Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Um breytingar á ökutækjum

    Ýmsar ástæður geta legið að baki því að eigendur (umráðendur) ökutækja vilja breyta þeim frá núverandi útfærslu. Þegar slík breyting kallar á breytta skráningu í ökutækjaskrá ber í öllum tilvikum að framkvæma breytingaskoðun á ökutækinu strax eftir að breyting hefur farið fram. Í breytingaskoðunum eru breytingarnar teknar út og skráningu ökutækisins breytt standist það skoðunina. Að öðrum kosti er skráningu breytinganna hafnað.

    Almennt þarf ekki að sækja um að breyta ökutæki til Samgöngustofu áður en ráðist er í breyt­ingar. Í tilteknum tilvikum þarf þó að skila inn gögnum til Samgöngustofu og fá þau samþykkt áður en breyting hefst. Þessu er nánar lýst í næstu köflum.

    Í breytingaskoðun ber að skoða útfærslu þeirra hluta ökutækisins sem breyta hefur þurft til að ökutækið uppfylli kröfur hinnar breyttu skráningar, ásamt ástandi þessara atriða. Ástand, gerð eða útfærsla annarra hluta ökutækisins, sem ekki teljast til breytingarinnar, á ekki að gera athugasemdir við í breytingaskoðun, nema annað sé tekið fram.

    Þegar breytingar uppgötvast við skoðun

    Við samanburð við skráningu ökutækis við skoðun getur uppgötvast að breytingar hafi verið gerðar á ökutæki, sbr. lýsingu í kafla VI Framkvæmd skoðana og samanburður við skráningu. Fylgt er framkvæmdinni eins og henni er lýst þar og ef niðurstaðan verður sú að breytinga­skoða ökutækið verður framkvæmdin eins og lýst er í næstu köflum.

    Algengar breytingar – framkvæmd breytingaskoðana

    Breytingar á notkunarflokki

    Við breytingu á ökutæki til samræmis við annan notkunarflokk er ekki gerð krafa um fyrirfram samþykki Samgöngustofu vegna þeirra. Við skoðun er gerð og búnaður ökutækisins með tilliti til nýja notkunarflokksins yfirfarinn.

    Í skráningareglum ökutækja er að finna samantekt á kröfum um gerð og búnað sem gilda um sérhvern þeirra, hvort krafa er gerð um breytingaskoðun við breytingar milli þeirra og hvort einhver önnur skilyrði gilda um breytinguna.

    Breytingar á ökutækisflokki

    Við breytingar á ökutæki til samræmis við annan ökutækisflokk getur verið gerð krafa um fyrirfram samþykki Samgöngustofu. Við skoðun er gerð og búnaður ökutækisins yfirfarinn með tilliti til nýja ökutækisflokksins.

    Í skráningareglum ökutækja er að finna upplýsingar um ökutækisflokka til að einfalda þá vinnu, m.a. milli hvaða ökutækisflokka má breyta.

    Við breytingu ökutækis í eftirfarandi ökutækisflokk er krafist fyrirfram samþykkis Samgöngu­stofu:

    • Hópbifreið (M2, M3). Nauðsynleg gögn vegna þessarar breytingar eru teikningar af skipan fólks- og farmrýmis (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram), sjá nánar um kröfur til teikninga í samnefndum lið í næsta kafla.

    Ýmsar aðrar breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækja

    Við breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækis getur verið gerð krafa um fyrirfram sam­þykki Samgöngustofu (tilgreint í upptalningunni hér neðar).

    Við skoðun eru viðkomandi breytingar yfirfarnar með hliðsjón af þeim kröfum sem gilda. Þegar um er að ræða veigamiklar breytingar á stórum hluta ökutækisins, eða breyting­arnar hafa áhrif á aðra eiginleika ökutækisins, ber að skoða öll atriði handbókar­innar. Í leiðbeiningaskjölum í stoðriti og í skráningareglum ökutækja er að finna upplýsingaskjöl sem aðstoða við þá vinnu, viðeigandi skoðunaratriði handbókar­innar eru svo notuð við dæmingar vegna þeirra annmarka sem finnast (eða hafna verður skoðun).

    Eftirfarandi breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækja eru algengastar:

    • Breytingar á fjölda og/eða gerð ása vörubifreiða samkvæmt leiðbeiningum framleið­anda. Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru leiðbeiningar framleiðanda um slíkar breytingar (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).

    • Breytingar á grind og yfirbyggingum vöru- og hópbifreiða samkvæmt leiðbeiningum framleið­anda. Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru leiðbeiningar framleið­anda um slíkar breytingar (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).

    • Breytingar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett). Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru teikningar af breyttri skipan farþega- og farmrýmis hópbíls (framvísa til Samgöngustofu til sam­þykktar fyrirfram).

    • Farþegafjöldabreytingar (bæði í hópbifreið og öðrum ökutækjum). Nauðsynleg gögn vegna breytinga á hópbílum eru teikningar af breyttri skipan farþega- og farmrýmis, sbr. fyrri lið.

    • Breytingar á gerð eða stærð hreyfils eða viðbótarorkugjafa. Nauðsynleg gögn vegna þessarar breytingar eru gögn frá framleiðanda um hinn nýja hreyfil eða tilvísun í það ökutæki sem hreyfillinn var tekinn úr, eða um viðbótarorkugjafann (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).

    • Úttekt á nýjum tengibúnaði bifreiða.

    Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar, svo sem stýrisbúnaði, hemlabúnaði, aflrás, hjólum, grind og yfirbyggingu, hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleið­anda og ekki eru til leiðbeiningar um frá honum, er bifreiðin skráð sem "Breytt bifreið". Slíkar bifreiðir eru merktar með áletruninni "Viðvörun! Þetta er breytt bifreið með aðra aksturs­eigin­leika en upphaflega". Skoða ber öll atriði handbókar­innar í þessum tilvikum.

    Algengast er að verið sé að gera bifreið að öflugri torfærubifreið (stærri dekk og hækkun með tilheyrandi áhrifum á drifbúnað, ása og stýrisbúnað) en ekki má gleyma að um annars­konar breytingar getur líka verið að ræða. Almennt má segja að allar gerðar­breytingar, útfærslu­breytingar og viðbætur varðandi stýrisbúnað, hemla, fjaðrir og ása, geri bifreið að breyttri bifreið, allar lengdarbreytingar á grind og sjálfberandi yfirbyggingu þannig að breyting verður á hjólhafi, svo og allar styrkleikabreytingar berandi hluta.

    Um breytingar á veigamiklum atriðum bifreiða gildir eftirfarandi rammi:

    • Sérsmíðaðir íhlutir ökutækja: Óheimilt er að nota sérsmíðaða hluti í bifreið (sem hafa aðra eiginleika en upprunalegri hlutir og koma í stað þeirra) nema íhlutirnir hafi staðist úttekt viðurkennds aðila (sem Samgöngustofa viðurkennir). Á þetta við um íhluti sem haft geta áhrif á örugga notkun bifreiðarinnar, svo sem (og ekki einskorðað við) íhluta í stýrisgangi, aflrás, hemlakerfi og fjaðrabúnaði. Skýrsla viðurkennds úttektaraðila um viðkomandi íhlut skal fylgja bifreið þegar hún er færð til breytinga­skoðunar.

    • Heimilar hæðarbreytingar: Heimil heildarhækkun bifreiðar (með því að auka bil milli yfirbyggingar og ása, þ.e. milli fjaðra og ása og/eða húss og grindar) þannig að bifreið hækki um 50 mm án þess að hún verði breytt bifreið, svo framarlega að breytingin hafi ekki áhrif á halla eða stefnu hjóla eða stýrisvala. Annars er heimilt að heildar­hækkun bifreiðar verði allt að 250 mm og má mismunur hækkunar að framan og aftan ekki vera meiri en 50 mm. Að auki gildir að hækkun má ekki vera meiri en 50 mm milli blaðfjaðra og framáss, 100 mm milli annarra fjaðra og framáss, 100 mm milli fjaðra og afturáss, 100 mm milli húss og grindar og 200 mm milli hjólmiðju og grindar.

    • Hjólastærðarbreytingar: Heimilt er að breyta hjólastærð (þvermáli) um allt að 10% frá upprunalegri stærð framleiðanda án þess að bifreiðin verði breytt bifreið. Við aðrar breytingar þarf hraðamælavottorð að fylgja bifreið þegar hún er færð til breyt­ingaskoðunar. Heimilt er að hafa það stóra hjólbarða að þvermál þeirra nái allt að 44% af hjólhafi en að þeim skilyrðum uppfylltum að unnt sé að aka bifreiðinni á öruggan hátt, hemlar nái að stöðva bifreiðina á virkan hátt og fylgt sé reglum um skermun hjóla.

    • Styrkur yfirbyggingar breyttrar torfærubifreiðar: Ef yfirbygging er þannig að velti­styrkur bifreiðarinnar telst ekki fullnægjandi (t.d. blæjur, plastskýli) skal bifreiðin búin viðurkenndri veltigrind.

    • Hjólastöðubreytingar: Hafi breyting verið gerð á hjólabúnaði og/eða stýrisbúnaði, sem haft getur áhrif á hjólastöðu, skal hjólastöðuvottorð fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.

    • Krafa um öryggisbúnað: Þegar bifreið er orðin breytt bifreið skal hún búin öryggis­beltum í framsætum (hafi hún verið undarskilin slíkum kröfum). Breytt bifreið á að hafa slökkvitæki og sjúkrakassa.

    • Áhrif breytinga á ljósabúnað o.fl.: Hafi hæð ökutækis verið breytt með þeim afleið­ingum að aðalljósker fara upp fyrir almenna hámarkshæð gilda sérreglur um stillingu aðalljóskera. Einnig gæti þurft að búa bifreiðina árekstrarvörn að framan- og/eða aftanverðu.

    Nánari samantekt á kröfum til breytta bifreiða er að finna í leiðbeiningaskjali í stoðriti, ásamt þeim kröfum sem Samgöngustofa gerir til viðurkenningar úttektar­aðila sérsmíðaðra íhluta í bifreiðir og um m.a. ferli raðframleiðslu og skýrslugjöf.

    Verulegir annmarkar á breytingum sem valda höfnun

    Ef í ljós kemur við breytingaskoðun að mikilvæg atriði er varða breytinguna uppfylla ekki kröfur, er breytingunni hafnað og skoðuninni líka. Þetta eru þá atriði sem eru umfram það að geta talist til slits sem almennt væri gerð athugasemd við í reglubundinni skoðun. Eiganda (umráðanda) ber þá skylda til að bæta strax úr þeim veigamiklu atriðum sem uppfylltu ekki kröfur eða að öðrum kosti hætta viðbreytinguna. Hætti eigandi (umráðandi) við breyt­inguna er engra frekari aðgerða þörf af hans hálfu, en klári hann breytinguna ber honum að færa ökutækið til breytingaskoðunar á ný. Við höfnun skoðunar og skráningar er send tilkynn­ing til Samgöngustofu um þá afgreiðslu, sjá vinnulag við höfnun skoðunar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Komi eftirfarandi í ljós við breytingaskoðun er litið svo á að um verulega annmarka sé að ræða sem valda höfnun skoðunar og skráningar:

    • Áskilin gögn, teikningar eða upplýsingar vegna breytinga fylgja ekki, hafa ekki verið samþykkt fyrirfram af Samgöngustofu eða breyting ökutækis er ekki í samræmi við samþykkt gögn.

    • Við veigamiklar breytingar á bifreið (breytt bifreið) hefur hækkun verið umfram mörk (eða ekki hægt að mæla fjöðrunarsvið vegna galla í stillingu loftpúðafjöðrunar), breyt­ing hjóla­stærðar er ekki í samræmi við kröfur, styrkur yfirbyggingar breyttrar torfæru­bifreiðar ekki í samræmi við kröfur eða ráðstafanir vegna áhrifa á breytingar ekki gerðar í samræmi við kröfur (á ljósabúnað eða árekstrarvörn).

    • Ökutæki er orðið of stórt (of breitt, of langt eða of hátt) eða of langt fyrir aftan afturás eða afturásasamstæðu (og ekki skráð sem undanþáguökutæki).

    • Burðargeta er ekki næg, s.s. við breytingar á sætafjölda (of mörg sæti miðað við burðar­getu) eða við breytingu á eiginþyngd (burðargeta ása eða heildarþyngd of lítil þegar í ljós kemur að eiginþyngd á einstaka ása er orðin meiri en burðargeta þeirra eða eigin­þyngd ökutækis meiri en skráð heildarþyngd).

    • Ökutæki er ekki búið þeim áskilda búnaði sem nýr notkunarflokkur gerir kröfur um. Sé allur búnaður til staðar en ástand hans samt að einhverju leyti ófullnægjandi, er skoðun og skráningu ekki hafnað ef hægt er að dæma á það ástand á skoðunar­vottorði sam­kvæmt verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.