Fara beint í efnið

21. janúar 2019

Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á tímamótum

Um þessar mundir er að ljúka þriggja ára meðferðarátaki heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Um þessar mundir er að ljúka þriggja ára meðferðarátaki heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C. Um er að ræða einstakt verkefni á heimsvísu, þar sem stjórnvöld lögðu verkefninu til sérstakt fjármagn í þrjú ár (allt að 450 m.kr.) og lyfjafyrirtækið Gilead lagði til án endurgjalds lyf til meðferðar allra sjúkratryggðra einstaklinga sem smitaðir eru af lifrarbólguveiru C.

Miðstöð verkefnisins er á Landspítala en Sjúkrahúsið Vogur er lykilsamstarfsaðili. Sóttvarnalæknir hefur yfirumsjón með verkefninu. Meðferðarátakið byggir á þverfaglegu samstarfi fjölda aðila þar sem saman fer lyfjameðferð ásamt öflugu forvarnarstarfi, fíknimeðferð og skaðaminnkunaraðgerðum.

Auk veigamikils lýðheilsuátaks er um viðamikla vísindarannsókn að ræða þar sem greind verða langtímaáhrif átaksins á sjúkdómsbyrði, notkun heilbrigðisþjónustu og kostnað við heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Ljóst er að margvíslegan lærdóm má draga af þessu verkefni hvað varðar skipulag og framkvæmd forvarna og annarra lýðheilsuaðgerða.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá árið 2030. Í því felst 80% fækkun nýrra tilfella og 65% lækkun dánartíðni. Til að ná þessum markmiðum er talið að meðhöndla þurfi 80% smitaðra og að 90% þeirra sem fá lyfjameðferð læknist. Ísland telst nú leiðandi meðal þjóða heims í að ná þessum markmiðum.

Málþing á Læknadögum

Af þessu tilefni verður efnt til málþings á Læknadögum mánudaginn 21. janúar kl. 13:00 sem ber yfirskriftina "Útrýming lifrarbólgu C: Íslenska forvarnarverkefnið í kastljósi umheimsins". Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir mun ávarpa málþingið. Þá mun Margaret Hellard smitsjúkdómalæknir frá Melbourne í Ástralíu halda fyrirlestur um "The global elimination of hepatitis C. Not just a fools errand – lessons learnt from Iceland, Australia and beyond." Í Ástralíu er nú rekið umfangsmikið átak gegn lifrarbólgu C og Margaret er leiðandi á heimsvísu á sviði veirulifrarbólgu sem lýðheilsuvandamáls og sinnir ráðgjöf víða um heim og hefur m.a. verið ráðgefandi við meðferðarátakið á Íslandi.

Á málþinginu verður auk þess rætt um árangur meðferðarátaksins, hvaða lærdóm hægt er að draga af því með tilliti til heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem sprautar sig með vímuefnum í æð og áhrif verkefnisins á lýðheilsu.

Á þriggja ára tímabili frá því að meðferðarátakið hófst:

  • Er talið að um 800 einstaklingar hér á landi hafi verið smitaðir af lifrarbólgu C.

  • Hefur öllum sem smitaðir eru af lifrarbólgu C verið boðin lyfjameðferð.

  • Hafa yfir 95% þeirra sem eru með þekkt smit þáð lyfjameðferð.

  • Hefur átakið haft gríðarleg áhrif á fjölda einstaklinga með lifrarbólgu C. Sérstaklega er áhugavert hve góður árangur hefur náðst meðal áhættuhópa á borð við fólk sem sprautar sig með vímuefnum í æð og fanga.

  • Hefur komið í ljós, að um 90% sjúklinga hafa sögu um að sprauta sig með vímuefnum í æð og rúmlega 30% eru í virkri neyslu.

Um lifrarbólgu C

Lifrarbólga C er alvarlegur, langvinnur bólgusjúkdómur í lifur sem leitt getur til skorpulifrar, lifrarbilunar og lifrarkrabbameins. Lifrarbólga C er ein algengasta orsök skorpulifrar á Vesturlöndum og algeng ástæða lifrarígræðslu. Talið er að í heiminum séu um 70 milljónir einstaklinga smitaðir. Sjúkdómurinn smitast með líkamsvessum, svo sem þegar nálum er deilt við vímuefnaneyslu í æð, með kynmökum og við blóðgjöf. Stór hluti þeirra sem fá lifrarbólgu C eru einstaklingar sem sprauta sig með vímuefnum og er sjúkdómurinn tiltölulega algengur meðal fanga. Nútímalyf við sjúkdómnum eru mjög virk: 12 vikna töflumeðferð leiðir til lækningar í meira en 95 % tilvika.

Sóttvarnalæknir