Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júlí 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Framkvæmd skoðana af öllum tegundum

    Í kaflanum er farið yfir framkvæmd þeirra skoðana sem skoðunarhandbókin tekur til. Í sviga fyrir aftan sérhverja skoðunartegund er kóði skoðunarinnar sem notaður er í samskiptum við ökutækjaskrá. Skoðanir "fyrra árs" eru notaðar þegar dregist hefur yfir áramót að skoða öku­tækið og reiknast þá skoðunartíðni frá réttu ári, sjá nánar um skoðunartíðni í kafla X Meðferð skoðunarmiða og tíðni skoðana.

    Framkvæmd aðalskoðana

    Aðalskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "Aðalskoðun" (A)

    • "Aðalskoðun fyrra árs" (X)

    Við aðalskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunar­atriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki. Niðurstaða aðalskoðunar skal vera óháð niðurstöðum undangenginna skoðana.

    Framkvæmd endurskoðana

    Endurskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "Endurskoðun" (E)

    • "Endurskoðun fyrra árs“ (Z)

    • "Endurskoðun v/breytinga" (K)

    • "Endurskoðun v/skráningar" (C)

    • "Endurtekin aðalskoðun" (EA)

    Við endurskoðanir er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Við allar tegundir endur­skoðana, nema endurtekna aðalskoðun, skal einungis skoða þau skoðunaratriði sem þarfnast viðgerðar samkvæmt undangenginni skoðun. Um leið skal ganga úr skugga um að lagfæring fráviks hafi ekki kallað fram nýja annmarka, en hafi það gerst skal dæmt á nýju annmarkana. Þetta á t.d. við um viðgerð á ljósabúnaði (s.s. perum), hemlum (s.s. slöngum), stýrisbúnaði (s.s. stýrisendum), hjólabúnaði (s.s. felguboltum).

    Við endurtekna aðalskoðun (þ.e. endurskoðun eftir að frestur til endurskoðunar er liðinn) skal ökutækið skoðað á sama hátt og um aðalskoðun væri að ræða.

    Framkvæmd breytingaskoðana (almennra breytinga og sérskoðana)

    Breytingaskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "Breytingaskoðun" (B)

    Við breytingaskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Skal skoðunin beinast að þeim búnaði eða útfærslu ökutækisins sem breytingin tekur til. Nánari lýsingu er að finna í kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.

    Framkvæmd skráningarskoðana (allra gerða)

    Skráningarskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "Skráningarskoðun" (S) (bæði v/nýskráningar og v/endurskráningar)

    Við skráningarskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir til að meta ástand ökutækisins. Við mati á ástandi skal skoða öll atriði bókarinnar og dæma eftir því sem við á um sérhvert ökutæki. Að auki er notuð verklagsbók um skráningarskoðanir til að tryggja að viðeig­andi kröfur til ökutækisins séu uppfylltar fyrir skráningu og það verði rétt skráð í öku­tækjaskrá.

    Ef skráningarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu með aðkomu Samgöngustofu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Framkvæmd samanburðarskoðana

    Samanburðarskoðun ökutækja er eftirfarandi skoðunartegund:

    • "Samanburðarskoðun" (SB)

    Við samanburðarskoðun er notuð verklagsbók fyrir samanburðarskoðanir. Skoðunin á að tryggja að viðeigandi kröfur til ökutækisins séu uppfylltar fyrir skráningu og það verði rétt skráð í ökutækjaskrá.

    Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu með aðkomu Samgöngustofu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Framkvæmd aukaskoðana að kröfu lögreglu

    Aukaskoðun ökutækja að kröfu lögreglu er eftirfarandi skoðunartegund:

    • "Aukaskoðun að kröfu lögreglu" (U)

    Við aukaskoðun að kröfu lögreglu er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunar­atriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.

    Áréttað er að aukaskoðun að kröfu lögreglu skal gerð óháð þeim atriðum sem lögregla kann að hafa fundið eða bent á í boðun sinni (séu upplýsingar um þau atriði tiltæk). Því kunna að finnast önnur eða fleiri atriði í auka­skoð­uninni en lögregla gæti hafa tiltekið í boðun sinni.

    Framkvæmd ADR-skoðana

    Skoðanir ökutækja sem skráð eru til flutnings á hættulegum farmi, eða verið er að viðurkenna til slíks flutnings, skiptast í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "ADR-skoðun" (ADR)

    • "ADR-viðurkenningarskoðun" (ADV)

    Við skoðanir vegna ADR er notuð verklagsbók fyrir ADR-skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunar­atriði bókanna og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.

    Framkvæmd leyfisskoðana

    Leyfisskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:

    • "Leyfisskoðun" (LS)

    • "Eðalvagnaskoðun" (ES)

    • "Ferðaþjónustuleyfisskoðun" (FS)

    Við leyfisskoðun er notuð verklagsbók fyrir leyfisskoðanir. Lagt er mat á öll skoðunar­atriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.

    Samanburður við skráningu ökutækis

    Til að tryggja sem best að ökutæki sé rétt skráð í ökutækjaskrá og því hafi ekki verið breytt, er skylt að bera ökutækið saman við skráningu þess í tilteknum skoðunum (sjá upptalningu skoðana neðar). Samanburðurinn gildir um skráningaratriðin sem tilgreind er í töflu VI.1.

    Samanburður á verksmiðjunúmeri skal alltaf fara fram í öllum skoðunum og án undantekn­inga. Samanburður á öðrum atriðum fer fram eftir því sem tilefni er til, s.s. ef eitthvað bendir til að ökutæki hafi verið breytt eftir síðustu skoðun, langt er síðan ökutæki var skoðað síðast, ökutækið er óvenjulegt eða sérútbúið, eða það er að fara í sína fyrstu aðalskoðun frá skráningu, svo eitthvað sé nefnt.

    Skoðunarstofu er heimilt að senda inn leiðréttingu á skráningu ef allt bendir til að skráning sé hreinlega röng og að mati skoðunarstofu liggi réttar upplýsingar fyrir, sbr. forsendur skráningar í töflu VI.1. Samgöngustofa áskilur sér þó rétt til að meta réttmæti slíkra tilkynninga og leiðir mál til lykta í samvinnu við viðkomandi skoðunarstofu og eiganda (umráðanda) ef tilefni er til.

    Tafla VI.1. Skráningaratriði í ökutækjaskrá sem eiga að vera rétt skráð fyrir sérhvert ökutæki.

    Skráningaratriði

    Forsendur skráningar við skoðun eða viðbrögð við frávikum

    Verksmiðjunúmer

    Merking á ökutæki.

    Orkugjafi

    Hreyfill ökutækis.

    Notkunarflokkur

    Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og/eða önnur gögn.

    Ökutækisflokkur1)

    Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Farþegafjöldi

    Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Breidd2)

    Ökutækið mælt ef tilefni er til

    Lengd2)

    Ökutækið mælt ef tilefni er til.

    Eiginþyngd

    Má ekki vera autt.

    Stærð hjólbarða (viðeigandi hjóla)

    Á að vera innan 10% marka. Stærðarmerkingar á hjólbarða.

    Yfirbygging

    Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Sérbúnaður

    Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

    Breytingar breyttra bifreiða

    Útfærsla ökutækis.

    Litur

    Litur ökutækis.

    1) Ökutæki á að vera í samræmi við skráðan ökutækisflokk eftir 01.07.1990.

    2) Ökutæki á að vera skráð sem undanþáguökutæki eftir 01.01.2008 ef það er skráð stærra en hámarksgildi reglugerðar um stærð og þyngd ökutækja.

    Samanburður í aðalskoðunum

    Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutækið við aðalskoðanir. Komi upp frávik eru þrjár leiðir til að meðhöndla það:

    1. Senda inn leiðréttingu á skráningu (á US.111 breytingatilkynningu). Það á þó bara við ef gildi var ranglega skráð í upphafi eða hafði aldrei verið skráð og rétt gildi er tiltækt. Þar með lýkur málinu og aðalskoðun ökutækisins miðast við hina leiðréttu skráningu ökutækisins (hafi hún áhrif).

    2. Bjóða upp á viðeigandi breytingaskoðun og skráningunni þannig breytt til samræmis við ökutækið. Þiggi eigandi (umráðandi) það er breytingaskoðun framkvæmd sam­hliða aðalskoðun og miðast aðalskoðunin við hina breyttu skráningu ökutækisins. Sjá einnig kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.

    3. Ef hvorug leiðin er fær ber skoðunarstofunni að hafna skoðun, sjá kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Samanburður í breytingaskoðunum

    Samanburður er gerður á þeim skráningaratriðum sem tengja má viðkomandi breytingaskoðun. Ný og breytt gildi, ásamt leiðréttingum ef þörf er á, eru tilkynnt á breytingatilkynningunni sem notuð er til að tilkynna þær breytingar sem orðið hafa á ökutækinu og eru ástæða breytinga­skoðunarinnar. Sjá nánar í kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.

    Ef breytingaskoðun leiðir í ljós frávik sem heimila ekki skráningu viðkomandi breytinga á ökutækinu, sjá kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja, er óheimilt að breyta ökutækinu og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Samanburður í skráningarskoðunum

    Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutæki við skráningarskoðanir. Komi upp frávik, samanber nánari lýsingu í verklagsbók um skráningarskoðanir, eru rétt gildi tilkynnt á breytingatilkynningu samhliða beiðni um nýskráningu.

    Ef skráningarskoðun leiðir í ljós frávik sem heimila ekki nýskráningu ökutækisins, sjá kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja, er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Samanburður í samanburðarskoðunum

    Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutækið við samanburðarskoðanir. Komi upp frávik, samanber nánari lýsingu í verklagsbók um samanburðarskoðanir, eru rétt gildi tilkynnt á breytingatilkynningu samhliða beiðni um nýskráningu.

    Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Samanburður í öðrum skoðunum

    Ekki er gerður samanburður á skráningaratriðum í öðrum skoðunum (að undanskyldu verk­smiðju­númeri).