Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Nýskráningar (fyrsta skráning hérlendis)

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar móttöku umsókna um nýskráningu og tilkynningu til Samgöngustofu um nýskráningu (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa A

    Efni kaflans

    Nýskráning ökutækis

    Heimilt er að nýskrá ökutæki sem aldrei hefur verið áður skráð hérlendis, sem hlotið hefur viðurkenningu til markaðssetningar hérlendis og sem stenst viðeigandi skoðun vegna skráningar.

    Umsókn um nýskráningu er annað hvort útbúin í tölvukerfum þjónustuaðila (og send með vefþjónustum til Samgöngustofu) eða á eyðublaði sem framvísað er hjá þjónustuaðila.

    Móttaka stafrænna umsókna

    Samgöngustofa hefur það að markmiði að gera þjónustu sína stafræna og hvetur því til þess að þjónustuaðilar velji þann kost í þessum samskiptum.

    Móttaka umsókna á pappír

    Ökutæki þarf að vera skráð á forskrá og þar með hafa fengið úthlutað fastnúmeri. Það má ekki vera með breytingalás sem læsir nýskráningu.

    Við móttöku umsóknar um nýskráningu (US.107) er gengið úr skugga um að hún sé í frumriti, hún sé rétt útfyllt og öll skilyrði skráningar uppfyllt. Ef umsókn er ekki skráningarhæf (t.d. rangar upplýsingar, óljósar eða yfirstrikanir) skal vísa henni frá og leiðbeina viðskiptavini um það sem lagfæra þarf.

    • Eigandi og undirritun: Eigandi (kaupandi), meðeigendur og umráðendur (ef við á) skulu undirrita eða undirrita samkvæmt umboði (sjá neðar). Undirskriftir skulu vottaðar af a.m.k. einum vitundarvotti.

    • Innflytjandi og undirritun: Innflytjandi (umráðandi á forskrá) skal undirrita eða undirrita samkvæmt umboði (sjá neðar). Ef um er að ræða fulltrúaskoðað ökutæki skal fulltrúi umboðs með fulltrúaréttindi B undirrita.

    • Dagsetning nýskráningar: Nýskráningardagsetning er sú dagsetning þegar nýskráning er framkvæmd. Óheimilt er að nýskrá ökutæki aftur í tímann.

    • Tryggingafélag: Tilgreina skal tryggingafélag ökutækis, nema það sé eftirvagn, og skráist tryggingafélagið í ökutækjaskrá við nýskráningu.

    Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda, tveir vitundarvottar, staður og dagsetning. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.

    Uppfylli umsókn framangreind formskilyrði er hún móttekin, greiðslustimpluð af þjónustuaðila og tilkynnt um nýskráningu að öðrum skilyrðum uppfylltum (sjá neðar). Fyrir rekjanleika skráir Samgöngustofa þjónustuaðila og móttökudag umsókna í ökutækjaskrá.

    Tilkynning til Samgöngustofu um nýskráningu

    Áður en tilkynnt er um nýskráningu til Samgöngustofu þarf þjónustuaðili til viðbótar að ganga úr skugga um að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

    • Skoðun vegna skráningar: Ökutækið skal hafa staðist viðeigandi skoðun vegna skráningar hjá skoðunarstofu eða hjá umboði á síðustu þremur virkum dögum.

    • Skráningarmerki: Þau verða að hafa verið skráð móttekin hjá þjónustuaðila (mega vera móttekin á einhverjum öðrum geymslustað hans). Við nýskráningu afhendast skráningarmerkin á ökutækið. Réttur skoðunarmiði skal settur á skráningarmerki ökutækisins miðað við skoðunarreglu þess.

    • Tollafgreiðsla: Ökutæki skal vera tollafgreitt áður en óskað er eftir nýskráningu. Óheimilt er að nýskrá ökutæki án tollafgreiðslu nema fyrir liggi skrifleg heimild frá tollstjóra.

    • Skattflokkur 70-79: Ef ökutæki er skráð í skattflokk á bilinu 70 - 79 er óheimilt að nýskrá það og sér Skatturinn (tollasvið) um að aflétta honum (sjá breytingalása).

    • Breytingalás: Ef ökutæki er skráð með breytingalás sem læsir nýskráningu er óheimilt að nýskrá það. Lásar sem læsa nýskráningu eru Nýskráningarlás (3), Heildarlás (6) og Skráningarlás v/ vörugjalds (7).

    • Tengibúnaður: Tilkynna þarf sérstaklega ef tengibúnaður er á ökutæki. Tilkynnt er um tengibúnað frá fulltrúa A á US.129 (gerðarviðurkenndur tengibúnaður frá framleiðanda), frá fulltrúa C á US.112 (þjóðargerðarviðurkenndur tengibúnaður) og frá skoðunarstofu (US.111) (allar gerðir tengibúnaðar).

    • Tjónaökutæki: Óheimilt er að nýskrá ökutæki sem skráð er tjónaökutæki. Áður en nýskráning er heimil verður að ógilda tjónaskráninguna.

    • Tímarammi: Tíminn sem líður á milli forskráningar og nýskráningar á ökutæki má öllu jöfnu ekki vera meira en ár (undantekning á því er t.d. síðustu ökutæki gerðar (e. end-of-series). Ef veigamiklar breytingar hafa átt sér stað á reglugerðum (íslenskum sem erlendum) sem tengjast skráningu ökutækja (s.s. breyttar mengunarkröfur, aukin búnaðarkrafa o.s.frv.) er gerð krafa um að nýskráningu ökutækis eigi sér stað áður en breyttar kröfur taka gildi (tiltekið í athugasemd í ökutækjaskrá). Ef nýskráning er á pappírsformi skal skila frumriti af henni innan 10 virkra daga til Samgöngustofu.

    Að uppfylltum framangreindum skilyrðum öllum er þjónustuaðila heimilt að tilkynna Samgöngustofu um nýskráningu.

    Þjónustuaðili getur óskað eftir leiðréttingu á framkvæmdri nýskráningu en slík beiðni verður að berast Samgöngustofu innan viku frá skráningardegi. Samgöngustofu er heimilt að fella niður skráningu ef beiðni berst um það samdægurs á afgreiðslutíma Samgöngustofu. Nýskráningargjald er ekki endurgreitt við niðurfellingu skráningar.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu á öktæki er nýskráningargjald 5.827 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.

    • Greiða þarf gjaldfallin vörugjöld af ökutækinu sem er til nýskráningar (breytileg).

    • Gjald Samgöngustofu fyrir leiðréttingu á nýskráningu er 1.071 króna.

    Tölvuvinnsla

    Þjónustuaðilar tilkynna nýskráningu í gegnum vefþjónustu eða skeytaþjónustu. Þeir sem eru með aðgang að biðskrá undirbúa nýskráninguna í biðskrá Ekju, skrá hana í bið og senda svo beiðni um nýskráningu á netfangið skraning hjá Samgöngustofu. Starfsmaður SGS samþykkir þá nýskráninguna og staðfestir með því að svara tölvupóstinum. Einnig má mæta með nýskráningarbeiðni á pappírsformi í afgreiðslu Samgöngustofu að undangenginni skoðun.