæknilegur stjórnandi ber tæknilega ábyrgð á skoðunarstofunni og skal vera ráðinn þar í fast starf.

    • Tæknilegur stjórnandi skal taka virkan þátt í að leiðbeina skoðunarmönnum og tryggja að skoðanir séu framkvæmdar í samræmi við skoðunarhandbók.

    • Tæknilegur stjórnandi er tengiliður skoðunarstofunnar við Samgöngustofu.

    • Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu tæknilegs stjórnanda ef hann uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu.

    Kröfur um grunnþjálfun, endurmenntun og viðurkenningu

    Lýsing á kröfum um grunnþjálfun, endurmenntun og viðurkenningu tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og taka þau formlega gildi 1. janúar 2025 (fram til þess tíma halda gildi sínu ákvæði 3. mgr. 24. gr. eldri reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009).

    Saman­tekt helstu atriða í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og túlkanir:

    • Grunnþjálfun tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna ásamt endurmenntun skoðunarmanna skal fara fram í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur og hjá námskeiðshaldara sem Samgöngustofa viðurkennir (öðlast þá heitið viðurkennd þjálfunarstöð).

    • Tæknilegur stjórnandi og skoðunarmaður skal standast bóklegt og verklegt próf að lokinni grunnþjálfun sem er í samræmi við námskrána.

    • Samgöngustofa eða viðurkennd þjálfunarstöð gefur út skírteini til tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanns þegar skilyrði viðurkenningar eru uppfyllt. Takmarka má umfang viðurkenningar skoðunarmanns. Viðurkenning skoðunarmanns gildir í 5 ár.

    • Við endurnýjun á viðurkenningu skoðunarmanns skal hann sitja endurmenntunar­nám­skeið um reglubundnar skoðanir á þeim ökutækisflokkum sem hann er viðurkenndur fyrir. Endurnýjun viðurkenningar skal gilda í 5 ár.

    Að auki gildir:

    • Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu ef tæknilegur stjórnandi eða skoðunar­maður uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu. Skoðunar­manni sem uppfyllir ekki lengur kröfur til viðurkenningar ber skylda til að tilkynna það til Samgöngustofu.

    Kröfur til skoðunartækja og undanþágur um notkun

    Lýsing á kröfum um tækjabúnað skoðunarstöðva sem viðurkenndar eru til að skoða reglu­bundnar skoðanir er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og í viðauka I í reglugerð­inni. Samantekt helstu atriða og túlkanir (sjá einnig samantekt á búnaði og túlkanir á kröfum í kröfuskjalalista stoðrits):

    • Skoðanir skulu framkvæmdar í viðeigandi aðstöðu og með viðeigandi búnaði. Nota ber viðeigandi búnað eftir því hvaða ökutækisflokka er verið að skoða (sjá Töflu IV.1).

    • Heimilt er að nota færanlegar prófunareiningar.

    • Hægt er að sameina tvö eða fleiri tæki í eitt samsett tæki, að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á nákvæmni hvers tækis.

    • Búnaður sem notaður er til mælinga þyngdar, þrýstings og hljóðstigs skal kvarðaður og stilltur eigi sjaldnar en á 24 mánaða fresti og til mælinga á losun lofttegunda eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti.

    • Heimilt er að nota hemlaklukku við hemlaprófun í þeim tilvikum þar sem ekki verður við komið að færa ökutæki á hemlaprófara, s.s. ef um utanvegaökutæki, kranabifreið eða beltabifreið er að ræða eða ökutæki er stærra en reglugerð um stærð og þyngd ökutækja segir til um.

    • Skoðunarstofu er heimilt að skoða ökutæki sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd á endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði þótt hentug gryfja eða lyfta sé ekki til staðar ef lengra en 80 km er í skoðunarstofu sem hefur yfir að ráða gryfju eða lyftu. Skal þá tryggt að viðeigandi hemlaprófari sé notaður við skoðunina. Tryggja skal að öll atriði séu skoðuð samkvæmt skoðunarhandbók þrátt fyrir að gryfja eða lyfta sé ekki til staðar.

    Tafla IV.1: Tilskilinn lágmarksbúnaður við framkvæmd skoðunar skv. viðauka I í reglugerð um skoðun ökutækja. Merkt er við með x (Óháð orkugjafa), P (Bensín/rafkveikja) og D (Dísilolía/þjöppu­kveikja). Valkvæð tæki eru merkt með 1) og flokkur T2) gildir fyrir ökutækisflokka T1b, T2b, T3b, T4.1b, T4.2b og T4.3b.

    Tafla IV.1