Fara beint í efnið

12. desember 2022

Ánægja með viðmót og framkomu starfsfólks heilsugæslustöðva á landsbyggðinni

Meirihluti notenda heilsugæslustöðva á landsbyggðinni ber mikið traust til heilsugæslunnar og er ánægður með þjónustuna, eða rétt rúm 60% þeirra sem tóku þátt í nýlegri könnun Sjúkratrygginga.

Sjúkratryggingar lógó

Þá töldu um 84% svarenda viðmót og framkomu starfsfólks almennt gott. Þessar niðurstöður eru þó lakari en þær sem komu fram í sambærilegri könnun árið 2020. Þriðjungur svarenda telja brýnt að stytta biðtíma eftir læknisþjónustu á landsbyggðinni.

Þjónustukönnun Sjúkratrygginga vegna heilsugæslustöðva á landsbyggðinni

Tæplega helmingur svarenda sögðust hafa fengið þjónustu innan hæfilegs tíma. Tæp 20% nefndu að mikilvægast væri að auðvelda aðgengi að læknum í síma, þar á eftir kom aukin rafræn þjónusta og að geta skráð sig á fastan heimilislækni. Lakari útkoma í könnunni nú bendir til að hið mikla álag sem verið hefur síðustu tvö árin hafi haft neikvæð áhrif á þjónustustig heilsugæslustöðva á landsbyggðinni.

Heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum bæta sig mest allra stofnana á landsbyggðinni

Niðurstöður allra heilsugæslustöðva á landsbyggðinni nema á Suðurnesjum eru lakari en árið 2020. Þá voru stöðvarnar á Suðurnesjum lægstar en nú eru þær um miðjan hóp og fá umtalsvert betri umsögn. Heilsugæslustöðvar á Norðurlandi fá að meðaltali hæstu einkunnina á landsbyggðinni. Hafa verður í huga við samanburð á milli stöðva að margt getur haft áhrif á þjónustu einstakra stöðva á því tímabili sem er skoðað, eins og t.d. mönnunarvandi, veikindi starfsmanna o.fl.

Þjónustukönnunin er liður í reglulegu eftirliti Sjúkratrygginga með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Sjúkratryggingar telja könnunina veita verðmætar upplýsingar um það sem vel er gert og það sem betur má fara hjá einstökum heilsugæslustöðvum. Hægt er að skoða allar niðurstöður könnunarinnar með því að smella hér. Niðurstöðurnar hafa þegar verið kynntar rekstraraðilum heilsugæslustöðvanna og verða í kjölfarið nýttar bæði af Sjúkratryggingum og einstökum þjónustuveitendum til að þróa og efla þjónustuna enn frekar.

Nánar um könnunina:

Maskína framkvæmdi könnunina fyrir Sjúkratryggingar á tímabilinu 3. október til 21. nóvember 2022. Slembiúrtak var gert meðal þeirra sem sótt höfðu heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni 1. janúar til 30. september árið 2022 en alls tóku 5.558 einstaklingar þátt í könnuninni. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, ensku og pólsku.