Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa
að geta sannað á sér deili með gildu vegabréfi
að gefa réttar upplýsingar um tilgang dvalarinnar á Íslandi
að uppfylla eftirfarandi grunnskilyrði
Umsækjandi verður að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að dveljast hér á landi. Trygg framfærsla þýðir að hafa næg fjárráð til að geta séð fyrir sér sjálfur.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattayfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð umsækjenda séu að lágmarki:
239.895 krónur fyrir einstaklinga.
383.832 krónur fyrir hjón.
119.948 krónur til viðbótar vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
Tímabil
Framfærsla útlendings þarf að vera trygg á gildistíma dvalarleyfis. Það þýðir að verði dvalarleyfi gefið út til eins árs þarf að sýna fram á trygga framfærslu fyrir eitt ár.
Hvað telst ekki trygg framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags (aðrar en húsnæðisbætur). Hafi umsækjandi þegið slíkan styrk og getur ekki sýnt fram á fullnægjandi framfærslu með öðrum hætti, verður dvalarleyfi synjað.
Meðlagsgreiðslur og barnalífeyrir þar sem þeim er ætlað að standa undir framfærslu barns.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun
Eignir aðrar en bankainnstæður (til dæmis fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar
Reiðufé telst ekki fullnægjandi staðfesting á framfærslu.
Leggja þarf fram staðfestingu á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu
sem gildir á Íslandi,
í minnst sex mánuði frá skráningu lögheimilis umsækjanda á Íslandi,
að lágmarksupphæð 2.000.000 kr.
Sex mánuðum eftir skráningu lögheimilis á Íslandi verður dvalarleyfishafi sjálfkrafa sjúkratryggður á Íslandi.
Þegar sótt er um dvalarleyfi mega ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að umsækjanda verði meinuð landganga eða dvöl hér á landi.
Þetta þýðir að þú mátt ekki
hafa á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði
hafa verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum
Sérstök skilyrði fyrir umsækjendur um dvalarleyfi námsmanna
Þú verður að vera 18 ára eða eldri.
Dvalarleyfi fyrir almennan námsmann er fyrir einstakling, sem ætlar að stunda nám á grunn-, framhalds- eða doktorsstigi við íslenskan háskóla.
Námsmaður þarf að stunda fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Fullt nám er skilgreint sem 30 ECTS á önn. Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði um fullt nám, svo sem vegna skipulags náms, á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla.
Heimilt er að veita doktorsnema, sem stundar nám við erlendan háskóla sem er í samstarfi við íslenskan háskóla, dvalarleyfi fyrir námsmann.
Doktorsnemi sem þiggur laun frá háskólanum getur einnig sótt um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir sérhæfðan starfsmann á grundvelli samstarfssamnings. Athugið að dvalarleyfi á grundvelli samstarfssamnings getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
Nemi við erlendan háskóla getur fengið námsmannaleyfi á grundvelli starfsnáms hjá íslensku fyrirtæki. Skilyrði er að starfið á Íslandi sé hluti af námi viðkomandi við erlendan háskóla og að hann fái veitt tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun