Skoðunarhandbók ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.
Efni kaflans
Umfang skráningarskoðunar
Skráningarskoðun er tæknileg úttekt á nýju eða notuðu ökutæki fyrir nýskráningu sem gefur upplýsingar um það hvort tiltekið ökutæki er í samræmi við viðurkenningu sína og það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá, hvaða upplýsingar það eru sem á eftir að skrá og hvert ástand ökutækisins er. Skráningarskoðun er einnig gerð á ökutæki fyrir endurskráningu og miðast umfang skoðunarinnar þá við að ökutækið hafi áður verið viðurkennt og skráð hér á landi.
Ökutækið er auðkennt: Tryggja verður að um rétt ökutæki sé að ræða. Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Þessu er lýst í kafla 0 í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir og viðbótarkröfum í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga skráningarviðurkenndra ökutækja í skráningareglum ökutækja. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu (nema náist að leiðrétta í samvinnu við Samgöngustofu).
Samanburður gerður á útfærslu ökutækisins við það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá: Það sem fært hefur verið í ökutækjaskrá byggir á upplýsingum sem Samgöngustofa hefur fengið með umsókn um forskráningu og mögulega aflað úr öðrum skrám eða með öðrum hætti. Ekki má gera breytingar á ökutæki frá því sem viðurkennt hefur verið áður en það er fært til skráningarskoðunar. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga skráningarviðurkenndra ökutækja í skráningareglum ökutækja.
Upplýsinga aflað af ökutækinu og réttar upplýsingar tilkynntar: Í forskráningarferlinu hefur jafnan verið framvísað gögnum eða staðfestingum á að tilteknar kröfur um gerð og búnað ökutækisins séu uppfylltar. Í einhverjum tilvikum eru þessar upplýsingar bara að finna á ökutækinu sjálfu og færist þá ábyrgðin til skoðunarstofu um að afla viðeigandi upplýsinga, taka mynd af þeim og skila á US.111. Þessu er lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga skráningarviðurkenndra ökutækja í skráningareglum ökutækja. Þar er að finna nákvæmt yfirlit yfir þau gildi sem á að yfirfara og skrá/leiðrétta eftir atvikum og þau gögn sem skila gæti þurft með.
Gerð og búnaður ökutækisins er skoðaður: Þetta athugun á því hvort ökutæki uppfyllir kröfur sem til þess eru gerðar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja og aðrar kröfur sem gilda eftir því sem við á. Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir er notuð í þessum tilgangi, ásamt mögulegum viðbótarkröfum sem gilda um notkunarflokka sem lýst er í skráningareglum ökutækja og hér í þessu skjali (aðrar kröfur).
Ástand ökutækisins skoðað: Hefðbundin reglubundin skoðun ökutækisins er gerð eins og lýst er í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.
Skráningarhæfi ökutækisins metið miðað við ofangreint: Ýmislegt getur gert það að verkum að skoðun og skráningu ökutækis skal hafnað í lok skráningarskoðunar. Þeim tilvikum er lýst á hverjum stað fyrir sig.
Skoðun á gerð og búnaði
Krafa er um tiltekna útfærslu, búnað og jafnvel viðurkenningarmerkingar á íhlutum í ökutækjum miðað við ökutækisflokka, fyrstu skráningu og jafnvel af öðrum ástæðum. Hér eru tekin saman þau atriði sem brýnt er að séu skoðuð vel fyrir algengustu ökutækisflokkana og eru þau öll í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir (ekki tæmandi listi). Finnist annmarkar eru þeir skráðir á skoðunarvottorð. Skoðun eða skráningu ökutækisins er ekki hafnað vegna þessa nema skoðunarstofa telji að um verulega annmarka sé að ræða (sé til dæmis verulega vanbúið, samanber lýsingu á verulegum annmörkum sem valda höfnun í VII kafla umfjöllunar um skoðunarkerfið).
Fólksbifreið og sendibifreið (M1, N1)
K1 - Geta aksturshemils (atriði 1.2.2) og stöðuhemils (atriði 1.4.2): Vista þarf niðurstöður úr hemlaprófi fyrir ökutæki með lofthemla. Skila til Samgöngustofu (í síðasta lagi frá 1. janúar 2026).
K3 - Rúður (atriði 3.2): Lagskipt öryggisgler í framrúðu áskilið (eftir 01.03.1988).
K3 - Baksýnisspeglar og -búnaður (atriði 3.3): Áskildir á fólksbifreið (eftir 01.01.1989) og sendibifreið (eftir 15.05.1964) og síauknar kröfur, sjá leiðbeiningaskjal.
K3 - Rúðusprauta á framrúðu (atriði 3.5): Áskilin (eftir 01.03.1988).
K4 - Ljósabúnaður (atriði 4.1-4.7, 4.9 og 4.12): Yfirfara áskilin ljósker og skoða sérstaklega vel virkni, staðsetningu og gaumbúnað. Viðurkenningarmerkingar skulu skoðaðar vandlega á aðaljóskerum (eftir 01.01.1989), aukaljóskerum háljósa (eftir 01.03.1994) og þokuljóskerum (eftir 01.07.1990). Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitaugu (atriði 4.8): Yfirfara áskilin glitaugu og skoða sérstaklega vel lit þeirra, viðurkenningarmerkingar (merkt frá 01.07.1990) og staðsetningu. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K5 - Fjöðrun (atriði 5.3): Áskilin á alla ása (þó ekki þörf á fornbifreiðum sem gerðar voru fyrir <30 km/klst hraða).
K5 - Höggdeyfar (atriði 5.3): Á öllum fjöðruðum ásum.
K6 - Farmskilrúm (atriði 6.1.1): Áskilið í sendibifreið (eftir 01.10.1990).
K6 - Undirvörn (atriði 6.1.4): Sjá leiðbeiningaskjal.
K6 - Dyrabúnaður (atriði 6.2.3): Tvöföld læsing áskilin (eftir 01.07.1990).
K6 - Höfuðpúðar (atriði 6.2.5 og 6.2.6): Áskildir í ystu framsætum fólksbifreiðar ≤3.500 kg (eftir 01.01.1983). Áskildir í ystu sætum sendibifreiðar (eftir 01.01.1983, þó ekki í þeim sem skráðar voru á tímabilinu 01.03.1988 til 01.07.1990).
K7 - Flauta (atriði 7.7): Áskilin (eftir 24.06.1937).
K7 - Öryggisbelti (atriði 7.1): Bifreið (minni kröfur til eldri), sjá leiðbeiningaskjal. Skulu bera viðurkenningarmerki og vera merkt framleiðanda (eftir 13.05.1994).
K7 - Hraðamælir (atriði 7.1): Skal hafa hraðamæli sem sýnir hraðann í km/klst (sem hægt er að lesa af í hvaða birtuskilyrðum sem er) (eftir 15.05.1964).
K7 - Viðvörunarþríhyrningur (atriði 7.4): Áskilinn (eftir 01.01.1989).
K7 - Slökkvitæki (atriði 7.2): Áskilið í breyttar fólks- og sendibifreiðir, sjá leiðbeiningaskjal.
K7 - Sjúkrakassi (atriði 7.5): Áskilinn í breyttar fólks- og sendibifreiðir, sjá leiðbeiningaskjal.
Vörubifreið og hópbifreið (N2, N3, M2, M3)
K1 - Hleðslustýrð hemlajöfnun (atriði 1.1.17): Skal vera á afturásum vörubifreiðar með tengibúnað fyrir eftirvagn III (eftir 01.07.1991 og til 01.01.2001, eftir það er krafa um ABS).
K1 - Hemlalæsivörn (ABS) (atriði 1.6): Vörubifreið >16.000 kg með tengibúnað fyrir eftirvagn III og IV eftir 01.01.1997 og svo allar vörubifreiðir eftir 31.03.2001. Hópbifreið >12.000 kg í undirflokki IIB eftir 01.04.1994 og svo allar hópbifreiðir eftir 31.03.2001.
K1 - Geta aksturshemils (atriði 1.2.2) og stöðuhemils (atriði 1.4.2): Vista þarf niðurstöður úr hemlaprófi fyrir ökutæki með lofthemla. Skila til Samgöngustofu (í síðasta lagi frá 1. janúar 2026).
K3 - Rúður (atriði 3.2): Lagskipt öryggisgler í framrúðu áskilið fyrir vörubifreiðir (eftir 01.03.1988) og hópbifreiðir (eftir 20.04.1980).
K3 - Rúðusprauta á framrúðu (atriði 3.5): Áskilin (eftir 01.03.1988).
K3 - Baksýnisspeglar og -búnaður (atriði 3.3): Áskildir (eftir 15.05.1964) og síauknar kröfur, sjá leiðbeiningaskjal.
K4 - Ljósabúnaður (atriði 4.1-4.7, 4.9 og 4.12): Yfirfara áskilin ljósker og skoða sérstaklega vel virkni, staðsetningu og gaumbúnað. Viðurkenningarmerkingar skulu skoðaðar vandlega þar sem þær eiga að vera (á aðaljóskerum (eftir 01.01.1989), aukaljóskerum háljósa (eftir 01.03.1994) og þokuljóskerum (eftir 01.07.1990)). Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitaugu (atriði 4.8): Yfirfara áskilin glitaugu og skoða sérstaklega vel lit þeirra, viðurkenningarmerkingar (merkt frá 01.07.1990) og staðsetningu. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitmerkingar (atriði 4.8): Yfirfara glitmerkingar og hafa sérstaklega í huga að reglur um glitmerkingar eru ekki að samræmdar milli landa og því mörg dæmi um óleyfilegar glitmerkingar (sérstaklega á notuðum vörubifreiðum). Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K5 - Fjöðrun (atriði 5.3): Áskilin á alla ása (þó ekki þörf á fornbifreiðum sem gerðar voru fyrir <30 km/klst hraða).
K5 - Höggdeyfar (atriði 5.3): Á öllum fjöðruðum ásum (þó ekki áskilið á afturásum vörubifreiðar).
K6 - Dyrabúnaður (atriði 6.2.3): Tvöföld læsing (eftir 01.07.1990).
K6 - Undirvörn (atriði 6.1.4): Áskilin á flestar bifreiðir, sjá leiðbeiningaskjal.
K6 - Farmskilrúm (atriði 6.1.1): Farmskilrúm eða önnur vörn til að varna framskriði farms áskilin í vörubifreið (eftir 01.10.1990).
K6 - Höfuðpúðar (atriði 6.2.5 og 6.2.6): Áskildir í ystu sætum hópbifreiðar ≤3.500 kg (eftir 01.03.1994).
K7 - Flauta (atriði 7.7): Áskilin (eftir 24.06.1937).
K7 - Öryggisbelti (atriði 7.1): Almennt áskilin í öll sæti bifreiðar nú orðið (minni kröfur til eldri), sjá leiðbeiningaskjal. Skulu bera viðurkenningarmerki og vera merkt framleiðanda (eftir 13.05.1994), skal skoðað vandlega.
K7 - Hraðamælir (atriði 7.8): Skal hafa hraðamæli sem sýnir hraðann í km/klst (sem hægt er að lesa af í hvaða birtuskilyrðum sem er) (eftir 15.05.1964).
K7 - Hraðatakmarkari (atriði 7.10): Áskilinn eftir 01.01.1994 í tilteknar vöru- og hópbifreiðir og í allar vörubifreiðir eftir 01.01.2008 og allar hópbifreiðir eftir 02.07.2009, sjá leiðbeiningaskjal.
K7 - Ökuriti (atriði 7.9): Mögulega vörubifreið og hópbifreið, sjá leiðbeiningaskjal.
K7 - Viðvörunarþríhyrningur (atriði 7.4): Áskilinn (eftir 01.01.1989).
K7 - Slökkvitæki (atriði 7.2): Áskilið í allar breyttar bifreiðir og hópbifreiðir, sjá leiðbeiningaskjal.
K7 - Sjúkrakassi (atriði 7.5): Áskilinn í allar breyttar bifreiðir og hópbifreiðir, sjá leiðbeiningaskjal.
K9 - Þrep við aðaldyr (atriði 9.7): Skal í hópbifreið uppfylla kröfur um hæð frá jörðu og stærð (eftir 01.03.1993) (gildir þó ekki ef í eigu björgunarsveitar).
Eftirvagn (O1, O2, O3, O4)
K1 - Hleðslustýrð hemlajöfnun (atriði 1.1.17): Áskilin ásum eftirvagns IV ef hlutfall mestu og minnstu ásþyngdar er yfir 3/4 (þarf ekki ef ásinn er búinn læsivörn) frá 01.07.1991 til 01.01.2001. Áskilinn á eftirvagn með rafhemla ef eiginþyngd er minni en 3/4 af leyfðri heildarþyngd (eftir 01.01.2001).
K1 - Stjórnbúnaður rafræns ýtihemils (atriði 1.1.23): Skal skal finnast í eftirvagni (eftir 01.01.2000) og vera aðgengilegur (eftir 01.01.2009).
K1 - Hemlalæsivörn (atriði 1.6): Á öllum ásum eftirvagns >10.000 kg (eftir 01.01.1997). Allir eftirvagnar III og IV (eftir 31.03.2001).
K1 - Geta aksturshemils (atriði 1.2.2) og stöðuhemils (atriði 1.4.2): Vista þarf niðurstöður úr hemlaprófi fyrir ökutæki með lofthemla. Skila til Samgöngustofu (í síðasta lagi frá 1. janúar 2026).
K4 - Ljósabúnaður (atriði 4.1-4.7, 4.9 og 4.12): Yfirfara áskilin ljósker og skoða sérstaklega vel virkni, staðsetningu og gaumbúnað. Minnt á áskilin framvísandi stöðuljós og þokuafturljós. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitaugu (atriði 4.8): Yfirfara áskilin glitaugu og skoða sérstaklega vel lit þeirra, viðurkenningarmerkingar (merkt frá 01.07.1990 og að framan merkt frá 01.03.1994) og staðsetningu. Minnt á áskildu framvísandi glitaugun og þríhyrndu glitaugun að aftan. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitmerkingar (atriði 4.8): Yfirfara glitmerkingar og hafa sérstaklega í huga að reglur um glitmerkingar eru ekki að samræmdar milli landa og því mörg dæmi um óleyfilegar glitmerkingar (sérstaklega á notuðum eftirvögnum). Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K5 - Fjöðrun (atriði 5.3): Áskilin á alla ása (þó ekki þörf á forneftirvögnum sem gerðir voru fyrir <30 km/klst hraða).
K6 - Undirvörn (atriði 6.1.4): Afturvörn og hliðarvörn áskilin á O3 og O4 (athuga sérstaklega á vögnum til sérstakra nota), sjá leiðbeiningaskjal.
K6 - Skermun hjóla (atriði 6.2.10): Gæta verður að fullnægjandi skermun hjóla (sérstaklega á vögnum til sérstakra nota).
K7 - Stöðufleygur (atriði 7.6): Áskilinn ef eftirvagninn er gerður fyrir <30 km/klst hraða og er án stöðuhemils.
Bifhjól (þungt tvíhjól) (L3e, L4e)
K0 - Skráningarmerki (atriði 0.1): Skal hafa svæði fyrir skráningarmerki að aftan (lágmarksstærð BxH 290x140 mm), skoða vel staðsetningu svæðisins og stærð.
K1 - Hemlalæsivörn (atriði 1.6): Skal búið hemlalæsivörn (ABS) (eftir 07.09.2016) en þó mega lágafkastabifhjól (≤125 cm3 og ≤11 kW og aflþyngdarhlutfall ≤0,1 kW/kg) vera án þess hafi það samtengt hemlakerfi (hemlastjórnloki virki á bæði hjól).
K3 - Baksýnisspeglar og -búnaður (atriði 3.3): Áskildir a.m.k. vinstra megin (eftir 01.01.1968) og alltaf báðum megin sé það hannað til hraðari aksturs en 100 km/klst, sjá nánari kröfur í leiðbeiningaskjali.
K3 - Framrúðusprauta (atriði 3.5): Hafi hjólið framrúðu (sem er í sjónsviði ökumanns) er rúðusprauta áskilin (eftir 07.09.2016).
K4 - Ljósabúnaður (atriði 4.1-4.7, 4.9 og 4.12): Yfirfara áskilin ljósker og skoða sérstaklega vel virkni, staðsetningu og gaumbúnað. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K4 - Glitaugu (atriði 4.8): Yfirfara áskilin glitaugu og skoða sérstaklega vel lit þeirra, viðurkenningarmerkingar (skulu merkt frá 01.07.1990) og staðsetningu. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K5 - Hjólbarðar (atriði 5.2.3): Allir hjólbarðar skulu vera með viðurkenningarmerki.
K5 - Fjöðrun (atriði 5.3): Skal hafa fjöðrun á framhjóli og hjóli hliðarvagns (eftir 01.03.1988).
K5 - Höggdeyfar (atriði 5.3): Áskildir á framhjóli.
K6 - Standari (atriði 6.2.11): Skal hafa hliðarstandara eða miðjustandara (eftir 20.07.1994).
K6 - Handfesta og fótstig (atriði 6.2.12): Handfesta (t.d. ól eða slá) fyrir farþega (eftir 20.07.1994). Fótstig fyrir ökumann og farþega (eftir 20.07.1994).
K7 - Hraðamælir (atriði 7.8): Skal hafa hraðamæli sem sýnir hraðann í km/klst (sem hægt er að lesa af í hvaða birtuskilyrðum sem er) (eftir 11.10.1993).
K8 - Hávaðamælingar (atriði 8.1.1): Skal vera innan marka, skylt að mæla.
Létt bifhjól (tvíhjól í flokki II, mest 45/klst) (L1e)
K0 - Skráningarmerki (atriði 0.1): Skal hafa svæði fyrir skráningarmerki að aftan (lágmarksstærð BxH 290x140 mm), skoða vel staðsetningu svæðisins og stærð.
K3 - Baksýnisspeglar eða -búnaður (atriði 3.3): Skal hafa baksýnisspegil a.m.k. vinstra megin (eða baksýnismyndavél) sem uppfyllir kröfur um stærð og stillimöguleika.
K4 - Ljósabúnaður (atriði 4.1, 4.2, 4.3, 4.4): Skal búið lágljósi, háljósgeisli leyfður. Skal búið afturvísandi stöðuljósi (afturljósi) og leyft að hafa stöðuljós að framan. Má vera búið stefnuljósi framan og aftan og leyfilegt að tengja og nota þau sem hættuljós. Skal búið hemlaljósi. Skal búið númersljósum. Sjá nánar um gildistöku og aðrar kröfur í leiðbeiningaskjali um ljósabúnað.
K4 - Glitaugu (atriði 4.8): Skal hafa rautt afturvísandi glitauga og gul glitaugu á hvorri hlið. Má hafa hvítt framvísandi glitauga. Glitaugu skulu hafa viðurkenningarmerkingu. Sjá nánar leiðbeiningaskjal um ljósabúnað.
K5 - Hjólbarðar (atriði 5.2.3): Allir hjólbarðar skulu vera með viðurkenningarmerki.
K5 - Fjöðrun (atriði 5.3): Framhjól skal búið fjöðrum.
K5 - Höggdeyfar (atriði 5.3): Áskildir á framhjóli.
K6 - Gírbúnaður og aflrás út í hjól (atriði 6.1.7): Keðja skal vera með keðjuhlíf.
K6 - Skermun hjóla (atriði 6.2.10): Skulu hafa hjólhlífar á bæði fram- og afturhjóli. Þurfa að uppfylla kröfurnar.
K6 - Standari á bifhjóli (atriði 6.2.11): Skal hafa hliðarstandara eða miðjustandara.
K6 - Handfesta og fótstig (atriði 6.2.12): Skal hafa fótstig fyrir ökumann (svæði fyrir fætur) og líka fyrir farþega (sé hann til staðar).
K7 - Læsingar og þjófavarnarbúnaður (atriði 7.3): Skal búið læsingar- og þjófavarnarbúnaði (stýrislás og/eða svisslykli).
K7 - Hljóðmerkjabúnaður (atriði 7.7): Skal hafa flautu (rafknúna).
K7 - Hraðamælir (atriði 7.8): Skal hafa hraðamæli sem sýnir hraðann í km/klst (sem hægt er að lesa af í hvaða birtuskilyrðum sem er).
K7 - Hraðatakmarkari (atriði 7.10): Hjól má ekki geta farið hraðar en 45 km/klst, alltaf þarf að framkvæma hraðapróf, sjá leiðbeiningaskjal.
K8 - Hávaðamælingar (atriði 8.1.1): Skal vera innan marka, skylt að mæla.
Kröfur til ökutækja í notkunarflokkum
Við skráningu ökutækis í tiltekinn notkunarflokk (annan en almenna notkun) er algengt að ökutækið þurfi að uppfylla sérstakar kröfur um útfærslu eða búnað. Þessum kröfum er lýst í kaflanum um notkunarflokkaskráningar í skráningareglubók ökutækja.
Uppfylli ökutækið ekki viðkomandi notkunarflokk, og engin dæming fyrirfinnst í skoðunarhandbók á annmarkann, ber að hafna skoðun og skráningu (samanber lýsingu á verulegum annmörkum sem valda höfnun í VII kafla umfjöllunar um skoðunarkerfið). Ef hægt er að leysa málið með því að skrá ökutækið frekar í notkunarflokkinn "Almenn notkun" er það heimilt (og má þá ljúka skoðuninni og skrá ökutækið), en ávallt verður að gæta að því að útfærsla ökutækisins eða sérbúnaður sé ekki þess eðlis að skráning þess í almenna notkun sé óheimil.
Aðrar kröfur sem verða að vera uppfylltar
Í forskráningarferlinu hefur jafnan verið framvísað gögnum eða staðfestingum á að tilteknar kröfur um gerð og búnað ökutækisins séu uppfylltar. Í einhverjum tilvikum er það hvorki gert né annmarkann er að finna sem skoðunaratriði í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir og þá þarf að athuga það sérstaklega í skráningarskoðun. Sérhvert tilvik er unnið eins og lýst er hér og veldur frávik höfnun á skoðun og skráningu ökutækisins.
Tæknikröfur
Kælimiðill rafknúinna bifreiða sem framleiddar eru utan Evrópulanda og USA: Lesa þarf kóða (heiti) kælimiðilsins bifreiðarinnar og tilgreina í frjálsum texta í athugasemdareit US.111 (og líka ef hann finnst ekki). Kóðann ætti að vera að finna á spjaldi eða miða (í hurðarstaf, í hreyfilrými eða undir farangursloki/um). Kóðinn ætti að hafa upphafsstafinn "R". Ef kóðinn er "R134a" (eftir 01.01.2018) ber að hafna skoðun og skráningu.
Upplýsingar eða leiðbeiningar
Athugasemd "SKB" skráð (Skoðun óheimil án aðkomu tæknideildar ökutækja hjá Samgöngustofu): Eiganda (umráðanda) hefur verið tilkynnt þetta við samþykkt umsóknar um forskráningu. Skráningarskoðun verður að fara fram á afgreiðslutíma Samgöngustofu og tæknideild tilkynnt um hana með hæfilegum fyrirvara. Aðkoma tæknideildar getur verið sú að starfsmaður fylgist með skoðuninni en algengast er að starfsmaður tæknideildar geti verið í símasambandi á meðan skoðun fer fram.
Athugasemd "F07" skráð (Samanburðarskoðun á skoðunarstofu): Ekki má fulltrúaskoða heldur skal samanburðarskoðun fara fram á skoðunarstofu.
Athugasemd "F11" skráð (Skráningarskoðun á skoðunarstofu): Ekki má fulltrúaskoða heldur skal skráningarskoðun fara fram á skoðunarstofu.
Athugasemd "SE1" skráð (Skráningarviðurkennd eða GVK hópbifreið, engin teikning): Þýðir að ekki er beðið um teikningu fyrir hópbifreið við skráningarskoðun.
Frávik og niðurstaða skráningarskoðunar
Dæmt er á alla annmarka sem finnast við skráningarskoðun eins og tilgreint er í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.
Niðurstaða skráningarskoðunar getur verið 0 (án athugasemda), 1 (lagfæring) eða 2 (endurskoðun) til að heimilt sé að nýskrá (að öðrum skilyrðum uppfylltum).
Verði niðurstaða skráningarskoðunar 3 (akstursbann), eða hætt var við skoðun (13), er ekki heimilt að nýskrá.
Um framkvæmd nýskráningar og yfirferð annarra skilyrða er vísað til handbókar um skráningareglur ökutækja, annars vegar kafla um skráningu tækniupplýsinga og um nýskráningu.
Kröfur til skoðunarmanna
Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2026):
V-viðurkenning (sérstakar skoðanir)
G-, B- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja og ökutækjaflokka.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
Efni kaflans
Umfang samanburðarskoðunar
Við samanburðarskoðun fer fram athugun á því hvort gerðarviðurkennt nýtt ökutæki sé í samræmi við það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá og hvaða upplýsingar það eru sem á eftir að skrá.
Ökutækið er auðkennt: Tryggja verður að um rétt ökutæki sé að ræða. Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Þessu er lýst í kafla 0 í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu (nema náist að leiðrétta í samvinnu við Samgöngustofu).
Samanburður gerður á útfærslu ökutækisins við það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá: Það sem fært hefur verið í ökutækjaskrá byggir á upplýsingum sem Samgöngustofa hefur fengið með umsókn um forskráningu og mögulega aflað úr öðrum skrám eða með öðrum hætti. Ekki má gera breytingar á ökutæki frá því sem viðurkennt hefur verið áður en það er fært til samanburðarskoðunar. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.
Upplýsinga aflað af ökutækinu og réttar upplýsingar tilkynntar: Í forskráningarferli gerðarviðurkenndra ökutækja er yfirleitt búið að skrá allar upplýsingar en mögulega gæti átt eftir að skrá einstaklingsbundin atriði sem sjá má á ökutækinu, til dæmis lit eða hjólbarðastærð. Færist þá ábyrgðin til skoðunarstofu um að tilkynna þau. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.
Ástand ökutækisins: Ekki fer fram nein skoðun á ástandi ökutækisins fyrir utan skoðun á stillingu aðalljósa og því hvort tjón er á ökutækinu. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.
Skráningarhæfi ökutækisins metið miðað við ofangreint: Ólíklegt er að eitthvað geri það að verkum að skoðun og skráningu ökutækis skuli hafnað í lok samanburðarskoðunar. Það er þó möguleiki og þeim tilvikum er lýst á hverjum stað fyrir sig.
Frávik og niðurstaða samanburðarskoðunar
Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta á meðan á framkvæmd skoðunarinnar stendur (í samvinnu við Samgöngustofu) skal hafna skoðun og er þá óheimilt að nýskrá ökutækið. Ef frávik stafar af mistökum hjá Samgöngustofu er reynt að leiðrétta þau án tafar.
Niðurstaða samanburðarskoðunar er almennt 0 (án athugasemda).
Þurfi að hætta við samanburðarskoðun fær hún niðurstöðuna 13 (hætt við skoðun). Þá er ekki heimilt að nýskrá.
Um framkvæmd nýskráningar og yfirferð annarra skilyrða er vísað til handbókar um skráningareglur ökutækja, annars vegar kafla um skráningu tækniupplýsinga og um nýskráningu.
Kröfur til skoðunarmanna
Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2026):
V-viðurkenning (sérstakar skoðanir)
G-, B- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja og ökutækjaflokka.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
Efni kaflans
Umfang og ferli
Umfang
Við ADR-skoðun fer fram athugun á því hvort á og í ökutæki sé viðeigandi öryggisbúnaður sem gildir um ökutæki sem flytja hættulegan farm. Samantekt á þeim atriðum eru í þessu skjali.
Auðkenning ökutækis
Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.
Skoðunaratriði
Í töflunum eru talin upp þau atriði sem skoðuð eru í ADR-skoðun. Aðeins er hægt að dæma atriðin í flokk 2 sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið. Sjá nánari skýringar neðar.
.
S-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður fyrir hvern og einn áhafnarmeðlim í bifreið.
Nr | Atriði | Skýring |
|---|---|---|
S05 | Endurskinsfatnaður | Endurskinsvesti eða endurskinsklæðnaður (t.d. eins og lýst er í EN ISO 20471). |
S10 | Vasaljós | Án málmyfirborðs sem gæti myndað neista. |
S15 | Hlífðarhanskar | |
S20 | Augnhlífðarbúnaður | Öryggisgleraugu algengust. |
.
A-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður ADR-ökutækja (bæði bifreiða og eftirvagna eftir atvikum), óháð því hvaða varúðarmerki eru á umbúðum.
Nr | Atriði | Skýring |
|---|---|---|
A05 | Slökkvitæki | Bifreið og eftirvagn. Sjá nánari skýringar neðar. |
A10 | Stoppklossar | Bifreið og eftirvagn. Einn pr ökutæki. Stærð miðist við þunga ökutækis og þvermál hjólbarða. |
A15 | Viðvörunarmerki | Bifreið. Tvö frístandandi. Keilur eða viðvörunarþríhyrningar algengastir. |
A20 | Augnskol | Bifreið. Augnskolvökvi. Þarf ekki fyrir varning með varúðarmerki 1, 1.4, 1.5, 1.6, 2.1, 2.2 eða 2.3 á umbúðum (sjá neðar). |
A25 | Hættumerki | Bifreið og eftirvagn. Rauðgul merki með gliti, að framan og aftan. Sjá nánari skýringar neðar. |
.
T-atriði: Áskilinn öryggisbúnaður ADR-ökutækja vegna tiltekinna áhættuflokka (bæði bifreiða og eftirvagna eftir atvikum), miðast við hvaða varúðarmerki eru á umbúðum og útfærslu yfirbyggingar.
Nr | Atriði | Skýring |
|---|---|---|
T05 | Öndunargríma | Bifreið. Aðeins krafist þegar fluttur er varningur með varúðarmerki 2.3 eða 6.1 á umbúðum (sjá neðar). |
T10 | Skófla | Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar). |
T15 | Þéttibúnaður fyrir niðurföll | Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar). |
T20 | Uppsöfnunarílát úr plasti | Bifreið og eftirvagn. Aðeins krafist þegar flutt eru föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3, 4.1, 4.3, 8 eða 9 á umbúðum (sjá neðar). |
T25 | Þrýstiprófun á áföstum tanki | Bifreið og eftirvagn með áföstum tanki. Framvísa gildri þrýstiprófun tanks, annað hvort með skoðunarskýrslu frá Vinnueftirlitinu eða merkingu á tanki. |
Nánari skýringar á skoðunaratriðum
Slökkvitæki (A05)
Fjöldi slökkvitækja og slökkvimáttur (stærð):
Ökutæki ≤3,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 4 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C).
Ökutæki >3,5t og ≤7,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 8 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 6 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C).
Ökutæki >7,5t að leyfðri heildarþyngd: A.m.k. 2 slökkvitæki, alls að lágmarki 12 kg. Annað að lágmarki 2 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika og vera hentugt til að slökkva eld í vél eða stjórnhúsi). Hitt að lágmarki 6 kg (duft eða með sambærilegan slökkvimátt og slökkvieiginleika til að slökkva eld í efnum í brunaflokki A, B og C). Til að ná lágmarks slökkvimætti (12 kg) verður annað hvort að fjölga slökkvitækjum eða stækka þessi tvö.
Við flutning stykkjavöru: Eitt 2 kg duftslökkvitæki (eða tilsvarandi slökkvimátt með öðru heppilegu slökkviefni) er nægjanlegt í ökutæki sem flytja hættulegan farm í stykkjavöru. Samkvæmt undanþágureglu í lið 1.1.3.6 í ADR-reglum.
Önnur ákvæði er varða kröfur til slökkvitækja:
Gerð: Slökkvitæki í ökutæki skal vera af viðurkenndri gerð fyrir A, B og C brunaflokka og skal vera komið fyrir í festingum sem því er ætlað.
Innsigli: Handslökkvitæki eiga að vera með innsigli svo hægt sé að sannreyna hvort þau hafi verið notuð.
Staðsetning: Staðsetja skal slökkvitæki þannig að þau séu auðveldlega aðgengileg fyrir áhöfn ökutækisins og að þau séu varin veðuráhrifum þannig að nothæfi þeirra verði ekki fyrir áhrifum.
Slökkvikerfi fyrir vél: Sé ökutæki búið áföstu slökkvikerfi til þess gert að slökkva eld í vél, skal það þannig búið að það losi ekki eitraðar loftegundir inn í stjórnhús bifreiðarinnar eða vegna hita frá eldi.
Leiðbeiningar: Á slökkvitæki skulu vera leiðbeiningar á íslensku um notkun þess.
Vottun: Ef áskilið slökkvitæki er dufttæki skal það vera með innan við ársgamla vottun frá viðurkenndri slökkvitækjaþjónustu um að slökkvitækið sé í lagi.
Hættumerki (A25)
Við flutning á hættulegum farmi skal ökutæki merkt með tveimur ferhyrndum appelsínugulum merkjum, búnum endurskini. Merkin skulu vera 400 mm að lengd og 300 mm að hæð með 15 mm breiðri svartri umgerð. Þeim skal komið fyrir þannig að þau sjáist vel að framan og aftan á ökutæki eða eftir atvikum vagnlest. Sé erfitt að koma fyrir merkjum af umræddri gerð vegna stærðar eða lögunar ökutækis, má hafa þau 300 mm að lengd, 120 mm að hæð og umgerð 10 mm breiða. Sjá nánar reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi, III. viðauka.
Öndunargríma (T05)
Öndunargríma er t.d. öndunargríma með samsettri gas-/ryksíu af gerðinni A1B1E1K1-P1 eða A2B2E2K2-P2, sem eru svipaðar og lýst er í EN 14387:2004 + A1:2008 staðlinum.
Varúðarmerki á umbúðum og flutningseiningum (A20, T05-T20)
Varúðarmerki á umbúðum varningsins sem ætlunin er að flytja gera kröfu um tiltekinn öryggisbúnað ADR-ökutækja (T-atriðin) eða undanskilja kröfuna (atriði A20). Ökutæki skal, þegar flutt eru sprengifim efni, geislavirk efni, ósekkjaður farmur eða farmur í tanki, merkt á báðum hliðum og að aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum. Gámur eða gámatankur sem hættulegur farmur er fluttur í, skal merktur á báðum hliðum, að framan og aftan með einu eða fleiri varúðarmerkjum.
A20 (augnskols ekki krafist): Varningur með varúðarmerki 1, 1.4, 1.5, 1.6 eru sprengifim efni og hlutir, 2.1, 2.2 og 2.3 eru óeldfimar, eldfimar og/eða eitraðar lofttegundir.
T05 (öndunargrímu krafist): Varningur með varúðarmerki 2.3 eru eitraðar lofttegundir, 6.1 eru eitruð efni.
T10, T15, T20 (upphreinsiáhalda krafist): Föst eða fljótandi efni með varúðarmerki 3 eru eldfimir vökvar, 4.1, 4.3 eru eldfim efni og lofttegundir, 8 eru ætandi efni, 9 eru önnur hættuleg efni og hlutir.
Frávik og niðurstaða
Frávik við ADR-skoðun og niðurstaða
Sé gerð athugasemd við eitthvert skoðunaratriði verður niðurstaða skoðunar „Endurskoðun“ og ökutækið telst ekki hafa staðist skoðunina. Eigi að skrá ökutækið í viðkomandi rekstur í framhaldi af skoðun er þeirri skráningu hafnað. Annars er heimilt er að klára umsóknarferil og/eða staðfesta áframhaldandi leyfi fyrir viðkomandi ökutæki.
Númer skoðunaratriða
Númer skoðunaratriða á skoðunarvottorði eru ADR.xxx.2, þar sem ADR er fast forskeyti, xxx er númer atriðis hér að ofan, og 2 er fasti sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið. Dæmi: ADR.T05.2 merkir að athugasemd hafi verið gerð við öndunargrímu.
Kröfur til skoðunarmanna
Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2024):
G- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja.
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
Reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 1077/2010.
Evrópusamningur um flutninga á hættulegum farmi á vegum, sem undirritaður var í Genf 1957 / ADR-samþykktir, kafli 9.
Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.
Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.
Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.
Efni kaflans
Skoðunaratriði
Sé ökutæki skráð sem tjónabifreið er óheimilt að skoða það hefðbundinni skoðun og því eiga dæmingar í skoðunaratriðahluta handbókar ekki við.
Hlutverk skoðunarstofu vegna tjónaökutækja eru þessi (sjá nánari lýsingar í köflum skjalsins):
Að framkvæma endurmat á tjónaökutæki I sé þess óskað (og innan 20 daga frests).
Að skoða (aðalskoðun eða endurtekin aðalskoðun) ökutæki eftir að viðgerð hefur farið fram og tjónaskráning felld niður. Óheimilt er að afhenda númer og skrá ökutæki í umferð nema niðurstaða skoðunar sé án athugasemda eða lagfæring.
Skilgreiningar
Tjónaökutæki flokkast þannig samkvæmt reglugerð um gerð og búnað:
Tjónaökutæki: Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.
Tjónaökutæki I: Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu. Hægt er að óska eftir endurmati innan 20 daga, sé það ekki gert breytist skráningin í tjónaökutæki II.
Tjónaökutæki II: Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út.
Eftirfarandi er úr reglugerð um gerð og búnað um hvað veldur því að ökutæki flokkast sem tjónaökutæki:
Burðarvirki: Til burðarvirkis ökutækja heyrir sjálfberandi yfirbygging og grind eftir því sem við á. Einnig öryggisbúr farþega sem og burðar- og öryggisbitar yfirbyggingar. Hafi burðarvirki ökutækis skemmst telst það tjónaökutæki.
Framrúða: Framrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd. Aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis eiga einnig við. Við skipti á límdum framrúðum skal fara eftir fyrirmælum framleiðanda. Hafi rammi í kringum framrúðu ökutækis skemmst skal skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð þar til viðgerð fer fram á viðurkenndu verkstæði. Einangraðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, skal meðhöndla eftir útlistingu skoðunarhandbókar ökutækja og telst ökutækið þá ekki vera tjónaökutæki.
Hjólabúnaður: Til hjólbúnaðar ökutækja teljast m.a. ásar, festingar, fjaðrabúnaður og hjól. Hafi festingar hjólabúnaðar ökutækis, sem teljast til burðarvirkis, gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað, telst það tjónaökutæki.
Öryggisbúnaður: Til öryggisbúnaðar ökutækja teljast m.a. öryggisbelti, líknarbelgir/loftpúðar sem og annar virkur öryggisbúnaður svo sem myndavéla- og nándarbúnaður. Hafi líknarbelgir/loftpúðar ökutækis sprungið út, telst það tjónaökutæki. Ökutæki telst einnig tjónaökutæki ef öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir og/eða teygst hefur á öryggisbelti.
Aðrar skilgreiningar á hugtökum samkvæmt reglugerð um gerð og búnað:
Viðgert tjónaökutæki: Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.
Margar tjónaskráningar: Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.
Endurmat á tjónaökutæki: Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá.
Viðurkennt réttingaverkstæði: Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Aðeins ökutæki sem gert hefur verið við á viðurkenndu réttingaverkstæði geta fengið skráningarmerki að nýju.
Mat og skráning á tjónaökutæki I
Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu er skráð sem tjónaökutæki I. Sú skráning gildir í 20 daga og breytist svo sjálfkrafa í tjónaökutæki II hafi ekki verið óskað eftir endurmati (sjá næsta kafla).
Grundvöllur að mati lögreglu og Skattsins á því hvort ökutæki ætti að vera merkt tjónaökutæki I getur byggst á nokkrum einföldum atriðum, sjá töflu 1.
Tafla 1. Ökutæki sem mögulega hefur orðið fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi, skal af lögreglu og Skattinum (áður tollstjóra) tilkynna sem tjónaökutæki I. Þættir sem horft er til við mat á því.
Telst tjónaökutæki I | Skýring |
|---|---|
Líknarbelgir/loftpúðar sprungið út | Á við um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis. |
Ökutæki óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaði | Hjólabúnaður eða stýrisbúnaður á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ökutækið telst óökuhæft. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur ekki eitt og sér skráningu. |
Ökutæki hefur oltið | Beyglur og skemmdir verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir gætu verið gengnar úr lagi, rúður brotnar eða farnar úr. |
Verulegt hliðartjón á ökutæki | Augljósar skemmdir á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér. |
Endurmat skoðunarstofu á tjónaökutæki I
Faggiltar skoðunarstofur ökutækja hafa heimild til að framkvæma endurmat á tjónaökutæki I. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II.
Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Að þeim tíma liðnum skráist ökutækið sjálfkrafa sem tjónaökutæki II og verður þá að fara í viðurkenndan viðgerðarferil (sbr. næsta kafla) eigi að skrá það í umferð á ný.
Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst. Sé viðgerð hafin er skoðunarstofu ekki heimilt að framkvæma endurmat. Ekki ber að meta það sem svo að viðgerð sé hafin ef búið er að opna eða taka einfalda hluti í sundur til að sjá betur í hverju tjón felst, æskilegt er þó að slíkt sé gert í samráði við skoðunarstofuna sem beðin er um að endurmeta tjónið. Einnig má vera búið að gera við sprungna hjólbarða.
Við endurmat á tjónabifreið I skal ökutækið jafnan fært til skoðunarstofu en einnig er skoðunarstofu heimilt að framkvæma skoðun ökutækisins utan skoðunarstofu. Við endurmat horfir skoðunarstofa til þeirra atriða sem fram koma í töflu 2.
Tafla 2. Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi, skal skrá sem tjónaökutæki II. Þættir sem horft er til við endurmat tjónaökutækis I.
Telst tjónaökutæki II | Skýring |
|---|---|
Rammar skemmst umhverfis límdar rúður | Framrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd, og má ramminn umhverfis hana ekki hafa skemmst. Sama gildir um aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis. Athuga að afmarkaðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, valda ekki skráningu sem tjónaökutæki. |
Hjólabúnaður bognað eða færst úr stað | Til hjólbúnaðar ökutækja teljast m.a. ásar, festingar, fjaðrabúnaður og hjól. Skoða hvort festingar hjólabúnaðar ökutækis, sem teljast til burðarvirkis, hafi gengið til og hvort sýnileg merki séu um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað. |
Líknarbelgir/loftpúðar sprungið út | Á við um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis. |
Öryggisbeltastrekkjarar virkjaðir eða teygst hefur á öryggisbelti | Sést að öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir. Einnig ef teygst hefur á öryggisbelti (sést að saumar eru skemmdir eða ójafnir). |
Hjól og stýrisbúnaður bognað eða færst úr stað | Öxull/ás eða hjól hefur gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað. |
Burðarvirki bognað eða festingar gengið til | Sýnileg merki eru um að burðarvirki yfirbyggingar eða sjálfstæð grind hafi bognað. Sérstaklega skal athuga festingar fyrir fjaðrabúnað og stýrisbúnað. Kýttur grindarendi myndar oftast skekkju á hjóla- og stýrisbúnaði. |
Snúningur eða beygja á yfirbyggingu | Sýnileg merki eru um snúning eða beygju á yfirbyggingu. Sést m.a. með því að bera saman hurðargöt og gluggagöt. Ef um hliðartjón er að ræða er hægt að bera saman hurðabil milli hurða á sömu hlið eða milli hliða (gengið út frá því að hurðabil sé alltaf það sama á óskemmdu ökutæki). |
Þverbrot í þaki yfirbyggingar | Þverbrot í þaki er öruggt merki um skekkju í burðarvirki (brotið er oft sýnilegt ofan við aftari framhurðarstaf). |
Krafa er um að skoðunarstofa taki nokkrar myndir af tjóni ökutækisins til stuðnings endurmatinu, meðal annars til að sýna ástand þeirra vafaatriða sem beiðni um endurmat byggðist á.
Að loknu endurmati fyllir skoðunarstofa út eyðublað US.117, Tilkynning skoðunarstofu um endurmat tjónaökutækis. Þar ber að skrá upplýsingar um auðkenningu ökutækisins, skoðunarstofuna, dagsetningu endurmats, lýsingu á tjóni, niðurstöðu matsins og staðfestingu skoðunarmanns. Eiganda (umráðanda) ber einnig að undirrita eyðublaðið og staðfesta að viðgerð á ökutækinu hafi ekki átt sér stað fyrir endurmatið.
Útfyllt eyðublað er sent með rafrænum hætti til Samgöngustofu og myndirnar látnar fylgja.
Ferill viðgerðar á tjónaökutæki (I og II)
Almennt gildir að engum öðrum en viðurkenndu réttingarverkstæði er heimilt að framkvæma viðgerðir á ökutæki sem skráð er sem tjónaökutæki sé ætlunin að taka það í notkun á ný. Aðeins ökutæki sem gert hefur verið við á viðurkenndu réttingaverkstæði geta fengið tjónaskráningu niðurfellda.
Minnt er á að ekki má hefja viðgerð á ökutæki sem skráð er tjónaökutæki I ef ætlunin er að óska eftir endurmati (sbr. fyrri kafla). Sé það ekki ætlunin má færa það strax til viðgerðar á viðurkenndu réttingaverkstæði (ekki þarf að bíða þessa 20 daga eftir því að ökutækið verði skráð sem tjónabifreið II). Sé ekki ætlunin að taka ökutæki í notkun á ný sem skráð hefur verið sem tjónaökutæki (I eða II) ber að afskrá það með viðeigandi hætti.
Viðurkennt réttingaverkstæði er verkstæði sem búið er viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og sem hefur heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Samgöngustofa birtir á vef sínum lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði sem og kröfur til þeirra. Að viðgerð lokinni gefur réttingaverkstæðið út vottorð um að viðgerð hafi fram og sendir til Samgöngustofu sem fellir niður tjónaskráninguna. Skráningin helst engu að síður í ferilskrá ökutækis.
Ökutækið er síðan fært til skoðunar á skoðunarstofu. Gæta verður þess að skráningarmerki ökutækisins, sem tekin höfðu verið af ökutækinu vegna tjónsins, hafi verið komið til skoðunarstofunnar fyrir skoðun. Hafi ökutækið gilda skoðun er það skráð í endurtekna aðalskoðun, annars aðalskoðun.
Ekki má afhenda skráningarmerki og skrá ökutækið í umferð nema niðurstaða skoðunar sé án athugasemda eða lagfæring (og búið að fella niður tjónaskráninguna).
Fróðleiksmolar
Ekki er heimilt að skrá ökutæki með eftirfarandi athugasemdir af erlendum skráningargögnum hér á landi. Af þeim sökum er forskráningu slíkra ökutækja hafnað.
Collision | Damaged | Dismantled | Fire |
|---|---|---|---|
Flood | Gray Market | Junk | Revived Junk |
Salvage | Rebuilt Salvaged | Revived Salvage | Scrap Vehicle |
Totaled | Water Damage | Reconditioned | For Parts Only |
Scrap | Wrecked | VIN Missing | Total Loss |
Repaired | Rebuilt | Reconstructed | Hail |
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.