Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Listi yfir orð og hugtök

    Eftirfarandi er upptalning á þeim orðum og hugtökum sem notuð eru í skoðunarhandbók og skiptir máli að réttur sameiginlegur skilningur sé á. Sjá í næsta kafla túlkun og skýringar á hugtökum sem sérstaklega eiga við tilteknar verklagsbækur.

    • Annmarkar (e. defects): Tæknibilanir eða önnur tilvik þar sem í ljós kemur við prófun á aksturshæfni að kröfur hafa ekki verið uppfylltar.

    • Breytingatilkynning: Tilkynning til Samgöngustofu um breytingar á skráningarupplýsingum ökutækisins á því formi sem skráningareglur kveða á um (US.111).

    • Dæmingar: Sjá skilgreininguna á Annmarkar.

    • Eftir að skoðun hefst: Þegar skoðunarmaður hefur tekið á móti ökutæki til skoðunar, hvort sem er inn í skoðunarstöð eða við útiskoðun, er miðað við að skoðun sé hafin. Fram að því getur önnur umsýsla vegna skoðunarinnar hafa átt sér stað, svo sem bókun í skoðun eða einhver afgreiðsla vegna skoðunarinnar, en hún telst ekki upphafspunktur skoðunarinnar.

    • Endurskoðunarverkstæði: Aðili sem annast einungis endurskoðanir ökutækja í starf­semi sinni sem verkstæði.

    • Gild skoðun: Þegar niðurstaða síðustu reglubundnu skoðunar var „Án athugasemda“ eða „Lag­færing“ og frestur til að færa ökutækið til næstu aðalskoðunar er ekki liðinn.

    • Prófun á aksturshæfni: Skoðun í samræmi við I. viðauka í tilskipun ESB um skoðun ökutækja, gerð til að tryggja að öruggt sé að nota ökutækið á opinberum vegum og að það uppfylli tilskilda og skyldubundna eiginleika með tilliti til öryggis- og umhverfisverndar. Í íslensku regluverki er hugtakið skoðun ökutækja notað.

    • Reglubundin skoðun: Aðalskoðun ökutækis er reglubundin skoðun. Skráningarskoðun og samanburðarskoðun sam­svarar fyrstu reglubund­inni skoðun. Í almennri umfjöllun um skoðunarkerfið falla breyt­ingaskoðanir líka hér undir og endurskoðanir vegna þessara skoðana. Fyrir þessar skoðanir er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.

    • Rýmri skoðunartíðni: Fjöldi skoðana á árabili fyrir tiltekna skoðunartíðni er minni en annarrar. Horfa má til fyrstu tíu áranna við þennan samanburð. Sjá einnig um örari skoðunartíðni.

    • Skoðun: Sjá skilgreininguna á prófun á aksturshæfni.

    • Skoðunaratriði: Einn liður í sérhverri handbók sem samanstendur af númeri atriðisins, lýsingu á annmarka (forsendu dæmingar og/eða skýringu) og flokkun hans (dæm­ingu).

    • Skoðunarhandbók ökutækja: Þessi bók (allir þrír hlutarnir), líka kölluð skoðunarhandbók .

    • Skoðunarmaður: Einstaklingur sem hefur heimild Samgöngustofu skoða ökutæki á skoðunar­stofu.

    • Skoðunarregla: Sjá skilgreininguna Skoðunartíðni.

    • Skoðunarstofa af gerð A: Gerð faggildingar samkvæmt kröfum faggildingarstaðli skoð­unarstofa ÍST EN ISO/IEC 17020:2012. Gerð A er skoðunarstofa sem uppfyllir hlutleysiskröfur staðalsins sem lýst er í viðauka A við hann. Hún annast allar skoðanir ökutækja.

    • Skoðunarstöð: Faggilt skoðunarstöð ökutækja sem hefur starfsleyfi Samgöngustofu.

    • Skoðunartíðni: Tíðni reglubundinnar skoðunar eins og hún er skilgreind í 6. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja.

    • Skoðunarvottorð: Skýrsla um skoðun ökutækis sem skoðunarstofa eða Samgöngustofa gefur út og inniheldur niðurstöður skoðunar ökutækis.

    • Staðist skoðun: Þegar niðurstaða skoðunar er „Án athugasemda“ eða „Lagfæring“.

    • Umráðandi: Umráðamaður eins og það orð er skilgreint í umferðarlögum, þ.e. sá sem með samþykki eiganda ökutækis hefur umráð yfir því. Aðili telst ekki umráðandi nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá.

    • Verklagsbók: Sérstök handbók sem er hluti skoðunarhandbókar um verklag, skoðunaraðferðir og dæmingar sem eiga við um ákveðna tegund skoðunar (eða tegundir skoðana).

    • Örari skoðunartíðni: Fjöldi skoðana á árabili fyrir tiltekna skoðunartíðni er hærri en annarrar. Horfa má til fyrstu tíu áranna við þennan samanburð. Sjá einnig um rýmri skoðunartíðni.

    Túlkun á hugtökum verklagsbóka

    Eftirfarandi er upptalning á mikilvægum orðum og hugtökum sem notuð eru í verklagsbók fyrir reglu­bundnar skoðanir.

    Augljóslega: Orðið er notað í tengslum við slit, bilanir, óvirkni, vöntun, los, skerðingar, óöryggi, ósamræmi, skemmdir eða að íhlutur hæfi ekki ökutækinu eða sé ranglega staðsettur eða af rangri stærð, svo eitthvað sé nefnt. Hér þarf skoðunar­maður að beita faglegri þekkingu sinni og reynslu til að sjá þá augljósu annmarka sem skapast hafa af þessum ástæðum. Til nánari skýringa má nefna eftirfarandi í tengslum við mat á sliti, bilun, óvirkni, losi, ósam­ræmi og skemmdum, þ.e. neikvæð áhrif af þessum þáttum eru það mikil að hluturinn er:

    1. líklegur til að bila,

    2. greinilega ekki að virka á skilvirkan hátt eins og hannað var,

    3. sýnilega slitinn umfram eðlileg fagleg mörk, eða

    4. líklegur til að hafa áhrif á virkni eða ástand annars öryggistengds íhlutar.

    Ekki nógu vel fest: Hugtakið er notað til að lýsa gölluðu ástandi. Skoðunarmenn ættu að túlka hugtakið á eftirfarandi hátt:

    1. að íhlutur á ökutækinu hafi hlutfallslega hreyfingu annaðhvort við festingu hans eða í tengslum við tengdan íhlut þar sem engin hreyfing ætti að vera, eða

    2. að íhlutur sé ekki öruggur eða fullkomlega festur, hvorki við festingu hans né tengdum íhlut.

    Enskar skammstafanir kerfa: Nokkrar enskar skammstafanir kerfa koma fyrir í bókinni:

    • ABS stendur fyrir "Anti-lock Braking System", eða hemlalæsivörn.

    • EBS stendur fyrir "Electronic Braking System", eða rafrænt hemlastjórnkerfi.

    • EPS stendur fyrir "Electronic Power Steering", eða rafknúið aflstýri.

    • ESC stendur fyrir "Electronic Stability Control", eða rafræn skrikvörn.

    • HID stendur fyrir "High Intensity Discharge" sem er tegund gasljósa (oft Xenon).

    • SRS stendur fyrir "Supplemental Restraint System", eða öryggispúðakerfi.

    • TPMS stendur fyrir "Tire Pressure Monitoring System", eða eftirlitskerfi fyrir þrýsting í hjólbörðum.

    Geta hemlakerfis: Geta hemlakerfis (t.d. geta aksturshemils eða stöðuhemils) er í handbókinni notað yfir skoðunaratriðin þar sem hemlapróf fer fram og niðurstöður þess notaðar til að dæma á hemlun og hemlunargetu. Sjá einnig Virkni hemlakerfis.

    Gildir fyrir og eftir: Kröfur og skoðun ökutækis miðast almennt við fyrsta skráningardag þess. Þegar skilgreining á dæmingu í skoðunaratriðahluta miðast við ákveðna dagsetningu er því verið að meina fyrsta skráningardag. Viðmiðunin „Gildir fyrir“ er þá fyrir og með dag­setningunni (skrifað „fyrir dd-mm-áááá“), en „Gildir eftir“ er þá frá og með dagsetning­unni (skrifað „eftir dd-mm-áááá“).

    Hemlunarkraftar: Þeir kraftar sem mældir eru í hemlaprófaranum. Fyrir vökvahemlakerfi (og önnur hemlakerfi sem ekki nota loftyfirfærslu) eru þessir kraftar notaðir beint til útreikn­inga á hemlun. Fyrir lofthemlakerfi þarf fyrst að reikna út þá hemlunarkrafta sem ættu að geta náðst í kerfinu við fulla hleðslu (sé það undir 75% hlaðið við mælingu), kallað að fram­reikna (framreiknaðir hemlunarkraftar), og þeir notaðir við útreikning á hemlunar­getu.

    Hemlun og hemlunargeta: Hemlun og hemlunargeta er hlutfall hemlunar­krafta (mældra eða framreiknaðra eftir því sem við á) og tiltekinnar þyngdar ökutækis (að hluta eða í heild eftir því sem við á, útskýrt í viðkomandi skoðunar­atriðum). Í verklagsbókinni er orðið hemlun notað í forsendum og skýringum dæminga og þá átt við mælda hemlun vökva­hemlakerfa (og þeirra sem ekki nota loftyfirfærslu) og framreiknaða hemlun (hemlunar­getu) lofthemlakerfa, eftir því um hvort kerfið er að ræða.

    Ónóg og óviðunandi: Þessi orð eru notuð í tengslum við mælingar eða prófanir þar sem mæli­niðurstaðan ónóg telst meiriháttar annmarki (dæming 2) en óviðunandi telst hættulegur annmarki (dæming 3).

    Sjónskoðun: Ef tilgreind skoðunaraðferð er sjónskoðun þýðir það að auk þess að horfa á viðkomandi atriði skal skoðunarmaður einnig, ef við á, taka á þeim, meta hávaða frá þeim eða nota aðrar viðeigandi skoðunaraðferðir án þess að nota búnað.

    Virkni hemlakerfis: Virkni hemlakerfis (t.d. virkni aksturshemils eða stöðuhemils) er í hand­bókinni notað yfir skoðunaratriðin þar sem hemlapróf fer fram og niðurstöður þess notaðar til að dæma á ýmsa virknitengda þætti (aðra en hemlun og hemlunargetu) eins og ónóga hemlunarkrafta á einu eða fleiri hjólum, ójafna hemlunarkrafta, aflögun, ásetn­ingartíma, ótímabæra læsingu hemla og fleira þess háttar. Sjá einnig Geta hemla­kerfis.

    Flokkun dæminga (annmarka) og ákvörðun um niðurstöðu

    Í verklagsbókum reglubundinna skoðana er áhersla á að samræmi sé milli hugtaka sem notuð er í tilskipun ESB um skoðun ökutækja og í reglugerð um skoðun ökutækja. Hugtök sem notuð eru um flokkun dæminga og um niðurstöður skoðana eru mikilvæg í þessu sambandi og borin saman hér til glöggvunar.

    Dæmingar atriða

    Við flokkun annmarka sem uppgötvast í skoðun er stuðst við flokkunina eins og henni er lýst í 7. gr. tilskipunar ESB um skoðun ökutækja. Þeir eru "Minni­háttar annmarkar", "Meiriháttar annmarkar" og "Alvarlegir annmarkar". Sú flokkun yfirfærist nær samhljóða á hugtökin "Dæming 1", "Dæming 2" og "Dæming 3" í 20. gr. reglu­gerðar um skoðun ökutækja, en þau hugtök hafa verið notuð með saman hætti í fyrri útgáfum skoðunar­handbókar (umorðað):

    • Dæming 1: Minniháttar annmarkar sem hafa ekki marktæk áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið og þarfnast ekki tafarlausrar viðgerðar.

    • Dæming 2: Meiriháttar annmarkar sem geta haft áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið og þarfnast viðgerðar.

    • Dæming 3: Alvarlegir annmarkar sem skapa beina og tafarlausa hættu fyrir umferðaröryggi eða hafa áhrif á umhverfið sem réttlætir að notkun ökutækis sé bönnuð þar til viðgerð hefur farið fram.

    Niðurstaða skoðunar

    Hið sama á við um ákvörðun um niðurstöðu skoðunar sem byggð er á þeim annmörkum sem fundust og flokkun þeirra. Í 9. gr. tilskipunarinnar eru aðferðir við eftirfylgni með annmörk­um tilgreindar og falla þær efnislega samhljóða að ákvörðun um niðurstöðu skoðunar í 21. grein reglugerðar um skoðun ökutækja (umorðað):

    • Niðurstaða skoðunar 1: "Lagfæring", felur í sér að innan 30 daga skuli allir annmarkar lag­færðir en ekki gerð krafa um að ökutækið sé fært til annarrar skoðunar.

    • Niðurstaða skoðunar 2: "Endurskoðun", felur í sér kröfu um að án tafar skuli allir annmarkar lagfærðir og gerð krafa um að ökutækið sé fært til annarrar skoðunar fyrir lok næsta mánaðar.

    • Niðurstaða skoðunar 3: "Notkun bönnuð", felur í sér almennt bann við notkun ökutækisins þar til viðgerð hefur farið fram (með nokkrum undantekningum þó).

    Niðurstöðu skoðunar er nákvæmlega lýst í kafla IX Niðurstöður skoðana.