10. ágúst 2010
10. ágúst 2010
Þessi frétt er meira en árs gömul
Stolnum munum komið til skila
Kanadísk hjón og dóttir þeirra urðu fyrir óskemmtilegri reynslu þegar þau heimsóttu Ísland fyrr í sumar. Brotist var inn í bíl þeirra þegar þau skoðuðu sig um í Reykjavík og úr honum var stolið ýmsum búnaði, m.a. bakpokum þeirra og GPS-tæki. Með hjálp heiðvirðra borgara tókst lögreglumönnum að endurheimta mest af búnaði þeirra og koma aftur í réttar hendur áður en Íslandsheimsókninni lauk. GPS-tækið var þar undanskilið en nú hefur líka tekist að koma því til skila en tækið var á dögunum sent til eigenda sinna í Kanada. Það fannst nokkru síðar við húsleit hjá manni sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu var GPS-tækinu komið í munavörslu embættisins en þar mundi starfsmaður eftir innbrotinu í bíl Kanadamannanna og áttaði sig á því að um sama tæki var að ræða. Hann setti sig í samband við fólkið í Kanada og nú hefur GPS-tækið komist aftur í réttar hendur eins og áður sagði. Íslandsvinirnir voru mjög ánægðir með vinnubrögð lögreglunnar en vonandi verður næsta heimsókn þeirra hingað til lands áfallalaus.