Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Aðrar verklagsbækur

    Efni kaflans

    Umfang og ferli

    Umfang

    Við ADR-skoðun fer fram athugun á því hvort á og í ökutæki sé viðeigandi öryggisbúnaður sem gildir um ökutæki sem flytja hættulegan farm. Samantekt á þeim atriðum eru í þessu skjali.

    Auðkenning ökutækis

    Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.


    Skoðunaratriði

    Í töflunum eru talin upp þau atriði sem skoðuð eru í ADR-skoðun. Aðeins er hægt að dæma atriðin í flokk 2 sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið. Sjá nánari skýringar neðar.

    .

    S-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður fyrir hvern og einn áhafnarmeðlim í bifreið.

    Nr

    Atriði

    Skýring

    S05

    Endurskinsfatnaður

    Endurskinsvesti eða endurskinsklæðnaður (t.d. eins og lýst er í EN ISO 20471).

    S10

    Vasaljós

    Án málmyfirborðs sem gæti myndað neista.

    S15

    Hlífðarhanskar

    S20

    Augnhlífðarbúnaður

    Öryggisgleraugu algengust.

    .

    A-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður ADR-ökutækja (bæði bifreiða og eftirvagna eftir atvikum), óháð því hvaða varúðarmerki eru á umbúðum.

    Nr

    Atriði

    Skýring

    A05

    Slökkvitæki

    Bifreið og eftirvagn. Sjá nánari skýringar neðar.

    A10

    Stoppklossar

    Bifreið og eftirvagn. Einn pr ökutæki. Stærð miðist við þunga ökutækis og þvermál hjólbarða.

    A15

    Viðvörunarmerki

    Bifreið. Tvö frístandandi. Keilur eða viðvörunarþríhyrningar algengastir.

    A20

    Augnskol

    Bifreið. Augnskolvökvi. Þarf ekki fyrir varning með varúðarmerki 1, 1.4, 1.5, 1.6, 2.1, 2.2 eða 2.3 á umbúðum (sjá neðar).

    A25

    Hættumerki

    Bifreið og eftirvagn. Rauðgul merki með gliti, að framan og aftan. Sjá nánari skýringar neðar.

    .

    T-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður ADR-ökutækja vegna tiltekinna áhættuflokka (bæði bifreiða og eftirvagna eftir atvikum), miðast við hvaða varúðarmerki eru á umbúðum og útfærslu yfirbyggingar.

    Nr

    Atriði

    Skýring

    T05

    Öndunargríma

    Bifreið. Aðeins krafist þegar fluttur er varningur með varúðarmerki 2.3 eða 6.1 á umbúðum (sjá neðar).

    T10

    Skófla

    Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar).

    T15

    Þéttibúnaður fyrir niðurföll

    Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar).

    T20

    Uppsöfnunarílát úr plasti

    Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar).

    T25

    Þrýstiprófun á áföstum tanki

    Bifreið og eftirvagn með áföstum tanki. Framvísa gildri þrýstiprófun tanks, annað hvort með skoðunarskýrslu frá Vinnueftirlitinu eða merkingu á tanki.

    Nánari skýringar á skoðunaratriðum

    Slökkvitæki (A05)

    Fjöldi slökkvitækja og slökkvimáttur (stærð):

    • Ökutæki ≤3,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 4 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C).

    • Ökutæki >3,5t og ≤7,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 8 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 6 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C).

    • Ökutæki >7,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 12 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 6 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C). Til að ná lágmarks slökkvimætti (12 kg) verður annað hvort að fjölga slökkvitækjum eða stækka þessi tvö.

    • Við flutning stykkjavöru: Eitt 2 kg duftslökkvitæki (eða tilsvarandi slökkvimátt með öðru heppilegu slökkviefni) er nægjanlegt í ökutæki sem flytja hættulegan farm í stykkjavöru. Samkvæmt undanþágureglu í lið 1.1.3.6 í ADR-reglum.

    Önnur ákvæði er varða kröfur til slökkvitækja:

    • Gerð: Slökkvitæki í ökutæki skal vera af viðurkenndri gerð fyrir A, B og C brunaflokka og skal vera komið fyrir í festingum sem því er ætlað.

    • Innsigli: Handslökkvitæki eiga að vera með innsigli svo hægt sé að sannreyna hvort þau hafi verið notuð.

    • Staðsetning: Staðsetja skal slökkvitæki þannig að þau séu auðveldlega aðgengileg fyrir áhöfn ökutækisins og að þau séu varin veðuráhrifum þannig að nothæfi þeirra verði ekki fyrir áhrifum.

    • Slökkvikerfi fyrir vél: Sé ökutæki búið áföstu slökkvikerfi til þess gert að slökkva eld í vél, skal það þannig búið að það losi ekki eitraðar loftegundir inn í stjórnhús bifreiðarinnar eða vegna hita frá eldi.

    • Leiðbeiningar: Á slökkvitæki skulu vera leiðbeiningar á íslensku um notkun þess.

    • Vottun: Ef áskilið slökkvitæki er dufttæki skal það vera með innan við ársgamla vottun frá viðurkenndri slökkvitækjaþjónustu um að slökkvitækið sé í lagi.

    Hættumerki (A25)

    Við flutning á hættulegum farmi skal ökutæki merkt með tveimur ferhyrndum appelsínugulum merkjum, búnum endurskini. Merkin skulu vera 400 mm að lengd og 300 mm að hæð með 15 mm breiðri svartri umgerð. Þeim skal komið fyrir þannig að þau sjáist vel að framan og aftan á ökutæki eða eftir atvikum vagnlest. Sé erfitt að koma fyrir merkjum af umræddri gerð vegna stærðar eða lögunar ökutækis, má hafa þau 300 mm að lengd, 120 mm að hæð og umgerð 10 mm breiða. Sjá nánar reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi, III. viðauka.

    Öndunargríma (T05)

    Öndunargríma er t.d. öndunargríma með samsettri gas-/ryksíu af gerðinni A1B1E1K1-P1 eða A2B2E2K2-P2, sem eru svipaðar og lýst er í EN 14387:2004 + A1:2008 staðlinum.

    Varúðarmerki á umbúðum og flutningseiningum (A20, T05-T20)

    Varúðarmerki á umbúðum varningsins sem ætlunin er að flytja gera kröfu um tiltekinn öryggisbúnað ADR-ökutækja (T-atriðin) eða undanskilja kröfuna (atriði A20). Ökutæki skal, þegar flutt eru sprengifim efni, geislavirk efni, ósekkjaður farmur eða farmur í tanki, merkt á báðum hliðum og að aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum. Gámur eða gámatankur sem hættulegur farmur er fluttur í, skal merktur á báðum hliðum, að framan og aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum.

    • A20 (augnskols ekki krafist): Varningur með varúðarmerki 1, 1.4, 1.5, 1.6 eru sprengifim efni og hlutir, 2.1, 2.2 og 2.3 eru óeldfimar, eldfimar og/eða eitraðar lofttegundir.

    • T05 (öndunargrímu krafist): Varningur með varúðarmerki 2.3 eru eitraðar lofttegundir, 6.1 eru eitruð efni.

    • T10, T15, T20 (upphreinsiáhalda krafist): Föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3 eru eldfimir vökvar, 4.1, 4.3 eru eldfim efni og lofttegundir, 8 eru ætandi efni, 9 eru önnur hættuleg efni og hlutir.


    Frávik og niðurstaða

    Frávik við ADR-skoðun og niðurstaða

    Sé gerð athugasemd við eitthvert skoðunaratriði verður niðurstaða skoðunar „Endurskoðun“ og ökutækið telst ekki hafa staðist skoðunina. Eigi að skrá ökutækið í viðkomandi rekstur í framhaldi af skoðun er þeirri skráningu hafnað. Annars er heimilt er að klára umsóknarferil og/eða staðfesta áframhaldandi leyfi fyrir viðkomandi ökutæki.

    Númer skoðunaratriða

    Númer skoðunaratriða á skoðunarvottorði eru ADR.xxx.2, þar sem ADR er fast forskeyti, xxx er númer atriðis hér að ofan, og 2 er fasti sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið. Dæmi: ADR.T05.2 merkir að athugasemd hafi verið gerð við öndunargrímu.


    Kröfur til skoðunarmanna

    Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2024):

    • G- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 1077/2010.

    • Evrópusamningur um flutninga á hættulegum farmi á vegum, sem undirritaður var í Genf 1957 / ADR-samþykktir, kafli 9.

    • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.

    • Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.

    • Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.